Tón­listar­ger­semar verða færðar úr kjallara verslunar­mið­stöðvar

Mörg hundruð kassar af frumupptökum íslenskrar tónlistar, sem eru geymdir við óviðunandi aðstæður í kjallara verslunarmiðstöðvar, verða færðir í betri geymslu eftir heimsókn Kveiks í geymsluna.

Tón­listar­ger­semar verða færðar úr kjallara verslunar­mið­stöðvar

Í kjallaranum, sem er á vegum Landsbókasafns Íslands, eru kassar merktir flytjendum á borð við SS Sól, Megas, Mannakorn, GCD, Diddú og Stuðmenn.

Landsbókasafnið safnaði lengst af ekki frumefni tónlistar. Þetta er hrein viðbót við annan safnkost, nýlega tilkomin, og það átti eftir að finna framtíðarlausn.

„Í þessu tilfelli með þennan tónlistararf hérna, að þá höfum við bara ekki pláss í þessum geymslum okkar,“ sagði Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður þegar Kveikur heimsótti geymsluna í síðustu viku.

Hillur með mörg hundruð kössum af frumupptökum íslenskrar tónlistar í kjallara verslunarmiðstöðvar.

Stór hluti af frumritum íslenskrar tónlistar er því geymdur í þessum kjallara, nærri vatnslögnum sem liggja víða eftir loftinu. Af því skapast auðvitað hætta.

„Maður sko vaknar alltaf öðru hvoru upp bara dálítið hérna stressaður yfir þessu,“ sagði Ingibjörg.

Rannsókn Kveiks sýnir að íslensk menningarverðmæti eru víða í hættu, eins og fjallað var um í gær.

Dæmi eru um að ómetanlegar þjóðargersemar séu geymdar þar sem ýmist er ekkert slökkvikerfi eða hætta er á vatnsflóði—nema hvort tveggja sé.

Sjáðu umfjöllun Kveiks um menningarverðmæti í hættu.

Í kjallaranum eru meðal annars fjölrása segulbönd með tónlist úr kvikmyndinni Með allt á hreinu.

Ingibjörg sagði þegar Kveikur kom í geymsluna að efnið væri ekki öruggt. „Þetta stenst ekki kröfur, þetta húsnæði.“

En í dag fengust upplýsingar um að ákveðið hefði verið, eftir að Kveikur heimsótti geymsluna í síðustu viku, að flytja tónlistarupptökurnar í tryggari geymslu.

Vegna plássleysis hjá Landsbókasafninu er áformað að rýma til í Þjóðarbókhlöðunni með því að grisja erlent efni og flytja hluta þess í kjallarageymsluna eða farga. Þannig skapast rými fyrir tónlistina í Þjóðarbókhlöðunni.

Ingibjörg landsbókavörður segir við Kveik að flutningurinn eigi þó eftir að taka tíma.


Í umfjöllun Kveiks um varðveislu menningararfsins eru líka myndir meðal annars af óviðunandi varðveisluaðstæðum hjá Listasafni Íslands, sem geymir mörg málverk í þröngum kjallara nærri vatnslögnum. Safnið hefur heldur ekkert slökkvikerfi til að verja listaverk fyrir eldi.

Sjáðu umfjöllun Kveiks um menningarverðmæti í hættu hér.