Langt eldsumbrota­tímabil gæti verið í vændum

Lífið gengur sinn vanagang í Grindavík, þótt fæstir sofi kannski alveg rótt þessa dagana. Harðir skjálftar hafa skekið bæinn og ekki útilokað að eldgos brjótist út rétt norðan við byggðina.

Grindavík er ekki eina byggðin sem gæti staðið frammi fyrir eldgosi á næstunni. Reykjanesskagi er eitt eldvirkasta svæði landsins, með fimm til sex sprelllifandi eldstöðvakerfi uppi á landi, og það sjöunda úti í sjó. Þrjú þessara kerfa eru í bakgarði höfuðborgarsvæðisins. Og skaginn er kominn á tíma.

„Það er alveg klárt að það fer aftur að gjósa á Reykjanesskaga,” segir Ármann Höskuldsson, rannsóknaprófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. „Hvort núverandi atburðir eru upphafið að einhverju slíku er erfitt að segja áður en það fer í gang.”

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, tekur í sama streng: „Mér finnst þessir atburðir sýna fram á að við munum sjá gos á Reykjanesskaganum á næstu árum eða áratugum.”

Eldstöðvakerfin raða sér eftir skaganum endilöngum. Vestast er Reykjaneskerfið, þá Svartsengi, þar sem nú er hafin kvikusöfnun, síðan Fagradalsfjall, þá Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og yfir skaganum gnæfir svo Hengillinn, sem er stórt og öflugt eldfjall.  Eldgosin verða á sprungusveimum sem teygja sig frá suðvestri til norðausturs, og þar getur gosið hvar sem er.  Yngstu hraunin hafa runnið á sögulegum tíma, eftir landnám, og sum þeirra ná niður í byggð, í Grindavík og Vallahverfinu í Hafnarfirði.

Flekaskilin á Mið-Atlantshafshryggnum ganga í gegnum Reykjanesskagann endilangan. Flekarnir færast í sundur um einn sentimetra í hvora átt á ári. Við það skapast bil sem fyllist af kviku. Kristín Jónsdóttir jarðskjálftafræðingur og hópstjóri jarðvárhóps Veðurstofu Íslands, segir að það sé ekki ávísun á eldgos.

„Við vitum að það koma kvikuinnskot og flest koma aldrei upp á yfirborð, enda aldrei með eldgosi,” segir hún.

Goslotur á 800-1000 ára fresti

En sum gera það.

„Það sem við virðumst sjá út frá jarðfræðinni er að á 1000 ára fresti, sumir segja 800-1000 ára fresti, hafa komið goshrinur á Reykjanesinu, og þá hefur gosið á öllum kerfunum, ekki endilega í einu, það er tími á milli, en yfir tímabili svona 1-200 ár, þá hafa öll fimm kerfin gosið,” segir Þorvaldur.

Síðasta goslota byrjaði í Brennisteinsfjallakerfinu í kringum árið 1000. Svo byrjuðu Krýsuvíkureldar árið 1151, því næst Reykjaneskerfið um 1210 og Svartsengi 1240. Eldgos úti í hafi ollu sprengigosum 1226-27.

„Og þar sem við erum komin með kvikuinnskot þarna á töluverðu dýpi, að það gæti verið upphafið að nýrri svona hrinu,” segir Þorvaldur. „En hún gæti staðið næstu 200 árin. Og næsta óróahrina gæti orðið eftir 10, 20, 50 eða 100 ár. Þetta eru hlutir sem við vitum ekki. En mér finnst ekki ólíklegt að þetta sé merki þess að ný hrina sé í nánd.”

Reykjanesskaginn í gjörgæslu

Flestir jarðvísindamenn eru sammála um að Reykjanesskaginn sé kominn á tíma, en jarðvísindalegur tími er mjög teygjanlegt hugtak. Það gæti gosið í næsta mánuði, eða eftir fimmtíu ár. Allra augu beinast að hreyfingunum við Svartsengi og Grindavík, en enginn veit hvort þær þýða að nýir Reykjaneseldar séu að hefjast.

„Það er vissulega möguleiki sem við verðum að taka mjög alvarlega, en það eru mestar líkur á því að það gerist ekki neitt meira,” segir Kristín. Hún og samstarfsfólk hennar á Veðurstofu Íslands fylgjast samt grannt með minnstu hreyfingum og merkjum um eldvirkni. Eldfjöllin á Íslandi hafa verið undir sólarhringseftirliti undanfarin fimm ár, og síðustu vikur hefur Reykjanesið verið í gjörgæslu.

„Eftirlitið með flekaskilunum sem fara í gegnum Ísland er frekar gott, myndi ég segja,” segir Kristín.

Sjötíu jarðskjálftamælar á flekaskilunum og öðrum eldvirkum svæðum senda gögn upp á Veðurstofu á því sem næst rauntíma.

„Við erum með fólk hér allan sólarhringinn svo það er vel fylgst með þessari virkni og ef hún fer að aukast, koma stórir skjálftar eða margir minni, þá hljóma viðvaranir hér í þessum sal,” segir Kristín.

Þegar dregur til tíðinda er boðað til fundar í vísindaráði. Ráðið er óformlegur samráðsvettvangur almannavarna og jarðvísindamanna, þar sem ákveðið er hvernig bregðast eigi við atburðum eins og landrisinu fyrir norðan Grindavík.

Eru einhverjar líkur á því að það gæti gosið hér á svæðinu án þess að við fengjum fyrirboða?

„Maður vill aldrei segja aldrei, að það séu engar líkur á því, en ég myndi segja að það væru mjög litlar líkur á því,” segir Kristín.

Hegðun eldgosanna kortlögð

Ef það fer að gjósa, hvort sem er við Grindavík eða annars staðar nálægt þéttbýli, er gott að hafa einhverja hugmynd um hvernig gosið myndi hegða sér. Ármann og Þorvaldur fara fyrir flokki vísindamanna sem vinna baki brotnu að nýju áhættumati vegna eldgosa á Reykjanesskaga.

„Við erum að reyna að nota líkindareikning,” segir Ármann. „Líkindareikningur er alltaf mjög erfiður þegar við eigum við jarðfræðileg gögn, vegna þess að jarðsagan er mjög löng og atburðir eru sjaldgæfir. Því þurfum við að taka inn alla þætti jarðfræðinnar.”

Eldfjallafræðingarnir eru að vinna kort sem sýna alla staði sem einhverjar líkur eru taldar á að gætu gosiðog allar mögulegar leiðir sem hraunið gæti farið. Lengst er vinnan komin í Svartsengiskerfinu, þar sem reiknaðir hafa verið 1500 möguleikar á eldgosum til að kortleggja hugsanlegar ferðir hraunsins. Þar má sjá að hraunið gæti flætt yfir virkjunina og Bláa lónið, eða inn í byggðina í Grindavík og alla leið niður í höfnina. Það færi þó alveg eftir því hvar gysi - ef það gerist þá yfirleitt að þessu sinni.

„Það er vel hugsanlegt að svona merki komi upp á 30-50 ára fresti án þess að eitthvað meira gerist,” segir Kristín. „Og það er sennilegast að það gerist ekki neitt meira.”

Og það er svosem ekkert nýtt að jarðskjálftar verði við Grindavík

Ekki raunhæft að rýma borgina

En hvað gerist ef eldgos brýst út í eldstöðvakerfunum nálægt höfuðborginni og þeim 220.000 manns sem búa þar? Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur í nógu að snúast þessa dagana, en jafnvel tilhugsunin um eldgos á Stór-Reykjavíkursvæðinu kemur starfsmönnum hennar ekki úr jafnvægi.

„Það er til mjög nýleg rýmingaráætlun,” segir Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. „Í þeirri vinnu kom ekki upp nein sviðsmynd þar sem komu aðstæður sem krefðust þess að þyrfti að rýma allt höfuðborgarsvæðið á sama tíma. En það gat alveg komið upp að þyrfti að rýma hverfi eða hverfishluta, jafnvel fleiri en eitt hverfi, en það væri afar ólíklegt.

Er yfirleitt hægt að rýma allt höfuðborgarsvæðið á einu bretti?

„Það er ólíklegt að væri hægt að gera það hratt. Það væri hægt að gera hluta, en ekki allt höfuðborgarsvæðið, nei.”

Vallahverfi í Hafnarfirði er byggt á hrauni sem rann á sögulegum tíma, og það eru bara fimm kílómetrar í gígana sem mynduðu hraunið.

„Það er ekki mikil vegalengd,” segir Þorvaldur. „Og ég hugsa að væri gott fyrir okkur að hugsa um það, þekkja söguna, þekkja eldgosasöguna á svæðum aðeins betur og taka meira tillit til hennar þegar við erum að skipuleggja byggðir.”

Hvernig bregðast almannavarnir við eldgosi nálægt höfuðborginni?

Nú þegar eru miklar umferðartafir á þessu svæði, segjum til dæmis að gos hæfist í sprungukerfinu nálægt Hafnarfirði og það þyrfti að rýma hverfin þar. Fólk væri kannski í vinnu, með börnin sín í skólum og leikskólum í hverfinu, hvernig færi svona fram?

„Þá myndum við rýma eins og aðstæður gæfu tilefni til, og ef þyrfti að rýma vegna eldgoss í Hafnarfirði, við höfum tíma, hraunið tekur tíma til að fara af stað og það yrði væntanlega það sem við hefðum mestar áhyggjur af, en ef svona ólíklegt scenario færi af stað og börn í skóla, þá yrði strætó virkjaður, strætó er með uþb 130 vagna og hver vagn er gefinn upp fyrir 100 manns, standandi og sitjandi farþega, þannig að við værum með flutningsgetu fyrir 13.000 manns bara hérna á svæðinu,” segir Rögnvaldur.

Hefðuð þið áhyggjur af því að það kæmi upp ringulreið, jafnvel bara uppnám, gripdeildir og ofbeldi í svona aðstæðum?

„Í rauninni ekki. Vegna þess að það sem við höfum séð hingað til í gegnum þau áföll sem við höfum gengið í gegnum alveg frá snjóflóðunum 95 og allt sem við höfum séð hingað til, að þótt fólk sé í mjög erfiðum aðstæðum og þröngri stöðu, að það sem við sjáum er frekar öfugt, við sjáum náungakærleik. Fólk gefur sér tíma til að stoppa og hugsa hvert um annað. Fólk rýkur ekki af stað eins og við sjáum í amerískum stórslysamyndum þar sem fólk reynir að klofa hvert yfir annað, fólk stoppar og hleypir öðrum fram fyrir sig, sýnir kurteisi og það verður þessi tilfinning að við séum í þessu saman. Og það er kannski það sem ég býst við að sjá,” segir hann.

Hraunflæði frekar en sprengingar

Eldgos á sprungukerfunum á Reykjanesskaga yrðu sennilega ekki sprengigos, heldur basísk flæðigos eins og í Holuhrauni, og það eru góðar fréttir.

„Þessi eldgos eru ekki gríðarlega hættuleg eldgos,” segir Ármann. „Þetta yrðu fyrst og fremst hraun sem myndu renna frá þeim, það myndi þýða að það myndi fjölga ferðamönnum til mikils muna til að fá að koma, það er auðvelt að komast til Íslands til að horfa á eldgos.  Flest okkar búum á utarlega á skaganum á svæðum sem yrði erfitt fyrir hraunin að komast niður eftir. En auðvitað gætu þau komist þangað, og það myndi þýða að það myndu verða einhver mannvirki sem færu undir, en það ætti ekki að verða hættulegt mannslífum. Ekki nema fólk fari óvarlega,” bætir hann við.

Þorvaldur segir að mannfjöldinn á svæðinu setji strik í reikninginn.

„Það verður gjóskufall af því hugsanlega. Það myndast hraun sem fer yfir landsvæði og mun skemma allt sem á vegi þess verður. En svo er móða, brennisteinsmóða, hversu mikil hún er og útbreidd, það fer eftir stærð gossins. Bæði gjóskufall og móða geta valdið verulegum truflunum á lífi fólks á Stórreykjavíkursvæðinu, í Keflavík, Þorlákshöfn, jafnvel á Selfossi,” segir Þorvaldur.

Ferjusiglingar milli Reykjavíkur og Keflavíkur?

Hraungos geta valdið miklu eignatjóni og verulegum truflunum á daglegu lífi - sérstaklega ef þau standa áratugum saman. Ármann segir að eldstöðvakerfið í Krýsuvík gæti valdið mestum óþægindum.

„Hér höfum við fengið gos sem sendir hraun í báðar áttir, sem þýðir að þá skerum við af hluta skagans frá Reykjavíkursvæðinu og samskipti okkar meðan á eldgosi stendur og hraun renna yrðu þá á ferjum. Það yrðu óþægilegustu áhrifin. Vissulega vestar á skaganum, þar er byggðin aðeins nær eldfjallakerfunum sjálfum. Þar gætum við orðið fyrir óþægindum og skemmdum á mannvirkjum.

Veturinn 1226-27 var kallaður sandvetur. Þá gaus í sjónum hér fyrir utan Reykjanes, svo öskunni rigndi yfir allt Suðvesturland. Í annálum er talað um niðamyrkur um miðjan dag, og búfénaður hafi drepist alla leið norður í Borgarfirði. Karlinn varð til í þessu gosi.

„Um leið og kvikan fer að nálgast yfirborðið byrjar sprengigos, og þá kemur aska,” segir Ármann. „Þá er hætt við því að við þurfum að fara að fljúga í gegnum Egilsstaði alla vega á einhverjum tímapunkti, alla vega þegar veður er óhagstætt þannig að það sendir öskuna yfir Keflavík í staðinn fyrir að senda hana eitthvað annað.”

Efnahagshamfarir eða túristagos

Hagfræðingar reikna sjaldnast með eldsumbrotum í spám sínum um efnahag þjóðarinnar, en ljóst er að langvarandi eldsumbrot, jafnvel margir áratugir með tilheyrandi eignatjóni myndu setja strik í þjóðhagsreikninginn.

„Sumar af okkar lykilatvinnugreinum eru þannig að þær myndu starfa þrátt fyrir þetta,” segir Gylfi Magnússon hagfræðingur við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. „En stór atvinnugrein eins og ferðaþjónustan og margar aðrar yrðu fyrir miklum búsifjum. Þannig að þetta myndi gerbreyta samfélaginu og verulega rýra lífskjör þeirrar kynslóðar sem lentu í þessu.”

Ármann tekur tilhugsuninni um langvarandi eldvirknitímabil með stóískri ró.

„Vissulega eru byggðir þarna vestast sem eru heldur nálægt, en fyrir aðrar byggðir held ég að þetta verði aðallega til að gleðja augað, falleg eldgos, og mestu vandræðin þegar virkilega fer að gjósa hér á Reykjanesinu, það verður eftir fimm, þegar fólk hættir í vinnu og allir ætla að fara að skoða eldgosið. Það verður bara bílarunan út úr Reykjavík, allir að fara að skoða eldgosið, og það verður langmesta vandamálið,” segir Ármann og hlær.