Hundraða milljóna arður af rekstri tölvukerfis lífeyrissjóða

Rekstur á einu af tölvukerfum íslenskra lífeyrissjóða er í uppnámi eftir að í ljós kom að þjónustuaðili þess hefur rukkað sjóðina um vinnu sem efasemdir eru um að standist lög. Gögn sem Kveikur hefur sýna hvernig hundruð milljóna króna hafa streymt út úr félagi sem annast rekstur tölvukerfis.

Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, er að renna upp. Þá kemur launafólk saman og fagnar þeim árangri sem náðst hefur í  réttindabaráttunni og setur kröfur á spjöld um það sem þarf að bæta. Eins og til að mynda að geta átt áhyggjulaust ævikvöld.

Þúsundir milljarða króna eru undir í starfsemi íslenskra lífeyrissjóða. Upplýsingar um hvað þú átt rétt á miklum lífeyri eru geymdar í tölvukerfum, þau eru lífæðin sem heldur kerfinu gangandi. Eitt af stærstu kerfunum, sem hefur verið notað í áratugi, er tölvukerfið Jóakim.

Jóakim er í eigu tíu lífeyrissjóða í gegnum sameiginlegt eignarhaldsfélag þeirra; Reiknistofu lífeyrissjóðanna. Kerfið er þó rekið af utanaðkomandi aðilum sem rukka eigendur og notendur þess fyrir þjónustuna.

Ólafur Sigurðsson, stjórnarmaður í Reiknistofu lífeyrissjóðanna og framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segir kerfið halda utan um gríðarmagn gagna.

„Öll kerfi sem halda utan um réttindi 100 þúsund landsmanna, iðgjöld þeirra og lífeyrisúrskurði, er auðvitað, skiptir auðvitað mjög miklu máli og alltaf meira og meira máli eftir því sem tækninni fleygir fram,“ segir hann.

Jóakim er í eigu tíu lífeyrissjóða í gegnum eignarhaldsfélagið Reiknistofu lífeyrissjóðanna. (Mynd Kveikur/Kolbrún Þóra Löve)

Efling er einn stærsti notandi kerfisins sem ekki er í eigendahópnum.

„Þetta er alger hornsteinn í raun og veru í starfseminni hjá okkur til að geta alltaf flett upp hver er réttur einstaklinganna í þessum sjóðum,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sem notar Jóakim til að halda utan um öll réttindi félagsfólks.

Til marks um umfang Jóakims í rekstri Eflingar segir Viðar að skráningarþjónusta iðgjalda, sem fer fram í gegnum kerfið, kosti á bilinu 70 til 80 milljónir króna árlega.

„Þegar ég hef störf hér fyrir tæpum þremur árum síðan þá veiti ég því athygli hversu hár kostnaður þetta er, þessi skráningarþjónusta iðgjalda,“ segir hann.

„Þar kemur hugbúnaðarfyrirtækið Init til sögunnar, en það sér um rekstur Jóakims.“

Viðar er framkvæmdastjóri Eflingar, sem er einn stærsti notandi Jóakims. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Svo virðist sem eigendur Init hafi undanfarinn áratug reynt að fela raunverulegan hagnað sinn af vinnu við kerfið fyrir eigendum og notendum.

„Ég skoðaði ársreikning fyrirtækisins Init og jújú, þar sér maður launakostnað og rekstrarkostnað, húsnæði og fleira, það getur verið serverar, en engu að síður finnst mér rekstrarkostnaður fyrirtækisins ótrúlega hár,“ segir Viðar.

„Ég á þarna samtal, sumarið 2018, fund með framkvæmdastjóra Init og þar er ég að spyrjast fyrir um þetta og kem út úr því samtali einhvern veginn ekki sannfærður um, ég skil ekki að fullu, í raun og veru, fyrir hvað við erum að greiða þarna. Og svörin sem ég fæ eru ekki á allan hátt sannfærandi.“

(Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Í ársbyrjun hugðust eigendur Init reyna að selja fyrirtækið. Kveikur hefur undir höndum gögn sem lögð voru fyrir mögulega kaupendur.

Hugmyndir eigendanna um kaupverð voru ekki í samræmi við bókfærðan hagnað eins og hann birtist í ársreikningi, né þá staðreynd að verðmætin í félaginu eru bundin við þjónustusamninga þess, en ekki tölvukerfið sjálft, því það er í eigu lífeyrissjóðanna.

Vegna þessa var KPMG falið að gera skattalega áreiðanleikakönnun. Hætt var við söluna áður en könnuninni var lokið, en í stöðuskýrslu frá 1. febrúar kemur ýmislegt í ljós.

Frá árinu 2013 hefur Init átt í miklum viðskiptum við félag sem heitir Init-rekstur. Samkvæmt ársreikningi er þó engin starfsemi í því félagi, en eigendur og tveir af þremur stjórnarmönnum eru þeir sömu í félögunum báðum.

Þetta fyrirkomulag vakti spurningar hjá Viðari Þorsteinssyni, en vorið 2020 var stjórn Eflingar enn að velta fyrir sér miklum kostnaði við skráningu iðgjalda.

„Eftir það fer ég að grafast aðeins meira fyrir um þetta og ég geri það með því að sem sagt lúslesa ársreikningana hjá Init… Og það er fullkomin speglun þarna á milli, annars vegar Init og hins vegar Init-rekstur,“ segir hann.

„Ég sé að þarna á ákveðnu árabili, hvað það nú er, 2013-2019 þá er þetta tæpur milljarður sem þarna fer á milli. Og vissulega renna þarna á mig tvær grímur að sjá svona skýrar en ég hafði áður gert hvað þetta eru miklar upphæðir.“

(Mynd Kveikur/Kolbrún Þóra Löve)

Til viðbótar við þetta fjárstreymi út úr Init til Init-rekstrar, hafa þrír stærstu eigendurnir rukkað Init í gegnum sín eigin fyrirtæki um hátt í 280 milljónir króna yfir fimm ára tímabil. Þetta eru þeir Garðar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Init, Pétur Kristinn Hilmarsson, stjórnarformaður Init, og John Haraldur Frantz.

Samtals nema viðskipti Init við systurfélag sitt Init-rekstur og félög lykilstjórnenda tæpum 914 milljónum króna á fimm árum - sem lífeyrissjóðirnir tíu hafa greitt að mestu.

Ólafur, fulltrúi eigenda kerfisins, segir „örugglega meira en 90 prósent af tekjunum hjá þeim sem falla á og eru greidd af eigendum“.

Kostnaðurinn vegna viðskipta Init við tengd félög er ekki gagnsær. Meira en helmingur allrar innkomu Init á hverju ári hefur runnið svo gott sem beint út úr félaginu og til fjögurra félaga, sem hafa enga sjáanlega starfsemi sem getur útskýrt þessar greiðslur.

(Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Viðar segist enn ekki vita fyrir hvað er verið að borga í þessum viðskiptum.

„Ég hef ekki getað séð að þarna sé raunkostnaður heldur tilfærslur á fjármagni og þeirri spurningu hefur að mínum dómi ekki verið svarað fyrir hvað er verið að borga,“ segir hann.

„Tekjur Init eru þær sem þau fá frá lífeyrissjóðum og verkalýðsfélögum. Það eru félagsmenn í stéttarfélögum og sjóðfélagar í lífeyrissjóðum sem á endanum borga þennan brúsa. Fjármagnið kemur bara þaðan og hvergi annars staðar frá.“

KPMG vann að skattalegri áreiðanleikakönnun vegna fyrirhugaðrar sölu Init. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Í stöðuskýrslu KPMG vegna áreiðanleikakönnunar, koma fram efasemdir um að þessi viðskipti við tengda aðila standist skattalög. Þar segir meðal annars:

„Ekki liggur fyrir í hvaða tilgangi umræddar greiðslur voru gerðar aðrar  en að færa fjármuni út úr rekstri Init ehf. til eigenda félagsins í gegnum önnur félög og greiða þar arð út til eigenda. Eigendur hefðu getað greitt sér arð beint út úr Init ehf. án vandkvæða og hefði það þótt eðlilegt,“ segir í skýrslunni.

„Í samskiptum við forsvarsmenn félagsins við gagnaöflun var þó gefið í skyn að umræddar bónusgreiðslur eins og þær voru nefndar, yrðu að vera með þessum hætti, svo „lífeyrissjóðirnir“ yrðu ekki varir við þær.“

Það skal tekið fram að þetta er ályktun starfsmanns KPMG, ekki orðrétt tilvitnun í forsvarsmann Init.

Ólafur situr í stjórn Reiknistofu lífeyrissjóðanna og er framkvæmdastjóri eins stærsta hluthafans, Birtu. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Þegar Kveikur bar þetta undir eigendur kerfisins, lífeyrissjóðina, fengust þau svör að þeir vissu af tilvist Init-rekstrar og viðskiptanna sem væru á milli félaganna tveggja. Ólafur, stjórnarmaður í Reiknistofu lífeyrissjóðanna, svaraði fyrir hönd eigendanna.

Þannig að eigendur kerfisins, þetta eignarhaldsfélag þið voruð meðvituð um að þarna væru tvö félög með sömu eigendur sem væri í einhverjum, hvað á maður að segja, viðskiptum sín á milli?

„Já.“

Og fannst ykkur það eðlilegt?

„Nei,“ segir hann og bætir við: „Frá 2016, í endursamningum, og 17 var samið um að vinda ofan af þessum viðskiptum sem þarna eru á milli. Það er ekki búið en það átti að vera búið.“

(Mynd Kveikur/Kolbrún Þóra Löve)

Init-rekstur hefur enga sjáanlega starfsemi. Greiðir ekki laun til dæmis. Framlegð félagsins hefur verið allt að 90% þrátt fyrir þetta og hluthafar fengið 440 milljónir í arð út úr félaginu á síðustu fimm árum, auk 177 milljóna sem greiddar voru út til þeirra við lækkun hlutafjár Init-rekstrar.

Hluthafar Init-rekstrar hafa þannig fengið yfir 600 milljónir króna greiddar út úr félaginu undanfarin ár. Hluthafarnir eru nákvæmlega þeir sömu og í systurfélaginu, Init.

Stærstu lífeyrissjóðirnir sem eiga kerfið könnuðust hins vegar ekki við að Init hefði greitt félögum þriggja stærstu eigendanna hundruð milljóna króna undanfarin ár.

„Við höfum nýlega fengið upplýsingar um að eigendur þessara fyrirtækja eru svo að selja fyrirtækinu þjónustu í gegnum sín eigin eignarhaldsfélög. Það er bara eitur í okkar beinum að það sé verið að flækja rekstur svo mikið að það sé ekki bara hægt að horfa á reksturinn og átta sig á því hvers eðlis hann er,“ segir Ólafur.

„Það vekur tortryggni að okkar mati þegar viðskipti jafn stórra aðila og raun ber vitni eru færð í þremur mismunandi félögum og í gegnum annað félag og það er eitthvað sem við viljum ekki sjá.“

Aðrir hluthafar og notendur Jóakims, sem Kveikur ræddi við, vissu ekki af þessum greiðslum.

Gildi er stærsti lífeyrissjóðurinn í eigendahópi Reiknistofunnar. Á undanförnum fjórum árum hefur sjóðurinn greitt Init samtals 620 milljónir króna. Stjórnendur Gildis höfnuðu boði um viðtal en sendu frá sér yfirlýsingu.

Þar segir meðal annars:

„Gildi hefur vitað af einu þessara félaga (Init-Rekstur) um nokkurt skeið. Í gegnum Reiknistofu lífeyrissjóða hefur síðustu ár verið reynt að fá forráðamenn Init til að minnka umsvif félagsins og færa þau inn í móðurfélagið, ekki síst til að auka gegnsæi. Sú vegferð hefur skilað nokkrum árangri en þó ekki nægum.“

Höfuðstöðvar Init eru í turninum í Kópavogi. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Eigendur og stjórnendur Init samþykktu að veita Kveik viðtal vegna málsins en báðu um að fá að hitta fréttamenn á fundi áður til að leggja fram gögn. Á þeim fundi voru tveir fulltrúar fyrirtækisins auk þriggja utanaðkomandi ráðgjafa.

Eftir fundinn hættu forsvarsmenn félagsins snarlega við að veita viðtal. Gögnin sem þar voru lögð fram skýrðu ekki umfang viðskipta á milli Init og Init-rekstrar og voru þau ekki afhent Kveik heldur voru aðeins til sýnis.

Á fundinum kom fram að stjórnir félaganna tækju ákvörðun um hversu mikið Init væri rukkað. Ekki var skýrt á hverju sú ákvörðun byggði, það var ekki sagt skipta máli þar sem í raun væri verið að færa fé úr einum vasa í annan, eins og það var orðað.

Tilgangur hinna félaganna var á fundinum sagður vera að taka við greiðslum til eigendanna þriggja, sem seldu Init vinnu sína í verktöku.

Þetta sögðu þeir alltaf hafa tíðkast hjá þremenningunum sem hefðu verið lengi í hugbúnaðargeiranum. Frekari skýringar fengust ekki á fyrirkomulaginu og fullyrtu þeir að lífeyrissjóðirnir hefðu alltaf verið meðvitaðir um þetta.

Enginn þeirra sem Kveikur ræddi við hjá lífeyrissjóðunum kannaðist hins vegar við það. Og sögðu þetta setja samstarf sjóðanna við Init í annað samhengi.

Þetta vekur bara furðu og spurningar að það séu þarna nátengdir aðilar að færa fé á milli og í einu tilfelli engin starfsemi, þetta lítur út eins og skúffufyrirtæki.

Þetta segir Viðar um fyrirkomulag viðskipta eigenda Init við sjálfa sig.

„Ég tek eftir því líka að launakostnaður hjá Init er frekar hár þannig að þessar miklu arðgreiðslur til eigenda og starfsmanna eru auðvitað þar til viðbótar.“

Er þetta ekki gott dæmi um það að menn komast á spenann hjá svona hálfopinberu apparati eins og lífeyrissjóðunum, það er erfitt að tapa á þessu?

„Jú, ég meina, þetta er ekki samkeppnismarkaður, klárlega. Þarna liggur gríðarlega löng, sko áratuga iðgjaldasaga hjá einstaklingum, sem liggur bundin í kerfinu og það er ekki hlaupið að því að skipta um þjónustuaðila í þessu, klárlega. Og auðvitað skapast þá þessi hætta, að einhvers konar misnotkun á aðstöðu eigi sér stað og þá þurfa menn náttúrulega að sýna árvekni gagnvart því,“ segir hann.

(Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Ólafur segir enga þolinmæði meðal eigenda kerfisins fyrir óþarfa kostnaði.

„Hvort sem það er þetta fyrirtæki eða aðrir sem veita okkur þjónustu. Við erum stöðugt að reyna að leita hagkvæmustu og ódýrustu leiðanna og ef einhver ætlar að fela eitthvað fyrir okkur eða reyna að hagnast óeðlilega á okkur, þá er það viðskiptasamband bara búið,“ segir hann.

„Eins og staðan er núna, bara þar sem ég sit hérna og tala við þig, hef ég ekki rökstuddan grun um lögbrot, skattsvik eða eitthvað sem gæti talist svívirðilegt að okkar mati en kostnaðurinn er að okkar mati of hár.“

(Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Í skriflegum samskiptum við Kveik ítreka forsvarsmenn Init fullyrðingar sínar um að eignarhaldsfélag Jóakims hafi verið upplýst um verktakagreiðslurnar. „Reiknistofu lífeyrissjóða hefur alla tíð verið kunnugt um þessi félög,“ segir meðal annars í svari Init. „Það er því enginn feluleikur í gangi.“

Segja þeir að slíkar upplýsingar hafi verið sendar á ráðgjafa þess árið 2020. Stjórn Reiknistofunnar, sem er í reglulegum samskiptum við Init, virðist hins vegar ekki hafa fengið þær til sín.

Init segir einnig að frá síðustu áramótum hafi þremenningarnir hætt að fá verktakagreiðslur til viðbótar við laun sín. Þeir hafi frá 2017 þegið bæði laun og selt vinnu í verktöku fram til 1. janúar síðastliðinn.

Fullyrða þeir að samningar séu til um viðskiptin og að rukkað sé tímagjald í samræmi við veitta þjónustu. „Fyrir liggja munnlegir samningar milli Init og félaganna sem um ræðir,“ segir Init.

Síðastliðinn föstudag barst viðskiptavinum Init svo tilkynning þess efnis að framkvæmdastjórinn, Garðar Jóhannsson, hefði látið af störfum. Ástæður starfslokanna fengust ekki staðfestar.