Hvalræði í Skagafirði

„Maður særir ekki dýr og sleppir því lausu vitandi það að það mun að mestum líkindum veslast upp og deyja í þjáningu.“

Hvalræði í Skagafirði

Þessi orð sérfræðings Matvælastofnunar í dýravelferð, sem féllu fyrir ári, sæta svo sem engum sérstökum tíðindum.

Það að sérfræðingur þeirrar stofnunar ríkisins sem hefur það hlutverk að sjá til þess að aðbúnaður og meðferð dýra sé í samræmi við lög, taki svona til orða, ætti að vera vera nokkuð sjálfsagt.

En hvað ef sama stofnun hefur tekið þátt í aðgerðum sem ganga í berhögg við þessi ummæli? Já eða samsvarandi lög? Og hvað ef tilkynning um slíkt atvik virðist hafa horfið hjá stofnuninni?

Kveikur hefur undanfarið rannsakað slíkt mál. Aðgerð yfirvalda sem kölluð voru til vegna hnúfubaks sem flækst hafði í veiðarfærum í Skagafirði fyrir um einu og hálfu ári. Aðgerð sem í öllu falli mistókst.

Hvalasérfræðingur segir aðgerðir stjórnvalda þennan dag hafa endað sem margra klukkustunda pyntingu fyrir dýr sem auðveldlega hefði mátt bjarga.

Þekkingarleysi, röng vinnubrögð og skeytingarleysi hafi verið vítavert og augljóslega í andstöðu við dýraverndunarlög.

Matvælastofnun, lögregla, sveitarfélagið Skagafjörður og Landhelgisgæslan komu öll að málum þennan dag, mismikið þó.

Ekkert þessara yfirvalda gengst við öðru en aðstoð við aðgerðir annars yfirvalds.Það virðist sem sagt enginn taka á sig ábyrgð á því sem gerðist, jafnvel þó haldið sé fram að ekkert hafi verið við aðgerðina að athuga.

Línubáturinn Bíldsey SH lagði af stað frá Siglufirði í blíðu og stilltu haustveðri um klukkan fimm að morgni fimmtudagsins 8. nóvember 2018. Ferðinni var heitið inn á Skagafjörð. Um borð voru fjórir skipverjar.

Litlir yfirbyggðir plastbátar, eins og Bíldsey, láta ekki mikið yfir sér en hafa á undanförnum áratug oftar en ekki fært að landi afla á við margfalt stærri togara.

Vinnan um borð er líka erfið eftir því.

Línan er lögð í rauðabítið hvern morgun, stutt hvíld gefst þá þar til farið er að draga línuna.

Fiskist vel — eins og jafnan gerir á slíkum bátum — er svo staðið við frá því fyrir hádegi og fram eftir degi. Línan dregin, blóðgað og afla komið í lestar bátsins, áður en siglt er í land og landað.

Og það er ekki ofsagt að segja erfitt að standa vaktina um borð í þessum bátum. Á stanslausri hreyfingu verða menn að vera lagnir við að standa í lappirnar; skorða sig eða halda sér við vinnu sína.

Þetta er ekki staður fyrir sjóveika.

Dagarnir verða auðveldlega langir á þessum litlu sérkennilega útlítandi bátum; sem ferðamenn hafa oft talið húsbáta þegar þeir virða þá fyrir sér liggjandi við bryggjur landsins á sumrin.

Áttundi nóvember 2018 varð óvenjulangur um borð í Bíldsey. Ástæðan var þó önnur en mokfiskerí.

Stundarfjórðungi fyrir tíu um morguninn var stuttri hvíld eftir línulögn morgunsins lokið.

Mannskapurinn skreið úr koju og greip sér kaffi í þröngu stýrishúsinu með þeim skipverjanna sem dregið hafði stutta stráið; þurft að sitja vakandi yfir félögum sínum og fylgjast með reki bátsins og veiðarfærunum meðan á hvíldinni stóð.

Standa baujuvaktina.

Skipstjórinn, Pétur, tók því næst við stýrinu. Setti stefnuna á baujuna sem markar þann enda línunnar sem dreginn er um borð – ef að líkum lætur, full af fiski. Nú skyldi dregið.

Á myndbandi sem einn hásetanna um borð, Árni Valgarð Stefánsson, tók klukkan 9:44 um morguninn sést og heyrist hvað fór skipverjunum á milli þegar þeir sáu hvað blasti við baujuna.

„Verður ekki að tilkynna þetta? Já verður ekki að gera það? Ég held það! Hvað geta þeir gert í þessu? Þeir geta losað þetta,“ heyrast þeir segja sín á milli eftir að þeim er orðið ljóst að við baujuna, búinn að hringa reipi og belgjum um sporð sér, er hvalur.

„Hrefna,“ heyrast þeir segja.

Þegar Kveikur hitti tvo skipverjanna, Árna Valgarð og Gunnar Þór Óðinsson, á Siglufirði nú í mars, rifjuðu þeir upp atburðarás dagsins í sameiningu yfir kaffisopa á gömlum vigtarskúr á Siglufirði, sem búið er að breyta í veitingahús.

Þeir segja að eftir að þeir hafi áttað sig á hvað væri á ferðinni hafi skipstjórinn haft samband við Vaktstöð Siglinga og þannig náð í Gæsluna. Sem í svari til Kveiks lýsir aðkomu sinni að málinu svona:

„Klukkan 9:45 þann 8. nóvember 2018 var Landhelgisgæslan upplýst um að hrefna væri föst í veiðarfærum Bíldseyjar. Landhelgisgæslan hafði í kjölfarið samband við Hafrannsóknastofnun sem kom málinu til Matvælastofnunar. MAST bað um að rætt yrði við héraðsdýralækninn á Sauðárkróki og var það gert. Þegar rætt hafði verið við héraðsdýralækninn á Sauðárkróki kom stjórnstöð Landhelgisgæslunnar málinu til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu.“

Árni og Gunnar segja að Gæslan hafi því næst komið Bíldsey í samband við Matvælastofnun, sem hafi í gegnum lögreglu óskað þess að bátnum yrði siglt til hafnar á Hofsósi. Þangað var stutt sigling eða um tíu til fimmtán mínútur inn að bryggju.

„Við héldum að við værum að ná í björgunarsveit til að skera hann lausann,“ segir Árni Valgarð, sem aldrei er kallaður annað en Árni Biddu, í heimabæ sínum Siglufirði, þar sem menn eru oftar en ekki kenndir við mæður sínar en feður.

Árni Valgarð Stefánsson, eða Árni Biddu eins og hann er kallaður á Siglufirði, fyrrverandi skipverji á Bíldsey SH.

Árni yrði seint tekinn í misgripum fyrir millistjórnanda í fjármálafyrirtæki, með stórt og mikið akkeri húðflúrað á hálsinn og fleiri flúr í þessu sama þema á handleggjunum.

Sjómaður í húð og hár.

Ríflega fimmtugur hefur hann verið meira og minna á sjó í fjóra af þessum áratugum. Á togurum og smábátum. Nú í vor á leið á sína 20. grásleppuvertíð. Þegar við hittum hann var hann nýkominn í land efitr mánaðartúr á frystitogara að vestan.

Aftur að bryggjunni á Hofsósi. Nóvemer 2018.

Eftir um 20 mínútna bið við bryggjuna sáust blá blikkandi ljós lögreglubíls nálgast á mikilli ferð.

Út úr bílnum stigu tveir lögreglumenn og maður sem kynntur var sem skytta á vegum sveitarfélagsins Skagafjarðar. Hópurinn var ekki tómhentur. Með í för voru þrjár byssutöskur. Tveir öflugir rifflar og ein haglabyssa. Skotfæri í tugatali.

„Svo komu þeir, hoppuðu út úr bílnum, horfðu bara á okkur og spurðu: Hvar er hann,“ segir Gunnar Þór. „Þá heldu þeir að við værum bara með hrefnu hérna við bryggjuna sem ætti að lóga. Og þeir vissu náttúrulega ekkert hvað þeir voru að fara að gera.“

Gunnar Þór rifjar þetta upp standandi á bryggjunni á Hofsósi. Hann er ríflega þrítugur. Líka Siglfirðingur. Búinn að vera á sjó, meira og minna síðan hann var unglingur. Alinn upp við að róa með pabba sínum og afa. Var kominn með eigin bát um tvítugt.

Í bílnum á leiðinni rifjar hann upp daginn sem hann var á grásleppu á bátnum sínum úti fyrir Skaga, þegar mamma hans hringdi og sagði honum að ísbjörn hefði rétt í þeim töluðu orðum verið skotinn uppi á landi. Rétt hjá þeim stað þar sem Gunnar var við veiðar.

Björninn sem var skotinn stuttu eftir að hann kom að landi á Skaga, hafði að öllum líkindum synt framhjá báti Gunnars á leið sinni frá ísröndinni og að landi. Eftir það segist Gunnar glottandi hafa haft fyrir reglu að læsa að sér stýrishúsinu.

En aftur að efninu. Hofsós, 2018.

Strax á bryggjunni, um ellefu um morguninn, segjast þeir Árni og Gunnar Þór hafa leiðrétt þann misskilning fyrir fulltrúum yfirvalda að hvalurinn sem flæktur væri í veiðarfærum úti á firðinum væri hrefna.

Þannig væri það alls ekki. Um væri að ræða mun stærri skepnu: Hnúfubak.

Hnúfubakurinn, alfriðuð skepna, fastur í veiðarfærum Bíldseyjar á Skagafirði.

Um þetta atriði greinir þá á við lögregluna, eins og síðar verður tæpt á.

Fullorðinn hnúfubakur getur orðið allt að 40 tonn að þyngd og 17 metrar langur. Til samanburðar er fullvaxin hrefna sögð þyngst 8 tonn og lengst um 10 metrar.

Hrefna er auk þess nytjastofn við Ísland en hnúfubakar alfriðaðir á heimsvísu. Það hafa þeir verið síðan á sjöunda áratug síðustu aldar að ofveiði hafði nær riðið stofninum að fullu.

Stofninn hefur braggast verulega síðan þá. Hátt í 20 þúsund hnúfubakar eru taldir í hafinu hér við land um þessar mundir og hafa þar með tekið tekið fram úr hrefnum, sem verið höfðu stærstur hvalastofna við landið.

Það er því orðið algengara og algengara að hálfgerðar vöður hnúfubaka sjáist á fjörðum og flóum.

Allt upp undir 30 dýr hafa gert sig heimankomin á Skjálfandaflóa í einu, hvalaskoðunarfólki til mikillar gleði. Enda eru hnúfubakar oft álitnir óvenju gæfir í samanburði við aðra stóra hvali.

Þessi fjölgun og fyrirferð hnúfubaksins víða um land hefur líka orðið til þess að skapa annan vanda. Veiðarfæri sjómanna; net, nætur og línur, sem lagðar eru í sjó, hafa orðið hnúfubökum farartálmi og þeir flækst í þeim oft og ítrekað undanfarin ár.

Erlendis er lögð rík áhersla á losa skepnurnar og þyrma þar með lífi þeirra þegar svona stendur á.

Það þótti á sínum tíma stórhneyksli þegar yfirvöld á Grænlandi neyddust til að aflífa hnúfubak eftir að í ljós kom að hann hefði fengið í sig skot frá óþekktum byssumanni og var því særður.

Grænlensk stjórnvöld sögðu málið valda þjóðinni meiriháttar álitshnekki í samfélagi þjóðannna. Grænlendingar eru þó meðal fárra frumbyggjaþjóða sem fengið hafa leyfi til að veiða fáa hnúfubaka hvert ár.

Líkt og á Grænlandi hefur þurft að grípa til þess ráðs að aflífa hnúfubaka, ýmist vegna þess að þeir höfðu strandað og ekki var hægt að bjarga þeim á flot eða þeir drápust áður en björgun tókst.

Verklagsreglur um hvað gera skuli vegna hvala í neyð miðast enda eingöngu við björgun þeirra á landi; það er þegar þeir hafa strandað. Öðru máli gegnir um hvali sem lenda í sjálfheldu vegna veiðarfæri úti á sjó.

Fyrir nokkrum árum var fjallað um það í fjölmiðlum að koma þyrfti upp sérstöku aðgerðarteymi til þess að breðgast við fjölgun hvalanna og samsvarandi fjölgun tilfella sem þessara.

Það að bjarga hvölunum hefur líka verið gert með góðum árangri hér á landi, nú síðast fyrir rétt um hálfum mánuði í Eyjafirði með aðstoð björgunarsveitarinnar á Dalvík.

Árið 2014 gerðist það svo á svipuðum slóðum í Skagafirði að hnúfubakur festi sig í netum. Í því tilfelli kom Landhelgisgæslan á slöngubát og tókst að skera hnúfubakinn lausan eins og sést á meðfylgjandi myndbandi.

Einhverra hluta vegna voru önnur viðbrögð uppi á teningnum fjórum árum síðar, í Skagafirði í nóvember 2018. Tríóið úr lögreglubílnum kom um borð í Bíldsey, ásamt vopnum sínum, og bað um að stefnan yrði tekin út á fjörðinn.

„Ég hefði viljað vera eftir í landi frekar en þetta,“ segir Gunnar um það sem á eftir kom.

Samkvæmt upplýsingum úr sjálfvirkum staðsetningargögnum Bíldseyjar var lagt í hann frá Hofsósi út á fjörð klukkan 11:20g. Bíldsey kom ekki aftur að landi á Hofsósi fyrr en að ganga fimm síðdegis.

Í millitíðinni eltust skytturnar við hnúfubakinn þvers og kruss um fjörðinn og skutu á hann til þess að reyna að aflífa hann.

„Þeir byrja bara að skjóta strax. Það er ekki beðið í eina mínútu,“ segir Árni þegar hann rifjar upp fyrstu mínúturnar eftir að búið var að sigla með þessa þrjá fulltrúa yfirvalda og vopn þeirra út að hnúfubaknum.

Hvalurinn var eltur klukkustundum saman og skotið á hann.

Lögreglan segir þannig frá að þegar komið hafi verið að hvalnum stuttu fyrir hádegið hafi enn ekkert legið fyrir að um væri að ræða hnúfubak en ekki hrefnu. Einungis dökk þúst hafi verið sjáanleg af hvalnum og því gert skyttunum erfitt um vik að átta sig á því hvers kyns væri.

Samt hafi verið skotið á hvalinn.

Fyrst þá hafi yfirvöldum um borð orðið ljóst að um hnúfubak var að ræða.

Ekki hrefnu.

Og strax sett sig í samband við Matvælastofnun, sem hafði metið það sem svo að úr því búið væri að skjóta einu skoti í hnúfubakinn, væri ekkert annað að gera en að halda því áfram og klára málið: Aflífa hann.

Og því hafi aðgerðinni verið haldið áfram og skotið á hvalinn og hann eltur í þeirri von að tækist að aflífa hann.

Þessi frásögn lögreglunnar stangast hins vegar á við frásögn skipverjanna tveggja, eins og áður segir.

Þeir segja misskilninginn hafa verið leiðréttan við yfirvöldin á bryggjunni áður en lagt var í hann. Það hafi hins vegar engin áhrif haft á fyrirætlanir yfirvalda um borð í Bíldsey þennan dag.

„Og voru svo bara á leiðinni út að finna leiðbeiningar hvernig ætti að drepa hnúfubak. Á netinu,“ segir Gunnar Þór. Árni bætir við að hann hafi bent skyttunum á að tæplegast væri mikið af lesefni á Google um hvernig drepa ætti alfriðaðar skepnur eins og hnúfubak.

Myndbönd sem þeir Gunnar Þór og Árni tóku og tímasett eru á bilinu 11:34 til 11:44 draga upp nokkuð aðra mynd af því hvernig hvalurinn blasti við um það leyti sem Bíldsey kom fyrst að honum með skytturnar.

Á stuttu myndbandi sem er tekið um það leyti sem báturinn kom fyrst að hvalnum, eftir siglingu frá Hofsósi, er hvalurinn vel sjáanlegur marandi í hálfu kafi. Höfuð og sporður sjást vel í yfirborðinu.

Myndbönd sem tekin eru tveimur og þremur mínútum síðar sýna hann svo vel sprækan ekki langt frá bátnum.

Myndbönd sem tekin eru klukkan 11:40 annars vegar og 11:44 hins vegar, sýna svo hvernig þrívegis er skotið á hvalinn.

Gunnar og Árni tóku mynböndin á síma Árna af þaki Bíldseyjar, en skytturnar sjást þá athafna sig út um lúgu á hlið bátsins.

Á ljósmyndum sem svo teknar eru um klukkan 13:00, sjást skipverjar og lögregla bregðast við á meðan skotið er á hvalinn. Eftir að þær myndatökur niðri á dekki bátsins hafi lögregla svo bannað allar myndatökur um borð.

„Þá hafa þeir greinilega áttað sig á því að þetta væri ekki gott sjónvarpsefni. Þeir vissu ekkert af þessum vídeóum en bönnuðu okkur það samt af því að þetta væri friðað dýr og alveg bannað,” segir Gunnar sem telur að í heildina hafi ekki undir 50 skotum verið skotið á hvalinn þennan dag.

Ekki minna en fimmtíu. Fimmtíu til sextíu,” segir hann aðspurður, og Árni telur það frekar varlega áætlað en hitt.

Þegar Kveikur óskaði upplýsinga frá lögreglu um hversu mörgum skotum hefði verið skotið þennan dag, fékkst ekki nákvæmara svar en svo að þau hefðu verið „all nokkur,“ eins og það var orðað.

„Ég fékk nóg á tímabili. Setti á mig heddfóna og músík og fór inn og lagði mig í tvo tíma,“ segir Árni. „Kem svo fram og var að vona að þetta væri búið. Þá eru þeir enn að skjóta.“

Skothríðin og eltingaleikurinn stóð raunar allt fram í myrkur að lögreglan ákvað að hætta aðgerðum og bað um að þeim yrði skutlað í land. Þá hafði ekki enn tekist að aflífa hnúfubakinn.

Svo virðist sem botnfestan sem heft hafði hnúfubakinn frá því að flýja út fjörðinn hafi losnað stuttu áður en aðgerðunum var hætt. Sá hluti veiðarfæranna sem olli honum alvarlegustum vanda var þó enn flæktur um sporð hans auk þess sem hann var nú að öllum líkindum illa særður orðinn eftir skothríðina yfir daginn.

Hnúfubakurinn var því skilinn eftir særður fjöldamörgum skotsárum, með belgi og bauju vafða um sporðinn.

Þannig tókst hvalnum þó loks að yfirgefa fjörðinn við illan leik, um leið og eltingaleiknum lauk.

„Það var orðið of dimmt og skotin voru búinn,“ segir Gunnar aðspurður um hvaða skýring var gefin fyrir að hætta aðgerðunum.

„Og þá kemur orð frá Reykjavík um að hann hljóti að drepast. Og þá fórum við bara með þá í land og sigldum aftur út til að byrja okkar vinnudag þá var hann farinn,“ segir hann.

„Og ef hann hefur ekki dáið af sárum sínum, sem hann hefur væntanlega gert, og vonandi, þá hefur hann soltið í hel, því hann gat ekki kafað og náð sér í mat,# segir Árni og bætir við:

„Ég man að við sögðum báðir, þegar skotin voru að verða búin: Af hverju í andskotanum skjótið þið ekki á belgina, alla vega, gefið honum séns. Skjótið á belgina, skjótið á belgina. Þeir bara: Nei!“

Gunnar Þór bætir við að í síðustu skottilrauninni hafi haglabyssunni verið beitt á hvalinn. Tilraun sem eins og allar hinar fyrri náði ekki tilætluðum árangri.

Samkvæmt svari Landhelgisgæslunnar til Kveiks var það svo ekki fyrr en að morgni næsta dags, 9. nóvember, sem Matvælastofnun tilkynnti Gæslunni að hnúfubakurinn væri særður og bað um aðstoð þyrlu til að finna og aflífa hann. Vernsnandi veður kom þó í veg fyrir það væri reynt.

Það svar rímar þó ekki við svar Matvælastofnunar, þess efnis að seinni part þess áttunda hafi skytturnar um borð í Bíldsey haft samband í land og þaðan komið beiðni til Landhelgisgæslunnar um aðstoð við að aflífa hvalinn og jafnframt spurt Gæsluna um aðstoð við að fá öflugri vopn.

Að sögn Matvælastofnunar á Gæslan að hafa svarað því til að hún gæti ekki veitt aðstoð á þeim tímapunkti, né heldur hefði hún yfir að ráða stærra eða hentugra vopni.

Landhelgisgæslan lýsir því hins vegar þannig í sínu svari að einu upplýsingarnar sem borist hafi eftir hádegi þann 8. nóvember hafi verið sem hér segir:

„Klukkan 15:29 var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýst um það af héraðsdýralækninum að um hnúfubak sé að ræða.“

Og þarna er ekkert minnst á beiðni um aðstoð, hvort sem er á staðnum eða við öflun stærri vopna.

Hver örlög hnúfubaksins hafa orðið eftir að sást til hans flýja Skagafjörðinn að kvöldi þessa dags er ekki vitað með vissu. Hann hefur þó ekki lifað lengi í þessu ástandi.

Ástandi sem auðveldlega hefði mátt komast hjá að yrði hlutskipti hnúfubaksins, að sögn Eddu Elísabetar Magnúsdóttir, aðjúnkts í líffræði og sérfræðings í líffræði og atferli hvala. Edda hefur undanfarin ár rannsakað hegðun og atferli stórhvela og einkum hnúfubaka við Íslandsstrendur.

Hún kynnti sér gögn og upplýsingar um aðgerðirnar í Skagafirðinum haustið 2018 og segir fátt ef nokkuð hafa verið í lagi við hvernig staðið var að málum þennan dag:

„Þarna er verið að misbjóða dýrinu. Verið að pynta það,“ segir Edda sem telur stærstu mistökin vera þá ákvörðun að aflífa hvalinn. Hvort sem um var að ræða misskilning á því hverrar tegundar hann væri.

Hvalurinn hafi verið lítið vafinn um sporðinn, nýbúinn að festa sig, og því ekkert sem koma hefði átt í veg fyrir að honum yrði bjargað, rétt eins og gert hafi verið bæði áður og eftir við svipaðar og oft verri aðstæður. Sjólag virðist gott og aðstæður allar til þess í umrætt sinn að sögn Eddu:

„Þarna eru allar forsendur fyrir því að fara af stað og reyna að bjarga dýrinu, fyrst og fremst.“

Edda bendir á að löng hefð og reynsla sé komin á að bregðast við í slíkum tilfellum um allan heim, þar sem hvalir eiga til að festast í veiðarfærum eins og hér við Ísland.

Það sé umhugsunarefni fyrir Íslendinga að ekki hafi verið staðið betur að málum af hendi yfirvalda í landi sem er heimili stórs hluta af stofni hnúfubaks í heiminum.

Atvik eins og það í Skagafirðinum hefði aldrei gerst fyrir tilstilli yfirvalda í öðrum strandríkjum sem hún þekkir til í, segir hún, austanhafs og vestan.

Í Kanada eru til dæmis nákvæmar verklagsreglur um björgun og aflífun hvala. Þær ráða eindregið gegn því að reynt sé að aflífa  stóra hvali eins og hnúfubaka með skotvopnum.

Það sé einungis hægt íundantekningartilfellum við hrefnur, en þá alls ekki ef dýrið er í hálfu kafi, samkvæmt ráðgjöf kanadíska rannsóknarráðsins.

Sérstakt viðbragðsteymi var fyrst sett saman hér á landi í fyrra, að ósk Matvælastofnunar. Teymið kom til dæmis að strandi grindhvalanna í fyrrasumar og björgun hnúfubaksins í Eyjafirði á dögunum.

Edda Elísabet Magnúsdóttir hvalasérfræðingur.

“Ef að sérfræðingar meta aðstæður þannig að þessu dýri verði ekki bjargað að þá auðvitað er eðlilegt að skoða það hvernig sé best að aflífa dýrið,“ segir Edda sem verið hefur hluti af þessari vinnu.

Hún segist ekki undrandi á því þó mistekist hafi að aflífa dýrið, jafnvel þó það hafi særst undan skothríð riffil- og haglaskota, í marga klukkutíma.

Allt mæli gegn því að nota slík skotvopn á svo stóra skepnu, sérstaklega við þessar aðstæður.

Það geti alltaf komið til þess að aflífa þurfi dýr eins og þessi. Að ekkert annað sé í stöðunni.

„Það er ekki gert með þessum hætti. Úr þessari fjarlægð, í vatni með riffli, og enn síður haglabyssu. Þetta er bara að fara að særa dýrið. og þar sem byssumennirnir standa neðarlega, í raun bara í sjónlínu við hvalinn, þá eru ofboðslega litlar líkur á því að þeir séu að fara að komast í það sem kallast almennilegt færi,” segir Edda.

Edda segist sleginn yfir því að sjá af hversu miklu þekkingarleysi er gengið fram í aðgerðum yfirvalda þennan dag. Öll þekking, tækni og viðbrögð séu vel þekkt og til staðar hér á landi.

Engu að síður sé versta mögulega leið valinn. Dýrið sé pyntað í fimm klukkustundir. Það sé einfaldlega lögbrot.

„Það er það sem maður er svo ofboðslega sleginn yfir,“ segir Edda.

Samkvæmt lögum um dýravelferð varðar það allt að eins árs fangelsi að beita dýr illri meðferð af einhverjum toga.

Í lögunum er sérstaklega fjallað um bann við því að ofbjóða dýri, yfirgefa það bjargarlaust eða misbjóða því á sambærilegan hátt.

Eins er skylt að aðstoða veik eða særð dýr, og sé nauðsynlegt að aflífa dýr skuli það gert með skjótum og sársaukalausum hætti, og forðast að valda því hræðslu eða óþarfa þjáningum.

Þeir sem ekki tilkynna yfirvöldum um að brotið hafi verið gegn lögunum geta svo átt von á allt að árs fangelsi.

Stofnunin sem á að taka við tilkynningum, rannsaka og úrskurða um brot á þessum dýravelferðarlögum er Matvælastofnun. Sama stofnun og kom að misheppnaðri aflífun hnúfubaksins í Skagafirði í nóvember 2018.

Raunar ber lögreglu og Matvælastofnun ekki alveg saman um hver hafi raunverulega stjórnað eða borið ábyrgð á því sem fram fór.

Lögreglan segist einungis hafa verið að fylgja fyrirmælum sérfræðinga Matvælastofnunar, sem lögreglumenn hafi ráðfært sig við í hverju skrefi málsins.

Matvælastofnun segist einungis hafa verið að veita ráðgjöf þeim sem framkvæmdu. Þeir, lögreglan, beri því ábyrgð. Matvælastofnun hafi því tekið réttar ákvarðanir í málinu, út frá þeim upplýsingum sem fyrir lágu. Upplýsingum frá lögreglu.

„Við fáum bara tilkynningu um að þarna sé dýr í neyð. Lögreglan upplýsir okkur um það. Segir að þarna sé hrefna,“ segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir Matvælastofnunar, í viðtali við Kveik, spurð um ábyrgð Matvælastofnunar á atvikinu.

Sigurborg segir að síðar sama dag hafi svo lögreglan tilkynnt Matvælastofnun um tegundaruglinginn. Hnúfubakurinn væri þá kominn með skotsár og þá hafi verið ákveðið að ekki væri annað hægt en að aflífa hnúfubakinn.

Yfirdýralæknir segir það alls ekki þýða að það feli sér mistök, enda telji hún að sömu aðferðum sé hægt að beita við aflífun hnúfubaks og hrefnu. Lögum samkvæmt beri svo að aflífa dýr með skjótum og sársaukalausum hætti.

Spurð hvort margra klukkutíma árangurslaus tilraun til að aflífa hnúfubakinn hafi verið í anda þessa sagðist Sigurborg ekki hafa upplýsingar um hvernig staðið hefði verið að málum. Því gæti hún ekki metið það.

Aðgerðum hefði verið hætt eftir að óskað var aðstoðar Landhelgisgæslunnar við að aflífa dýrið, seinni part dagsins. Gæslan hafi ekki haft ráð til þess á þeim tíma.

Hættulegt sé að nálgast svo stóra hvali og því telji hún að ekki hafi verið hægt að grípa til annars en að hætta aðgerðum þarna um kvöldið. Degi síðar hafi svo hvalurinnn verið horfinn.

Spurð hvort margt bendi ekki til þess að aldrei hafi þurft að aflífa dýrið, eða reyna það, segist Sigurborg ekki geta dæmt um það það.

Dýravelferðarlög eru nokkuð skýr þegar kemur að því skyldu manna til þess að tilkynna um möguleg brot á lögunum og illa meðferð dýra. Það að gera það ekki getur þannig varðað sömu refsingu og hámarksrefsingu við því að fremja brot á dýri, eins árs fangelsi.

Árni Valgarð og Gunnar Þór telja augljóst að yfirvöld hafi brotið lög þennan dag og bar því að tikynna um brotið. Og það segjast þeir einmitt hafa gert.

Matvælastofnun virðist hins vegar álíta að það sé ekki sama hver tilkynni um slík brot og hvenær.

Árni og Gunnar áttu nefnilega sjálfir eftir að sæta rannsókn Matvælastofnunar vegna dýraníðs hálfu ári eftir atburðina í Skagafirðinum. Í máli sem vakti heimsathygli.

Gunnar Þór Óðinsson og Árni Valgarð Stefánsson, fyrrverandi skipverjar á Bíldsey SH.

Í maí 2019 má segja að internetið hafi farið á hliðina þegar myndband sem sýndi hvernig sjómenn á línubátnum Bíldsey SH virtust gera sér að leik að skera sporðinn af grænlándshákarli og sleppa honum síðan sporðlausum aftur í hafið.

Myndband sem einn skipverjanna hafði tekið af atvikinu fór sem eldur í sinu um netið og fréttamiðla, bæði hér á Íslandi og erlendis, ítrekað og margoft.

Viðbrögðin urðu allsherjar fordæming og raunar rúmlega það því til þessa dags skipta skilaboð sem skipverjunum þremur hafa borist hundruðum þúsunda, alls staðar að úr heiminum.

Í mörgum tilfellum innihalda skilaboðin grófar hótanir gegn skipverjunum, fjölskyldum þeirra og jafnvel börnum; beinar morðhótanir skipta hundruðum.

Einna mest munaði um tíst bandaríska leikarans Jasons Momomas, Aquaman og Game of Thrones, sem vakti enn meiri athygli á málinu.

Skipsfélagarnir tveir af Bíldsey eru enn tæpu ári síðar að fá send skilaboð frá fólki um allan heim, oft grófar hótanir, vegna málsins.

Þegar Kveikur átti fund með Árna og Gunnari í lok febrúar á þessu ári barst ein slík hótun til Gunnars í gegnum samfélagsmiðil á meðan á þeim fundi stóð.

Bíldsey SH var degi eftir atvikið í landi á Snæfellsnesi þegar lögregla handtók einn skipverjanna, Árna Valgarð, en hann var þá grunlaus um það fár sem var þá þegar hafið eftir birtingu myndbandsins.

Árni var færður á lögreglustöð þar sem hann gekkst við því að hafa skorið sporðinn af hákarlinum, eins og hann lýsti að væri oft eina ráðið þegar hákarlar flæktu sig í veiðarfærum línubáta og línan væri föst þegar verið væri að draga hana.

Aðstæður um borð, og ekki síður ástand hákarlanna sem sitja fastir með línuvafning í sporðinum, séu þess eðlis að bæði sé ekki annað í stöðunni en að skera þá lausa, auk þess sem það sé það eina mannúðlega sem hægt sé, þegar línugirnið hefur grafið sig djúpt inn í hold og brjósk hákarlsins.

Matvælastofnun brást strax við og hóf rannsókn á málinu, enda benti allt til þess að í því fælist dýraníð, sem varðaði við lög.

Hér sést hákarlinn eftir að sporðurinn hafði verið skorinn af honum.

Árni gekkst því við því að hafa verið sá sem skar hákarlinn lausan og benti á að stærð dýrsins væri slík að ekki hefði verið hægt að ná því um borð til þess að reyna að losa það, eða drepa, þar sem aðstæður um borð væru þannig, enginn krani til staðar og einungis lítil lúga á yfirbyggðum bátnum sem dýrið kæmist ekki inn um.

Að öðru leyti lýsti Árni því við lögreglu að það væri alvanalegt að gera eins og þarna var gert.

Það að atvikið hefði verið tekið upp á myndband og skipverjarnir sést hlæja og gera grín að sporðlausum hákarlinum, væri hins vegar óafsakanlegt með öllu.

Síðar áttu fjölmiðlar eftir að birta myndband sem tekið var af ónefndum línusjómanni og átti að sýna hvernig hákarl væri skorinn úr línu án þess að hann bæri skaða af.

Árni, Gunnar Þór Óðinsson og Halldór Gústafsson voru síðar sama dag allir reknir úr fimm manna áhöfn Bíldseyjar. Gunnar og Halldór Gústafsson höfðu tekið myndbandið og verið í mynd en Árni hafði þá gengist við því að hafa skorið hákarlinn lausan.

Þeir gangast sem fyrr við því að hafa hegðað sér með óafsakanlegum hætti þegar þeir tóku myndbandið, og segjast sjá eftir því að hafa gert það.

Hvað sem líði skýringum þeirra á nauðsyn þess að skera lausan hákarlinn, dragi þeir ekki dul á að hegðun þeirra hafi verið ógeðfelld og eðlilega gengið fram af fólki. Aðstæðurnar hafi hins vegar ekki boðið upp á annað.

„Við vorum á línuveiðum, rúmlega hálfnaðir að draga. Lína var föst. Svo bara kemur hákarlinn upp. Og alveg þétt upp við bátinn. Þetta er alveg á staut og er bara alveg eins og vír,“ segir Árni.

„Hann var náttúrulega tættur og sundurvafinn, svona tvöfalt, þrefalt efni sem hefur náð að herðast og grafast inn í sporðinn á honum“ segir Árni, og Gunnar Þór bætir við að því hafi þeir gert það sem þeir töldu það eina ásættanlega í stöðunni. Valið hafi snúist um að skera burtu veiðarfærin eða hákarlinn.

„Og útskýra fyrir útgerðinni hvers vegna við hefðum komið línulausir í land en með hákarlinn í staðinn. Sem er svona eins og hálfs milljóna króna tjón,“ segir Gunnar.

Hálfu ári síðar, eða í september 2019, barst Árna Valgarð bréf frá MAST — Matvælastofnun — þar sem honum var tilkynnt um að stofnunin hefði ákveðið að sekta hann um 460 þúsund krónur fyrir brot á dýraverndarlögum.

Brot á þeim lögum geta varðað fangelsi eða fjársektum, eftir alvarleika brotanna. MAST taldi sum sé að myndbandið og játning Árna sönnuðu að hann hefði gerst sekur um illa og vanvirðandi meðferð á dýri og gaf lítið fyrir skýringar hans.

Á meðan Matvælastofnun var með málið til meðferðar kváðust þeir félagar hafa furðað sig á því hvernig stofnun, sem þeir töldu ábyrga fyrir dýraníði í tilfelli hnúfubaksins, neitaði alfarið að hlusta á þeirra rök eða taka tillit til aðstæðna í hákarlamálinu.

Árni kveðst því hafa bent lögfræðingi Matvælastofnunar á það sem hann kallaði „hræsni Matvælastofnunar“ í málinu.

Í framhaldi af því samtali sendi lögfræðingur Matvælastofnunar Árna tölvupóst með vísan til samtalsins. Vísaði hann í tilkynningaskyldu laga um dýravelferð og hvatti Árna til að tilkynna um hnúfubaksmálið, teldi hann ástæðu til þess.

Degi síðar sendir Árni langan póst til lögmanns Matvælastofnunar þar sem hann rekur atburðina í Skagafirðinum og nefnir viðvaranir þeirra Gunnars, fjölda skota og lýsingu á því sem hann segir klárt dýraníð af hálfu yfirvalda. Jafnframt greinir Árni þar frá tilvist myndbandanna.

Ekki er að sjá að lögmaður Matvælastofnunar eða aðrir starfsmenn hafi leitað eftir frekari upplýsingum eða óskað eftir myndböndunum.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir.

Í samtali við Kveik síðastliðinn föstudag lýsti Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir furðu sinni á því að málið hefði ekki verið tilkynnt Matvælastofnun, væri það álit einhvers að um brot á dýravelferðarlögum væri að ræða.

„Ég er nefnilega alveg rasandi hissa á að þetta hafi verið tilkynnt til ykkar en ekki til matvælastofnunar.

—Þetta var tilkynnt til Matvælastofnunar.

Já, ég hef ekki séð það, en tilkynningar um illa meðferð eða að það sé grunur um brot á lögum berast yfirleitt beint til minnar skrifstofu, þannig að ég veit ekki af hverju það hefur ekki borist inn á mína skrifstofu.

—Finnst þér ekki ástæða til þess að rannsaka það?

Ef þetta er tilkynning um grun um brot á lögum um velferð dýra, þá hefur eitthvað misfarist hjá okkur.“

Matvælastofnun sendi síðar Kveik yfirlýsingu, þar sem stofnunin kveðst hafa fengið umrædda tilkynningu Árna en ber því við að hún hafi komið fram sem hluti af andmælum hans.

Í athugasemd Matvælastofnunar segir meðal annars:

„Vitað var að tilraun til aflífunar á hnúfubak hafi mistekist. Helstu nýju upplýsingar í þessum andmælum/tilkynningu voru um lengd leiðangurs og fjölda skota sem hleypt var af. Matvælastofnun telur einsýnt að hér var ekki vísvitandi verið að fara illa með dýr. Markmiðið var að lina þjáningar dýrs sem ekki var hægt að koma til bjargar samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust stofnuninni. Búið var að kanna hvort Landhelgisgæslan gæti veitt aðstoð, auk þess voru stærri skip ekki til taks. Ljóst er að rifillinn sem notaður var skv. upplýsingum stofnunarinnar var nægilega öflugur til að fella bæði hrefnu og hnúfubak. Það að tilraunirnar mistókust eða skotin hittu ekki í mark er ekki brot á lögum um velferð dýra. Hér var verið að fylgja 7. gr. laganna við erfiðar aðstæður og skort á betri úrræðum. Því gáfu þessar upplýsingar einar og sér ekki tilefni til frekari aðgerða af hálfu stofnunarinnar.“

Matvælastofnun telur auk þess að þar sem Árni hafi ekki upplýst um þessi meintu brot fyrr en í tengslum við málsmeðferð yfir honum sjálfum, sé ástæða til að draga trúverðugleika upplýsinganna og hug hans til málsins í efa.

Hins vegar er ljóst að ekki voru gerðar frekari tilraunir af hálfu Matvælastofnunar til þess að afla myndbandanna sem Árni kvaðst eiga, né heldur virðist Matvælastofnun hafa reynt að ræða við aðra úr áhöfn Bíldseyjar í því skyni að kanna frásögnina. Síðan segir í athugasemd stofnunarinnar:

„Matvælastofnun var ekki á staðnum og stýrði ekki aðgerðum. Hún veitti leiðbeiningar m.t.t. laga um velferð dýra út frá þeim upplýsingum sem henni bárust, um hjálparskyldu, heimild til aflífunar ef ekki er hægt að koma dýri til bjargar, hve öflugt skotvopn þurfi til og hvar eigi að skjóta. Við erum búin að fara yfir þetta mál og teljum að rétt hafi verið staðið að okkar ráðgjöf út frá þeim upplýsingum sem okkur bárust. Eins og fram kom í viðtali á föstudag bárust okkur upplýsingar um fasta hrefnu í neti sem síðar reyndist vera hnúfubakur, fastur í neti, með sár á sporði og skotsár eftir fyrsta skot. Í ljósi aðstæðna taldi Matvælastofnun að aflífa ætti dýrið. Stofnunin harmar að tilraunin mistókst en það er ekki þar með sagt að þeir sem reyndu að aflífa dýrið séu sekir um brot á lögum.
Ekki var hægt að gera meira þennan dag skv. þeim upplýsingum sem bárust. Starfsmaður Matvælastofnunar kannaði aftur daginn eftir hvort Landhelgisgæslan gæti veitt aðstoð og vitjað eftir dýrinu en það var ekki hægt vegna veðurs. Hann keyrði meðfram strandlengjunni og svipaðist um eftir dýrinu með kíki en fann ekki.
Ef myndbönd veita nýjar upplýsingar sem breyta eðli málsins þá verður það rannsakað af þar . Matvælastofnun býr ekki yfir þessum myndböndum og hefur ekki séð nema stutt myndbrot sem sýnt var yfirdýralækni á föstudag.“

Viðbót 16. apríl

Í umfjöllun Kveiks af tilraunum yfirvalda til þess að aflífa hnúfubakinn í Skagafirðinum haustið 2018 var sagt að auk tveggja lögreglumanna sem tekið hefðu þátt í aðgerðinni, hefði þriðji maðurinn, skytta á vegum Sveitarfélagsins Skagafjarðar, tekið þátt í aðgerðinni. Þær fullyrðingar byggðu bæði á samtölum við lögreglu á Sauðárkróki og eins Matvælastofnun.

Að sögn Sigfúsar Inga Sigfússonar sveitarstjóra í Skagafirði, var umrædd skytta ekki á vegum sveitarfélagsins í aðgerðunum þennan dag.

„Sveitarfélagið Skagafjörður, starfsmenn þess eða einhver á þess vegum, kom á engan hátt nálægt þeirri aðgerð sem var til umfjöllunar í Kveik,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, í orðsendingu sem hann sendi Kveik í framhaldi af þættinum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Sauðárkróki liggur misskilningurinn í þeirri staðreynd að skyttan sem um ræðir hafi verið úr sveitarfélaginu og unnið önnur verkefni fyrir sveitarfélagið. Hins vegar sé alveg skýrt að í umrætt sinn hafi skyttan verið við störf fyrir lögreglu.