Vísindamenn leita logandi ljósi að lyfjum og bóluefni

Farsóttin breiðist æ hraðar um heiminn. Á meðan gera vísindamenn hvað þeir geta til að skilja sjúkdóminn og finna meðul. Ef tekst að hægja á faraldrinum gæti það gefið vísindamönnum mikilvægan tíma.

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar — sem hefur tekið sýni úr þúsundum Íslendinga — eru meðal þeirra sem nú rannsaka veiruna. Erfðaefnið er raðgreint og síðan eru upplýsingarnar notaðar til að greina eðli og uppruna vágestsins.

„Við komum hægt og hægt til með að fá einhvers konar sýn á það hvernig veiran breiðist út,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Það séu upplýsingar sem gætu nýst öðrum þjóðum.

Starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar að störfum. Fyrirtækið rannsakar nú erfðaefni kórónuveirunnar. Mynd: Íslensk erfðagreining / Jón Gústafsson.

Vísindamaður Íslenskrar erfðagreiningar, líffræðilegi mannfræðingurinn Agnar Helgason, sýktist af veirunni í skíðaferð og er þess vegna í einangrun heima hjá sér. Þar hefur hann setið og teiknað upp nokkurs konar ættartré veirunnar sem herjar á hann.

Agnar kveðst ekki vera mikið veikur. Þetta sé „bara svona skrítin pest sem að mallar í manni“ og vonandi losni hann við hana sem fyrst.

„Þið getið hugsað um þetta sem einhvers konar Íslendingabók veirunnar,“ segir Agnar um ættartréð. Í raun megi rekja ferð veirunnar sem hann er með í gegnum smitkeðju aftur til kínversku borgarinnar Wuhan.

Agnar Helgason, líffræðilegur mannfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu, situr heima hjá sér með kórónuveikina og teiknar upp það sem hann líkir við Íslendingabók veirunnar.

Þegar veiran fjölgar sér þarf hún að afrita erfðaefni sitt og þá geta orðið stökkbreytingar. „Þegar þú afritar eitthvað þá verða stundum mistök. Mistökin í afritun, það eru stökkbreytingarnar,“ segir Agnar.

Þetta sé sambærilegt við að maður væri beðinn um að skrifa upp texta með 30 þúsund bókstöfum, milljón sinnum. „Þá myndirðu örugglega gera einhverjar villur.“

Agnar segir að stökkbreytingarnar hjálpi vísindamönnum að kortleggja hvaðan smit eru að koma og líka hvernig veiran þróast eftir því sem hún breiðist út.

Ættartréð sýnir hvernig faraldurinn braust út í Kína. Línurnar sýna veiruna þróast yfir í þá gerð sem herjar á Ítalíu, hver appelsínugul tala er stökkbreyting, og frá Ítalíu koma fyrst og fremst þær gerðir sem finnast á Íslandi, segir Agnar.

Hann kveðst ekki vera búinn að sjá röðina af veirunni sem herjar á hann, en mjög líklegt sé að hún sé af hinu ítalska afbrigði.

Kári Stefánsson segir að eftir því sem veiran stökkbreytist geti eiginleikar hennar breyst. Hún geti orðið eins og inflúensan, „sem er veira sem breytist nægilega mikið frá ári til árs að það verður að búa til nýtt bóluefni á hverju ári.“

Agnar segir mjög mikilvægt að þekkja óvininn og kortleggja hann. Bæði hvernig hann sái sér og dreifi sér, en líka hvernig uppskriftin sé að breytast, hvort sjúkdómurinn sé mögulega að verða vægari eða skæðari og svo framvegis.

Kári segir að vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar séu enn ekki farnir að sjá vísbendingar um til dæmis hvaðan veiran sé skæðust, enda sé faraldurinn „bara að byrja, því miður.“

Kári Stefánsson segir að upplýsingar Íslenskar erfðagreiningar gætu nýst öðrum þjóðum.

Athygli vakti þegar Íslensk erfðagreining bauðst til að skima fyrir nýju kórónuveirunni meðal almennings. Fyrirtækið er hluti amerísks stórfyrirtækis sem varð að veita leyfi fyrir þessu.

Kári segist hafa haft samband við yfirmenn hjá móðurfélaginu. „Svarið sem ég fékk til baka var að þetta er gjörsamlega sjálfsagt. Það er ekki bara sjálfsagt heldur er skylda ykkar að gera þetta,“ segir Kári.

„Þarna standa upp þessir eldheitu, miskunnarlausu kapítalistar og sýna að það er einhvers konar mannshjarta einhvers staðar inni í þessum mönnum.“

Kórónuveiruprófin hafa verið þeim takmörkum háð að ekki hefur verið hægt að prófa þá sem hafa fengið veiruna en eru lausir við hana.

En fyrir helgi var kynnt til sögunnar fyrsta mótefnaprófið, sem byggist á blóðprufu þar sem leitað er mótefnis, en ekki bara hvort veiran finnst. Það gæti auðveldað greiningu og gefið enn betri mynd af dreifingunni.

En það er eitt að greina vírusinn og þá sem veikir eru, annað að finna meðferð eða lækningu – hvað þá bóluefni.

Vísindamenn um allan heim þróa lausnir og þær sem hraðast virka eru oft lyf sem þróuð voru við einhverju allt öðru, eru komin í gegnum allar prófanir og hafa jafnvel verið á markaði um hríð.

Ein meðferðin sem hefur skilað árangri er til dæmis að nota afleiðu malaríulyfs sem þróað var 1934. Þetta lyf er þegar komið í notkun á Íslandi.  

Hugmyndin er sú að reyna að afstýra því að fólk fái lungnabólgu eða alvarleg veikindi, segir Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum og prófessor við Háskóla Íslands.

Meðferðin þarf ekki endilega að fara fram á sjúkrahúsi. Magnús segir að til greina geti komið að gefa sjúklingum lyf heima. Þannig sé reynt að draga úr hættunni á að sjúkdómurinn versni, og þar með minnka líkur á innlögn á sjúkrahús og slæmri lungnabólgu.

Fleiri lyf hafa verið prófuð, en enn er of snemmt að segja til um árangurinn.

Tilraun var gerð með blöndu tveggja HIV-lyfja í Kína, og þótt sú tilraun hafi ekki skilað tilætluðum árangri binda vísindamenn enn vonir við þessi lyf.

Í Kína þykir japanskt flensulyf einnig hafa gefið góða raun. Samkvæmt umfjöllun New York Times eru í það minnsta 69 lyf nú í prófunum.

George Yancopoulos, yfirmaður rannsókna hjá bandaríska lyfjafyrirtækinu Regeneron.

Eitt þeirra er gigtarlyfið sarilumab sem byrjað var að prófa á sjúklingum með kerfisbundnum hætti í síðustu viku.

George Yancopoulos, yfirmaður rannsókna hjá bandaríska lyfjafyrirtækinu Regeneron, segir í samtali við Kveik að eftir nokkrar vikur eða einn eða tvo mánuði gætu menn mögulega vitað hvort lyfið hrífur í raun og veru. Þetta séu fordæmalausir tímarammar.

Í millitíðinni er þó mögulegt að nota sarilumab í meðferð þeirra sem eru mjög illa haldnir.

Yancopoulos bendir á að læknar geti ávísað lyfjum fyrir annan sjúkdóm en þau eru framleidd fyrir, ef þeir meta það svo að þau geti hjálpað í baráttunni við öðrum sjúkdómi. „Læknar eru þegar byrjaðir á því,“ segir hann.

Magnús Gottfreðsson telur góðar líkur á því að að læknar verði farnir að beita lyfjum í vaxandi mæli á næstu vikum og mánuðum, eftir því sem niðurstöður fást úr þeim klínísku rannsóknum sem þegar eru hafnar.

„Þetta mun sjálfsagt þróast býsna hratt, sé ég fyrir mér, á næstu fjórum til átta vikum. Svona fram á vorið,“ segir hann.

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum og prófessor við Háskóla Íslands, telur að læknar eigi eftir að beita lyfjum í auknum mæli gegn kórónuveikinni á næstu vikum.

Lyf, sem þróuð eruð sérstaklega til meðferðar á COVID-19, eru líka í þróun en lengra í þau. Og svo er það bólusetningin, eina raunhæfa leiðin til að mynda hjarðónæmi.

Magnús telur allar líkur á að það eigi eftir að taka talsvert lengri tíma að þróa virk og örugg bóluefni. „Það er bara eðli þeirra rannsókna. Þú þarft að fara í gegnum býsna mörg skref,“ segir hann.

„Það er afskaplega ósennilegt að við verðum komin með bóluefni á næstu eina og hálfa, tveimur árum,“ segir Magnús.

Þróun bóluefnis er líka rándýr og árangur óljós í besta falli. Ófáir benda á þetta sem eina ástæðu þess að rannsóknir og þróun á þessum vettvangi sé í skötulíki og heimurinn illa undir svona faraldur búinn. Þjóðríki og alþjóðastofnanir verði að koma að þróun þessara efna.

Sjá einnig: Hvernig er hægt að verjast smiti.

„Eitt er alveg víst út frá þróunarfræðunum að áfram koma upp faraldrar nýrra smitsjúkdóma,“ segir Seth Berkley, smitsjúkdómasérfræðingur og yfirmaður GAVI-stofnunarinnar.

„Og reyndar er það svo að með auknum fólksfjölda, með auknum umhverfisspjöllum, má búast við aukinni tíðni slíkra faraldra,“ segir Berkley. Því sé mest áríðandi hvernig við förum að því að búa til kerfi sem undirbýr okkur fyrir alla þessa sjúkdóma til frambúðar.

Í það minnsta tvö bóluefni við kórónuveirunni eru komin á klínískt tilraunastig, sem þýðir að þau hafa verið gefin fólki í fyrsta sinn.

Bóluefni, sem læknavísindadeild kínverska hersins þróaði, byrjaði í slíkum prófunum fyrir viku og annað í Washington-ríki í Bandaríkjunum.

Jennifer Haller var fyrst til að fá skammt af nýju bóluefni sem nú er verið að prófa í Washington-ríki í Bandaríkjunum.

„Kórónuveiran smitast alls ekki með bóluefninu,“ segir Lisa Jackson, sem leiðir rannsóknina hjá Kaiser Permanente í Bandaríkjunum. Bóluefnið sé ekki búið til úr veirunni og hafi enga hluta veirunnar í sér.

Bóluefnið innihaldi erfðalykil sem fyrirskipar frumum líkamans að mynda prótín, sem veiran býr yfir, til að framkalla ónæmisviðbrögð gegn prótíninu.

„Vonandi flýtir það þá fyrir viðbrögðum ónæmiskerfisins ef viðkomandi smitast af veirunni sjálfri,“ segir hún.

Magnús Gottfreðsson segir að þarna sé verið að nota nýstárlegar aðferðir til að framkalla ónæmissvar.

Til viðbótar sé mjög mikill áhugi á að greina hvers konar mótefni geti myndast í þeim sem lifa sýkinguna af og framleiða þau mótefni í mjög miklum mæli. Ef einhver verði útsettur fyrir veirunni eða veikist megi gefa mótefnin. Þau myndu þá snarlega binda veiruna, hlutleysa hana og drepa, segir Magnús.

Fjöldi vísindamanna og lyfjafyrirtækja um heim allan vinnur í kappi við tímann í leit að lausnum. „Þetta er í raun ekki samkeppni. Við erum virkilega að sameina krafta okkar,“ segir George Yancopoulos hjá Regeneron-lyfjafyritækinu.

„Þarna er maðurinn gegn veirunni. Heill mannkyns er í húfi,“ segir Yancopoulos. Hann vonist til að þetta sé tækifæri fyrir mannkyn að leggja til hliðar ágreiningsefnin og sameinast í baráttunni gegn þessu.

Á meðan heimurinn bíður eftir lyfjum og bóluefni fylgist almenningur glöggt með nýjum upplýsingum um eðli sjúkdómsins og hvernig sé mögulegt að berjast við hann.

Slíkar upplýsingar hreinlega steypast yfir okkur úr öllum áttum, og vitnað er í ýmsar vísindagreinar.

„Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að það sem er verið að birta núna er sett saman í flýti, og það er af mjög misjöfnum gæðum,“ segir Kári Stefánsson, þegar hann er spurður að því hversu mikið mark fólk á að taka á hverri og einni grein. „En flest af því sem er birt er að einhverju leyti rétt.“

Viltu vita meira um kórónuveiruna? Hér má sjá sérumfjöllun Kveiks um faraldurinn.