Efnahagslegar hamfarir eða nýtt tækifæri

Hagkerfi heimsins standa frammi fyrir mikilli óvissu og atvinnulífið er flutt inn á heimilin. Einn af hverjum fimm jarðarbúum sætir nú útgöngubanni eða sóttkví. Landamæri hafa lokast, og hagkerfin eru helsjúk.

Fólk hættir að fara út og kaupa hluti og þjónustu, fyrirtækin lamast og verða gjaldþrota, fólk missir vinnuna og tekjurnar. Það kaupir þá enn minna, og enn fleiri fyrirtæki verða gjaldþrota. Kreppan er vítahringur sem erfitt er að rjúfa.

Sigurjón Hólm Magnússon er einn þeirra þúsunda Íslendinga sem sitja í sóttkví. Hann er reyndar nýkominn úr einangrun, eftir að hafa smitast í skíðaferð.

„Ég varð ekki mjög veikur en konan varð svolítið veik,” segir hann. „Ég er rafverktaki, og þetta hefur þau áhrif að ég fer náttúrulega ekki í vinnuna.”

Þetta hefur töluvert tekjutap í för með sér, Sigurjón getur ekki skrifað tímana sína hjá neinum nema sjálfum sér. Þúsundir sjálfstæðra atvinnurekenda og eigenda fyrirtækja eru í sömu stöðu og hann, ekki bara hér á Íslandi, heldur líka úti í heimi. Veitingahús og verslanir eru lokaðar, og þjónustugeirinn stefnir í mesta hrun frá því að mælingar hófust.

„Það eru margir að reyna að meta stöðuna,” segir Katrín Ólafsdóttir lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. „En allar tölur eru á gríðarlega breiðu bili út af þessari óvissu. Ég myndi treysta mér til að segja að hagvöxtur hér verði neikvæður í ár, það er alveg klárt, en það er erfitt að segja hversu mikið. Það sem skiptir mestu máli er hversu lengi þetta ástand varir. Hvenær förum við aftur út og takast í hendur og svoleiðis.”

Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur.

Enginn veit hver áhrifin verða á hagkerfi heimsins. Spárnar verða sífellt svartsýnni, og sumir spá enn meiri samdrætti en í kreppunni 2008. Fjárfestingabankinn Goldman Sachs spáir því að 2,5 milljónir Bandaríkjamanna verði atvinnulausar innan skamms, margfalt fleiri en 2009. Margar ríkisstjórnir hafa gripið til þess ráðs að dæla peningum inn í hagkerfin. Þau eru eiginlega sett í öndunarvél á meðan faraldurinn gengur yfir.

„Við drögum fram eldvörpuna,” sagði þýski fjármálaráðherrann Olaf Scholz nýverið. ”Hér duga engin vettlingatök. Við gerum það sem gera þarf.”

Íslenska eldvarpan gegn efnahagskreppunni var kynnt á laugardaginn og er metin á 230 milljarða króna. Stærstur hluti hennar felst í lánum til fyrirtækja sem verða fyrir tekjutapi og frestun skattgreiðslna.

„Við viljum sjá að með þessu fáist viðspyrna fyrir fyrirtæki, hvati fyrir fyrirtæki til að halda fleira fólki hjá sér, segja því ekki upp, nota úrræðin sem við erum að bjóða upp á,” sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar aðgerðinar voru kynntar.

„Ég held að þetta séu fyrstu skrefin og þetta eru góð fyrstu skref,” segir Katrín. „En ég tel einsýnt að þegar líður áfram þurfi að grípa til frekari aðgerða þegar við vitum nákvæmlega hvaða aðgerðir eru bestar, og ég tel eðlilegt að það komi meira á næstu mánuðum eftir því sem framvindan er.”

Það eina sem liggur ljóst fyrir í allri óvissunni er að ferðaþjónustan og veitingageirinn eiga í miklum erfiðleikum, þar sem eftirspurnin er horfin.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði um helgina að atvinnuleysi og samdráttur í ár gæti orðið svipaður og eftir bankahrunið, þótt mikil óvissa ríkti um það. Samdrátturinn nam samtals tíu prósentum 2009 og 2010, og rúm 9 prósent þjóðarinnar voru atvinnulaus.

Björgvin Ingi Ólafsson er meðal fjölmargra sem nú vinna heiman frá sér. Hér er hann með sex mánaða gamla dóttur sína.

Björgvin Ingi Ólafsson er sviðsstjóri fyrirtækjarráðgjafar hjá Deloitte, og hefur rýnt í aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hann gerir það reyndar að heiman, með sex mánaða gamla dóttur sína í fanginu. Hann eins og svo margir aðrir, vinnur að heiman þessa dagana.

„Það sem við sáum á fundi ríkisstjórnarinnar var örugglega upphafið. Ég myndi segja að þetta hafi verið upphæð í neðri mörkum þess sem maður vonaðist eftir, en margt mjög jákvætt og það er augljóst að stjórnvöld taka vandanum alvarlega,” segir Björgvin.

Hann bendir á að ef aðgerðirnar eru metnar út frá stærð hagkerfanna, sést að íslensk stjórnvöld hefðu þurft að verja 300 milljörðum til þess að ná Dönum og Norðmönnum, og 550 milljörðum til að ná aðgerðum af svipuðu umfangi og Þjóðverjar.

Björgvin segir framlög Íslendinga í minna lagi miðað við nágrannalöndin, ef þau eru miðuð við stærð hagkerfanna.

„Við hefðum kannski mátt eiga von á því að vera í hærri enda viðmiðunarlanda, bæði með tilliti til stöðu ríkissjóðs, og ekki síðar hlutfall þessara viðkvæmustu greina sem er hjá okkur. Við erum með meira vægi í þjónustugreinum og sérstaklega ferðaþjónustunni en löndin í kringum okkur, og því er það áfall sem dynur á okkur heldur stærra en hjá flestum löndum,” segir Björgvin.

Katrín Ólafsdóttir er sammála: „Allir hagfræðingar heimsins tala um að gera þurfi eins mikið og þarf og frekar meira en hitt og ég treysti að ríkisstjórnin muni gera það.”

Atvinnulífið hefur skipt um ham, það er komið heim í stofu og fer að miklu leyti fram um fjarfundabúnað. Þessi breyting er kannski komin til að vera. Björgvin telur ólíklegt að sumt fari aftur í fyrra horf, til dæmis sjái hann á sínum vinnustað að fólk er fljótt að venjast því að hittast á fjarfundum, í stað þess að fljúga á milli borga og landa til að sitja í sama fundarherbergi.

„Mér finnst íslenskt atvinnulíf hafa brugðist vel við því að leysa þetta svona, en auðvitað eru ekki allir sem geta unnið heimanfrá,” segir hann.

Sigurjón getur til dæmis ekki unnið sem rafverktaki að heiman. En hann  gæti meðal annars nýtt sér frestun skattgreiðslna eða úrræði sem tryggja honum hluta tekna á meðan hann er í sóttkví. Og það getur skipt sköpum fyrir sjálfstæða atvinnurekendur, og lýðheilsu þjóðarinnar.

„Það er freistandi fyrir suma að rjúfa sóttkví, ef það er ekkert að þér, þú ert bara hress, og gætir skotist í eitthvað og reddað, en það á auðvitað ekki að vera þannig,” segir Sigurjón.

En það er ekki eina breytingin sem bíður þegar Covid-faraldurinn er genginn yfir. Gamli heimurinn kemur aldrei aftur.

„Reynslan er sú að það verður annar heimur eftir kreppu,” segir Katrín. „Þau störf sem tapast í kreppu koma ekki til baka, það eru einhver önnur störf sem koma á eftir. En það er kannski ljósið í myrkrinu að eftir kreppu skapast iðulega ný tækifæri.”

Þannig gætu ný störf komið í stað þeirra sem tapast í ferðaþjónustunni. Björgvin sér tækifæri til að skapa nýsköpunardrifið, hagkvæmt og stafrænt samfélag, sem gæti orðið leiðandi á heimsvísu. Og ekki bara þar:

„Við sjáum svo vel núna að við erum hluti af einni heild, á einni plánetu, og ef við gerum þetta saman þá getum við haft brjálæðisleg áhrif,” segir Björgvin og bendir á umhverfismálin. Faraldurinn kunni að hafa efnahagslegar hamfarir í för með sér, en líka þær óvæntu afleiðingar að síkin í Feneyjum hafa orðið tær eftir að ágangi ferðamanna linnti, og loftmengun í Kína hefur dregist saman.

„Við þurfum kannski þennan samtakamátt til að takast á við önnur vandamál og grípa önnur tækifæri í framtíðinni. En við getum ekki gert það ein og sér, við verðum að gera það öll saman,” segir Björgvin.