„Geggjuð og skrýtin saga“

Baugsmenn verða allir komnir á bak við lás og slá, enda er málið gegn þeim stærsta svikamál sögunnar, hefur þáverandi forseti Íslands eftir þáverandi forsætisráðherra í nýrri bók Einars Kárasonar um Jón Ásgeir Jóhannesson. Samtalið á að hafa átt sér stað áður en ákærur komu fram í Baugsmálinu.

„Geggjuð og skrýtin saga“

„Ég náttúrulega hitti þarna mann sem talið er að hafi setið lengst allra Íslendinga fyrr og síðar í yfirheyrslum, um það bil 6.000 daga þá var hann stöðugt með ákærur á sér, undir lögreglurannsókn og beið dóms.“

Svona lýsir Einar Kárason rithöfundur fyrsta fundi þeirra Jóns Ásgeirs og tildrögum þess að þeir hófu samstarf um ritun bókarinnar Málsvörn.

„Og eftir því sem ég fór lengra í þetta, eins og maðurinn sagði, því hissari var ég, hvað þetta var í raun geggjuð og skrýtin saga.”

Það átti ekki síst við Baugsmálið svokallaða, segir Einar — þar sem Jón Ásgeir og fleiri sættu tugum ákæra fyrir efnahagsbrot og skattsvik, en málinu lyktaði með því að einungis var sakfellt fyrir lítið brot þeirra.

Í bókinni er drjúgu plássi enda veitt í baksvið Baugsmálsins; meint afskipti forsætisráðherrans þáverandi, Davíðs Oddssonar, af málarekstrinum, sem Jón Ásgeir segir hafa litað rannsókn þess og rekið áfram.

Í bókinni greinir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, frá samtali sínu við Davíð, sem á þar að hafa sagt, áður en nokkrar ákærur komu fram, að Baugsmenn yrðu allir komnir á bak við lás og slá innan skamms tíma, enda væri málið stærsta svikamál Íslandssögunnar.

„Þegar maður veit það að innan úr ríkisstjórn er verið að reyna að stoppa uppgang þessara manna, þá hefur maður svo sem enga ástæðu til þess að efast um að þeir séu líka að hringja í menn í dómskerfinu eða lögreglukerfinu, það eru vitnisburðir um það í bókinni,“ segir Einar.

Fjallað verður um bókina og rætt við Jón Ásgeir Jóhannesson í Kveik á RÚV klukkan átta í kvöld.