*

Íslensk menningar­verð­mæti í hættu

Íslensk menningarverðmæti eru víða í hættu. Þetta sýnir rannsókn Kveiks, meðal annars á aðstæðum í nokkrum af stærstu söfnum landsins. Dæmi eru um að ómetanlegar þjóðargersemar séu geymdar þar sem ýmist er ekkert slökkvikerfi eða hætta er á vatnsflóði—nema hvort tveggja sé.

Það er aprílnótt 1993. Þetta er afdrifarík nótt, því í skemmunni sem kviknað hefur í við Vesturvör í Kópavogi er stór hluti bátasafns Þjóðminjasafns Íslands að brenna—minjar um fyrri tíma.

Allt var ónýtt. Í ljós kom að börn höfðu kveikt í geymslunni í ógáti. Þar voru engar brunavarnir.

„Þetta er óbætanlegt tjón. Þetta er eiginlega horfinn kafli úr okkar menningarsögu með þessu,“ sagði Guðmundur Magnússon, settur þjóðminjavörður, eftir brunann.

Síðan eru liðin hátt í 30 ár.

Listasafn Íslands er þjóðlistasafn Íslendinga. Því mætti kannski ætla að þar væru varðveisluaðstæður til fyrirmyndar. En því fer fjarri.

Þegar Kveikur heimsótti aðalbyggingu safnsins við Reykjavíkurtjörn í haust voru málverk eftir listamenn eins og Kjarval og Ásgrím Jónsson hreinlega á gólfinu.

Fjöldi listaverka er geymdur í kjallara undir vatnslögnum.

Starfsmenn safnsins reyna að finna bráðabirgðalausnir og hafa fært verk til, eins og í sal í kjallara hússins, sem er þó ekki hannaður sem geymsla.

„Ástandið hjá okkur er óviðunandi,“ segir safnstjórinn, Harpa Þórsdóttir.

Í aðalgeymslunni, þeirri bestu, eru verk eftir listamenn eins og Nínu Tryggvadóttur og Kjarval. Þar fer betur um verkin. Þau hanga til dæmis uppi á rekkum, þó að sumir séu reyndar bilaðir.

Hér, eins og annars staðar hjá safninu, er brunaviðvörunarkerfi, en safnið hefur ekkert slökkvikerfi.

Hvað væri hægt að gera ef eldur kæmi upp í geymslu eins og þessari? Harpa segir að vonandi uppgötvaðist eldurinn nógu fljótt, en það sé takmarkað.

Kvikmyndasafn Íslands í Hafnarfirði varðveitir um 140 þúsund filmur, spólur og annað efni.

Aðstaðan er að mörgu leyti góð, þar eru kæli- og frystigeymslur fyrir filmur, sem geymast betur í kulda. En öryggisatriði eru ekki öll eins og best verður á kosið.

Hér má horfa á sjónvarpsútgáfu umfjöllunarinnar.

Í Kvikmyndasafni Íslands eru stórar kæligeymslur fyrir filmur.

Safnið er með brunaviðvörunarkerfi. En það er ekkert slökkvikerfi.

Reyndar myndi það ekki einu sinni duga til að slökkva í hluta safnkostsins. Í safninu eru nefnilega nokkrar hillur af gríðarlega eldfimum nítratfilmum frá fyrstu áratugum kvikmyndagerðar.

Þóra Ingólfsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndasafnsins, segir að ekki sé öruggt að geyma þær inni á safninu. „Nítratfilmur á ekkert að geyma í almennu rými.“

Gunnþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri á Kvikmyndasafni Íslands, sýnir sérstaklega eldfimar nítratfilmur sem eru geymdar innan um annan safnkost.

Búið er að semja um varðveislu nítratfilmanna í Danmörku. „Við munum senda þær þangað og hafa þær þar í varanlegri geymslu,“ segir Þóra.

Aðalstöðvar Þjóðskjalasafns Íslands við Laugaveg í Reykjavík.

Þjóðskjalasafn Íslands varðveitir um 44 hillukílómetra af skjölum. Sem sagt, ef þau væru í einni hillu myndi hún ná nokkurn veginn milli Reykjavíkur og Hveragerðis. Og sífellt bætist við.

Vandinn er að geymslurnar eru svo að segja fullar.

Í þessari geymslu er skjölunum ekki raðað upp í hillu, heldur eru þau á vörubrettum. Þetta munu vera um þúsund bretti.

Það má ímynda sér hvernig er að komast að gögnum innst á ganginum. Þessi geymsla úti í bæ var tekin í notkun fyrir hátt í tveimur áratugum.

Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður segir að hún hafi þá átt að vera til þriggja ára. „En hér erum við enn, og enn er verið að vinna í geymslumálum.“

Aðalstöðvar safnsins við Laugaveg eru í gömlu iðnaðarhúsnæði. Þar var eitt sinn mjólkurstöð.

Í pappírnum er eldsmatur, og þar eru brunaviðvörunarkerfi og húsum skipt í brunahólf, en þar er ekkert slökkvikerfi. Og hita- og rakastýring, sem er talin mikilvæg í langtímavarðveislu safnkosts, er ekki til staðar.

Ein af geymslum Þjóðskjalasafns Íslands við Laugaveg.

Nema í geymslu þar sem er viðkvæmt og mikilvægt efni, eins og frumrit stjórnarskrárinnar og Reykholtsmáldagi, elsta varðveitta skjal skrifað á íslensku. En ekki einu sinni þar inni er slökkvikerfi.

Aðspurð segir Hrefna auðvelt að færa rök fyrir því að alla vega sum þessi skjöl, miðað við sögulegt gildi þeirra, ættu að vera í sérhannaðri geymslu þar sem allt væri eftir ýtrustu kröfum, og þar með slökkvikerfi.

Plássið er það takmarkað að skjöl eru líka geymd á vörubrettum í þessu vanhirta húsi.

Rýmið við hliðina á skjalageymslunni leit svona út þegar Kveikur var þar á ferð.

Þetta voru reyndar skjöl sem átti að farga því ekki var talin ástæða til að varðveita þau. Í framhaldi af heimsókn Kveiks ákvað þjóðskjalavörður að þau skyldu flutt til förgunar.

Undanfarið hefur verið unnið að því að leysa húsnæðisvanda Þjóðskjalasafnsins. Áformað er að ný bráðabirgðageymsla fáist á næstu mánuðum.

Listasafn Íslands varðveitir fjölda málverka í þröngum kjallara.

Listasafn Íslands hefur fleiri geymslur, eins og í kjallara þar sem lágt er til lofts og verk standa þéttskipuð á gólfinu, ekki fjarri vatnslögnum.

Vegna þrengsla væri illmögulegt að bjarga þeim út ef eitthvað gerðist.

Á meðan heldur safnkosturinn samt áfram að stækka.

Harpa Þórsdóttir safnstjóri segir að vissulega sé það hálfgalin staða að safnið kaupi inn verk þegar allt sé fullt og geymslurnar vondar.

Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, vonar að nú séu vatnaskil í varðveislumálum safnsins.

Hún vonar að nú séu vatnaskil. Þjóðminjasafnið hafi fengið mjög góða lausn í sínum varðveislumálum, „og við væntum þess að við fáum sömu meðferð.“

Geymsla í varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns Íslands í Hafnarfirði.

Á Tjarnarvöllum í Hafnarfirði hefur Þjóðminjasafnið hefur fengið sérstakt varðveislu- og rannsóknahús sem var formlega vígt í fyrra.

Stóra geymsla hússins hefur aðra ásýnd en aðrar geymslur sem Kveikur skoðaði.

Safnið hefur barist fyrir slíkri aðstöðu „eiginlega má segja í áratugi,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður. „Og það hafa orðið áföll á þeirri vegferð.“

Í húsinu er loftræstikerfi með hita- og rakastýringu, brunaviðvörunarkerfi og kerfi sem lætur vita ef raki er á gólfi.

Þar er líka tvenns konar slökkvikerfi. Sumir munir þola nefnilega illa að blotna, eins og gamall fatnaður. Því er í húsinu geymsla búin gasslökkvikerfi í stað vatnsúðakerfis. Gasið kæfir eld ef kviknar í.

Lilja Árnadóttir, sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins, sýnir gamlar skotthúfur.

Margrét þjóðminjavörður segir að safnið líti svo á að á Tjarnarvöllum sé búið að skapa aðstöðu, ekki bara fyrir starfsfólk Þjóðminjasafnsins, heldur líka samstarfsaðila á öðrum söfnum og rannsakendur, vísindamenn og fræðimenn sem þurfi að hafa góða aðstöðu til að komast í minjarnar sem þar eru varðveittar.

„Til þess að dýpka þekkinguna á þessum menningararfi,“ segir Margrét.

Fjalakötturinn stóð við Aðalstræti í Reykjavík en var rifinn á níunda áratugnum.

Mannshöndin vinnur á menningararfi, eins og gömlum húsum. Á níunda áratugnum var Fjalakötturinn, sögufrægt kvikmyndahús við Aðalstræti í Reykjavík, rifinn. Þar var hið upprunalega Gamla-Bíó.

Sjálfur kvikmyndaarfurinn er líka viðkvæmur og ástand varðveitts efnis misjafnt, eins og Kvikmyndasafn Íslands fann fyrir þegar átti að gera upp Sögu Borgarættarinnar sem nú er orðin aldargömul.

Kvikmyndasafn Íslands þurfti að notast við slitin sýningarafrit þegar Saga Borgarættarinnar var gerð upp, þar sem frumefnið er glatað.

Frumeintak myndarinnar er glatað, en vitað er um tvö afrit.

„Þetta eru bæði sýningarkópíur sem að eru slitnar og er búið að leggja í gífurlega mikla vinnu við að laga rammana,“ segir Gunnþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Kvikmyndasafninu.

Þjóðarbókhlaðan, höfuðstöðvar Landsbókasafns Íslands, var opnuð á Melunum í Reykjavík fyrir rúmlega aldarfjórðungi.

Góðar geymslur finnast víðar en á Þjóðminjasafninu. Til dæmis í Þjóðarbókhlöðunni, aðalstöðvum Landsbókasafnsins.

Þar er hita- og rakastýring og vatns- og gasslökkvikerfi. En það styttist í að geymslur fyllist.

Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri á Landsbókasafninu, og Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður sýna geymslur Þjóðarbókhlöðunnar.

„Ég myndi segja það að innan kannski tíu ára þá væri þetta húsnæði hér alveg fullnýtt,“ segir Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður.

Samkvæmt lögum ber að skila fjórum eintökum af útgefnu prentefni til varðveislu. Meginreglan er að tvö fara í Þjóðarbókhlöðuna, eitt á Amtsbókasafnið á Akureyri og eitt í sérstakt varaeintakasafn Landsbókasafnsins í Reykholti í Borgarfirði.

Bókasalurinn í varaeintakasafni Landsbókasafnsins í Reykholti í Borgarfirði.

Í varaeintakasafninu eru bækurnar allar í einum sal þar sem þeim er raðað eftir stærð. Í safninu er annað andrúmsloft en á flestum bókasöfnum. Þar eru engir gestir, enda er þetta bara varðveislusafn.

Jónína Eiríksdóttir er eini fasti starfsmaðurinn.

Í varaeintakasefninu eru ekki bara varaeintök af bókum. Þar eru líka dagblöð og alls kyns prentefni. Allt frá borðspilum til sálmaskráa fyrir útfarir og gamalla veggspjalda.

Þar eru líka auglýsingapésar úr héröðum: „Margir bera sko litla virðingu fyrir þessu efni í dag, og hvað þurfum við að vera að eiga þetta, en eftir tíu, 20, 30 ár, þá segir eitt svona hefti mikið,“ segir Jónína.

En varaeintakasafnið er ekki í sérhönnuðu húsi, heldur í gamla héraðsskólanum.

Þar var reyndar ráðist í allmiklar framkvæmdir til að verja safnkostinn fyrir birtu, eldi og annarri vá.

Til dæmis voru reistir veggir innan við gluggana.

Jónína segir að stéttina dreymi um að fá húsnæði sem sé virkilega hannað frá upphafi. „Þetta er svona næstum því nógu gott.“

Og í Reykholti er plássið líka að klárast.

En hjá Landsbókasafninu finnst líka óviðunandi húsnæði: þessi geymsla í kjallara verslunarmiðstöðvar.

Efnið er geymt nærri vatnslögnum sem liggja víða eftir loftinu, og af því skapast auðvitað hætta.

Þetta er aðallega móttökustöð, en á því er mikilvæg undantekning.

Hér eru geymdar frumupptökur af íslenskri tónlist.

Mörg hundruð kassar.

Hér sjást flytjendur á borð við SS Sól, Megas, Mannakorn, Diddú og Stuðmenn.

Í þessum kassa er tónlist úr kvikmyndinni Með allt á hreinu.

„Þetta er það sem við köllum fjölrása bönd,“ segir Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri hjá Landsbókasafninu.

Landsbókasafnið safnaði lengst af ekki frumefni tónlistar. Þetta er hrein viðbót við annan safnkost, nýlega tilkomin, og það á eftir að finna framtíðarlausn.

„Í þessu tilfelli með þennan tónlistararf hérna, að þá höfum við bara ekki pláss í þessum geymslum okkar,“ segir Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður.

Stór hluti af frumritum íslenskrar tónlistar er því geymdur við þessar aðstæður.

Ingibjörg telur efnið ekki öruggt í kjallaranum. „Nei, það er kannski ekki, og bara alls ekki öruggt. Þetta stenst ekki kröfur þetta húsnæði.“

Hún játar að vera hrædd um þetta efni. „Jú, maður sko vaknar alltaf öðru hvoru upp bara dálítið hérna stressaður yfir þessu.“

Eftir að þessi umfjöllun var birt fengust upplýsingar um að ákveðið hefði verið, eftir að Kveikur heimsótti geymsluna, að flytja tónlistarupptökurnar í tryggari geymslu.

Það hefur ekki gefist sérstaklega vel að geyma menningarverðmæti í kjallara verslunarhúsnæðis því 2002 kviknaði eldur í Fákafeni í Reykjavík. Þar niðri voru geymd listaverk í eigu Listasafns Reykjavíkur.

Meðal listaverka sem þar voru geymd voru verk eftir Ásmund Sveinsson.

Trélistaverk Ásmundar Sveinssonar eftir eldsvoða í kjallarageymslu í Fákafeni í Reykjavík 2002. 

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður segir að oft sé litið svo á að bjarga megi geymsluaðstæðum safna með því að leggja til „einhvern kjallara eða einhverja skemmu.“

„Þetta er ekki geymsla,“ segir hún. „Þetta er aðstaða til að geta tryggt varðveislu frumheimilda um líf fólks.“

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður.

Margrét segir að máli skipti að hægt sé að geyma þessar heimildir, en líka að tækifæri séu til að skilja þær betur með rannsóknum. „Þannig að það leggi eitthvað til okkar mannlífs og okkar samfélags til lengri tíma litið.“

„Safnastarfi er oft líkt við ísjaka, það sem almenningur sér er toppurinn, það er að segja 10 prósent,“ segir María Karen Sigurðardóttir, deildarstjóri minjavörslu og rannsókna hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur.

„Allt hitt er það sem þarf að gerast á bak við tjöldin,“ segir Gunnþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Kvikmyndasafni Íslands. Það séu allar rannsóknir, forvarsla „og bara allt sem snýr að safnkostinum sjálfum, passa upp á hann.“

Gamlar myndir á Kvikmyndasafni Íslands frá bjargsigi í Drangey í Skagafirði.

Til dæmis þarf að skrá safnkostinn, og ljósmyndir og kvikmyndir þarf að efnisgreina: skrá hvar myndin var tekin, hverjir eru á henni og hvað er verið að gera. Slík þekking hverfur hratt með kynslóðunum.

„Það þyrftu kannski að vera svona fimm, sex manns í efnisgreiningu,“ segir Þóra Ingólfsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndasafnsins. „Það eru tveir, einn og hálfur núna.“

„Það var svona mikil meðvitund einhvern veginn um það að nota þennan miðil til þess að hérna skrásetja eitt og annað. Og það ber náttúrulega að virða þetta, þessa vinnu, sem var unnin af fólki sem hafði ekki endilega mjög mikið, og koma því til næstu kynslóðar,“ segir Gunnþóra Halldórsdóttir.

Þjóðminjasafnið á aragrúa ljósmynda. Margrét Hallgrímsdóttir segir að búið sé að ská eitthvað um milljón ljósmyndir af sjö og hálfri milljón sem safnið eigi. „Sem er gríðarlega mikill árangur.“

En hún segir að það þyrfti að fara í heilmikið átak til að skrá ljósmyndaarfinn. „Og líka til að ná að skanna.“

María Karen Sigurðardóttir, deildarstjóri hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur.

„Svo er spurning kannski eftir 200 ár, þurfum við að eiga myndir sem voru teknar 1860 á Íslandi af einhverju fólki sem við vitum ekki hver er, eða komum við til með að grisja það?“ spyr María Karen Sigurðardóttir hjá Borgarsögusafni. Söfn séu líka með grisjunarstefnu.

„Við getum ekki safnað endalaust.“

Margrét þjóðminjavörður segir að menn hafi spurt sig þeirrar spurningar í gegnum árin og áratugina hvort hreinlega sé verið að geyma of mikið.

„Þess vegna er svo mikilvægt að söfnin hafi skýra söfnunarstefnu, það sé mjög skýrt hverju við erum að safna, og hver verkaskiptingin er á milli stofnana.“

En stundum vantar inn í safnið, eins og á Landsbókasafninu, sem reynir að eiga eintök af öllu útgefnu prentefni, en á ekki allt.

„Við þurfum að fá hjálp við að fylla í eyður,“ segir Jónína Eiríksdóttir, sérfræðingurinn í varaeintakasafninu.

„Það er enginn kannski annar en almenningur sem getur hjálpað okkur.“

Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir að sérfræðingar hræðist það þegar fólk tekur til „og kannski fer í gegnum dánarbú foreldra eða ömmu og afa, að það eru þarna allir þessi gömlu kassar með einhverjum gulum pappírum.“

Fólk viti ekki alveg hvað þetta er og finnist þetta einhver óreiða. „Þá er betra að hafa samband við safnafólk,“ segir Erla Hulda.

Gunnþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Kvikmyndasafni Íslands.

Hlutir geta reyndar glatast víðar.

Gunnþóra Halldórsdóttir á Kvikmyndasafninu segir að við það að stafræn tækni sé orðin allsráðandi í kvikmyndagerð hafi framköllunarstöðvum fækkað og efnið fari á flakk.

„Það er ekkert sem segir að einhver íslensk mynd sem liggur í einhverri hillu og kannski skuld á henni og Guð má vita hvað, að henni sé endilega bjargað.“

Þegar framleiðendur gamanmyndarinnar Karlakórsins Heklu frá 1992 ætluðu að endurgera myndina fannst frumeintakið hvergi.

„Þessu hefur sennilega bara verið hent, í Þýskalandi einhvers staðar,“ segir Gunnþóra.

Þar sem frumefnið var glatað þurfti að notast við efni úr tveimur slitnum sýningarafritum, og á öðru þeirra hafði enskur texti verið brenndur inn í myndina, sem gerði verkið ekki auðveldara.

Úr nýrri háskerpuútgáfu Karlakórsins Heklu. Frumeintak myndarinnar fannst hvergi og því þurfti að notast við slitin sýningareintök þegar myndin var gerð upp. Mynd: Kvikmyndafélagið Umbi.

Kvikmyndasafnið á líka þúsundir gamalla myndbanda. Þeim hrakar með árunum og því talið mikilvægt að ná efni af þeim sem fyrst.

„Tæki til þess að spila þetta, þau eru að verða sjaldgæfari og sjaldgæfari. Og það þyrfti að taka þetta efni og stafvæða það hreinlega,“ segir Þóra Ingólfsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndasafnsins.

Hún giskar á að það gæti tekið um tíu ár, miðað við að safnið fengi fé til verksins.

Á Kvikmyndasafni Íslands er geymdur fjöldi löngu úreltra myndbanda úr safni Ríkisútvarpsins.

Í hillum Kvikmyndasafnsins eru til dæmis löngu úrelt myndbönd úr safni Ríkisútvarpsins—efni allt frá því í árdaga sjónvarps.

Það eru reyndar til afrit af flestum þessum böndum, en ekki öllum.

Þar á meðal eru tónleikar Hljóma í sjónvarpssal 1967.

Hljómar í sjónvarpssal 1967.

Útsendingarhæft afrit af tónleikunum í heild finnst ekki í safni Sjónvarpsins, það mun hafa týnst fyrir mörgum árum.

En gamla eintakið er til á Kvikmyndasafninu. Vandinn er að ekkert nothæft tæki mun vera til í landinu til að spila þessa tegund myndbanda.

Einn af mörg hundruð kössum með frumupptökum íslenskrar tónlistar sem eru geymdir í kjallara verslunarmiðstöðvar.

Það er ekki eins og stjórnvöld séu ekki meðvituð um að ástandið sé slæmt. Í nýrri tillögu að ríkisfjármálaáætlun segir beinlínis að menningararfurinn sé í hættu, og að ef ekki verði tekið á geymslumálum safna á borð við Listasafn Íslands geti þessi arfur að einhverju leyti glatast.

„Gegnum tíðina hafa söfnin stundum verið svona ákveðin hornkerling sko, það er að segja mætir kannski afgangi víða,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður.

Gunnþóra Halldórsdóttir á Kvikmyndasafninu segist alltaf finna þegar hún hittir samstarsfólk frá öðrum norrænum þjóðum „hvað er rosalega margt sem við eigum eftir að gera.“

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður segir að safnið sé alltaf að leita leiða til að fá betri geymslur og stærri geymslur. Þetta sé reglulega rætt við menntamálaráðuneytið og hafi verið gert síðastliðna tvo áratugi, „og hérna erum bara ekki komin lengra en þetta.“

Önnur mynd úr kjallara þar sem Listasafn Íslands geymir mörg málverk á gólfinu, ekki fjarri vatnslögnum.

Árið 2006 gerði starfshópur menntamálaráðherra viðamikla úttekt og lagði til dæmis til að brýnustu varðveisluverkefni Listasafns Íslands og Þjóðskjalasafnsins yrðu leyst þá þegar, og að varaeintakasafn Landsbókasafnsins yrði flutt í sérhannaða öryggisgeymslu í náinni framtíð.

Þetta var fyrir 14 árum.

„Svo bara fór sú skýrsla svolítið ofan í skúffu,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir.

Nú í haust dró til nokkurra tíðinda, því í tillögu að nýrri ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir að Listasafn Íslands, Landsbókasafnið og Þjóðskjalasafnið verði öll komin með viðunandi varðveisluaðstöðu eftir fimm ár.

„Ég er mjög ánægð með það,“ segir Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafnsins. Þangað til hafi safnið þó ærin verkefni.

„Við erum í rauninni búin að sprengja allar geymslur af okkur.“

María Karen Sigurðardóttir hjá Borgarsögusafni segir að þetta snúist um „hver við erum og hver við viljum vera.“ Ef þjóðinni sé annt um það sem hún á og sína menningu „þá eigum við að sjálfsögðu að sinna henni á sómasamlegan hátt.“

„Við erum stundum að flýta okkur og gleymum því að það skiptir máli að varðveita menningararfinn,“ segir Margrét þjóðminjavörður.

„Í raun og veru sama og á við um náttúruna.“ Stundum fari menn fram úr sér og geri sér ekki alveg grein fyrir gildi þessara þátta fyrir framtíðina, „og þetta sé eitthvað sem varðar almannahagsmuni og ábyrgð okkar allra.“

Rústir eftir bátabrunann við Vesturvör í Kópavogi árið 1993.

Nú eru hátt í 30 ár síðan stór hluti bátasafns Þjóðminjasafns Íslands brann.

Það er fyrst nú í haust sem hillir undir að safnið fái fullkomna aðstöðu til að varðveita báta.

Það er í geymslu á Eyrarbakka, þar sem á að setja upp slökkvikerfi fyrir þá—hátt í 30 árum eftir bátabrunann í Kópavogi.

Geymsla Þjóðminjasafns Íslands á Eyrarbakka. Þar á að setja upp vatnsslökkvikerfi til að verja báta fyrir eldi.