Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Um 30 hnúfubakar í Skjálfandaflóa

25.11.2019 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd: Sarah Arndt
Óvenjumargir hvalir eru í Skjálfandaflóa núna en um 30 hnúfubakar hafa sést í ferðum síðustu daga. Tíðin er búin að vera góð í nóvember og hægt var að sigla í blíðskaparverði alla daga mánaðarins.

Hermann Daðason skipstjóri á Sylvíu hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants á Húsavík var nýkominn úr hvalaskoðunarferð þegar fréttastofa náði tali af honum í dag. Sérstaklega mikið hefur verið um hvali upp á síðkastið. Hermann segir að í dag og síðustu daga hafi sést um 30 hnúfubakar í hverri ferð sem sé einstakt.  

Tíðin sé búin að vera óvenjugóð í nóvember, hægt hafi verið að sigla alla dagana, í fínasta veðri, svo mánuðurinn sé orðinn sá besti í ár. Nóvember í fyrra hafi líka verið góður en ekkert í líkingu við þetta.

Hvalirnir hinir rólegustu

Lítið var um hval allan september og langt fram í október og algengt að sjá eina til tvær hrefnur í túr. Hermann segir það líklega hafa verið vegna ætisleysis, hvalirnir hafi komið en farið jafnharðan aftur. Nú virðist hins vegar vera meira æti því þeir séu mjög rólegir og á sama stað dag eftir dag.

Tímabilið að líða undir lok

Nú er farið að síga í annan endann á tímabilinu og Hermann segir þetta síðustu vikuna sem siglt sé hjá Gentle Giants í ár. Tímabilið hafi verið að lengjast jafnt og þétt síðustu ár og þeir byrji aftur í mars.

Það sé mjög misjafnt hversu margir ferðamenn séu í hverjum túr á þessum tíma en algengt sé að þeir séu um 10-15 á dag þó þeir geti farið upp í 40. Ferðamenn séu enn á ferli þótt þeir séu færri. Hann segir tvö fyrirtæki opin á Húsavík núna, bæði með eina ferð á dag svo það sé komin ró yfir bransann. 

Mynd með færslu
Frá ferð Gentle Giants frá í dag. Hér sjást 4 hnúfubakar við bátinn Sylvíu.