*

Margir sjúklingar eru hræddir

Sjúklingar sem liggja á COVID-deildum Landspítalans eru margir hverjir hræddir við hvað bíði þeirra. Þetta segir Kristín Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri á A7 sem er ein af COVID-deildum spítalans.

Margir sjúklingar eru hræddir

Samkomubann og hertar aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafa skilað árangri. Gert er ráð fyrir að hápunkti faraldursins verði náð síðar í vikunni, og erfiðast verður að manna Landspítalann þar sem tvöfalt til þrefalt fleiri starfsmenn þarf á COVID-deild en aðrar deildir. Öll starfsemin á spítalanum hefur umturnast.

Kristín segir það einkennandi fyrir þá sem liggja inni vegna COVID-19 hversu ofsalega slappir sjúklingarnir séu og þreyttir.

„Þessi lækkaða súrefnismettun er yfirleitt ástæðan fyrir því að fólk kemur inn,“ segir Kristín. Þá sé fólk gjarnan komið með lungnabólgu, eigi erfitt með að anda og sé úthaldslaust.

„Það þarf ekki annað en að ganga á klósettið, þá er það alveg búið og lengi að ná sér,“ segir Kristín. Fólk sé líka óttaslegið: „Þau sjá engan nema uppáklædda einstaklinga og það er ábyggilega bara mjög óþægileg tilfinning.“

Kristín segir að hafa verði í huga að mikið sé fjallað um sjúkdóminn í samfélaginu: „Fólk er hrætt,“ segir hún. Það viti ekkert hvað bíður þess.

Fjallað verður um stöðuna á Landspítalanum og sýndar myndir þaðan í Kveik í kvöld kl. 20:10. Þar verður líka fjallað um hvernig Íslendingum hefur tekist að hefta framgang faraldursins og talað við höfunda margumtalaðs spálíkans um dreifinguna á Íslandi.

Starfsfólk Landspítalans sinnir nú fjölda sjúklinga sem eru sýktir af kórónuveirunni. (Mynd Landspítalinn/Ásvaldur Kristjánsson)

Í Kveik í kvöld verður líka fjallað um ástandið í New York og meðal annars talað við íslenskan smitsjúkdómalækni sem má segja að sé með heimsfaraldurinn í fanginu, því hún stýrir viðbrögðum á tveimur sjúkrahúsum í borginni.