06:50
Morgunútvarpið
4. nóv.-Specialisterne, handverk, peningar, kynferðisbrot, kettir ofl.
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Rúnar Róbertsson.

Specialisterne fagna 10 ára afmæli um þessar mundir, en Specialisterne, eða Sérfræðingarnir, eru sjálfseignarstofnun sem stuðlar að því að einstaklingar á einhverfurófi eigi jöfn tækifæri og aðrir á atvinnumarkaði. Bjarni Torfi Álfþórsson framkvæmdastjóri kom til okkar og fræddi okkur um starfið og þau tækifæri og áskoranir er mætir fólki á einhverfurófinu þegar að atvinnumálum kemur.

Aurora velgjörðarsjóðurinn hefur komið að fjölmörgum þróunarverkefnum síðastliðinn áratug í Sierra Leone og markmið sjóðsins er m.a. að rækta sköpunarkraft sem flestra. Undanfarin ár hefur sjóðurinn leitt saman erlenda hönnuði og handverksfólk í landinu með þá von í brjósti að samvinnan og gagnkvæmur lærdómur hlúi að skapandi greinum. Regína Bjarnadóttir er framkvæmdastjóri sjóðsins og hún er stödd hér á landi og leit við og sagði okkur meira.

Peningar eru sívinsælt umræðuefni og einn þeirra sem stundum fræðir okkur um fjármál er Björn Berg Gunnarsson. Hann hefur nú tekið ýmis konar skemmtilegan fróðleik saman og gefið út á bók sem heitir einfaldlega Peningar. Björn Berg kíkti í morgunkaffi og ræddi peninga.

Fyrirgefningin, sáttin og endurkoma gerenda í kynferðisbrotamálum, misalvarlegum þó, hefur verið eitt aðal umræðuefni vikunnar í kjölfar fréttaskýringaþáttarsins Kveiks á þriðjudag en þar var flutt viðtal við Þóri Sæmundsson leikara. Við héldum því samtali áfram og fengum til okkar tvo menn, þá Ómar R. Valdimarsson lögfræðing og Jón Trausta Reynisson ritstjóra Stundarinnar til að velta upp öllum þeim álitamálum sem einkenna þessa umræðu og hvort við, sem samfélag, getum fundið einhverja lausn sem allir yrðu sáttir við.

UMFÍ og ÍSÍ hafa veitt fjórum íþróttafélögum styrk vegna verkefna sem hafa það að markmiði að hvetja börn og ungmenni af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra til þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. Við slógum á þráðinn til Auðar Ingu Þorsteinsdóttur framkvæmdastjóra UMFÍ og heyrðum af þessu.

Í lok þáttar tengdumst við hljóðveri okkar á Akureyri og röbbuðum við Gígju Hólmgeirsdóttur um bann við lausagöngu katta. Heyrðum í leiðinni í Smára J. Lúðvíkssyni umhverfisstjóra Norðurþings í síma.

Tónlist:

Snorri Helgason - Ingileif.

Elvis Costello - Alison.

Lights on the highway - Ólgusjór.

Adele - Easy on me.

Pálmi Gunnarsson - Komst ekki aftur.

Lenny Kravitz - Stillness of heart.

Vök - Running wild.

Sturla Atlas - Kviksyndi.

Var aðgengilegt til 04. nóvember 2022.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,