Áhöfn Landhelgisgæslunnar bjargar þúsundum – órafjarri Íslandsströndum

Áhöfnin á flugvél Landhelgisgæslunnar bjargaði rúmlega 1000 flóttamönnum á Miðjarðarhafi í mars. En á meðan hún sinnir eftirliti þar er eftirlits- og björgunargeta á Íslandi takmörkuð. Dómsmálaráðherra vill selja vélina og kaupa minni vél svo hægt sé að hafa hana á Íslandi stærstan hluta ársins.

Við erum stödd á Reykjavíkurflugvelli. Það er 20. febrúar og áhöfnin á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, er að búa sig undir langt ferðalag. Það er hins vegar hvorki verið að undirbúa björgun sjófarenda við Íslandsstrendur, leit að ferðamanni né ferð með vísindamenn vegna náttúruvár. Þessi flugvél, sem upphaflega var keypt til þess að auka öryggi íslensku þjóðarinnar með margvíslegum hætti, er nefnilega á leiðinni á fjarlægar slóðir, í verkefni sem hefur lítið með öryggismál á Íslandi að gera.

TF-SIF kemur inn til lendingar á flugvellinum í Catania. Eldfjallið Etna gnæfir yfir borgina.

TF-SIF hefur undanfarin ár verið við landamæraeftirlit víðs vegar um Evrópu í samstarfi við Frontex, landamærastofnun Evrópu. Nú er vélin í slíku eftirliti yfir Miðjarðarhafi, og gerir út frá Sikiley, nánar tiltekið frá hafnarborginni Catania við rætur eldfjallsins Etnu. Kveikur fór til Sikileyjar í mars og fylgdist með verkefni Gæslunnar þar.

„Við erum að fylgjast með hvort það séu að koma hér flóttamenn í miklum mæli, yfir til Ítalíu,“ segir Hólmar Logi Sigmundsson, flugstjóri á TF-SIF. „Og ef þeir koma, þá viljum við náttúrulega að þeim sé bjargað ef þess þarf, ef þeir eru á biluðum bát þarna úti. Eða þá að það komi einhver á móti þeim þegar þeir koma í land svo að þeir komi ekki óséðir inn til Evrópu. Það er okkar helsta markmið, að vera auga á himninum.“

„Það er okkar helsta markmið, að vera auga á himninum,“ segir Hólmar Logi Sigmundsson flugstjóri.

TF-SIF sinnir sem sagt akkúrat þeim verkefnum sem hún er hönnuð til að gera, en fjarri heimaslóð. Vélin flýgur ákveðna leið yfir Miðjarðarhafinu, fimm tíma í senn, í leit að flóttamönnum.

„Við komum hérna út, erum sex og erum að sinna þessu nánast dag og nótt. Og í gegnum árin erum við búin að finna fleiri þúsundir, ef ekki tugi þúsunda flóttamanna. Eða tonn af dópi, eða fleiri, fleiri tonn,“ segir Garðar Árnason, flugstjóri. Ef áhöfnin kemur auga á báta sem hugsanlegt er talið að séu að smygla fíkniefnum, ber henni að láta yfirvöld vita.

Lára Theodóra Magnúsdóttir, flugmaður og Garðar Árnason flugstjóri á flugvellinum í Catania.

Ísland á aðild að Frontex og hefur skuldbundið sig til að taka þátt í verkefninu á grundvelli Schengen- samstarfsins. Ef TF-SIF væri ekki send í verkefni á vegum Frontex þyrftu íslensk stjórnvöld að veita aðstoð með öðrum hætti.

TF-SIF er af gerðinni Dash 8 Q 300 og er sérútbúin til eftirlits-, leitar-, björgunar- og sjúkraflugs. Garðar segir að búnaðurinn um borð geri áhöfninni kleift að finna og greina báta í mjög mikilli fjarlægð. Það er hægt vegna þess að neðan á flugvélinni er einstaklega öflug myndavél sem getur meðal annars greint tegundir skipa í 100 kílómetra fjarlægð, hún virkar jafnt í myrki sem dagsbirtu, auk þess að geta greint hita.

TF-SIF á flugvellinum í Catania á Sikiley.

„Þetta er alhliða og öflugt loftfar,“ segir Piotr Switalski, upplýsingafulltrúi Frontex. „Við getum sagt sem svo að þarna er að finna margvíslega háþróaða tækni til að sinna leit og eftirliti úr lofti. Áhöfnin er þrautþjálfuð og áhugasöm og rækir skyldur sína af fullkominni fagmennsku.“

Hafa vald til að stöðva stór skip

Í áhöfninni á TF-SIF eru fjórir hverju sinni; flugstjóri, flugmaður og tveir stýrimenn. Vélin er sömu gerðar og vélarnar sem Icelandair notar í innanlandsflugi. Innréttingarnar eru hins vegar allt öðruvísi, og það er meira pláss til að athafna sig um borð. Og það veitir ekki af; háþróaður tæknibúnaðurinn tekur sitt pláss, búnaður sem sérfræðingar Gæslunnar fylgjast grannt með, tímunum saman. Þegar þeir sjá svo bát þar sem flóttamenn eru um borð hefst ákveðið ferli. Fyrsta skrefið er að taka myndir af bátnum.

„Við metum hvort það sé neyð um borð. Og þá höfum við ákveðið vald, eins og við höfum lent í, eins og niðri í Miðjarðarhafi, þá höfum við vald til að stöðva stærðarinnar olíuskip og fraktara til þess að bjarga þessum tiltekna bát,“ segir Garðar.

Auk fjögurra manna áhafnar er fulltrúi ítalskra stjórnvalda alltaf um borð í flugi. Ef eitthvað kemur upp á, til dæmis ef bátur með flóttamönnum finnst, sér hann um samskipti við ítölsk yfirvöld.

Áhöfnin á TF-SIF: Magnús Örn Einarsson, stýrimaður og Hólmar Logi Sigmundsson flugstjóri, og Lára Theodóra Magnúsdóttir, flugmaður og Magnús Örn Einarsson, stýrimaður.

Þótt margir tengi Miðjarðarhafið við sólarstrendur er það hættulegt yfirferðar. Fjölmargir halda yfir hafið á yfirfullum og illa búnum bátum í leit að betra lífi í Evrópu. En ekki komast allir á leiðarenda. Frá 2014 hafa yfir tuttugu þúsund flóttamenn farist á Miðjarðarhafi. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs reyndu þrisvar sinnum fleiri að komast yfir hafið en á sama tímabili í fyrra.

„En í áranna rás má segja að ófáum mannslífum hafi verið bjargað á hafi úti, þökk sé trúmennsku og skyldurækni íslensku áhafnarinnar,“ segir Switalski.

Um borð í TF-SIF á flugi yfir Miðjarðarhafinu.

Hólmar segir að um borð í flóttamannabátunum séu bæði menn, konur og lítil ungabörn.

„Þannig að þetta er venjulegt fólk, og við þurfum að gera okkar til að hjálpa því, tala nú ekki um ef þau eru á biluðum bátum sem oft kemur fyrir þarna úti. Og við höfum séð báta sem hafa verið komnir undir, við höfum þurft að henda björgunarvestum og bátar í nágrenninu þurft að koma og hjálpa til.“

Magnús Örn Einarsson, stýrimaður skoðar bát sem vekur grunsemdir.

Í miðju flugi, úti á miðju hafi, koma stýrimennirnir auga á bát sem þeir vilja skoða betur.

„Nú vorum við að finna bát, mér sýnist það vera einn af þessum tómu bátum. En nú set ég bara merki á hann fyrir flugmennina þannig að þeir sjá það frammí og taka bara stefnuna á hann,“ segir Magnús Örn Einarsson stýrimaður og færir merkingar inn stafrænt í kerfin sem notuð eru um borð.

Þegar nær er komið sjáum við að báturinn er á reki, og að hann er mannlaus. Uppi á dekki er hins vegar hellingur af fötum sem einhverjir hafa skilið eftir.

„Þetta er gamall flóttabátur sem fólkið hefur verið tæmt úr og þeir eru bara skildir eftir á reki á hafinu,“ útskýrir Magnús.

Tómi báturinn eins og hann blasti við áhöfn TF-SIFjar.

En bátarnir sem finnast eru ekki alltaf mannlausir, langt í frá. Í byrjun mars, nánar tiltekið 9. mars, fann áhöfnin á TF-SIF þrjá báta, fulla af flóttamönnum.

„Fyrst héldum við að þetta væri eftirlitsbátur. En þegar nær kom, þá fóru að renna á okkur tvær grímur og við sáum þetta,“ segir Viggó Sigurðsson, stýrimaður, sem var um borð í TF-SIF þegar bátarnir fundust, á hafsvæði um það bil 200 sjómílur suðaustur af Sikiley. Við hittum Viggó og horfðum með honum á upptökur af atvikinu úr eftirlitsmyndavél TF-SIFjar.

Einn þeirra báta sem TF-SIF fann 9. mars, um 200 sjómílur suðaustur af Sikiley. „Mestar áhyggjur höfðum við þarna af þessum bát að hann er ekki á siglingu, og við sjáum ekki mikla hreyfingu á fólki,“ segir Viggó.

„Mestar áhyggjur höfðum við þarna af þessum bát að hann er ekki á siglingu, og við sjáum ekki mikla hreyfingu á fólki. Og í kjölfarið lýsum við yfir neyð vegna þessa báts,“ útskýrir Viggó. Báturinn var á reki og áhöfnin á TF-SIF áætlaði að um borð væru á bilinu 200-300 manns. Síðar kom í ljós að í þessum eina bát voru um 500 manns, og samanlagt um 1.300 manns í bátunum þremur.

Viggó Sigurðsson, stýrimaður.

Viggó segir ljóst að fólkið hafi verið í hættu, enda alltof margt fólk um borð í tiltölulega litlum bátum.

„Við erum að tala um siglingatíma sem getur náð vel yfir vikutíma. Með svona mikið af fólki vitum við heldur ekkert hvernig staðan er með mat og vatn. Þannig að að sjálfsögðu myndi ég segja að það sé hætta, að þetta sé í raun og veru neyð,“ segir Viggó. Því sé líklegt að áhöfnin á TF-SIF hafi bjargað fólkinu.

„Við erum sannarlega hlekkur í því að þetta fólk komst heilt til lands. Það er klárt.“

Björgunaraðgerðin 9. mars vakti töluverða athygli fjölmiðla, þótt hvergi hafi komið fram að það var áhöfnin á TF-SIF sem kom auga á bátana.

Fundur fólksins var töluvert í fréttum strax daginn eftir. Það kom þó hvergi fram að það var áhöfnin á TF-SIF sem kom auga á bátana.

„Þetta er náttúrulega bara samvinnuverkefni þjóðanna sem eru að taka þátt í þessari sameiginlegu aðgerð á þessu svæði og svo sem ekkert verið að tilgreina sérstaklega hvaða þjóðir eru að finna hverju sinni.“

Geturðu lýst því hvernig tilfinning það er að lenda í svona?

„Já það er mjög einfalt. Maður er eiginlega alltaf glaður því að maður veit að þegar maður finnur þetta, þá eru yfirgnæfandi líkur á því að fólkið bjargist,“ segir Viggó.

„Það er erfitt að setja sig í spor fólksins sem er að leggja þetta á sig,“ segir Lára Theodóra Magnúsdóttir flugmaður.

Frá því að TF-SIF fór til Sikileyjar í febrúar er talið að vélin hafi komið að björgun um 3.000 flóttamanna.

Lára Theodóra Magnúsdóttir flugmaður segir að það sé nokkuð skrítin tilfinning að vera um borð í flugvélinni þegar bátar með flóttamönnum finnast.

„Það er erfitt að setja sig í spor fólksins sem er að leggja þetta á sig, að fara þarna yfir. Og eins og hér á milli getur það verið á ferðalagi í kannski 10 daga,“ segir Lára.

„Þá finnst manni þetta ekki tilgangslaust“

Andstæðurnar sem við upplifum í heimsókn okkar til Sikileyjar eru óneitanlega ansi sterkar. Við tökum viðtalið við Garðar flugstjóra í glampandi sólskini á þakbar á hótelinu sem starfsmenn Gæslunnar gista á þegar þeir eru í Cataníu. Þar ræðum við um hörmungarnar sem þeir verða vitni að, aðeins steinsnar frá borginni. Garðar segir að þótt áhöfnin sé langt fyrir ofan hafflötinn, um borð í flugvél, skynji mannskapurinn vel þá eymd sem fólkið í bátunum býr við. Stundum sé þetta þó eins og hver önnur vinna.

„En svo þegar maður sér í gegnum myndavélarnar að þarna eru konur með börn, og maður fer líka að hugsa um ferðalagið sem þetta vesalings fólk hefur þegar lagt að baki, og eflaust hryllinginn sem þetta fólk hefur gengið í gegnum, að þá... maður kemst við,“ segir Garðar. En að sama skapi verður maður líka ánægður og glaður og spenntur. Og það er skrítið, maður hefur fengið, þegar þau átta sig á því að það sé búið að finna þau, þá er vinkað til manns, manni jafnvel sendur fingurkoss 5.000 fet upp í loftið. Þá finnst manni þetta ekki tilgangslaust.“

Garðar flugstjóri segir að áhöfnin á TF-SIF skynji vissulega þá eymd sem fólkið um borð í flótamannabátunum býr við.

Hólmar tekur undir þessi orð Garðars.

„Maður vaknaði til lífsins þegar við komum hérna 2010/2011 eftir hrunið heima, þá hélt maður að maður hefði það frekar slæmt. En svo þegar maður fór og sá hvernig fólk hafði það sem var að koma hérna yfir, þá hætti maður að kvarta og áttaði sig á að maður hafði það kannski nokkuð gott,“ segir Hólmar.

„Og maður veit alveg innst inni að það sem við höfum gert í áranna rás, að við höfum stuðlað að heilmörgum lífbjörgum. Sem er náttúrulega ómetanlegt,“ bætir Garðar við.

Þegar TF-SIF er Miðjarðarhaf getur hún augljóslega ekki sinnt leit og björgun á Íslandi. Ef eitthvað gerist á Íslandi sem er þess eðlis að flugvélin er nauðsynleg, þá stendur Frontex ekki í vegi fyrir því að henni sé flogið heim. Það tekur hins vegar um 10 klukkutíma, við bestu aðstæður, sem gæti einfaldlega verið of langur tími, til dæmis ef það yrði slys.

„Eins og við erum búin að segja, þá er þetta mjög gjöfult starf að vinna hérna úti og hjálpa til. En maður vill kannski fyrst og fremst vera við Íslandsstrendur og hjálpa þar við það sem þarf,“ segir Hólmar.

Og ef af því yrði, að TF-SIF yrði kölluð heim, tækju einfaldlega aðrir þjóðir við eftirlitinu á Miðjarðarhafi.

TF-SIF kemur til Íslands árið 2009.

Landhelgisgæslan fékk TF-SIF árið 2009. Hún leysti þá af hólmi TF-SYN sem hafði verið í notkun í heil 32 ár. Þegar nýja vélin kom til landsins sagði Ragna Árnadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra að hún myndi breyta miklu.

„Það munar mjög um þá nýju flugvél sem bættist við flugflota Gæslunnar nú í dag en hún gjörbyltir getu okkar til að taka þátt, taka þátt í umfangsmiklum aðgerðum á hafinu í kringum landið,“ sagði Ragna úr ræðustól Alþingis daginn sem vélin kom til landsins.

En þetta hefur ekki alveg gengið eftir. Allt frá árinu 2010 hefur vélin nefnilega verið erlendis stóran hluta ársins, að sinna landamæragæslu fyrir Frontex. Bæði í fyrra og hitteðfyrra var vélin í slíkum verkefnum hálft árið.

TF-SIF hefur verið erlendis stóran hluta ársins undanfarin ár. Í fyrra og hitteðfyrra var hún erlendis hálft árið.

Ástæða þess að vélin er svo mikið erlendis er sú að Frontex greiðir Landhelgisgæslunni fyrir þessa þjónustu. Í fyrra voru nettótekjur Gæslunnar af verkefninu um 116 milljónir króna, og 164 milljónir árið þar á undan. Þetta eru tekjur Gæslunnar umfram kostnaðinn við að halda vélinni úti, sem Frontex greiðir einnig. Þessar tekjur dekka stóran hluta af rekstarkostnaði vélarinnar sem hefur verið um 490 milljónir að meðaltali á ári síðustu fimm árin.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að þessir fjármunir skipti stofnunina miklu máli.

„Þetta gerir okkur kleift að halda þessari vél. Kostnaðurinn sem felst í að reka vélina, hann verður viðráðanlegri með þessu móti.“

Þannig að fjarvera vélarinnar frá Íslandi er tilkomin, svona mikið, vegna fjárskorts?

„Já. Fjarvera vélarinnar í allan þennan tíma er tilkomin út af neyð.“

„Fjarvera vélarinnar í allan þennan tíma er tilkomin út af neyð,“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.

Það varð uppi fótur og fit í byrjun þessa árs þegar til stóð að bregðast við fjárhagsvanda Gæslunnar með því að selja TF-SIF. Í kjölfar mikilla mótmæla hætti Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra við söluna, og síðan þá hefur verið reynt að finna aðrar lausnir. Jón viðurkennir að það sé óviðunandi að vélin sé fjarri landinu svo stóran hluta ársins.

„Já, það finnst mér. Ég held að í svo margþættum skilningi þá getur þessi vél verið í algjöru lykilhlutverki þegar kemur að leit og björgun. Það á bæði við á landi og sjó. Við erum auðvitað með gríðarlega mikið hafsvæði sem við berum ábyrgð á. Og þó að þyrlubjörgunarsveitir spili gríðarlega stórt hlutverk þegar kemur að leit og björgun á sjó, þá getur svona vél einfaldað alla þá ferla mjög mikið,“ segir Jón.

„Ég held að í svo margþættum skilningi þá getur þessi vél verið í algjöru lykilhlutverki þegar kemur að leit og björgun,“ segir Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra.

Georg segir að allt sé þetta spurning um peninga.

„Það þarf að auka fjárframlög að einhverju leyti, til þess að við getum haldið þessari vél meira hér heima. En engu að síður sinnt okkar skyldum hvað varðar Schengen-samstarfið og Frontex. Það er svo einfalt, að það þarf að bæta við peningum.“

Jón tekur undir það, að Gæslan þurfi meira fjármagn.

„Eins og staðan er þyrfti þess. En þetta gengur nú rekstrarskoðunin út á; að fullvissa mig og okkur hér og auðvitað þjóðina um að við séum að fara eins vel með skattfé borgaranna og hægt er.“

„Án árangurs“

Í umsögn gæslunnar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur fram að auka þurfi fjárframlög um minnst 435 milljónir króna á ári til að gæslan geti sinnt lögbundnu hlutverki.

„Þetta er endalaus barátta,“ segir Georg. „Og við höfum unnið að því í öll þessi ár, en algjörlega án árangurs. Okkur hefur ekki gengið vel, eins og raun ber vitni.“

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um verkefni og fjárreiður Gæslunnar í fyrra gerði stofnunin athugasemdir við fjarveru vélarinnar:

„Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að TF-SIF verði fyrst og fremst notuð til eftirlits og annarra verkefna hérlendis enda er meginhlutverk Landhelgisgæslunnar að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu við Ísland. Til slíkra starfa var TF-SIF keypt og var það forsendan með fjárheimild Alþingis. Útleiga vélarinnar í svo miklum mæli getur ekki gengið til lengri tíma.“

Ekki með eftirlit

Georg tekur undir það sem fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar og segir að það séu dæmi um að vélina hafi sárvantað í verkefni hér á landi, þegar hún hefur verið erlendis.

„Það hafa verið sjúkraflutningar til útlanda, vegna líffæraskipta til dæmis. Við höfum ekki í öllum tilfellum getað uppfyllt óskir almannavarna og vísindasamfélagsins vegna náttúruvár á Íslandi. Fyrir utan náttúrulega þá staðreynd að meðan vélin er í útlöndum, þá erum við ekki að hafa eftirlit með okkar víðfeðmu lögsögu.“

„Við verðum að gera eitthvað í þessum málum,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir að flugvélin skipti sjómenn miklu máli.

„TF-SIF er eitt af okkar aðal björgunartækjum ef eitthvað kemur upp á. Sem betur fer hefur ekki orðið stórt sjóslys við Ísland lengi. En ef eitthvað kemur upp á, sem við vitum náttúrulega aldrei, þá verðum við að hafa búnaðinn í lagi, við verðum að geta notað hann og hann verður að vera til staðar.“

„Come on guys“

Þyrlur Landhelgisæslunnar eru mjög öflug björgunartæki. Þær fara þó ekki mjög langt, ef TF-SIF er ekki til staðar.

„Þær eru háðar vélinni að því leyti að þær fara ekki út fyrir 150 mílur frá ströndu nema að flugvél sé til staðar, í lengri björgunarferðir. Af því að flugþol þyrlu er takmarkað,“ útskýrir Garðar. Því er ljóst að ef stórt slys verður meira en 150 sjómílur frá landi er okkur vandi á höndum.

„Það er ekki boðlegt, að við séum hérna fiskveiðiþjóð norður í hafi með óblíða náttúru til að takast á við. Þetta er ekki bara fyrir okkur, þetta er fyrir alla sjófarendur sem koma hérna til Íslands,“ segir Valmundur. „Það er mikil skipaumferð hérna, stór skemmtiferðaskip, fullt af stórum flutningaskipum, fyrir utan öll fiskiskipin. Þannig að: „Come on guys.“ Við verðum að gera eitthvað í þessum málum.“

„Þannig að ef mikið liggur við, ef eitthvað fer mjög hratt í gang, þá er þetta vissulega tæki sem getur hjálpað okkur rosalega mikið,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands.

Hlutverk Sifjar er margþætt. Vélin hefur verið notuð við leit og björgun bæði á hafi og landi, við eftirlit með landhelginni, við sjúkraflug, mengunareftirlit og eftirlit með hafís. Þá hafa jarðvísindamenn haft mikið gagn af vélinni þegar eldgos bresta á. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að vélin sé sérstaklega gagnleg þegar sprengigos eiga sér stað, eða þegar eldstöðvar eru undir jökli.

„Þessi vél er auðvitað þannig útbúin að hún er með ratsjár sem horfa bæði niður og til hliðar, hún getur flogið í hvaða veðri sem er, hún sér hvort sem það er nótt eða dagur, hún sér í gegnum ský, í gegnum úrkomu, í gegnum ösku, og þetta er eina tækið sem við höfum í rauninni til að gera þetta,“ segir Kristín. „Þannig að ef mikið liggur við, ef eitthvað fer mjög hratt í gang, þá er þetta vissulega tæki sem getur hjálpað okkur rosalega mikið.“

Ef TF-SIF er ekki aðgengileg, í aðdraganda eldgoss, getið þið þá ekki fengið eins góðar upplýsingar um hvað er í vændum?

„Hættan er sú að við fáum ekki góðar upplýsingar, já.“

„Og þessi íslenski frasi „þetta reddast“ hefur sem betur fer bjargað okkur oft á tíðum. En vélin ætti að vera heima miklu, miklu meira,“ segir Garðar.

Og þið óttist að það komi upp aðstæður þar sem þetta reddast bara ekki?

„Já.“

Dómsmálaráðherra segir að TF-SIF sé dýr í rekstri, auk þess sem uppfæra þurfi tækjabúnað vélarinnar á næstunni, sem kosti mikla peninga.

„Á þeim tímapunkti höfum við svolítið verið að líta til þess hvers konar vélakost nágrannalöndin okkar eru að nota í þessu samhengi,“ segir ráðherrann. „Þar er verið að nota aðra tegund af vélum, við getum sagt alveg nútíma tæknibúnað sem uppfyllir öll þau skilyrði sem við setjum varðandi leit og björgun,“ segir Jón. Hann fullyrðir að minni vél geti sinnt sömu verkefnum og TF-SIF, en með mun ódýrari hætti.

„Það getur verið milljarða sparnaður á tíu ára tímabili. Og þá er mitt markmið auðvitað það að vélin sé til staðar hér á Íslandi, allt árið. Þetta hefur að mínu mati að hluta til verið falskt öryggi sem við búum við.“

Jón segir að því sé stefnan að kaupa minni vél sem er ódýrari í rekstri en TF-SIF.

„Nágrannalönd okkar eru til að mynda að nota svona vélar. Bretland, Noregur og Danmörk eru að nota vélar af annarri gerð, sem hefur þetta langdrægi,“ segir Jón.

„Þær fljúga reyndar hærra heldur en vélin sem við höfum núna, sem þýðir að þessi flugvélategund getur farið upp fyrir öll veður, og hún er hraðfleygari,“ segir Jón og bætir því við að slíkar vélar séu til að mynda notaðar af Norðmönnum á Svalbarða, við erfiðar aðstæður.

Til skoðunar er að kaupa vél af gerðinni Beechcraft King Air 350ER, í stað TF-SIFjar. Ástralska lögreglan notar svoleiðis vélar. Mynd: Bidgee/wikimedia commons

Sú vél sem er einna helst til skoðunar er af gerðinni Beechcraft King Air 350ER, sem er töluvert minni en TF-SIF.

„Ef að sú vél skilar jafnmiklum árangri og þessi sem nú er, þá er það auðvitað mjög góð ráðstöfun, sem við myndum fagna. Landhelgisgæslan er undirstofnun dómsmálaráðuneytisins og við hlítum þeim ákvörðunum sem stjórnvöld taka,“ segir Georg.

Hann virðurkennir hins vegar að forsvarsmenn Gæslunnar hafi áhyggjur af því að minni vél geti ekki sinnt því sama og TF-SIF gerir.

„Já auðvitað höfum við áhyggjur af því. En hér er um að ræða einhvers konar rannsókn sem við höfum ekki ennþá séð eða tekið þátt í. Það fór fram ítarleg þarfagreining þegar núverandi vél var keypt. Og við gerum ráð fyrir að svo verði núna líka.“

„Ég sé engin rök fyrir því að menn eigi að velta fyrir sér að draga saman seglin í þessu efni,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra þegar ákveðið var að kaupa TF-SIF, árið 2005. Vélin kom svo til landsins árið 2009. Birni líst ekki vel á hugmyndir um að kaupa minni vél.

„Ég hefði ekki lagt á ráðin um það að kaupa svona öfluga vél ef mér hefði ekki þótt það nauðsynlegt árið 2005. Nú er árið 2023 og það er stríð í Evrópu.“

Björn bendir á að íslensk stjórnvöld hafi nýverið ákveðið að heimila kjarnorkuknúnum kafbátum bandaríska sjóhersins að hafa viðkomu úti fyrir Íslandsströndum og fá hér þjónustu. Þá sé ferðum herskipa á vegum NATO að fjölga á Norður-Atlantshafi.

„Og í þriðja lagi eru fréttir um það að dulbúin rússnesk skip séu að þreifa fyrir sér um tækifæri, eða kanna aðstæður ef til þess kæmi að þau ætluðu að vinna skemmdarverk til þess að gera þjóðir sambandslausar eða valda skaða,“ segir Björn.

„Ég sé engin rök fyrir því að menn eigi að velta fyrir sér að draga saman seglin í þessu efni. Miklu frekar eiga menn að velta fyrir sér hvort það sé ekki ástæða til þess að leggja meira af mörkum til að við gætum okkar fullveldis betur, með því að verða virkir þátttakendur í þessu eftirliti sem er verið að stórefla allt í kringum okkur á Norðurslóðum núna.“

Það er ljóst að það tekur töluverðan tíma að kaupa nýja flugvél fyrir Landhelgisgæsluna. Síðast tók það fjögur ár. En ætlar dómsmálaráðherra að tryggja að TF-SIF geti verið meira á Íslandi á næstu misserum, eða þangað til ný vél kemur til landsins?

„Nú erum við í þessari skoðun á rekstrinum,“ segir hann. „Og þrátt fyrir að þetta upphlaup hafi orðið þegar við ætluðum að fara í þessa rekstrarhagræðingu að selja þessa vél, þá hafa ekki verið tryggðir meiri fjármunir. Eins og staðan er í dag, jafnvel þótt við fengjum viðbótarfé, þá ákváðum við að skera ekki niður þessar ferðir sem eru fyrirhugaðar á vegum Frontex-verkefna á þessu ári.“

TF-SIF kemur til landsins nú í maí, en fer svo aftur í verkefni fyrir Frontex í október, og verður út árið. Því stefnir allt í að hún verði fjarri Íslandi að minnsta kosti helming þessa árs, líkt og tvö síðustu ár. Hvað gerist svo í framhaldinu, veit enginn.

„Staðan er ekki góð,“ segir Georg. „En við hjá Landhelgisgæslunni höfum nú ekki barmað okkur. Og gerum það ekki. Við munum berjast. Og vinna úr því sem stjórnvöld leggja okkur til. Og gera okkar allra besta til þess að gæta að hagsmunum lands og þjóðar á sjó og landi.“

TF-SIF og Hornet-orystuflugvél kanadíska flughersins við heræfingu á Íslandi 2017. Mynd: Corporal Gary Calvé. Imagery Technician ATF-ICELAND.