Mannréttindi eru hunsuð í Moria-búðunum

Á ströndinni við höfuðborg grísku eyjarinnar Lesbos stendur frelsisstytta og horfir hnarreist í áttina að Tyrklandi, rétt um fimmtán kílómetra í burtu.

Skammt frá eru flóttamannabýðir sem hýsa nærri tuttugu þúsund flóttamenn sem lagt hafa í hættuför yfir hafið frá Tyrklandi til Lesbos. Moria-búðirnar voru opnaðar 2015 sem skammtímavistun fyrir flóttamenn í hælisleit. Í búðunum átti að vinna úr umsóknum fólks og senda það svo ýmist til síns heima eða með hæli á næsta áfangastað.

En fljótt varð breyting á og í dag eru um tuttugu þúsund flóttamenn í og við Moria-búðirnar, við aðstæður sem vart teljast boðlegar. Ætli það megi ekki að segja að pólitískur ómöguleiki hafi leitt til þessara aðstæðna.

Þegar Evrópa fékk yfir sig nánast flóðbylgju flóttamanna árið 2015 varð evrópskum stjórnmálamönnum fljótt ljóst að grípa yrði til aðgerða og stöðva strauminn, eða í það minnsta draga verulega úr honum. Svo það var samið við Tyrki.

Moria-flóttamannabúðirnar þykja einar þær verstu í heimi. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Caroline Willemen er sjálfboðaliði á Lesbos en var áður verkefnastjóri Lækna á landamæra þar. Hún segir Evrópusambandið hafa gert

„ESB greiðir Tyrklandi fyrir að hýsa fleiri flóttamenn og hafa betra eftirlit með landamærunum. Tyrkland gerir þetta þannig í skiptum fyrir peninga og rýmri vegabréfsáritanir fyrir Tyrki á ferðinni,“ segir hún.

„Að mínu mati er þetta kaldranaleg leið hjá Evrópu, að greiða öðrum fyrir
að sinna þessari skyldu ESB. Fyrir utan aðalatriðið, sem er þetta gengur ekki upp. Mikill meirihluti fólkssins á þessari eyju kemur frá stríðshrjáðum löndum. Og það er ógjörningur að hindra fólk í því að leita sér að öruggari búsetustað.“

Caroline hefur starfað í um eitt og hálft ár á Lesbos og séð ástandið snarversna á þessum tíma. Ólífulundurinn, svæðið utan við hinar eiginlegu búðir, er helsta birtingarmynd þess. Því þrátt fyrir að Tyrkir geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hamla för, koma flóttamenn enn þaðan til Lesbos.

Flestir reyna að komast stystu leiðina, sem er ekki nema rétt um þrír kílómetrar. Sjálfboðaliðar koma oft til bjargar þeim sem komast nærri landi.

Þeirra á meðal er Hekla María Friðriksdóttir, tuttugu og fjögurra ára Íslendingur sem kom nánast fyrir tilviljun til Lesbos fyrir nokkrum árum og hefur ítrekað snúið aftur, til að taka þátt í björgunarstarfi í sjálfboðavinnu.

Hekla María ásamt öðrum sjálfboðaliðum. (Mynd Kveikur)

Hekla er umsjónarmaður þessa björgunarbáts, eða kannski mætti segja skipstjóri. Hún brunar ásamt félögum sínum úr höfn þegar gríska landhelgisgæslan eða evrópska landamæraeftirlitið Frontex kalla eftir aðstoð. Þau mæta þá gúmmítuðrum sem ekki eru gerðar fyrir siglingar af þessu tagi.

„Fólk, þegar það kemur, það er oft mjög skelkað og oft búið að vera í mjög erfiðum aðstæðum á Tyrklandi áður en þau koma hingað. Bíða lengi á ströndinni eftir að geta farið á bátinn. Bara eftir réttum veðuraðstæðum eða eftir því að tyrkneska landhelgisgæslan sé ekki í nágrenninu,“ segir hún.

Tyrkneska landhelgisgæslan tekur harkalega á þessum siglingum, en mansalsgengin sem standa fyrir þeim eru ósvífin. Þrautaganga fólks frá stríðshrjáðum svæðum að strönd Grikklands hefur oft staðið lengi.

Lokaspölurinn er í svona einföldum gúmmíbát, þar sem 60 manns er oft troðið í bát sem rúmar 20. Það hlýtur að taka á, að koma fólki til bjargar við þessar aðstæður.

„Jájá, það getur alveg gert það. En það er mjög mikilvægt bara að, eða alla vega fyrir mig, mér finnst mjög mikilvægt að reyna að halda tilfinningunum utan við. Og ef þær, þá leyfa þeim að koma eftir á og tala um það eftir á,“ segir hún.

„Af því að ef að maður væri alltaf að pæla í tilfinningunum og hvað manni fyndist um þetta og hvernig manna liði með alla þessa hræðilegu hluti sem maður sér, þá gæti maður ekkert unnið vinnuna hérna.“

Hekla bjargar flóttafólki úr ísköldum sjónum. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

En þegar fólk fer hérna í sjóinn, maður hugsar um grísku eyjarnar – hlýtt og gott, gaman að svamla í sjónum. Það er ekki alveg þannig hérna.

„Nei, á veturna er ótrúlega kalt og bara mjög erfitt veður hérna,“ segir hún og bætir við: „Ef þú kannt ekki að synda, þá lifirðu ekki lengi, jafnvel þótt sjórinn sé lygn.“

Og það er ekki bara sjórinn sem er kaldur. Veturinn á grísku eyjunum er nístingskaldur og raki í lofti. Í Moria, þangað sem flóttamönnunum sem Hekla bjargar er svo vísað, er kuldinn eitt af vandamálunum.

Saed Khatim flýði frá Kandahar í Afganistan. Þorri flóttamannanna sem kemur til Lesbos er þaðan. Hann segist vonast til þess að komast frá Lesbos því í búðunum sé kalt, ekkert rafmagn og ástandið slæmt. Hver einasti flóttamaður nefndi aðbúnaðinn, sem þyrfti ekkert að vera svona slæmur.

Saed Khatim kom frá Afganistan. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Nýlega ákváðu grísk yfirvöld að taka rafmagnstengingar af þeim flóttamönnum sem búa utan formlegra búða. Húsnæði er ekkert. heilbrigðisþjónusta einungis hjá sjálfboðaliðum. Salerni eru örfá svo fólk gengur örna sinna úti á víðavangi – þar sem fólk eldar og börn leika sér.

Zainab er frá Íran, þaðan sem hún flúði ásamt manninum sínum, en fjölskyldur þeirra voru ósáttar við ráðahaginn og hótuðu þeim öllu illu. Hún er með gervilegg sem gerir henni erfitt að klöngrast upp og niður troðningana í búðunum, til að kynda til að komast á klósett.

Flóttamenn fá 19 evrur á dag frá flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, en skúr úr byggingaplasti kostar 300 evrur.

Zainab er frá Íran. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Fólk sem flýr stríð og ofsóknir er í leit að öryggi – en í Moria er ekkert slíkt að finna. Claire Dunne stýrir starfi Lækna án landamæra á eynni.

„Vegna þessa skorts á öryggi í Moria-búðunum þurfa þau nánast að lifa öll sín áföll upp á nýtt. Áhrif eldri áfalla magnast við þessi nýju áföll. Við sjáum marga sjúklinga sýna sjálfsvígshegðun, sjálfsskaði er algengur og alvarleg áfallastreituröskun,“ segir hún.

„Á þessari læknastofu hef ég í fyrsta sinn séð fólk þróa með sér einkenni geðrofs. Það fær ofskynjanir, missir tengslin við veruleikann og hættir stundum að tala. Þau verða mállaus vegna fyrri reynslu sinnar en einnig vegna þess sem gerist í búðunum sjálfum, í Moria-búðunum.“

Getur verið að fólk í viðkvæmri stöðu, á flótta undan stríði og hörmungum, komist til Evrópu og þar bíði meiri hörmungar? Já, segir Lucio Melandri, yfirmaður UNICEF í Grikklandi.

„Einhver sagði að þetta væru verstu flóttamannabúðir í heimi. Ég ætti að vera ósammála því þar sem ég bjó í Rúanda meðan þjóðarmorðin þar voru í fullum gangi, þar sem tíðni barnadauða var hryllileg. Ég hef unnið í Afganistan og víða um heim. Það sem gerir þessar búðir að þeim verstu er að fólkið hérna missir reisn sína. Þetta fólk er að missa mennsku sína. Við sjáum fólk bíða án nokkurra framtíðarhorfa, þjást og týna sjálfu sér dag frá degi,“ útskýrir hann.

Nazrin frá Afganistan. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Nazrin er frá Afganistan, en var ásamt fjölskyldu sinni um nokkurra ára skeið í Íran, þaðan sem þau flýðu svo að lokum.

„Frænka mín er 100% öryrki. Hún getur ekkert gert. Þegar við fórum með hana á spítala var okkur sagt að hún væri bara svona og að ekkert væri hægt að gera fyrir hana. Nú þarf hún að búa hjá okkur í tjaldinu. Þar er ekkert rafmagn og hörmulegar aðstæður. Við þurfum að fara með hana niður bratta brekku á klósettið og þetta er hræðilegt fyrir hana. Við þurfum virkilega á hjálp að halda,“ segir hún.

„Í gærkvöld sóttum við kolin sem þú sást. Við fórum með þau að tjaldinu til að fá smáhlýju. En reykurinn fór illa í okkur og við gátum ekki andað. Ég er líka ófrísk. Þegar ég fór til læknisins gerði hann ekkert fyrir mig. Hann mældi bara blóðþrýstinginn en athugaði ekki með barnið. Ég er mjög hrædd um það.“

Nazrin segist helst vilja vera í heimalandi sínu.

„Við erum öll í sömu stöðu hér, Arabar, Sómalir og Afganar. Við þurfum öll hjálp. Mér þykir þetta virkilega leiðinlegt en ekkert okkar vildi fara frá landinu sínu. Við vildum öll helst vera heima hjá okkur. En hvað eigum við að gera núna? Hvað getum við gert?“ spyr hún.

Spenna að myndast

Á Lesbos búa um áttatíu þúsund manns sem finna fyrir því að eyjan er nánast fanganýlenda fyrir flóttamenn. Þótt heimamenn sýni aðstæðum flóttafólksins samúð, er greinilegt að spenna er að myndast.

Um miðjan janúar var efnt til mótmæla í Mytilene, höfuðborg Lesbos. Og viku síðar lét flóttafólkið til sín taka. Þúsund flóttamenn þrömmuðu frá Moria í átt að Mytilene, en var mætt af hörku. Gríska lögreglan beitti táragasi.

En það er kannski engin furða að fólk mótmæli þessum aðstæðum – og því að sjá ekki fram á að sleppa úr þeim á næstunni.

Neda er þrettán ára frá Afganistan. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Fjórir af hverjum tíu flóttamönnum í Moria eru á barnsaldri og það eru börnin sem verða helst fyrir barðinu á aðstæðunum. Neda er þrettán ára frá Afganistan.

„Ég bið um hjálp við að komast til annars lands. Hérna í Moria-búðunum er ástandið verra en í nokkru öðru landi og enginn getur verið hér. Það er svo kalt hérna og öll börnin eru lasin. Gerið það hjálpið okkur öllum. Mig langar að ganga í skóla. Öll börnin vilja fara í skóla. En hér getum við það ekki. Við getum ekkert gert,“ segir hún.

Lucio segir þetta áhyggjuefni.

„UNICEF hefur áhyggjur af auknum fjölda barna sem eru ein á ferð. Oft fóru þau ein
frá fæðingarlandinu vegna ofbeldis, stríðs eða ástandsins. Einnig eru börn sem misstu fjölskyldur sínar á ferðinni. Í Grikklandi eru til dæmis í dag
rúmlega 5.500 börn án fylgdar,“ segir hann.

„Mörg barnanna eru á táningsaldri, 15-16 ára. Það er áhyggjuefni hversu mikið af enn yngri börnum kemur til Grikklands. Fyrir nokkrum dögum hitti ég á Lesbos barn frá Afganistan, sjö ára.Það þýðir að líklega fór hann að heiman fimm ára, af því að þetta er löng ferð fyrir þessi börn. Á þessu ferðalagi verða þau fyrir eða sjá alls konar ofbeldi,“ segir Lucio.

„Já, þetta er neyðarástand, ekki vegna einhvers straums heldur af því að þegar fólk þarf á okkur að halda, sérstaklega varnarlaust fólk og börn, reisum við múra. Við neitum að horfast í augu við þennan veruleika, sem er hluti af erfðaefni mannsins. Frá því að mannskepnan kom til sögunnar hefur hún ferðast um heiminn.“

Í þessu plasttjaldi býr sjö manna fjölskylda. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Lezare er þrettán ára flóttamaður frá Afganistan sem bauð Kveiks-liðum að heimsækja tjaldið sitt í frumskóginum, eins og flóttamennirnir kalla Moria. Við eltum hann að einum kofanum, í raun bara fjórum staurum sem plastdúkur hefur verið strengdur á.

Þarna býr sjö manna fjölskylda Lezars, en hann segist hvorki geta legið þarna né staðið. Ekki vegna plássleysis, heldur sáranna.

Því á meðan fjölskyldan bjó enn í Afganistan kastaði einhver handsprengju inn um gluggann hjá þeim. Þau vilja ekki segja hver af ótta við Íslamska ríkið og Talíbana. Lezare særðist lífshættulega. Hann missti framan af hendinni og fætinum. Hann er alsettur slæmum brunasárum.

Það þarf ekkert ímyndunarafl til að sjá hvers vegna fólk flýr svona aðstæður. En í stað lágmarksöryggis bíða þessar hörmulegu flóttamannabúðir.

Caroline er sjálfboðaliði á Lesbos. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Ástandið sé pólitískt val

Hjálparstarfsmenn í Moria eru uppgefnir og vonlausir, því þótt margir hafi kynnst verri aðstæðum eru Moria-búðirnar einstakar á sinn hátt. Caroline sjálfboðaliði segir að þetta fylli hana vonleysi.

„Kjarninn í þessu er pólitískur og rót vandans er pólitískt val Evrópusambandsins. Læknir, hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur eða sjálfboðaliði sem dreifir teppum eða tjöldum getur ekki ráðist að rót vandans,“ segir hún.

„Fræðilega er ekki erfitt að reisa búðir þar sem tíu eða tuttugu þúsund manns geta búið við bærilegar aðstæður. Ég er ekki að tala um neinn munað heldur grundvallarþægindi. Að þetta sé ekki gert, eða það að fólk sé ekki flutt til gríska meginlandsins eða annarra landa í Evrópusambandinu er pólitískt val ráðamanna. Það er ekki ómögulegt. Það er ekki vegna skorts á fé eða úrræðum. Það er ákveðið að gera það ekki og þess vegna er svo erfitt að horfast í augu við þetta.“

Claire starfar fyrir Lækna án landamæra á Lesbos. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Claire, hjá Læknum án landamæra, tekur í sama streng og segir mannréttindi flóttamannanna í Moria í engu virt. Það er undarlegt, eða kannski réttara sagt nöturlegt, að fólk í viðkvæmri stöðu skuli mæta mannréttindabrotum við komuna til ríkrar heimsálfu, en sú er raunin á Lesbos.

Gríska ríkisstjórnin hefur lagt fram nýjar tillögur til lausnar, sem felast í að loka Moria og opna fleiri, smærri stöðvar. Þær stöðvar yrðu hins vegar lokaðar, svo flóttamenn kæmust hvergi. Réttast er að kalla slíkt fangabúðir.

Grikkir ætla líka að koma fyrir sex metra háum flotvegg á mörkum Tyrklands og Grikklands. Enn einni leiðinni til að hefta för flóttafólks.

Enginn straumur flóttafólks

Lucio, framkvæmdastjóri UNICEF í Grikklandi, segir ótrúlegt að talað sé um flóttamannastraum, meiri háttar vandamál. Þetta sé enginn straumur.

„Um allan heim árið 2019 komu um 125 þúsund manns til Evrópu, þar af 75 þúsund aðeins í Grikklandi. Það er ekki neitt, ef við erum að tala um 70 þúsund manns, um 40% þeirra börn, og lítum svo til stærðar Evrópu og hversu margt fólk álfan getur borið,“ segir hann.

„Deilum byrðinni og byrjum á fylgdarlausum börnum. Styðjum þá hugmynd að hvert Evrópuríki geti tekið við ákveðnum fjölda barna og gert þeim kleift að ganga í skóla, að fá að tilheyra samfélaginu, tækifæri fyrir fjölskyldur til að sameinast að nýju. Þetta myndi tafarlaust draga úr þjáningum og spennu,“ segir hann.

En, á sama tíma er hægt að halda því fram að það verði að vera reglur og margir segja að eitthvað þurfi að fæla frá; að ef það verður of auðvelt og of heillandi að nýta þetta tækifæri til að flytja á auðveldan hátt milli landa og öðlast betra líf þá komi allir?

„Kjarni málsins er að fólk kemur alltaf. Það er ekki þannig að okkar ráðstafanir geri það að verkum að fólk hætti við að koma,“ segir Lucio.

„Spurningin er: Ef einhver kemur heim til þín, viltu þá að hann komi inn um glugga að næturlagi eða viltu vera upplýstur og opna dyrnar daglega til að vita hver kemur inn til þín? Eina færa leiðin er að hafa eftirlit með þessum fólksflutningum. Oftast er það þannig að þegar við gefum fólkinu ekki sömu tækifæri og öðrum á það engra annarra kosta völ en að kynda undir markaði glæpamanna.“

Séð yfir Moria-flóttamannabúðirnar. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Um leið og sólin hverfur bak við hæð í Moria-búðunum smýgur kuldinn eins og vatn á milli skinns og hörunds. Flóttafólkið kemur sér fyrir í skjóli, því eftir myrkur er ekki óhætt að vera á ferðinni – ekki einu sinni til að leita uppi kamar. Hinum megin á eyjunni búa Hekla og félagar hennar sig undir að halda til hafs því flestir reyna að komast frá Tyrklandi til Lesbos í skjóli myrkurs.

Hekla segir að breytingarnar byrji hjá yfirvöldum í Evrópu.

„Þetta er í rauninni bara orsök slæmrar stefnumótunar Evrópusambandsins og yfirvalda í Evrópu. Svo að þangað til að eitthvað breytist þar, þá mun ekkert breytast hér,“ segir hún.