„Kom þarna dálítið mikill go go-tími“

Jón Ásgeir Jóhannesson var einn umsvifamesti athafnamaður landsins fyrir hrun. Fjölskyldufyrirtækið, Baugur, var risafyrirtæki sem fjárfesti víða um heim og átti gríðarlegar eignir. Jón er líka einn umdeildasti maður landsins.

„Kom þarna dálítið mikill go go-tími“

Risavaxið fall banka og veldis hans og nærri tveggja áratuga rannsóknir og árangurslítil dómsmál yfirvalda – svokölluð Baugsmál – eru að baki og Jón Ásgeir snúinn aftur í viðskipti. Þetta gerir hann upp í nýrri bók, Málsvörn, sem Einar Kárason skrifar.

„Það sem að mér fannst nauðsynlegt að skrifa um var þessi dómasaga og þessi eineltissaga sem ég varð fyrir frá Ríkisvaldinu og þegar við byrjum að skrifa bókina er ég enn þá í dómsmáli en þegar því lauk þótti mér rétt að reyna að koma þessu út, sko.“

Baugsmálið hófst árið 2002 og stendur í raun enn. 

Baugsmálið sjálft var útkljáð í Hæstarétti um mitt ár 2008, en það hófst í raun með húsleit yfirvalda árið 2002. Því er í raun ekki enn lokið. Enn er beðið endurupptöku á dómum í skattahluta þess, sem Mannréttindadómstóll Evrópu taldi brot á mannréttindum.

Eftir standa dómar í málinu frá 2008, sem tóku til lítils brots upphaflegra ásakana.

Jón Ásgeir fékk þriggja mánaða skilorð, líkt og Jón Gerald Sullenberger, en hann hóf málið og leitaði í því skyni aðstoðar hóps manna tengdum þáverandi forsætisráðherra, sem aldrei fór leynt með andúð sína á Jóni og viðskiptafélögum hans.

„Heiftin var rosaleg í þessu máli og það eru margir sem að tjá sig um það í bókinni. Það er alveg klárt að þarna var einhver sem stýrði för,“ segir hann.

„Það var forsætisráðherra á þeim tíma. Það svona beinast spjótin að honum. Hann náttúrulega tjáði sig um málið og menn tengda málinu ítrekað, þannig að kannski bara orð hans séu nóg til þess að menn fari af stað og framkvæmi.“

Jón Ásgeir fullyrðir að farið hafi verið inn í Baug á viðkvæmum tíma með litlar haldbærar skýringar á framferðinu.

„Þannig að það lítur bara út fyrir það að það hafi verið að reyna að valda sem mestu tjóni, sem vissulega varð.“

Ólafur Ragnar segir frá samtali við Davíð Oddsson í bók Jóns. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Í bókinni er rakið samtal þáverandi forsætisráðherra og forseta Íslands vorið 2004, áður en nokkrar ákærur í Baugsmálinu litu dagsins ljós.

Ólafur Ragnar segir þar frá því að Davíð Oddson hafi sagt við hann að Baugsmenn yrðu allir komnir bak við lás og slá þá um haustið því málið væri stærsta svikamál Íslandssögunnar.

Hefðirðu ekki kosið að forsetinn hefði sagt frá þessu fyrr?

„Jú það hefði náttúrulega verið fínt ef þetta hefði komið í ljós á þeim tíma og ég veit ekki af hverju þetta kemur ekki fram á þeim tíma sem þetta raungerist. En þetta er alla vega, vekur svona ótta um það hvernig þetta var unnið. Hvernig mátti hann vita hvað myndi gerast í ágúst eða september? Þarna virðist vera komnir ótrúlega nákvæmar upplýsingar sem hann telur sig hafa.“

Óskar Magnússon var stjórnarformaður Baugs. 

Jón Ásgeir segir það alltaf sitja í sér að Óskari Magnússyni, fyrrverandi stjórnarformanni Baugs og síðar útgefanda Morgunblaðsins, hafi verið sleppt við ákæru í skattahluta Baugsmálsins, ekki síst í ljósi náinna tengsla Óskars við Davíð.

„Það er ómögulegt að segja sko hvað varð til þess að hann slapp sko,“ segir Jón Ásgeir, sem segist ekki hafa fengið neinar skýringar á því.

„Nei, en vissulega var hann nær ákveðnum öflum í þjóðfélaginu heldur en við.“

Hannes Smárason var forstjóri FL Group. (Mynd RÚV)

Í apríl 2009 komust fjölmiðlar að því að síðustu daga ársins 2006, hafði Sjálfstæðisflokkurinn fengið 50 milljóna króna styrki frá Landsbanka og FL Group. Tveimur dögum áður en ný lög tóku gildi sem settu 300 þúsund króna hámark á slík framlög.

Í bók Einars Kárasonar lýsir Jón Ásgeir sem þá var stjórnarmaður og stór hluthafi í FL Group því að brugðist fokvondur við þegar stjórn FL hafi fyrst frétt af málinu þegar endurskoðendur kröfðust skýringa á 30 milljóna króna gati í bókhaldi félagsins nokkrum mánuðum eftir að Hannes Smárason, forstjóri FL Group, greiddi styrkinn til Sjálfstæðisflokksins.

„Ég sá að þarna vantaði stóra upphæð í bókhaldið og fékk þá að vita að Hannes hefði lagt flokknum þetta til án kvittunar. Pabbi varð líka alveg brjálaður því að okkar pólitík var að styrkja alla flokka jafnt og auðvitað með miklu lægri upphæðum. Þegar ég fór að tala um þetta þá var talað um að útbúa bara kvittun eftir á. Hvernig á það að vera hægt, spurði ég, þetta gerðist í fyrra. Það var verið að brjóta bókhaldslög og svo mun einhverri kvittun hafa verið skotið inn í bókhaldið að næturlagi.“

Þegar styrkjamálið svokallaða kom upp árið 2009 lýsti Geir H Haarde, þá nýstiginn af formannsstóli flokksins, yfir ábyrgð á móttöku styrkjanna, en lýsti því hins vegar yfir að hann hefði ekki komið að viðræðum við forsvarsmenn Landsbankans eða FL group.

Geir Haarde var, að sögn Jóns Ásgeirs, sá er samdi um styrk FL Group til Sjálfstæðisflokksins. (Mynd Kveikur/RÚV)

Guðlaugur Þór Þórðarson þáverandi þingmaður flokksins kvaðst hafa tekið það að sér enda hafi legið fyrir að rétta hafi þurft af fjárhagsstöðu flokksins og Þorsteinn M. Jónsson, viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs og stjórnarmaður í FL group, lýsti því líka þannig í yfirlýsingu til fjölmiðla eftir að málið komst upp að viðræður um styrkinn hefði farið fram á milli hans og Guðlaugs Þórs.

Jón Ásgeir segir hins vegar í bók sinni: „Ég þykist vita að á bak við þetta möndl hafi verið Geir H. Haarde, formaður flokksins og forsætisráðherra, en að Guðlaugur Þór hafi verið látinn taka þetta á sig.“

Í viðtali við Kveik útskýrir Jón Ásgeir þessi orð sín úr bókinni þannig að stjórn FL Group hafi verið tjáð af stjórnendum félagsins að beiðnin um styrk hefði komið frá þáverandi forsætisráðherra sem hefði samið við stjórnendur FL Group um fjárstyrkinn.

„Það var það sem ég heyrði, að þetta hefði verið samið við Geir frekar en Gulla. Ég var þarna í stjórn og mér var gefin sú skýring,“ sagði Jón Ásgeir í viðtalinu við Kveik, nánar spurður um þessi orð sín í bókinni.

Bónus var upphafið að veldi Jóns Ásgeirs. (Mynd Kveikur/RÚV)

Baugsveldið átti upphaf sitt í matvöruverslun. En eftir aldamótin jukust umsvifin margfalt. Aðgengi að lánsfé var lykilatriði.

Upphaflegar áherslur Baugs á smásölu höfðu breyst og fóru nú um víðan völl, allt frá formúluliðum til banka, en Baugur var þá orðinn stærsti eigandi Glitnis í gegnum hlut sinn í FL group.

Eignasafn Jóns Ásgeirs taldi þegar mest var 84 fyrirtæki.

Árið 2007 var haldin sérstakur Baugsdagur í Mónakó. Það var partí.

Úr frægu myndbandi sem útbúið var um Baugsdaginn árið 2007.

Skuldsettar yfirtökur voru einkennismerki. Verðmætar eignir og ábatasamur rekstur margra fyrirtækja mátti sín lítils þegar lausafjárkreppa varð.

Félög tengd Jóni og Baugi skulduðu þá 1.000 milljarða króna í íslensku bönknum, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar, þar sem Baugur og tengd félög voru sögð orðin sjálfstæð kerfisáhætta á Íslandi.

Lýsingar náinna samstarfsmanna Jóns Ásgeirs í bókinni segja sitt um hugsunarháttinn. Hann hafi verið góður að spila með bankana og örlátur á þóknanir, eins og Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis orðaði það.

Jón Ásgeir hafi líka fengið meiri peninga en hægt væri nú til dags, að sögn Stefáns Hilmarssonar, fyrrverandi fjármálastjóra Baugs. Helsti gallinn hafi verið tregða við að selja eignir.

Jón gengst við því að rétt hefði verið að selja líka, ekki bara kaupa.

„Það er bara þannig. En þetta vill oft loða við hjá fólki sem starfar svona sjálfstætt og er tækifærissinnað í fjárfestingum, að þá gleymist oft sá hlutur. Ég held að vandamálið í okkar vegferð var það að við fórum að fjárfesta í fyrirtækjum sem við höfðum ekki nægjanlega grunnþekkingu á. Ég tel að það hafi verið svona stærsta vandamálið okkar.”

Jón Ásgeir segist hafa farið að fjárfesta í fyrirtækjum sem stunduðu rekstur sem hann hafði ekki nægjanlega grunnþekkingu á. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Hann samþykkir ekki þá lýsingu að hafa á þeim tíma verið orðinn meiri „gambler“ en athafnamaður á þeim tímapunkti.

„Nei ég vil nú ekki nota það orð.“

Jón Ásgeir segir það rangt að fyrirtækin sem hafi verið keypt hafi öll verið ónýtar fjárfestingar.

„Það voru fullt af viðskiptum sem voru gerð áður en kemur að þessari heimskreppu í fjármálum sem voru bara mjög góð og mjög skynsamleg, sem skiluðu arðsemi. Þannig að segja að þetta hafi bara verið eitthvað súrrealískt gamble út í loftið, bara stenst ekki skoðun.“

Ég hefði ekki efni á þessu í dag.

Jóni Ásgeiri vegnaði vel þegar viðskiptaveldi hans snérist um verslunarrekstur. Sú velgengni var síðan nýtt til að ráðast í alls kyns óskyldan rekstur, svo sem fjárfesting í liði í Formúlu 1 kappakstrinum. Og svo var lífsstíllinn líka áberandi.

Hann gengst við því að kalla mætti þetta fígúruhátt.

„Það má alveg orða það þannig. Á þeim tíma.“

Sumt sé þó blásið upp og ekki í samræmi við raunveruleikann. Mónakódagur Baugs, sem var í grunninn eitt stórt partý í Mónakó, hafi til að mynda ekki kostað hálfan milljarð, eins og hefur verið nefnt. Það sé „algjör þvæla“ og „út í Hróa Hött.“

„Ég myndi ekki gera þetta í dag,“ segir hann aðspurður hvort hann fái kjánahroll yfir þessu.

En, hefði hann efni á þessu í dag?

„Nei ég hefði ekki efni á þessu í dag. Ég held að allir sem gengu í gegnum hrunið horfi til þess að kannski voru þarna hlutir, sérstaklega þegar þú minnist á svona hluti, sem þú myndir ekki gera aftur. Alla vega ekki hjá mér. En, þetta er svona, ekki til eftirbreytni.“

(Mynd Kveikur/RÚV)

Nokkrar af harðorðari athugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis voru vegna peningamarkaðssjóða sem bankarnir ráku í dótturfélögum sínum.

Rannsóknarnefndin vakti sérstaka athygli á peningamarkaðssjóðum Glitnis. Hinn alræmdi Sjóður 9 hefur verið kallaður ruslakista, uppfull af skuldum Baugs og FL Group, sem seldar voru almenningi sem sparnaðarleið með mikilli ávöxtun, sem á endanum tapaðist og bæði sjóðsfélagar og ríkið setið uppi með vandann.

Bankarnir reyndu með skipulögðum hætti að fá fólk til að taka peninga út af tékkareikningum og færa í peningamarkaðssjóði, sem síðan voru látnir kaupa skuldabréf á eigendur bankanna.

„Var það svikamylla? Menn voru að kaupa skuldabréf af fyrirtækjum. Skammtímaskuldabréf. Og þeir sem áttu í sjóðunum og fengu fína ávöxtun, það er bara þegar kemur að þessum endapunkti að eignabólan springur, þá verður ákveðið tjón. Það er ekki bara hérna. Gleymum því ekki að bara í Bandaríkjunum gekk alríkisstjórnin í ábyrgð fyrir öllum peningamarkaðssjóðum.“

Þetta var ekki leið til að redda okkur

Jón Ásgeir segir að þetta hafi verið form af skammtímafjármögnun fyrir fyrirtæki en hafnar því að peningamarkaðssjóðirnir hafi fyrst og fremst verið notaðir til að koma peningum inn í þau félög sem skuldabréfin voru keypt af.

Jafnvel þó að það hafi verið undir það síðasta mjög ákveðið verið í þeim fyrirtækjum sem voru sérstaklega fjárþurfi.

„Það getur vel verið en það var ekkert skipulagt mál. Þessi viðskipti voru búinn að vera í lengri tíma ef þú skoðar til baka.“

Hann deilir ekki þeirri skoðun með þeim, sem til dæmis skoðuðu málið í rannsóknarskýrslu Alþingis, að þetta hafi verið leið sem var notuð, sem dæmi, til að útvega Baugi og tengdum fyrirtækjum lausafé.

„Nei, þetta var ekki leið til að redda okkur.“

Jón Ásgeir er í forsvari fyrir eigendur meirihluta hlutafélagsins Skeljungs. (Mynd Kveikur/RÚV)

Jón Ásgeir kom aftur inn í íslenskt viðskiptalíf fyrir sléttu ári þegar hann varð stjórnarformaður Skeljungs sem hann komst á dögunum yfir meirihluta í.  

Áður hafði hann reynt hið sama í fyrirtækinu sem fjölskylda hans missti eftir hrun, Högum. Aðrir hluthafar og stjórnendur virtust standa í vegi fyrir því.

Lífeyrissjóðir, sem eru stærstu fjárfestar flestra skráðra fyrirtækja, hafa veitt viðnám og kvartað undan fyrirferð Jóns Ásgeirs í Skeljungi. Einn þeirra óskaði eftir því við stjórnvöld að minnihlutavernd yrði aukin í lögum, eftir að hann komst í lykilstöðu í Skeljungi.

Og þegar Jón Ásgeir lýsti því yfir að fyrst hluthafar Skeljungs hefðu ekki tekið yfirtökutilboði, væru þeir augljóslega sammála áherslum hans, mótmælti framkvæmdastjóri eins þeirra harðlega.

Það hefði fyrst og síðast verið lágt verðtilboð sem hafi orðið til þess að tilboðinu hefði verið hafnað. Sjóðurinn væri ekki að lýsa því yfir að hann væri sammála öllu sem Jón Ásgeir vildi gera.

Ég get ekki tekið upp á að búa til hérna nýjar reglur.

Sjálfur vill hann ekki gangast við því að yfirlýsingarnar séu stílbragð hins „gamla“ Jóns Ásgeirs en viðurkennir að hluthafar séu ekki endilega allir samþykkir þeirri leið sem hann vil fara með Skeljung.

„Nei, nei, það er ákveðin vegferð. Það hefur engin önnur vegferð komið á borðið. Þú veist, það er það, það er það augljósa,“ segir hann. Stórir hluthafar hafi hins vegar lýst sig sammála.

„Þú veist þetta er almenningshlutafélag og það er hægt að takast á um málin og það er bara gert með lýðræðislegum hætti.“

Jón Ásgeir hefur verið gagnrýndur fyrir viðhorf sitt gagnvart minnihlutavernd og það sé kannski ekki á óskalistanum hans eða honum efst í huga að hún sé aukin?

„Ég get ekki tekið upp á að búa til hérna nýjar reglur, sko. Ég er alveg með ákveðinn skilning á því, það sem að menn segja, að kannski eigi þetta að vera tvö stig við yfirtöku og kannski á að breyta þessum reglum.“

Jón Ásgeir vill selja eignir út úr Skeljungi. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Í bókinni sinni talar Jón Ásgeir um að það verði að vera einn skipstjóri. En er hann besti skipstjórinn í tilviki Skeljungs?

„Ég tel mig hafa ákveðna hluti fram að færa, já.“

Sem felst í að selja eignir og taka peninga út úr félaginu?

„Minnka áhættuna á ákveðnum rekstrareiningum.“

Og taka út úr þessu pening, er það ekki?

„Það verður bara að koma í ljós hvernig það, það fer.“

Jón Ásgeir býður þess að málið gegn sér, sem hann var dæmdur fyrir, verði tekið upp að nýju. (Mynd Kveikur/RÚV)

Haustið 2018 var Jón endanlega sýknaður af ákæru sem sérstakur saksóknari höfðaði eftir hrun. Jón hafði þá sætt rannsókn eða ákærum í 16 ár.

Í millitíðinni féll viðskiptaveldi hans og fjöldi fyrirtækja fór á hausinn. 424 milljarða króna gjaldþrot Baugs er eitt og sér það stærsta í Íslandssögunni, á eftir falli bankanna.

Ári eftir að skiptum þess bús lauk, var Jón kominn á fullt aftur í bisness.

Hann segir ekki rétt að kalla þetta kennitöluflakk.

„Sko, það er nú bara þannig að fyrirtæki fer í þrot, það spretta upp önnur fyrirtæki, og sömu aðilar hérna vinna hérna mikið að því að koma sér aftur á lappirnar. Það er það sem gerðist í þessu tilfelli,“ segir hann.

„Menn eru búnir að læra mikið á því sem að hérna gekk á og reynslunni ríkari fara menn af stað aftur, algjörlega hérna með það á hreinu að lenda ekki í sömu ógöngum og, og menn lentu í fyrir hrun.“

Menn fóru of hratt, misstu yfirsýnina.

En, hvernig getur maður sem er búinn að fara í gegnum þetta allt komið aftur og verið, tekið þátt í viðskiptum á fullu öðruvísi en að hafa stungið undan peningum?

„Þú veist alveg hver var sú eign sem að var byrjað með eftir hrun. Það var eign Ingibjargar og ég er ekki eignamaður í dag sko. Það er alveg á tæru,“ segir hann og vísar til eiginkonu sinnar Ingibjargar Pálmadóttur.

„Og það er langt um liðið. Fólk hefur náð vopnum sínum og náð að byggja upp.“

Jón Ásgeir segist vera að byrja seinni hálfleik. (Mynd Kveikur/Arnar Þórisson)

Hann sé þó ekki á byrjunarreit heldur að byrja seinni hálfleik, aðeins undir.

„Ja, það hlýtur að vera einhver smá mínus en maður er búinn að fara inn í klefann. Þú veist, ekki hérna, ekkert misskilja, en maður er búinn að svona vera að hugsa hlutina og auðvitað velta því upp hvað fór illa og reyna að læra af því.“

Stærsti lærdómurinn sé að fara hægar.

„Ég held að það sé svona, þú veist, menn fóru of hratt, misstu yfirsýnina. Eftir að hafa byggt upp mjög gott fyrirtæki í á annan tug ára, sem hafði staðið sig mjög vel, að þá kom þarna dálítið mikill „go go-tími“ þar sem menn voru að fjárfesta víða og misstu sjónar af daglegum rekstri.“

Lengri útgáfa af viðtalinu við Jón Ásgeir verður birt á vefsíðu Kveiks á næstu dögum.