Hvers vegna er græn raforka ekki alltaf seld sem slík?

Jarðefnaeldsneyti og kjarnorka — á pappírunum virðast þetta vera mikilvægir orkugjafar fyrir raforku á Íslandi. Samt framleiðir Ísland rafmagn svo að segja eingöngu með vatnsafli og jarðhita.

Hvers vegna er græn raforka ekki alltaf seld sem slík?

Kveikur fjallar í kvöld um sölu Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja á grænni vottun íslenskrar raforku til annarra Evrópulanda og hvaða þýðingu þessi sala hefur fyrir græna ímynd Íslands.

Orkufyrirtæki geta fengið vottorð, sem kallast upprunaábyrgð, fyrir sinni grænu framleiðslu. Nær öll raforkuframleiðsla á Íslandi er vottuð með upprunaábyrgðum, en þær geta gengið kaupum og sölum burtséð frá því hver fær í raun græna rafmagnið.

Því geta raforkunotendur í Evrópu keypt þennan græna upprunastimpil frá Íslandi og þannig sagst nota endurnýjanlega orku. Á móti má íslenska raforkufyrirtækið, sem seldi vottunina úr landi, ekki lengur selja orkuna sem endurnýjanlega á Íslandi.

Um tíma fengu almennir raforkunotendur á Íslandi því rafmagnsreikninga sem gáfu til kynna að raforkan ætti uppruna sinn í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku í bland við endurnýjanlega orku.

Í dag fá heimili og langflest fyrirtæki vottaða græna orku. En sala upprunaábyrgða til útlanda hefur enn áhrif á til að mynda álver, sem nota um tvo þriðju allrar orku á Íslandi.

Samtök álframleiðenda á Íslandi segja að í landi endurnýjanlegrar orku sé óheppilegt að fyrirtæki þurfi allt í einu að kaupa réttinn til að segjast nota slíka orku.

Landsvirkjun, sem er í almannaeigu, segir aftur á móti að fyrirtækinu sé treyst fyrir að skapa verðmæti úr náttúruauðlindinni. Landsvirkjun hafði um 900 milljónir króna í tekjur af sölu upprunaábyrgða í fyrra.

Fjallað verður um kosti og galla sölu þessarar grænnu vottunar, kerfið útskýrt og rætt við fulltrúa Landsvirkjunar, Samtaka álframleiðenda, Orkustofnunar, Samtaka iðnaðarins og fleiri í Kveik í kvöld klukkan 20:05.