Þurfum að „vanda okkur gífurlega“ í minnst sex vikur enn

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist hafa trú á að Íslendingar geti komist mjög nálægt því að útrýma veirunni líkt og í vor. Hann segir að lærdómurinn af þriðju bylgju sé að vafasamt sé að anda miklu léttar bara af því að tilfellum sem greinast daglega fækki mjög mikið.

Þurfum að „vanda okkur gífurlega“ í minnst sex vikur enn

„Við verðum að halda áfram, að minnsta kosti næstu sex vikurnar, að vanda okkur gífurlega,“ segir Kári.

Hann leggur áherslu á að staðan væri verri ef núverandi aðgerðir á landamærunum væru ekki í gildi.

Síðustu daga hafa sést vísbendingar um hvað kynni að gerast hér ef svo væri ekki. Fjöldi tilfella hefur greinst hjá farþegum frá Evrópu. Enda er ástandið þar víða að verða mjög slæmt, metfjöldi tilfella í ýmsum löndum og blikur á lofti.

„Það er alveg ljóst að ef við værum ekki með tvöfalda skimun á landamærum, tvær skimanir sem eru aðskildar af fimm daga sóttkví, þá værum við í margfalt erfiðari málum,“ segir Kári.

„Við erum eyland, og við eigum að geta haldið þessu í skefjum eins vel eins og nokkur önnur þjóð.“

„Og það sem meira er,“ segir Kári, „að við ættum að geta náð þessari bylgju niður þrátt fyrir það að það gengi erfiðlega annars staðar, vegna þess að við erum með þessar kringumstæður á landamærum.“

Jóhanna Jakobsdóttir telur aðeins hægt að hafa krár og líkamsræktarstöðvar opnar með mjög ströngum skilyrðum.

Rætt verður við Kára í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld. Þar verður líka talað við Jóhönnu Jakobsdóttur, lektor í líftölfræði og einn af höfundum spálíkans Háskóla Íslands um þróun faraldursins.

Jóhanna segir að aðeins sé hægt að taka þá áhættu að hafa krár og líkamsræktarstöðvar opnar með mjög ströngum skilyrðum á meðan kórónuveiran er í samfélaginu.

Hún segir að aðstæður á Íslandi í september hafi skapað hættu á að upp kæmi hópsýking sem ekki næðist að koma böndum á, eins og gerðist á næturlífinu í Reykjavík, og telur óhætt að segja að betra hefði verið að grípa fyrr til aðgerða eftir að sýkingin kom upp.

Í Kveik, klukkan átta í kvöld, verður fjallað um áhrif faraldursins á íslenskt samfélag, þekkingu vísindamanna á sjúkdómnum, aðgerðir stjórnvalda og hvers má vænta næstu mánuði.