06:50
Morgunvaktin
Loftslagsmál, sjómenn, minkar, bókmenntir og skaðaminnkun
Morgunvaktin

Umsjónarmenn eru Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir.

Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fór yfir breyttar áherslur Seðlabanka Íslands varðandi loftslagsmál en bankinn hefur gefið út sérstaka yfirlýsingu í loftlagsmálum og skuldbindur sig til tiltekinna aðgerða sem varða bæði bankann sjálfan og fjármálafyrirtækin í landinu. Gunnar segir að þessi breytta sýn bankans sé í samræmi við það sem margir aðrir seðlabankar eru að gera. Hér á landi skipti meðal annars máli áherslur og metnaðarfull markmið sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi sett og aðkoma ungs fólks sem vinnur í bankanum. Loftslagsmálin eru mál málanna og þar þurfi allir að koma að. Hlýnun sjávar geti haft mikil áhrif á íslenskan sjávarútveg og aurflóð eins og urðu á Seyðisfirði fyrir tæpu ári hafa mikil áhrif.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, fór yfir stöðuna í kjaramálum sjómanna en þing Sjómannasambandsins verður sett í dag. Kjarasamningar hafa verið lausir frá því í desember 2019 og upp úr viðræðum slitnaði í haust. Kjaramálin verða rædd á þinginu og ef það samþykkir að grípa til aðgerða gæti verkfall hafist snemma á næsta ári. Á sama tíma og loðnuvertíðin verður í fullum gangi. Öryggismál sjómanna og loftslagsmál verða einnig rædd á þinginu sem stendur í dag og á morgun.

Bogi Ágústsson settist við Heimsgluggann upp úr klukkan átta og minkamálið stóra í Danmörku var rætt. Mette Frederiksen forsætisráðherra boðaði til blaðamannafundar í gærkvöldi til að ræða um horfin smáskilaboð. Þar upplýsti hún að Barbara Bertelsen, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, hefði ráðlagt sér í júní í fyrra, sem sé áður en minkamálið kom upp, að stilla síma sinn þannig að sms-skeytum væri eytt eftir 30 daga. Bogi ræddi einnig um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs en grænlenski rithöfundurinn Niviaq Korneliussen hlaut þau fyrir skáldsöguna Blómadalinn. Það er nafnið á kirkjugarðinum við Tasiilaq. Blómadalurinn fjallar um vanda ungs fólk á Grænlandi og ekki síst tíð sjálfsvíg.

Svala Jóhannesdóttir, sérfræðingur í skaðaminnkun og fyrrverandi verkefnastýra Frú Ragnheiðar og Konukots, sat norræna ráðstefnu í Ósló um síðustu helgi þar sem fjallað var um vímuefnamál með áherslu á gagnreyndar aðferðir á sviði stefnu, löggjafar og skaðaminnkunnar. Að sögn Svölu eru Norðmenn framarlega í skaðaminnkandi úrræðum og er verið að opna viðhaldsmeðferðir með heróíni- og amfetamín-skyldum lyfjum fyrir fólk sem er háð örvandi vímuefnum í æð. Á Íslandi og í Noregi er almennur stuðningur landsmanna við afglæpavæðingu á neysluskömmtun og sýnir rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands að 60% Íslendinga eru h

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,