*

„Ég vil ekki Víði!“

Móðir barns sem hefur þurft að fara sjö sinnum í sóttkví, segir að dóttirin fari alltaf í niðursveiflu þegar hún er laus úr sóttkvínni. Hún verði erfið í skapi og reið.

„Ég vil ekki Víði!“

„Það er alltaf, það er bara staðlað eftir sóttkví, af því að við erum búin að þurfa að fara svo oft. Hún fer niður eftir sóttkví, hún verður reið, hún verður erfið, hún verður grimm. Það tekur bara smá tíma og síðan jafnar það sig,“ segir María Sif Þorsteinsdóttir, móðir Emilíu Ránar Brynjarsdóttur, fjögurra ára, sem er orðin hundleið á að vera innilokuð með foreldrum sínum.

Þessa hegðun telur móðir hennar skýrast af áfallinu sem fylgi því að losna úr sóttkvínni, að mega allt í einu allt. „Nema nú eru náttúrlega ennþá takmarkanir, það eru engar sundæfingar hjá henni, það eru engar ballettæfingar.“

María Sif Þorsteinsdóttir, móðir Emilíu, segir að dóttirin fari alltaf í niðursveiflu þegar hún er laus úr sóttkvínni. Hún verði erfið í skapi og reið.

Emilía er ekki eina barnið sem þannig er ástatt fyrir og foreldrar hennar sannarlega ekki þeir einu sem finna fyrir áhrifunum.

„Leikskólinn hefur alveg talað við mig, eftir síðustu sóttkví, eða þarsíðustu, núna í ágúst. Hvað það var erfitt að fá þau til baka af því að þau voru erfiðari í skapinu, þau voru miklu viðkvæmari. Þau eru bara orðin hrædd við COVID,“ segir María Sif.

Það hafi ekki verið gaman að færa Emilíu tíðindin af afa hennar á dögunum, en hún hafði varið miklum tíma með honum undanfarið.

„Það var ekkert skrítið að hún settist niður, bara, við vorum að borða og ég sagði: ‚Nú er afi kominn með COVID og við þurfum að fara í sóttkví.‘ Þá náttúrulega fór hún bara að hágráta, lamdi í borðið og sagði: ‚Ég hef fengið mig fullsadda af þessu. Ég vil ekki Víði!‘ Og síðan strunsaði hún í burtu.“

Það er rétt að taka fram að þetta eru sannarlega hennar eigin orð. Emilía er með mjög öflugan orðaforða, miðað við fjögurra ára barn.

Móðir hennar segist stundum halda að hún sé svona níræð inni í sér.

Emilía Rán Brynjarsdóttir, fjögurra ára, í sýnatöku í lok sinnar sjöundu sóttkvíar.

Aðspurð segist Emilía vissulega stundum verða pirruð.

„Þegar mamma og pabbi fara að skamma mig, þá verð ég bara pirruð og fer upp í herbergið mitt og jafna mig.“

Og það er alveg skýrt hvað henni finnst verst við COVID:

„Að verða veikur og fara í sóttkví, mér finnst það alveg hundleiðinlegt,“ segir Emilía.

Kveikur fjallar í kvöld um áhrif faraldursins á samfélagið, þekkingu vísindamanna á sjúkdómnum, þróun bóluefnis, aðgerðir stjórnvalda og hvers er að vænta næstu mánuði.

Kveikur er á dagskrá RÚV klukkan 20:05.