Dagleg verk áskorun á Land­spítalanum

Í síðustu viku var ákveðið að opna nokkur rými á gjörgæslunni við Hringbraut til að taka við sjúklingum sem eru veikir af COVID-19. Flytja þarf sjúklinga af gjörgæslunni í Fossvogi yfir á Hringbraut og það er ekki auðvelt.

Dagleg verk áskorun á Land­spítalanum

Við flutninginn þarf að gæta þess sérstaklega að engin hætta sé á smiti og tryggja um leið öryggi sjúklingsins.

Kristinn Sigvaldason er yfirlæknir á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi. Hann hefur aldrei tekið þátt í slíkum flutningi áður. Setja þarf sjúklinginn í sérstakan plasthólk til að varna því að hann smiti á leiðinni.

„Það þarf að setja sjúklinginn inn í þetta húdd flytja hann út í sendaferðabíl hérna fyrir utan og síðan verður lögreglufylgd með sendiferðabílnum niður á Hringbraut og þar er hann settur inn á gjörgæsludeild þar.Það er gríðarlega mikið verk að gera þetta, mikið af starfsfólki, sérhæfðu starfsfólki sem tekur þátt í þessu.“

Að flytja sjúkling með COVID-19 á milli gjörgæsludeilda er aðeins eitt af þeim fjölmörgu nýju verkefnum og áskorunum sem starfsfólk Landspítalans glímir við þessa daga.

Mörgum deildum spítalans hefur verið breytt eða hreinlega umturnað til að sinna mjög veikum sjúklingum. Skurðstofur hafa verið teknar undir gjörgæslurými sem nú eru 18 fyrir COVID-smitaða í Fossvogi en að auki eru 6-8 gjörgæslurými á spítalanum fyrir aðra sjúklinga.

Þá hafa nokkur gjörgæslurými á Hringbraut verið tekin undir alvarlega veika COVID-sjúklinga. Mjög strangar reglur gilda um sóttvarnir þeirra sem fara inn á deildirnar, aðstandendur fá ekki að heimsækja ástvini og starfsfólkið á COVID-deildunum þarf að klæðast afar íþyngjandi búningum við störf sín.

„Við erum í þessum sloppum, grænu sloppum sem eru bæði eru náttúrulega veiruheldir og bakteríuheldir en eru líka vatnsheldir þannig að maður getur kannski ímyndað sér hvernig það er að vinna í bara pollagalla,“ segir Kristín Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri á A7.

Svo þarf starfsfólk að vera með grímu eða maska fyrir vitum sér og gleraugu til að varna augnsvæðinu og gleraugun þurfa að vera alveg þétt við andlitið. Starfsfólk reyni að nota límbönd og plástra til að fá ekki sár undan búnaðinum og sumir fá ofnæmi og þrútin augu.

„Þetta er töff,  þetta er mjög töff. Það er svolítið erfitt að útskýra það þú nærð ekki að anda eðlilega í nokkra klukkutíma .Maður finnur það eftir vaktina að maður er bara svo þreyttur,“ segir Kristín.

Deild A7 í Fossvogi hefur verið breytt í COVID-deild. Kristín segir að sjúklingarnir eigi það allir sameiginlegt að vera ofsalega slappir og úthaldslitlir, með lækkaða súrefnismettun, eigi erfitt með að anda og séu gjarnan komnir með lungnabólgu. „Þó það sé með ágætis súrefnismettun þegar það liggur þá þarf það ekki annað en að ganga á klósettið þá er það alveg búið og lengi að ná sér á eftir,“ segir Kristín. Þá sé ákveðinn hluti hópsins með ýmis meltingarvandamál.

Kristín Davíðsdóttir hjúkrunarfræðingur.

„Við sinnum þeim eins og öðrum sjúklingum en það er þau sjá engan nema bara uppáklædda einstaklinga og það er ábyggilega bara mjög óþægileg tilfinning. Það verður náttúrulega líka að hafa í huga að, það hefur verið mikið fjallað um þetta. Fólk er hrætt, fólk veit ekkert alveg hvað bíður þeirra.“

Og það er allt óvenjulegt við starfið á spítalanum núna, alveg niður í smæstu smáatriði. Kristín segir að öll dagleg verk séu áskorun og ekkert sé í raun auðvelt við starfið. Deildin sé lokuð þannig að huga þarf vel að smitvörnum þegar eitthvað fer inn eða út af deildinni. „Blóðprufur sem að við tökum við þurfum að setja þær í poka þær þurfa að fara í annan poka sérmerktar niður. Maturinn þarf að koma inn, það þarf að taka við honum. Við getum ekki hringt, aðstandendur geta náttúrulega ekki komið í heimsókn, það er bara allt er einhvern veginn flóknara,“ segir Kristín.

Frá upphafi hafa sóttvarnalæknir og almannavarnir sagt að aðalmarkmiðið með aðgerðum þeirra sé að reyna að dreifa þeim fjölda sem veikjast yfir á lengra tímabil, - reyna að koma í veg fyrir að of margir lendi inni á spítala í einu.

En hvernig hefur okkur tekist til? Hvernig er þessi kúrfa sem þarf að fletja út og er yfir höfuð hægt að nota stærðfræðiformúlur til að stýra að einhverju leyti aðgerðum þegar faraldur geisar?

Talið er að hver einstaklingur sem smitaður er að kórónaveiru smiti tvo til þrjá aðra. Ef ekkert er að gert til að stöðva útbreiðsluna fjölgar sýktum mjög hratt, útbreiðsla veirunnar verður í veldisvexti.

Veldisvöxtur COVID-19 lítur svona út. Smituðum fjölgar alltaf hraðar og hraðar eftir því sem lengri tími líður frá fyrsta smiti. Thor Aspelund er prófessor í stærðfræði og stýrir stærðfræðiteyminu sem gerir spálíkön um framvindu COVID-faraldursins á Íslandi.

Hann segir að ef ekkert hefði verið gert til að hefta útbreiðsluna væri staðan allt, allt önnur: „Þá hefðum við haldið áfram að hlaða inn þessum smitum í mjög hröðum takti og fyrir viku hefðu þá verið komið jafnvel 5 þúsund smit og í dag værum við þá komin jafnvel 21.000.“

Allir sem til þekkja vita að heilbrigðiskerfið okkar hefði ekki ráðið við slíkan fjölda. Og um það snýst þetta að miklu leyti, að passa að ofhlaða ekki spítalana þannig að þeir geti bæði sinnt þeim sem eru veikir af Covid og þeim sem eru veikir af öðrum sökum. Og þess vegna er reynt að fletja þessa margumtöluðu kúrfu með ýmsum aðferðum eins og til dæmi smitrakningu.

Í Singapúr er hægt að skoða hvert einasta smit á ríkisfjölmiðlinum og svona virkar smitrakning. Hjón koma til Singapúr frá Kína og hitta fjölskyldu sína og smita níu. Tvö þeirra fara í veislu og smita sjö. Einn þeirra brýtur sóttkví, fer í kirkju og smitar

Sóttvarnalæknir og almannavarnir hafa í viðtölum vísað til spálíkana Háskóla Íslands en með þeim er stærðfræði notuð til að reyna að reikna út hversu hratt veiran breiðist út, hversu margir munu lenda á spítala og hversu margir munu veikjast alvarlega og þurfa aðstoð á gjörgæslu. Spálíkönin eru endurreiknuð alla daga og ný spá gefin út tvisvar í viku. Og spárnar breytast eftir því sem ný gögn berast

„Það er í raun og veru gott að þau séu ekki alltaf eins,“ segir Brynjólfur Gauti Jónsson, doktorsnemi í stærðfræði, „það þýðir að líkönin læra af nýjum upplýsingum í raun. Við erum í rauninni samtímis að nota gögn frá Íslandi og frá öðrum löndum en líkanið er ekki að byggja á reynslunni endilega frá Kína heldur er líkanið að hugsa já þetta eru margar tegundir af vexti sem eru mögulegar.“

Jóhanna Jakobsdóttir, Brynjólfur Gauti Jónsson og Thor Aspelund.

Sóttvarnarlæknir segir að þótt ekki sé að fullu stuðst við spálíkönin þegar aðgerðir eru ákveðnar þá hjálpi stærðfræði sannarlega við mat á aðstæðum: „Hún gagnast þannig að í undirbúningi þá miðum við við svörtustu spá og að því leytinu til er hún hjálpleg,“ segir hann.

En getur stærðfræði gagnast okkur við að meta hversu vel okkur gengur í baráttunni við COVID-19? Að einhverju leyti, já, og fjölmargir hafa að undanförnu birt ýmis línurit og reiknireglur til að gera einmitt það.

Sem dæmi eru graf eins og þetta sem sýnir uppsafnaðan eða samanlagðan fjölda greindra smita í hverju landi og svo dagafjölda frá því fyrstu 100 smitin voru greind. Áberandi er hve hratt smitum fjölgar í löndum eins og Bandaríkjunum, Þýskalandi og Spáni svo dæmi sé tekið og hve hægt smitum fjölgar Japan og í Singapúr.

„Það sem þeir hafa gert er það að þeir hafa beitt mjög hörðum aðgerðum í að loka bara fólk af hreinlega sem að engum öðrum þjóðum hefur í raun og veru tekist að gera,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.  Þannig sé hægt að stoppa faraldurinn mjög snemma „en maður spyr sig mun hann koma aftur.“

Ef við skoðum til dæmis Evrópu þá sést að miðað við þennan samanburð gengur Íslandi betur en flestum öðrum Evrópuþjóðum. Hér tvöfaldast fjöldi smitaðra á hverjum fimm dögum en víða í Evrópu tvöfaldast hann á hverjum þremur dögum.

„Ég held að það sem að hafi gerst hjá okkur að við brugðumst mjög hart við strax við fyrsta tilfelli sem greindist hér,“ segir Þórólfur.

Jóhanna Jakobsdóttir, lektor í stærðfræði segir að rauntölur geti sagt okkur hvernig gengur í baráttunni við COVID-19. „Og það þarf ekkert nein flókin módel til þess að skilja þær tölur,“ segir Jóhanna.

Ef við setjum til dæmis inn greind smit fyrir hvern dag, frá fyrsta smiti og til 3. apríl og berum saman við hvernig staðan hefði verið ef ekkert hefði verið gert sjáum við mjög skýrt að okkur hefur tekist að fletja út þessa margumtöluðu kúrfu og það verulega.

Við sjáum líka að samkomubannið og reglan um tveggja metra fjarlægðina hafa skilað árangri. Ef ekki hefði hefði komið til hertra aðgerða væri staðan því allt önnur.

Þórólfur telur þó að toppnum sé enn ekki náð. „Við erum ekki búin að ná toppnum í útbreiðslunni og ég held að við séum ekki búin að hefta útbreiðsluna um of.“

Það verður samt aldrei hægt að meta til fulls hvernig okkur hefur tekist til fyrr en faraldurinn er yfirstaðinn og þá skitpir dánartíðni miðað við höfðatölu máli. Í Hubei í Kína var hún 0,0057%  sem jafngildir 20 dauðsföllum og á Ítalíu var hún 0,02%  fyrir helgi sem jafngildir 79 Íslendingum.

Álagið á Landspítalann hefur aukist mikið undanfarið enda ætti faraldurinn að fara að ná hámarki í þessari viku. Fleiri hafa lagst inn á spítala en upphaflega var spáð og gjörgæslurými eru nánast fullnýtt. Og það hefur komið á óvart.

En það er mikilvægt sem dæmi fyrir Landspítalann að vita nokkurn veginn hversu margir þurfi að leggjast inn á spítalann eða á gjörgæslu því þegar að því kemur þá þarf spítalinn að vera tilbúinn. Ekki aðeins þarf hann að vera með pláss fyrir sjúklinga heldur þarf líka starfsfólk til að hjúkra þeim og sinna.

„Það tekur allt miklu lengri tíma, það er allt miklu meiri vinna þannig að við þurfum einfaldlega fleiri til að sinna hverju verki,“ segir Kristín Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur. Ákveðin verk sem stoðdeildir spítalans hafi séð um sjái starfsfólk deildanna nú um. „Við getum eiginlega sagt það að við sjáum bara um allt frá a til ö.“ Það þýði að mannaflaþörfin á COVID-deildunum sé tvö- til þreföld á við aðrar deildir.

Nú segja spárnar að á bilinu 60 til 90 einstaklingar muni liggja inni á Landspítalanum um næstu helgi og allt að 18 á gjörgæslu. Á spítalanum er gert ráð fyrir að svörtustu spár rætist og jafnvel að ástandið verði ívið verra og undirbúningurinn hefur allur miðast við það.

„Það hefði verið betra að við værum fleiri,“ segir Kristín. Mikinn fjölda starfsfólk þurfi á gjörgæsludeildirnar en fjöldi rýma á gjörgæslu hefur margfaldast á skömmum tíma. Og þótt fólk komi frá bakvarðasveitunum til að vinna þá þurfi mikla sérþekkingu til að starfa á gjörgæslu. „Ef þú horfir á gjörgæsluhjúkrunina þær eru bara með mjög sérhæfða þekkingu og fólk í öndunarvélum að þú framleiðir það fólk ekkert einn tveir og þrír,  þetta er náttúrulega margra ára þjálfun,“ segir Kristín.

Nú er farið fram á að fólk haldi sig heima um páskana, einmitt til að minnka álagið. Því þótt spítalinn geti tekið við allt að 50 COVID-sjúklingum á gjörgæslu verður það erfitt  hvað þá að taka við alvarlega slösuðu fólki í ofanálag.

„Ég meina þetta er töff og ég held að það verði það áfram og það á eftir að aukast en ég held að við ráðum alveg við það. Þetta er bara eitthvað sem við verðum að gera. Við bara klárum þennan mánuð og vonum að það verði betra.“