Fjögurra manna fjölskylda hírist í hættulegum kolakjallara í Reykjavík

Þremur árum eftir brunann mannskæða á Bræðraborgarstíg í Reykjavík býr fjöldi fólks við óboðlegar aðstæður. Skortur á úrbótum, mikil fólksfjölgun og húsnæðisekla eru meðal þátta sem þrýsta fólki í hættulegar aðstæður og gera óprúttnum kleift að nýta sér neyð annarra.

Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg, 25. júní 2020, vakti hörð viðbrögð í samfélaginu.

Þá dóu þrjár ungar manneskjur. Þeim bauðst engin flóttaleið, það var annað hvort eldhaf og mökkur eða margra metra fall.

Dagana á eftir var húsnæðisstaða erlends launafólks í brennidepli, þetta mátti ekki endurtaka sig. Hjól kerfisins fóru að snúast.

Bruninn vakti sterk, samfélagsleg viðbrögð. 

Settur var á fót samráðsvettvangur sem kynnti, tæpu ári síðar, 13 tillögur til úrbóta, innviðaráðherra skipaði tvo starfshópa sem áttu að fylgja tillögunum eftir.  

En hvað hefur breyst? Vinnan tafðist, fimm tillögum hefur verið hrint í framkvæmd, átta er ólokið, þar á meðal þeim tillögum sem slökkviliðið telur brýnastar.

Þá á eftir að ráðast í aðgerðir til að efla brunavarnir í eldri timburhúsum.

Ábatasamt að stúka húsnæði niður

300 metrum sunnan við húsið sem fuðraði upp síðdegis 25. júní 2020 er hús sem slökkviliðið hefur haft áhyggjur af um nokkurt skeið.

Holtsgata 7 er myndarlegt steinhús, reist 1930. Þarna var lengi rekinn leikskóli. Voldugur brunastiginn er arfleifð frá þeim tíma.

Holtsgata 7, húsið sem slökkviliðið vildi skoða. 

Fyrrum íbúi, sem ekki vill koma fram undir nafni, telur íbúa hússins í hættu.

„Önnur hæðin og risið, þar eru herbergi sem væri afar snúið að eiga við ef kviknaði í og eldurinn fengi líklega færi á að breiðast út áður en hann uppgötvaðist. Ég þori nánast að fullyrða að það voru fáir ef þá nokkrir virkir reykskynjarar í húsinu.“

Síðustu ár hefur mikill fjöldi fólks leigt herbergi í húsinu og þar eru nú 27 skráð með lögheimili, aðallega konur af erlendum uppruna.

Áhyggjur slökkviliðsins lúta að því hversu margir búa í húsinu og því að eigandinn hefur skipt herbergjum í tvennt eða þrennt.

Risið í Holtsgötu 7. 

„Þetta er hús sem árið 2008 var með tíu herbergi. Nú eru herbergin átján og tvær stúdíóíbúðir fyrir utan. Leigusalinn áttaði sig á því að mun ábatasamara væri að deila upp herbergjum og endurleigja þau einstaklingum frekar en að láta einn borga mikið fyrir stórt herbergi eða leigja pari.“

Árið 2017 fór eigandinn þess á leit við borgina að fá að reisa nýbyggingu með 12 íbúðum á lóð hússins og hækka þakið. Því var synjað.

Á Bræðraborgarstíg var vissulega kveikt í. Þetta var illa farið timburhús, einangrað með hálmi, en rannsakendur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segja fleira hafa skipt máli, herbergjaskipan hafi verið breytt.

Samþykktar teikningar sýndu björgunarop og brunahólfun við timburstigann niður úr risinu en engu slíku var í reynd fyrir að fara.

Það sem Holtsgatan og Bræðraborgarstígurinn eiga, eða áttu, sameiginlegt er að húsnæðinu og notkun þess hafði verið breytt og á báðum stöðum bjuggu eða búa miklu fleiri en í hefðbundnu íbúðarhúsnæði. Réttast væri að tala um einhvers konar gistiheimili.  

Prófmálið sem afhjúpaði getuleysi slökkviliðsins

Herdís Hallmarsdóttir, lögfræðingur, sem leiddi vinnu annars starfshópanna, sagði í fréttum RÚV í desember 2020 að notkun hússins á Bræðraborgarstíg hefði kallað á opinbert eftirlit.

„Það var ekkert opinbert eftirlit vegna þess að þetta var skráð sem íbúðir. Það þarf að skoða. Við þurfum að koma í veg fyrir að það gangi upp í okkar samfélagi,“ sagði Herdís.  

En þetta gengur enn upp, þremur árum eftir brunann, og Holtsgötumálið undirstrikar það. Slökkviliðið hefur engar heimildir til þess að hafa eftirlit með húsnæði sem er skilgreint sem íbúðarhúsnæði.

Til þess að fá aðgang að slíku húsnæði þarf annað hvort samþykki eiganda eða úrskurð dómara.

Blaðamaður Heimildarinnar fjallaði um húsið við Holtsgötu 7 í Stundinni fyrir ári og benti slökkviliðinu á að þarna virtust brunavarnir vera í ólestri.

Umfjöllun Stundarinnar frá í maí 2022. 

Ábendingin varð til þess að slökkviliðið lét reyna á getu sína í fyrsta sinn, hafði samband við húseiganda og vildi senda eldvarnareftirlitsmenn á staðinn.

Eigandinn leyfði það en með skilyrðum þó, í dómsúrskurði er haft eftir honum að eftirlitsmennirnir mættu mæta með góða skapið en þeir fengju ekki að taka upp myndbönd eða kíkja inn í herbergi í útleigu.

Slökkviliðið vildi fá að skoða húsið á eigin forsendum. Það gafst að lokum upp á að reyna að semja við eigandann og leitaði til dómstóla, vildi flýtimeðferð því íbúar byggju við nær lífshættulegar aðstæður.

Nú í lok janúar komst Héraðsdómur Reykjavíkur að niðurstöðu: Málinu skyldi vísað frá.

Hvers vegna? Stjórnarskrárvarinn réttur eigandans til friðhelgi einkalífs réði mestu en að auki þóttu ákvæði brunavarnarlaga ófullnægjandi og því ekki hægt að byggja á þeim.

Það liggur ekki fyrir hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að dómstólar geti veitt slökkviliðinu þessa heimild. Þá skortir reglur um meðferð þeirra deilumála sem gætu komið upp ef slökkviliðið fengi leyfi til að fara inn á heimili einhvers til að kanna ástand brunavarna.

„Þetta er ætíð svona; lögin vernda leigusalann og þau berskjölduðu mega missa sín,“ segir maður sem bjó áður í húsinu.

Hann segir að ekkert hafi breyst, aðgerðarleysið sé gremjulegt en komi honum ekki beint á óvart.

„Munum við yfirleitt hver þau voru, þau þrjú sem létust á Bræðraborgarstíg? Því miður töldust þau til útlendinga svo að margir litu svo á að þeim mætti fórna. Lítum bara á Holtsgötu, flestir leigjenda eru útlendingar.“

Hann segir að árum saman hafi verið í húsinu herbergi með glugga sem ómögulegt var að opna.

Óánægður með framgöngu slökkviliðsins

Eigandi hússins við Holtsgötu vildi ekki veita viðtal. Honum þykir framkoma slökkviliðsins í sinn garð mjög óvægin. Hann komi vel fram við leigjendur sína. Aðstæður á Holtsgötu séu allt aðrar en á Bræðraborgarstíg og brunavarnir öflugri en víða annars staðar.  

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu. 

Hefur eigandinn yfirleitt gert eitthvað af sér?

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, á erfitt með að svara því. „Nú höfum við ekki skoðað þetta húsnæði en það er ákveðin gloppa í því að þú mátt breyta íbúðarhúsnæði upp að ákveðnu marki, mátt breyta veggjum og slíku, ekki hreyfa við lögnum.“

Holtsgata var einfaldlega dæmið sem slökkviliðið notaði til að láta reyna á úrræði sín. Ekki endilega versta dæmið, bara prófmálið.

Sú lenska að stúka af til að leigja fleirum gengur upp, upp að vissu marki. Á móti kemur að húsaleigulögin leggja skýrar kvaðir á eigendur leiguhúsnæðis, þeir eiga að tryggja brunavarnir. Það þyrfti að skýra þetta nánar.

Tólin jafn bitlaus og fyrir tíu árum

Dómstólaleiðin er ekki bara tafsöm og erfið, hún er líka ófær. Slökkviliðið segir úrskurðinn afdráttarlausan og ætlar ekki að áfrýja, vonar að Alþingi taki við sér og endurskoði lögin.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og stjórnarformaður Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, er orðinn langeygur eftir aðgerðum sem bíta.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. 

„Við höfum verið býsna skýr á því árum saman að við teljum eðlilegt að slökkviliðið fái sömu eftirlitsheimildir gagnvart íbúðarhúsnæði eins og gildir um atvinnuhúsnæði.“

Það þyrfti þá að útfæra hvernig slíkt eftirlit færi fram og á hvaða forsendum.

Samræmd byggingareglugerð fyrir allt landið tók fyrst gildi 1979, nútímakröfur um brunavarnir koma inn 1998, venjuleg heimili eru því líka undir, víða eru svalalaus ris, skortur á flóttaleiðum og fólk tekur jafnvel óafvitandi áhættu með sig og börnin sín.

Eldvarnareftirlitsmenn kæmu varla til með að ganga hús úr húsi og krefjast inngöngu, eftirlitsheimildinni hlytu að verða einhverjar skorður settar. Til dæmis í gömlum húsum, húsum þar sem fólk býr þétt eða þar sem útleigustarfsemi er viðamikil.

„Það eru hörmungar sem verða til þess að menn leggja í þessa vinnu, að koma í veg fyrir að þær gerist aftur, þess vegna þarf að klára hana,“ segir Birgir. Ferlið sem fór í gang eftir brunann á Bræðraborgarstíg hafi ekki staðist væntingar hans.

Í raun hafi slökkviliðið engin viðbótartæki í dag, umfram þau bitlausu sem það hafði fyrir brunann á Bræðraborgarstíg.

„Við höfum ekki fengið nein verkfæri sem virkilega taka á, við höfum engin betri úrræði en við höfðum fyrir þremur árum, og í raun ekki fyrir tíu árum.“

Slökkviliðið vill líka heimild til að beita stjórnvaldssektum. Birgir vonar að vinnan við úrbótatillögurnar verði kláruð því þær brýnustu séu enn eftir.

Fínt orð yfir geymslu

Í mörgum eldri fjölbýlishúsum eru svokölluð íbúðarherbergi í risum og kjöllurum, íbúðarherbergi er oftast bara fínt orð yfir geymslu, orð sem er notað í fasteignaauglýsingum en rímar ekki endilega við aðaluppdrætti.

Í fimm hæða fjölbýlishúsi miðsvæðis í Reykjavík á hver íbúð eina geymslu í risinu. Og það er búið í langflestum þeirra.  

Þrengsli, engin brunahólfun, líklega flestir með ísskáp og örbylgjuofn inni hjá sér og eina flóttaleiðin, niður stigann.

Reykurinn leitar auðvitað upp og það er hæpið að komast út um lítinn glugga upp á snarbratt þakið.  

Í fyrravor kviknaði í geymslu sem búið var í, í kjallara við Miklubraut. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun benti á að verr hefði getað farið, líklega væri víða pottur brotinn.

Líklega er lykilorð. Það er langt í frá sjálfsagt að slökkviliðið geti tekið þetta út sjálft.

Kolakjallari í hjarta borgarinnar

Kveikur fékk við vinnslu þessa þáttar margar ábendingar um húsnæði sem engan veginn stenst kröfur um brunavarnir.  

Þegar við héldum að botninum væri náð heyrðum við af fjölskyldu frá Venesúela, búsettri í hjarta Reykjavíkur. Þau eru komin með vernd, móðir og tveir drengir hafa verið hér í rúmt ár, faðirinn nokkuð skemur.  

„Við fengum þetta húsnæði með hjálp ungrar konu frá Venesúela sem bjó áður í húsinu. Þegar ég fékk dvalarleyfi hringdi hún í húseigandann og spurði hvort hann hefði íbúð á lausu.“

Íbúðin sem stúlkan hafði haft í huga var ekki laus en eigandinn sagðist geta útvegað kjallaraíbúð og hana fengu þau.

Ári síðar er búsetan farin að taka sinn toll.

„Þetta er flókið og erfitt. Hér eru engir gluggar og því engin birta. Við vitum ekki hvort það er dagur eða nótt. Það getur stundum verið dálítið þungbært. Svo er mygla í íbúðinni sem veldur okkur erfiðleikum, mikil myglulykt.“

Brunagildra sem stenst engar kröfur

Lofthæðin nær varla tveimur metrum, það er heitt inni og loftlaust. Búseta þarna brýtur gegn lögum um húsaleigu, brunavarnalögum, lögum um hollustuhætti, byggingareglugerð, og er líklega mannréttindabrot.

Ef slökkviliðið fengi veður af þessu húsnæði, sem flokkast sem atvinnuhúsnæði, yrði því líklega lokað samdægurs, einkum vegna þess að þarna búa börn.

Það eru engar brunavarnir til staðar.

„Við erum að hugsa um að kaupa okkur tvö slökkvitæki, eitt til að hafa frammi og annað í svefnherberginu því maður veit aldrei hvað gerist. Svo hefur það verið að renna upp fyrir okkur að veggirnir eru eins og þeir séu úr pappa og myndu fuðra upp.“

Lofthæðin skiptir miklu máli með tilliti til brunavarna, þegar hún er lítil er reykurinn fljótari að fylla rýmið, fólk hefur með öðrum orðum styttri tíma til að koma sér út.  

Lög og reglur gera ráð fyrir því að á húsnæði sem búið er í séu gluggar og þeir þurfa að vera af ákveðinni stærð, ákveðin lofthæð, loftflæði, eldvarnir.

Veggirnir eiga að vera þurrir, ekki gegnsósa og myglaðir.

Það þarf að vera hægt að anda.  

Leitin engum árangri skilað

Þau geta í raun ekki hugsað sér að vera hér ár í viðbót. En leit þeirra að skárra þaki yfir höfuðið, helst íbúð með tveimur svefnherbergjum, hefur ekki skilað árangri og þau vilja ekki koma fram undir nafni af ótta við að missa kjallarann. Þess vegna nafngreinir Kveikur heldur ekki leigusalann.

„Ég hef leitað að íbúð í átta mánuði og við höfum ekkert fundið. Við sækjum stöðugt um en það er orðið viðtekið að við fáum engin svör, kannski vegna þess að við erum ekki Íslendingar,“ segir konan.  

Þau hafa fest rætur upp að vissu marki og vilja síður þurfa að flytja í annað sveitarfélag og byrja alveg upp á nýtt. Strákarnir eru ánægðir í skólanum og hafa eignast vini.

„Það er til fólk sem ég vil aldrei sjá“

Matthildur Sigrún Jóhannsdóttir er spænskumælandi sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og hefur í gegnum tíðina verið mörgum innan handar eftir komuna til Íslands, meðal annars þessari fjögurra manna fjölskyldu.

„Þegar ég er sjálfboðaliði reyni ég að koma inn með gleðina og léttleikann, því ekkert vinnur eins mikið á áfallastreituröskun, en ég átti í vandræðum með að halda andlitinu og ég sver að það hlýtur að hafa frosið nokkrum sinnum þegar ég kom inn til þeirra.“

Hún segist hafa kynnst ýmsu í störfum sínum fyrir Rauða krossinn en þetta sé það versta.

Fyrir kjallarann borga þau á annað hundrað þúsund krónur og ráðgert er að leigan hækki um 50 þúsund á næstunni.  

Eigandinn leigir út fleiri ósamþykktar íbúðir og Matthildur vandar honum ekki kveðjurnar.  

„Veistu, það er til fólk sem ég vil aldrei, aldrei sjá. Ég hef talað við hann, það var nóg.“

Gögnin eru til

Á pappír er margt sérkennilegt við útleiguna á kjallarageymslunni. Það er þinglýstur leigusamningur með villandi upplýsingum, þau eru með skráð lögheimili þarna sem á ekki að vera hægt í atvinnuhúsnæði.

Það er enginn skortur á opinberum gögnum um búsetuna en samt virðist kerfið ekki hafa deplað auga.

Lögheimilisskrá og skrá yfir þinglýsta samninga tala ekkert saman.

Góð skráning á heimili fjölskyldunnar, sem er að læra ensku og íslensku. 

Eftir brunann á Bræðraborgarstíg ítrekaði þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mikilvægi aukinnar skráningar.

„Það er erfitt að hafa eftirlit með einhverju þegar þú hefur ekki skráninguna til staðar.“

Skráningarskylda leigusamninga varð að veruleika með nýjum húsaleigulögum í byrjun árs. Skyldan nær þó bara til leigusala sem hafa atvinnu af útleigu, yfirsýnin sem átti að ná yfir leigumarkaðinn er því takmörkuð.

Í dag eru lögheimilisskráningar oft rangar og villandi og það skapar hættu. Drög að útfærslu á tillögum sem sá af starfshópum innviðaráðherra sem er lengra kominn í sinni vinnu birti í síðustu viku eiga að taka á þessu.  

„Við erum komin aftur til stríðsáranna“

Það er bullandi húsnæðisskortur og þung staða á leigumarkaði. Ferðaþjónustan er vöknuð af dvala, strangari viðmið um eigið fé festa fólk í leiguhúsnæði og íbúum landsins fjölgar hratt.

Til viðbótar við náttúrulega fjölgun og innflytjendur hafa nýlega komið hingað þúsundir á flótta, fjöldinn hefur slegið öll met.  

Húsaleigulögin eiga að tryggja leigjendum vissa vernd en deila má um hvort hún virkar í reynd. Fólk sem óttast götuna gerir síður kröfur og leigusalar geta notfært sér veika stöðu þess.

Matthildur Sigrún, sem er iðnhönnuður, hefur sterkar skoðanir á stöðunni á húsnæðismarkaði. „Við sjáum afleiðingarnar af því að gera ekki neitt, af kreppu því að byggingariðnaðurinn fór í það að byggja hótel.“

Við séum í raun komin aftur til stríðsáranna, áttatíu ár aftur í tímann.

„Þegar allir komu í bæinn, fólk bjó í einu herbergi með ungabörn, fólk bjó í kolakjöllurum. Gott fólk trúir því ekki að hlutirnir geti verið svona slæmir, það er bara fyrir utan ímyndunaraflið.“  

„Ég get ekki samþykkt það fyrir þeirra hönd“

Fjölskyldan finnur fyrir ýmsum einkennum vegna rakans og myglunnar.

„Ég hef fundið mikið fyrir höfuðverk, erfiðleikum við að anda og særindum í hálsi og yngri drengurinn finnur mikið fyrir erfiðleikum í öndunarfærunum,“ segir unga konan í kjallaranum.  

„Þetta er bara venjulegt, fátækt, duglegt fólk sem er bara að vinna. Þessu fólki á eftir að ganga vel en það á ekki að kosta að þau búi við svona aðstæður, viti ekki hvort það er dagur eða nótt, það bara á ekki að ganga,“ segir Matthildur.

Henni þykir vænt um skjólstæðinga sína og segist stundum finna til samviskubits þegar hún kemur heim til sín eftir að hafa verið hjá þeim, enn með saggalyktina í nefinu.

„Sem móðir myndi ég aldrei, aldrei samþykkja að börnin mín væru þarna, ég get ekki samþykkt það fyrir þeirra hönd.“

Veggirnir í svefnrýminu. 

„Þetta fólk býr við mikla hættu“

Maður spyr sig, þremur árum eftur brunann á Bræðraborgarstíg, hvort eitthvað bendi til þess að fækkað hafi í hópi fólks sem leggst á koddann á kvöldin og á litla sem enga möguleika á að komast út lifandi ef það skyldi kvikna í.

„Því miður get ég ekki sagt það,“ segir Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri. Staðan hafi hugsanlega versnað, í það minnsta ekki batnað.

Hann hefur séð margt en segist ekki oft hafa séð jafn skelfilegar aðstæður og fjölskyldan í kolakjallaranum býr við.

„Þetta fólk býr við mikla hættu, þarna er löng flóttaleið, lág lofthæð, það er í raun bara hörmulegt að horfa á svona og vita af því að þarna séu líka börn sem búi við þessar aðstæður.“

Drengirnir tveir eru á grunnskólaaldri. 

Birgir segir að þessi staða komi þó kannski ekki á óvart.

„Eins og leigumarkaðurinn er. Við heyrum af hlutum sem eru slæmir en fáum ekki vitneskju um þá því fólk veit að það á ekki í önnur hús að venda ef það missir þetta húsnæði.“

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir algengt að fólk í hættulegum aðstæðum þori ekki að leita til eftirlitsaðila. 

Hvað grípur þau?

Borgarstjóri segir að samfélagið megi ekki samþykkja að einhver leigi fólki hættulegt húsnæði.

„Okkur ber siðferðisleg og borgaraleg skylda til að láta vita af því. Það er ekki bara hægt að láta það í hendur fólksins sem býr við þessar aðstæður.“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, horfir á myndskeið af aðstæðum fjölskyldunnar. 

Fjölskyldan býr í Reykjavík. Borgin á erfitt með að útvega fólki í neyð húsnæði, það eru langir biðlistar eftir félagslegu leiguhúsnæði. Kveikur spurði borgarstjóra, hvað tæki við ef slökkviliðið lokaði húsnæðinu, hvort borgin gæti hjálpað fjölskyldunni að finna varanlegt húsnæði.

„Við erum auðvitað að sinna fjölskyldum í hverri viku, á hverjum degi með alls kyns slíka hluti,  við metum alla eftir þörf og þeir sem eru í brýnustu þörfinni raðast fremst á forgangslistann.“