„Ha, er hún dáin?“

Perla Dís Bachmann Guðmundsdóttir lést á heimili kærasta síns sunnudaginn 22. september 2019. Hún var nýorðin nítján ára. Í fyrstu héldu aðstandendur Perlu að andlátið hefði verið slys.

„Ha, er hún dáin?“

En þegar niðurstöður krufningar sýndu tíu- til tuttugufaldan dauðaskammt af eiturlyfinu MDMA í blóði hennar vakti það upp spurningar um hvernig Perla gat hafa innbyrt svo stóran skammt af lyfinu fyrir slysni.

Fréttin af andláti Perlu kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Perla hafði verið edrú um langa hríð og átti kærasta sem einnig var edrú. Kristín Birta Bachmann, móðir Perlu, fékk fréttirnar af andlátinu í gegnum síma daginn eftir. Kristín Birta var þá nýflutt til Spánar en til stóð að Perla og kærasti hennar myndu flytja til hennar í október.

Kristín Birta var stödd á fundi í hádeginu þegar síminn hringdi: „Og ég svara, bara halló. Kristín Birta? Já. Móðir Perlu Dísar? Já. Hún er látin. Ég alveg ha? Hún er látin. Ég bara, ha, er hún dáin?“

Kristín Birta Bachmann við leiði dóttur sinnar.

Kristínu Birtu var sagt að Perla hefði tekið inn of stóran skammt af eiturlyfinu MDMA. Það vakti upp spurningar því Perlu hafði aldrei líkað við það eiturlyf. Kristín Birta reyndi því að fá svör við því hvernig það atvikaðist en fékk engin svör.

Misbrestur í rannsókn lögreglu

Nefnd um eftirlit með lögreglu og ríkissaksóknari gera margháttaðar og alvarlegar athugasemdir við rannsókn lögreglu á andlátinu. Í Kveik kemur meðal annars fram að margt í rannsókn lögreglu orki tvímælis. Samkvæmt gögnum málsins er dánarstund Perlu Dísar ókunn, ekki er vitað með vissu hvort kærastinn hennar hafi verið inni í herbergi hjá henni þegar hún dó, tímarammi atburðarásarinnar er óljós og réttarkrufning svaraði því ekki hvernig MDMA komst í líkama Perlu svo fátt eitt sé nefnt.

Í Kveik í kvöld er ítarlega fjallað um málið og varpað ljósi á ýmsa misbresti og jafnvel mistök sem lögreglan virðist samkvæmt gögnunum hafa gert við rannsóknina.

Kristín Birta telur að fordómar og vanþekking innan lögreglunnar skýri það hvers vegna andlátið var ekki rannsakað betur en raun ber vitni. „Ekki spurning. Ég held að það sé bara ekki spurning,“ segir hún.