Kallað eftir ábyrgð gerenda en ekkert handrit til
„Gerendur líta ekkert endilega á sig sem gerendur,“ segir Katrín Ólafsdóttir, aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem nú er að leggja lokahönd á rannsókn sína á sjálfsmynd gerenda í kynferðisbrota- og ofbeldismálum.
„Gerendur líta ekkert endilega á sig sem gerendur,“ segir Katrín Ólafsdóttir, aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem nú er að leggja lokahönd á rannsókn sína á sjálfsmynd gerenda í kynferðisbrota- og ofbeldismálum. Hún segir brotin mjög oft vera þess eðlis að þeir séu einfaldlega ekki búnir að átta sig á umfangi vandans. Það tengist svo oft skrímslavæðingunni, þeir eigi erfitt með að endurspegla sig í umræðunni um gerendur, því þar virðast þeir allir vera skrímsli.
„Um leið og þú ert kominn þangað, allavega eins og umræðan hefur verið, þá kemstu ekkert til baka“, segir Katrín.
Katrín var meðal viðmælenda Kveiks í umræðuþætti um leiðir til bættrar umræðuhefðar og betrunar fyrir gerendur sem ekki eiga heima í réttarvörslukerfinu.
Hún nefnir að í fyrri #metoo-bylgjunni hafi verið byrjað að búa til handrit fyrir þolendur. Þeir hafi núna fleiri orð og möguleika á að setja orð og hugmyndir utan um það hvað þeir gengu í gegnum.
„En samtalið hvað varðar gerendur er bara algjörlega á byrjunarreit. Og það eru engin handrit, það eru engar augljósar leiðir fyrir gerendur að fara. Og þetta er það sem þetta samtal snýst um, allavega starta umræðunni um þetta handrit til þess að sem flestir gerendur líti í eigin barm.“
Katrín segir einnig að það þurfi að beina sjónum að sársaukanum. Öll þessi brot valdi þolendum gríðarlegum sársauka, sem oft sé ekki einu sinni hægt að færa í orð.
„En við hins vegar þurfum kannski líka að leyfa okkur að átta okkur á því að það er líka sársaukafullt að átta sig á því að hafa brotið á einhverjum,“ segir hún.
„Mínar rannsóknir sýna að það er það sem er hluti af vandanum, að það er svo gríðarlega sársaukafullt fyrir geranda að byrja ferlið.“
Katrín segir að yfirleitt byrji þetta sem óþægindatilfinning, „og svo vex hún og vex og vex þangað til þú áttar þig á: Heyrðu, þetta eru ekki bara einhver óþægindi, ég braut af mér. Og svo kemur öll úrvinnslan.“
Katrín segir að gerandinn þurfi að átta sig á ástæðu þess að hann braut af sér og síðan þurfi hann að spyrja sig hvernig hann geti axlað ábyrgð og beðist afsökunar.
Þórður Kristinsson, mannfræðingur og jafningjafræðari segir þetta tengjast karlmennskuhugmyndum, sem hafi almennt séð lítið breyst, þótt finna megi breytingar innan ákveðinna sviða samfélagsins.
„En ég held að ungir karlar séu meira tilbúnir núna til þess að staldra aðeins við og líta í eigin barm og akkúrat ræða karlmennsku sem einhvern tilbúning,“ segir Þórður.
„Þetta er ákveðið leikrit sem við erum að leika“, segir hann. Fjölbreytileikinn í því hvað má og hvað ekki hafi vissulega aukist aðeins, en það þýði ekki að allir séu á sömu blaðsíðu. „Við erum með tvö handrit eins og er núna fyrir gerendur,“ segir Þórður. „Það er að vera skrímsli eða þá bara afneita, ég gerði ekki neitt.“ Hvorugt er líklegt til að skila árangri, segir hann, og því mikilvægt að mjaka samtalinu áfram, samfélaginu öllu til heilla.
„Ég held að það sé gott að taka fram að við verðum að gera greinarmun á þeim sem eru raunverulega kynferðisbrotamenn og þeim sem eru bara dónar,“ segir Edda Falak, fjármálafræðingur og eigandi hlaðvarpsins Eigin konur.
„Ég held að það sé ekki óraunhæf krafa, ef þú ert kynferðisbrotamaður, að þú sért ekki í sviðsljósinu,“ segir Edda.
„Ef að þolendur eru ekki tilbúnir til að fyrirgefa, að þá ertu kannski ekki þar að þú sért stærsti leikarinn á Íslandi eða í stærstu bíómyndinni, þú ert bara aðeins búinn að missa þann rétt að vera andlit samfélagsins,“ segir hún.
„En svo er önnur umræða ef þolendur þínir, ef þú nærð einhverjum sáttum, þá lýkur því bara þar og þá getur þú gert það sem þú vilt með leyfi eða samþykki þolenda þinna.“
Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og dósent í lögreglufræðum hefur fjallað nokkuð um sáttavettvang – utan lögreglunnar. Það sem fellur undir það sem er kallað „uppbyggileg réttvísi“, þar sem lögð er áhersla á réttlæti frekar en refsingar. Að sögn Margrétar hefur slík sáttameðferð reynst mjög gagnleg:
„Í svona sáttameðferð er til dæmis forðast að tala um eða nota orð eins og fórnarlamb, gerandi, ofbeldismaður, af því hún byggir á þeirri trú að fólk sé meira heldur en það slæma sem hefur komið fyrir það, jafnvel það versta, eða það sem það hefur gert á hlut annarra,“ segir Margrét. „Og í raun og veru byggir á þeirri trú að fólk hafi möguleika á að þroskast og breytast.“
Margrét segir það koma mörgum á óvart að þeir sem hafi farið yfir mörk, til dæmis áreitt einhvern kynferðislega, vilji taka ábyrgð á brotum sínum til að geta haldið áfram. Í réttarkerfinu hafi brotamenn hins vegar beina hagsmuni af því að taka ekki ábyrgð á brotum sínum, því það getur haft áhrif á þyngd refsingar.
„Ef að refsing er yfirvofandi, hvort sem hún er óformleg á samfélagsmiðlum eða í réttarkerfinu, þá eru beinir hagsmunir af því að taka ekki ábyrgð. En að gangast við brotunum, að iðrast, það er það sem flestir vilja gera,“ segir Margrét.
Svona sáttameðferð hefur verið í boði hjá Barnahúsi og þá fyrir unga þolendur og unga gerendur. Það hefur þó heldur dregið úr henni þar undanfarið að sögn Margrétar, vegna ótta við að viðurkenning á sekt kalli á refsingu. „Og refsing felst ekki bara í því að þú fáir fangelsisdóm.“
Það kann að sýnast undarlegt að fullorðið fólk átti sig ekki á afleiðingum gjörða sinna eða á því hvar mörkin liggi í samskiptum eða þegar kemur að kynferðissambandi. En þannig er það. „Líka bara af því að samfélagið hefur verið að breytast. Og frekar hratt á síðustu tíu, tuttugu árum. Þar sem að hegðun sem við litum algjörlega framhjá og fordæmdum ekkert sérstaklega fyrir tuttugu árum er fordæmd í dag,“ segir Margrét. „Og það eru ekkert allir — og sérstaklega ungir menn — það eru ekkert allir með þetta alveg á hreinu.“
Margrét nefnir í þessu samhengi lagalega skilgreiningu á nauðgun. Fyrir árið 1992 hafi til að mynda ekki verið hægt að nauðga karlmanni. „Það þurfti að vera getnaðarlimur í leggöng svo það teldist nauðgun.“ Aftur voru gerðar breytingar árið 2007, þar sem meiri áhersla var lögð á samþykki. Enn voru gerðar breytingar 2018 þar sem var fjallað um samþykki með enn skýrari hætti, það teldist til dæmis ekki samþykki ef beitt væri blekkingu eða tælingu.
Eins og Katrín Ólafsdóttir hefur bent á er samfélagið eiginlega á byrjunarreit þegar kemur að gerendum. Ýmislegt virðist þó mögulega vera í bígerð og bendir Margrét til að mynda á úrræði eins og Taktu skrefið sem geti verið gagnlegt fyrir þá sem vilja sækja leiðsögn og fræðslu.
Ólöf Tara Harðardóttir, stjórnarkona í samtökunum Öfgum, tekur undir þetta. „Við erum að stíga fyrstu skrefin okkar í þessu samtali,“ segir hún. Hún telur einhvers konar sáttavettvang góða hugmynd sem gæti mögulega nýst mörgum til að vinna úr sínum málum. Gerendur geti verið hikandi við að hafa samband við þolanda, sem vilji ef til vill ekkert af viðkomandi vita á sinni leið til bata.
„Ef að minn gerandi myndi vilja hafa samband við mig, þá myndi ég vilja að það væri gert í gegnum þriðja aðila, ég myndi ekki vilja fá beinan kontakt“, segir Ólöf Tara.
Sóley Tómasdóttir, kynja- og fjölbreytileikafræðingur telur það að búa til sáttavettvang ekki vera hlutverk samfélagsins. Það hafi ekki verið gerendur sem stofnuðu Stígamót eða Kvennaathvarfið, heldur konur, þolendur.
„Gerendurnir ættu auðvitað að tala sig saman. Læra af því sem konur hafa gert til þess að breyta samfélaginu,“ segir Sóley. „Þeir geta gert það í lokuðum hópum. Þeir geta talað sig saman. Þeir geta fundið leiðir sjálfir til þess einhvern veginn að bæta sig og framkomu sína.“
Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur fjallar um útskúfun, refsingu og fyrirgefningu í nýjustu skáldsögu sinni, Einlægur Önd, sem er nýkomin út. Eiríkur lýsti því á samfélagsmiðlum í tengslum við þá umræðu sem nú er í gangi, að það sé ljóst að við sem samfélag séum að reyna að eiga í samtali sem við séum ófær um að eiga í að óbreyttu. Það sé eins og okkur sé ekki boðin önnur afstaða en miskunnarleysi eða meðvirkni.
„Þessi mikla pólarísering, þar sem við hlaupum svo rosalega hratt til og dæmum. Þá er það ekki bara gerandinn sem er dæmdur heldur allir sem veita þeirri hugmynd eitthvert fulltingi að viðkomandi eigi sér málsbætur, eða eigi sér einu sinni sjónarhorn,“ segir Eiríkur Örn.
„Öll sú samúð sem ég held að sé mikilvæg er flokkuð strax sem gerendameðvirkni og þar með eins konar glæpur í sjálfu sér.“
Þessu er Sóley ósammála: „Við verðum að fara að viðurkenna þá sérfræðiþekkingu sem felst í reynslu og menntun kynjafræðinga og aktívista,“ segir hún. „Þetta er fólk sem talar af reynslu og þekkingu og það er bara alveg eðlilegt að fólk sé ekki að setja fram illa ígrundaðar skoðanir um þessi mál. Það er oft vegna þess að þær skoðanir byggja á raunverulegri meðvirkni.“
Hún segir þetta ósanngjarnt gagnvart þolendum: „Ég held að það sé bara löngu tímabært að við hlustum á þolendur og mætum þeim kröfum sem þeir hafa verið að reisa á samfélagsmiðlum.“
Eiríkur tekur fram að þetta eigi sér rætur í því að réttarvörslukerfið taki ekki enn með fullnægjandi hætti á kynferðis- og ofbeldisbrotum. Brotaþolar leiti því ekki á náðir þess. Það hafi leitt af sér að það sé talin eitruð hugmyndafræði að segja að fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð.
„En í raun og veru vill ekkert okkar búa í þjóðfélagi þar sem sekt er bara ályktuð, eða lækka þær kröfur,“ segir hann. „Við myndum ekki vilja búa við þær aðstæður, ekkert okkar á það skilið.“
Nokkuð hefur verið fjallað um skrímslavæðingu og nauðsyn þess að útrýma henni. Eins hversu miklu skipti að fólk eigi afturkvæmt eftir að hafa brotið af sér, hvort sem um er að ræða lögbrot eða brot á óskráðum reglum samfélagsins.
„En svo þegar við tökumst á við hvert dæmi fyrir sig, þá er gerandinn alltaf of vondur til þess að við getum leyft okkur það,“ segir Eiríkur Örn. „Þegar við síðan horfum á tiltekinn geranda, þá segjum við: Þetta er alveg ófyrirgefanlegt, hann er skrímsli. Ég er ekkert að væða neinn hérna, hann bara er það, og þannig verður engin fyrirgefning, henni er bara hent út um gluggann.“
Eiríkur Örn segir uppgjör í gangi og miklar sveiflur í þjóðfélaginu. Jákvæðar samfélagsbreytingar hafi kostað mikla baráttu yfir lengri tíma og það baráttufólk sé að sinna mjög vanþakklátu starfi, að halda reiðinni kraumandi svo eitthvað verði gert í málaflokknum. Sú barátta þurfi svo einhvers konar andsvar til að jafnvægi náist.
„Ég óttast alveg stundum að þetta fari allt úr böndunum,“ segir hann. „En ég vona svo innilega að við mætumst einhvers staðar og finnum einhverja leið til þess að allir verði sáttir — eða flestir.“