Leynilegar greiðslur varpa ljósi á tap GAMMA-sjóðs

Lífeyrissjóðir og tryggingafélög tóku skellinn þegar fasteignasjóður GAMMA svo gott sem gufaði upp á síðasta ári. Hvernig gat það gerst? Kveikur hefur komist yfir gögn um tugmilljóna króna leynilegar greiðslur byggingaverktaka til lykilstarfsmanns GAMMA.

Hvorki núverandi né fyrrverandi stjórnendur GAMMA vissu af þessum greiðslum, sem áttu sér stað á sama tíma og starfsmaður þeirra samdi við og átti í viðskiptum við sama verktakafyrirtæki, fyrir hönd fasteignasjóðsins, sem var að stórum hluta fjármagnaður af lífeyrissjóðum landsmanna. Núverandi eigendur GAMMA hafa kært málið til lögreglu.

Félagið GAM Management, sem aldrei hefur verið kallað annað en GAMMA, var stofnað af tveimur fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings sumarið 2008—rétt áður en íslenska fjármálakerfið hrundi.

GAMMA lifði þó hrunið af, og árið 2011 veðjuðu stjórnendur félagsins á fjárfestingar í fasteignum. Það veðmál gekk upp, þó það hafi ekki skapað þeim neinar vinsældir á meðal almennings.

Ólíkt skuldabréfaviðskiptunum, sem félagið hafði sérhæft sig í fyrstu árin, urðu stórfelld uppkaup GAMMA á fasteignum til þess að vekja mikla og um leið neikvæða athygli á fyrirtækinu sem sakað var um að keyra upp fasteigna- og leiguverð.

Óvinsældir GAMMA jukust í réttu hlutfalli við vöxt fyrirtækisins og fyrirferð í samfélaginu.

Árið 2018 var farið að halla undan fæti og lykilstarfsmenn og eigendur farnir að láta sig hverfa til annarra starfa. Þar á meðal var Gísli Hauksson, stofnandi, forstjóri og einn aðaleigandi félagsins. Eigendurnir fóru að leita að einhverjum til að kaupa GAMMA.

Kvika banki beit á agnið og hóf viðræður sem enduðu með yfirtöku á öllum hlutum í GAMMA. Fyrst átti kaupverðið að vera 3,75 milljarðar króna en lækkaði svo niður í 2,4 milljarða króna áður en kaupsamningurinn var endanlega undirritaður.

En þegar kaupin voru frágengin, og starfsmenn Kviku gátu skoðað hvað það var sem hafði verið keypt, kom ýmislegt í ljós. Og verðmiðinn á GAMMA heldur enn áfram að lækka, nú síðast um 400 milljónir króna til viðbótar.

Í árslok 2018 var fasteignafélagið Upphaf — eina eign fjárfestingasjóðsins GAMMA: Novus — sagt 5,2 milljarða króna virði.

Hálfu ári síðar voru þessir milljarðar orðnir að nær engu, eða rétt um 40 milljónir króna.

Lífeyrissjóðir, tryggingafélög og fleiri fjárfestar, sem höfðu lagt fé í sjóðinn, virtust koma af fjöllum og spurðu sig, eins og fleiri, hvernig þetta gat gerst.

Það kom í hlut starfsmanna Kviku banka, sem fengið hafði sjóðinn í fangið, að svara þessum spurningum. Undanfarna mánuði hefur Máni Atlason, framkvæmdastjóri GAMMA, reynt að komast til botns í málefnum sjóðsins, ásamt samstarfsmönnum sínum.

„Eftir að nýtt teymi sérfræðinga kom hérna inn í GAMMA, þá kom í ljós að staða tiltekinna sjóða var ekki jafn góð og áður hafði verið talið,“ segir Máni. Sérstaklega eigi þetta við um sjóðinn GAMMA: Novus, eiganda Upphafs fasteignafélags.

Máni Atlason, núverandi framkvæmdastjóri GAMMA.

Í kynningu, sem Kvika banki gerði fyrir furðu lostna fjárfesta Novus-sjóðsins í október 2019, var milljarðahvarfið skýrt þannig að milljarður hefði horfið vegna þess að fasteignir, sem byggðar höfðu verið, voru hreint ekki eins verðmætar og fullyrt hafði verið.

Nærri tveir milljarðar töpuðust vegna dýrra lána. Svo virðist sem gleymst hafi að gera ráð fyrir vaxtagreiðslum.

Ekki minni furðu vekur að heilir tveir milljarðar króna hurfu úr áætluðum eignum sjóðsins, þegar í ljós kom að fullyrðingar um hversu mikið var búið að byggja stóðust ekki. Þannig hafði bæði verið bókað og borgað fyrir framkvæmdir sem aldrei urðu.

En hvernig gat það gerst að eignir sjóðsins fara úr fimm milljörðum króna niður í 40 milljónir á örfáum mánuðum?

Máni segir að ekkert hafi gerst á þessum mánuðum annað en að virði sjóðsins á tilteknum tíma hafi verið endurmetið.

Svo virðist vera, segir hann, sem menn hafi verið mjög bjartsýnir á á hvaða verði yrði hægt að selja eignir. Menn hafi líka virst hafa ofmetið hversu langt framkvæmdir voru komar, og þeir hefðu í rauninni bókfært meiri framkvæmdir en voru á verkstað.

Upphaf fasteignafélag var eina eign GAMMA: Novus. Fasteignafélagið reyndi svo að lágmarka áhættu af einstaka verkefnum með því að setja þau í dótturfélög. Á endanum þurfti hins vegar að veðsetja allar þessar eignir vegna lána sem Upphaf tók til að halda rekstrinum gangandi.

Máni segir að Upphaf hafi gefið út skuldabréf vorið 2019, en hann geti ekki svarað fyrir hvernig staðið hafi var að því. Það verði aðrir gera, þeir sem héldu þá um taumana.

Hann segir að svo virðist sem hluti fjárins sem aflaðist með skuldabréfaútgáfunni hafi runnið í að greiða upp eldri skuldir. Upphaf hafi fjármagnað sinn rekstur með útgáfu skuldagerninga 2018 og þar áður 2017. „Þessu virðist hafa verið velt áfram,“ segir Máni.

Lánið sem var tekið 2017 og síðan endurfjármagnað í tvígang var tekið til að fjármagna arðgreiðslur til fjárfesta í sjóðnum upp á 800 milljónir króna. Lánið valt svo áfram og var á endanum endurfjármagnað á himinháum 16% vöxtum. Þessi vaxtakostnaður var ekki talinn með í uppgjöri Upphafs.

Þegar sjóðurinn GAMMA: Novus var stofnaður, og fasteignafélagið Upphaf selt lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum, var verkefnið kynnt þannig að hópur sérfræðinga í fasteignauppbyggingu og fjárfestingum myndi leiða félagið. Raunveruleikinn varð annar.

Máni segir að þetta sé mjög umfangsmikill reskstur: „Það þarf mikið púður til að keyra í gegn byggingu á 280 íbúðum.“

Það eina sem hann og samstarsfmenn hans hafi í höndunum sé þau gögn sem liggja eftir. „Gögnin bera ekki með sér að það hafi verið margir sem komu að þessum ákvörðunum,“ segir Máni.

Hann segir að svo virðist sem ákvarðanir séu ekki bókaðar með nægilega góðum hætti og samningar séu undirritaðir af stjórn dótturfélaganna sem sé oft bara einn maður. Svo virðist, segir Máni, sem ákvörðunarvald „hafi verið á mjög fáum höndum.“

Pétur Hannesson starfaði sem framkvæmdastjóri Upphafs um árabil. Frá 2014, allt þar til hann hætti skyndilega í snemma árs 2019. Nokkrum mánuðum áður en slæm staða félagsins varð eigendum hans ljós.

Pétur Hannesson var framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Upphafs um árabil.

Í tíð Péturs varð til umfangsmikið viðskiptasamband Upphafs við verktakafyrirtækið VHE.

VHE, Vélsmiðja Hjalta Einarssonar, er með höfuðstöðvar í Hafnarfirði og hefur sérhæft sig í þjónustu við stóriðjuna, en hafði litla reynslu af umfangsmiklum fasteignaverkefnum.

VHE er auk þess gríðarlega skuldsett og hefur, samkvæmt heilmildum Kveiks, glímt við lausafjárskort og vanskil mörg undanfarin misseri.

Á starfstíma fasteignafélagsins Upphafs var VHE umsvifamesti framkvæmdaaðilinn í byggingum hundraða íbúða sem ráðist var í víða á höfuðborgarsvæðinu. Upphaf hefur greitt VHE og undirverktökum þess ríflega sjö milljarða króna frá árinu 2015.

Þrátt fyrir umfangið var ekkert af þessum verkum boðið út heldur var samið beint við VHE um hvert og eitt þeirra.

Gerðir voru svokallaðir cost-plús-samningar. Það þýðir að Upphaf greiddi allan kostnað við framkvæmdirnar að viðbættu álagi sem rann beint til VHE.

Með öðrum orðum: Upphaf tók alla áhættuna og VHE gat ekki komið öðru vísi frá samningnum en í plús.

„Þetta form af samningi gerir kröfu um ákveðinn aga,“ segir Máni, og að verkkaupi fylgist mjög vel með verki. Jafnframt að menn setji ákveðið viðmiðunarverð og semji fyrirfram um að ef verktaki klárar verk undir því verði deili menn ábatanum, en ef verkið fer fram úr viðmiðunarverðinu deili menn kostnaðinum. Þannig sé komið í veg fyrir að verktaki hagnist á að fara fram úr kostnaðaráætlunum.

Máni segir að svo virðist sem „mikill misbrestur“ hafi verið á að Upphaf hafi fest slíkt viðmiðunarverð. Samningarnir almennt kveði á um að slíkt verð skuli ákveðið, en því hafi ekki verið fylgt eftir.

Spurður hvort þetta hafi einfaldlega verið opinn tékki fyrir verktakann segir Máni að þeir sem gerðu samningana á sínum tíma verði að svara fyrir hvernig þeir hugsuðu það að festa ekki viðmiðunarverð.

„Eftir að við komum að höfum við sett markgildi í ákveðna samninga og við höfum slitið samstarfi samkvæmt öðrum,“ segir Máni.

Segja megi að áhættan af umframkostnaði hafi þá hvílt á Upphafi eða dótturfélagi þess. „Okkur hugnast ekki þetta samningsform,“ segir Máni. Fyrirtækið vilji semja á föstu verði.

Gögn sem Kveikur hefur undir höndum gætu varpað ljósi á hvað kunni að hafa legið að baki þessu sérkennilega viðskiptasambandi, sem hefur kostað viðskiptavini GAMMA stórfé.

Gögnin sýna tugmilljóna króna greiðslur VHE til Péturs Hannessonar, framkvæmdastjóra Upphafs, ýmist persónulega eða til félags í hans eigu.

Greiðslurnar spanna tímabilið frá 2015 fram á mitt ár 2019. Samkvæmt gögnunum greiddi greiddi VHE Pétri eða félagi hans, S3 Ráðgjöf, alls 58 milljónir króna í 21 greiðslu.

Á sama tíma var Pétur í fullu starfi sem framkvæmdastjóri Upphafs og hélt um alla þræði í milljarðaviðskiptum þess við VHE.

Þessar tugmilljóna króna greiðslur koma heim og saman við uppgefnar tekjur í ársreikningi einkahlutafélags Péturs, S3 ráðgjafar, á sama tímabili.

Samkvæmt heimildum Kveiks vöktu þessir ársreikningar furðu yfirmanna hans hjá GAMMA. Í byrjun árs 2019 mun hann hafa neitað að gera grein fyrir þessum tekjum og stuttu síðar var honum sagt upp störfum.

Rétt er að taka fram að á þeim tíma lágu ekki fyrir vísbendingar eða gögn um að VHE hefði greitt Pétri eða félögum hans.

Pétur vildi ekkert kannast við 58 milljóna króna greiðslurnar frá VHE þegar fréttamaður Kveiks hringdi í hann. „Það passar ekki,“ sagði hann.

Sömu sögu er að segja með Unnar Stein Hjaltason, stjórnarformann og aðaleiganda VHE. „Nei,“ sagði hann spurður hvort hann kannaðist við greiðslurnar. „Ég greiði ekki neitt í þessu fyrirtæki.“

Í  kynningu vegna hruns fasteignafélagsins Upphafs er tap fjárfestanna af framkvæmdum VHE áberandi.

Til dæmis hafi staða framkvæmda VHE verið ofmetin um 1,1 milljarð króna. Upphaf hafi þannig metið húsbyggingarnar nær fullkláraðar, þegar þær áttu enn langt í land.

Til samanburðar voru önnur fasteignaverkefni Upphafs, sem VHE kom hvergi að, ofmetin um 800 milljónir króna.

Verst var ástandið við Hafnarbraut 12 á Kársnesi í Kópavogi. VHE fékk það verk, eins og fleiri, án útboðs.

Í ljós kom að rúmlega hálfan milljarð króna vantaði upp á fyrri áætlanir til að hægt væri að klára og selja íbúðir þar. Í bókum Upphafs voru 1,7 milljarðar króna sagðir eftir, en raunin var sú að 2,3 milljarða vantaði upp á.

Máni Atlason segir að ljóst hafi verið að Upphaf hefði bundið sína bagga mjög „þéttum böndum“ við VHE.

Í ljós hafi komið þegar hann og samstarfsmenn hans hafi farið að tala við VHE, að kostnaður á þeim verkum væri umfram áætlanir Upphafs. Eftir viðræður hafi samstarfi við VHE í þessum verkum verið slitið.

Máni segir að athygli hafi vakið að óskýrt sé hvernig ferlið við ákvörðun um val á verktaka hafi verið. Hann segir að þar sem hafi þurft að bjóða út eftirstöðvar verka hafi í raun verið haldið lítið lokað útboð. Það sé sú leið sem eigi að fara þegar verið sé að framkvæma fyrir annarra manna fé, eins og hjá Upphafi.

„ Það má ekki gleyma því að fjármunirir í upphafi eru ekki eign okkar, við erum í rauninni vörsluaðilar þessara fjármuna,“ segir Máni og bætir við að þó nýir eigendur hafi sett sér ströng viðmiðið í þeim anda, geti hann ekki sagt til um hvernig málum hafi verið háttað áður.

Eins og með annað varðandi rekstur Upphafs sé erfitt að ráða af gögnum sem tiltæk eru um einstaka ákvarðanir eða samþykktir. Það eigi eins við um það hvernig það kom til að Upphaf kaus að veðja svo sterkt á framkvæmdaaðila eins og VHE, sem hafði litla sem enga reynslu af verkefnum eins og þeim sem Upphaf lagðist í.

„Hvers vegna VHE dregst þarna inn er í rauninni kannski ekki alveg ljóst af þeim gögnum sem við höfum,” segir núverandi forstjóri GAMMA en ljóst þykir að mikil völd yfir einstaka ákvörðunum voru færðar framkvæmdastjóra Upphafs, og honum einum.

Til að mynda í öllum samningum Upphafs við VHE. Þeir voru gerðir í gegnum dótturfélög Upphafs sem stofnuð voru um hvert verkefni fyrir sig. Í stjórn hvers dótturfélags var einn fulltrúi GAMMA. Og einungis einn maður undirritaði samningana fyrir hönd GAMMA, og fjárfestanna sem lögðu Upphafi til fjármuni. Einn og sami maðurinn: Pétur Hannesson.

Spurður hvort skýra megi tap Upphafs og sjóðsfélaganna þar með, með svo einföldum hætti að einn maður hafi geta borið ábyrgð á þeim;  hinum umdeildu samningum og greiðslum til VHE, vísar Máni til upplýsinga um greiðslur VHE til Péturs og mögulegrar þýðingar þess viðskiptasambands, á samningagerð VHE og Upphafs.

„Við höfum auðvitað ekki séð þessi gögn sem þú vísar til en myndum að sjálfsögðu vilja fá að komast í þau. Þau væru mikilvægt innlegg í okkar rannsókn á því hvað miður fór,” segir Máni

Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður var stjórnarformaður Upphafs og sjóðsstjóri Novus frá 2017 og þar til í fyrrahaust, þegar Kvika setti sinn mann í stjórnina. Þegar Kveikur leitaði viðbragða hans, kvaðst honum brugðið yfir upplýsingunum.

„Ég get ekkert tjáð mig um það en þessar upplýsingar sem þú ert að segja mér núna eru algjörlega nýjar fyrir mér og ég er bara frekar sleginn yfir þessu, ef ég á að segja eins og er,” sagði Ingvi sem baðst undan því að ræða málið frekar að sinni.

Rétt eins og Lýður Þorgeirsson, forveri Ingva í stóli sjóðsstjóra GAMMA. Lýður sem fór með yfir stjórn sjóða félagsins og þar með Novus og Upphafs til ársins 2017, vildi ekki tjá sig þegar til hans var leitað.

Spurður hvort honum hafi á einhverjum tímapunkti verið upplýstur eða meðvitaður um þetta viðskiptasamband Péturs undirmanns síns og VHE brast á með stuttri þögn í símtalinu, sem fylgdi stutt en ákveðið svar Lýðs Þorgeirssonar: „Nei, ég var það ekki!”

Núverandi eigendur og stjórnendur GAMMA hafa gert ýmsar breytingar á því hvernig farið er með ákvarðanir og fjármuni, sem fjárfestar eftirláta þeim til ávöxtunar. Að sögn Mána Atlasonar ætti því það sem gerðist í rekstri Upphafs ekki að geta endurtekið sig.

„Einn maður getur ekki í dag tekið stórar ákvarðanir um að ljúka ágreiningsmálum við verktaka eða greiða háar fjárhæðir án þess að fara í gegnum í rauninni ákveðna smásjá,” segir Máni.

Sú staðreynd að verðmæti sjóðsfélaga GAMMA:NOVUS hafi að því er virðist á einni nóttu hrunið um 90%, við það eitt að farið var að rýna bókhald félagsins, hafði víðtæk áhrif á fjárfesta sem fram til þessa töldu hag sínum vel borgið með fjárfestingu í sjóðnum.

Stóru tryggingafélögin þrjú veifuðu öll rauðum flöggum til Kauphallarinnar, og sögðu sameiginlegt tap félaganna þriggja vera yfir 600 milljónir króna.

Þrír lífeyrissjóða landsmanna fengu sömuleiðis þung högg og bókfærðu samtals 800 milljóna króna tap þegar ljóst var hver staða Upphafs væri í raun og sann.

Birta lífeyrissjóður var einn þessara sjóða. Hann er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins og átti samkvæmt síðasta ársreikningi um 10% hlut í Novus-sjóðnum og þar með Upphafi. Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu brást svona við þegar Kveikur kynnti honum upplýsingar um viðskiptasamband framkvæmdastjóra Upphafs og VHE:

„Þetta gengur ekki upp. Að framkvæmdastjóri sem er að fara með almannafé sé í viðskiptum til hliðar við það félag og vægast sagt slær það okkur mjög illa,” sagði Ólafur í samtali við Kveik í liðinni viku og minnti á ábyrgð sjóðsstýringarfyrirtækja eins og GAMMA, sem tækju veglegar þóknanir fyrir að stýra fjármunumí sjóðum eins og þessum. Það væri á þeirra ábyrgð að velta við hverjum steini.

„Þeir sem reka fyrirtækið í dag þurfa að fylgja þessu fast eftir, það er þeirra umboðsskylda. Það þarf að fara á eftir þessu tiltekna máli, rannsaka það,” sagði Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu.

Málið hefur verið kært til héraðssaksóknara.

Að höfðu samráði við lögfræðinga Kveiks var tekin sú ákvörðun að afhenda embætti héraðssaksóknara afrit af þeim gögnum sem sýna yfirlit yfir millifærslur frá VHE til Péturs Hannessonar og félags hans.

Ennfremur tóku núverandi stjórnendur GAMMA þá ákvörðun, eftir að athygli þeirra var vakin á upplýsingunum, að kæra málið til Héraðssaksóknara.

Samkvæmt upplýsingum Kveiks er málið því komið til meðferðar hjá Héraðssaksóknaraembættinu þar sem það verður rannsakað vegna gruns um auðgunarbrot. Sú rannsókn mun eftir því sem næst verður komist bæði snúast um meint brot Péturs Hannessonar og eins möguleg brot forsvarsmanna VHE.

Unnar Hjaltason, stjórnarformaður og stærsti eigandi VHE, vildi eins og áður segir ekkert kannast við að félag hans hefði greitt Pétri Hannessyni framkvæmdastjóra Upphafs, milljónirnar 58, þegar Kveikur hafði samband við hann síðastliðin fimmtudag en neitaði ennfremur að ræða málið frekar.

„Ég ætla ekki að tala um þetta við neina blaðamenn. Veit ekki hvað ykkur vantar. Takk fyrir,” sagði Unnar og sleit símtalinu.

Sömu sögu var að segja af Pétri Hannessyni. Hann neitaði því staðfastlega að hafa nokkrar greiðslur þegið frá VHE, hvort heldur beint eða í gegnum félag sitt. Spurður um hvaðan hann hefði haft tugmilljóna tekjur í félag sitt S3 Ráðgjöf, á sama tíma og hann var í fullu starfi sem framkvæmdastjóri hjá fasteignafélagi GAMMA sagði Pétur:

„Ég þarf ekkert að útskýra neitt fyrir þér. Þetta er bara mitt félag, ég ræð hvað ég geri við mitt félag.”

Þrátt fyrir þessar eindrengu neitanir þeirra beggja barst Kveik yfirlýsing undirrituð af lögmanni VHE fjórum dögum eftir samtöl við eiganda félagsins, þar sem VHE gekkst við því að hafa greitt Pétri tæpar 60 milljónir króna á umræddu tímabili.

Skýringin á greiðslunum var að sögn sú að greiða Pétri fyrir ráðgjöf sem hann mun hafa veitt VHE í fasteignaverkefnum á síðustu árum.

Orðrétt segir í yfirlýsingunni „má vel taka undir að það líti illa út að fyrirtækið hafi keypt þessa þjónustu af aðila sem jafnframt var í forsvari fyrir einn af viðskiptavinum VHE.“

Engu að síður segir í yfirlýsingu VHE að greiðslurnar til Pétus eigi sér eðlilegar skýringar.  Um sé að ræða greiðslur fyrir fasteignaverkefni VHE, ótengd viðskiptum VHE og Upphafs.

„Um var að ræða aðskilin verkefni sem ekki blönduðust saman á neinn hátt,” segir í yfirlýsingunni þar sem þó er vísað sérstaklega til starfa Péturs fyrir Upphaf fasteignafélag sem ástæðu þess að sóst var eftir kröftum hans. Til að mynda vegna lóðakaupa VHE við Hafnarbraut 27 í Kópavogi.

„Á þessum tíma var VHE að byggja fjölbýlishús að Hafnarbraut 12 Í Kópavogi fyrir Upphaf þannig að fyrir lá að S3 Ráðgjöf bjó yfir mikilli þekkingu á uppbyggingarmöguleikum á svæðinu. Því var samið við S3 um ráðgjöf um það hvaða möguleikar gætu falist í kaupum á umræddri lóð.”

Ekkert hafi hins vegar verið óeðlilegt við þetta viðskiptasamband. Reikningar gefnir út og greiddir í samræmi við reglur.

„Greiðsla á þessum reikningum var ekki leynilegri en greiðsla á öðrum reikningum,” segir í yfirlýsingunni þar sem sagt er að ekkert óeðlilegt hafi komið í ljós við skoðun nýrra eigenda GAMMA á samningum Upphafs og VHE, en að VHE sé engu að síður „reiðubúið til að veita yfirvöldum alla þá aðstoð sem það getur veitt ef þörf krefur.“

Yfirlýsing VHE frá 23. mars er svona í heild sinni:

Sæll Helgi.

Vegna fyrirspurnar þinnar um greiðslur frá VHE ehf. til Péturs Hannessonar og fyrirtækis hans S3 Ráðgjöf ehf er rétt að taka fram eftirfarandi:

Hvað varðar málefni Upphafs almennt og þær fréttir sem bárust af því félagi í lok sumars og byrjun hausts þá komu þær fréttir forsvarsmönnum VHE jafn mikið á óvart og öðrum. Það er erfitt að átta sig á hvað fór þarna úrskeiðis og hvernig svo miklir fjármunir gátu gufað upp með tilheyrandi tapi eigenda Upphafs. Þessi slæma staða Upphafs hafði einnig í för með sér mikið fjárhagslegt högg fyrir VHE með beinum afleiðingum fyrir undirverktaka og birgja. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafði þessi staða Upphafs veruleg neikvæð áhrif á rekstur VHE.

Í ljósi aðstæðna og hvernig mál þróuðust má vel taka undir að það líti illa út að fyrirtækið hafi keypt þessa þjónustu af aðila sem jafnframt var í forsvari fyrir einn af viðskiptavinum VHE. Það er þó rétt að taka fram að um var að ræða aðskilin verkefni sem ekki blönduðust saman á neinn hátt. Þegar nýir stjórnendur Upphafs tóku við fóru þeir mjög nákvæmlega í gegnum alla samninga milli félaganna og kom ekkert óeðlilegt fram við þá skoðun. Að auki er fyrirtækið reiðubúið til að veita yfirvöldum alla þá aðstoð sem það getur veitt ef þörf krefur.

En ástæða þess að fyrirtækið keypti umrædda þjónustu af Pétri Hannessyni og fyrirtæki hans S3 Ráðgjöf er sú að þar var fyrir hendi yfirgripsmikil þekking á sviði þróunarverkefna í byggingariðnaði, fjárfestingum og verkefnastjórnun.  Á árinu 2015 keypti VHE lóð að Eskivöllum í Hafnarfirði og hugðist reisa þar fjölbýlishús. Í ljós kom að mistök höfðu verið gerð við kynningu deiliskipulags þannig að fara þurfti í gegnum það ferli aftur. Það tafði framkvæmdir fram til ársins 2017. Á þessum tíma, frá 2015, sem bíða þurfti eftir því að framkvæmdir gætu hafist aftur keypti VHE þjónustu af Pétri og S3 Ráðgjöf m.a. um það hvernig best væri að halda á hagsmunum fyrirtækisins gagnvart bæjaryfirvöldum og halda verkefninu áfram. Sú ráðgjöf reyndist góð og hefur verkefnið síðan gengið vel og er nú svo komið að íbúðir í umræddu fjölbýlishúsi fóru í sölu um sl. áramót og er nú búið að selja uþb 2/3 af íbúðunum. Á árunum 2017 og 2018 bauðst fyrirtækinu að kaupa lóð að Hafnarbraut 27 í Kópavogi. Á þessum tíma var VHE að byggja fjölbýlishús að Hafnarbraut 12 Í Kópavogi fyrir Upphaf þannig að fyrir lá að S3 Ráðgjöf bjó yfir mikilli þekkingu á uppbyggingarmöguleikum á svæðinu. Því var samið við S3 um ráðgjöf um það hvaða möguleikar gætu falist í kaupum á umræddri lóð. Jafnframt var samið við S3 um að veita ráðgjöf um hvað gæti talist eðlilegt og sanngjarnt kaupverð á lóðinni miðað við þá möguleika sem væru á nýtingu hennar. Niðurstaðan varð sú að samningar náðust um kaup á lóðinni.

Í báðum framangreindum tilvikum náðist sá árangur sem að var stefnt og var Pétri og fyrirtæki hans S3 Ráðgjöf greidd árangurstengd þóknun í samræmi við þá hagsmuni sem voru undirliggjandi. Samtals nam þóknunin nálægt tveggja ára meðaltali þess sem fyrirtækið greiðir árlega í þóknanir til utanaðkomandi  aðila með virðisaukaskatti. Þar sem eðli þessara verkefna er með þeim hætti að hagnaður eiganda verkefnisins skilar sér ekki fyrr en í lok verkefnanna var samið um að fá að greiða þóknunina yfir langt tímabil. Því áttu greiðslur sér stað frá árinu 2015 og til loka árs 2019.  Vegna orðalags í fyrirspurn þinni um að greiðslur hafi „farið“ á milli félaganna er rétt að taka fram að engar greiðslur fóru á milli öðru vísi en gegn framvísun reikninga. Greiðsla á þessum reikningum var ekki leynilegri en greiðsla á öðrum reikningum. Fyrirtækið hefur gert grein fyrir umræddum greiðslum í öllum sínum ársuppgjörum og virðisaukaskattsuppgjörum.

Gunnar Ármannsson

Lögmaður VHE