Skattrannsóknar­stjóri neitar að afhenda ársreikninga Samherjafélaga

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur hafnað beiðni Kveiks um aðgang að ársreikningum erlendra félaga sem tengjast Samherja, með þeim rökum að gögnin séu hluti af rannsókn sakamáls og því eigi almenningur ekki rétt á þeim í krafti upplýsingalaga.

Skattrannsóknar­stjóri neitar að afhenda ársreikninga Samherjafélaga

Samherji fullyrti í fyrrasumar að tæplega eins milljarðs króna tap hefði verið af rekstri dótturfélaga fyrirtækisins í Namibíu á árunum 2012-2018. „Uppgjörið sýnir að fullyrðingar um að Samherji hafi farið frá Namibíu með mikinn hagnað eru rangar,“ var haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, öðrum forstjóra Samherja, í yfirlýsingu á vef fyrirtækisins í ágúst. Samherji birti ekki gögn þessu til stuðnings.

Afríkuumsvif Samherja eru nú til rannsóknar bæði á Íslandi og erlendis, eftir að Kveikur og aðrir fjölmiðlar fjölluðu um ásakanir um mútugreiðslur, spillingu, skattsvik og peningaþvætti í starfsemi útgerðarsamsteypunnar.

Málefni Samherja hafa meðal annars verið á borði skattrannsóknarstjóra. Kveikur leitaði því þangað til að fá afrit af ársreikningum erlendra félaga sem tengjast Samherja.

Samkvæmt upplýsingalögum er stjórnvöldum almennt skylt að veita almenningi aðgang að gögnum í þeirra fórum sé óskað eftir því, nema sérstakar undantekningar eigi við, til dæmis að í gögnunum séu upplýsingar um mikilvæga viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Beiðni Kveiks til skattrannsóknarstjóra var rökstudd þannig að ársreikningar fyrirtækja væru í eðli sínu opinber gögn, og því gætu ekki verið viðkvæmar upplýsingar í þeim. Íslenskum félögum er skylt að skila ársreikningum til opinberrar birtingar.

Í svari skattrannsóknarstjóra til Kveiks er bent á að samkvæmt lögum eigi skattrannsóknarstjóri að gæta ákvæða laga um meðferð sakamála í rannsóknaraðgerðum, eftir því sem við getur átt. Skattrannsóknarstjóri segir að þar af leiðandi skuli rannsóknir embættisins vera „á stigi lögreglurannsóknar.”

Upplýsingalög gilda ekki um rannsókn sakamála. Þau tryggja almenningi því til dæmis ekki aðgang að lögregluskýrslum. Skattrannsóknarstjóri telur að það sama eigi við um ársreikninga Samherjafélaganna.

Í svari skattrannsóknarstjóra er bent á að markmið rannsókna embættisins sé að upplýsa mál til að leggja grunn annars vegar að endurákvörðun skatta og hins vegar að refsimeðferð, ef tilefni reynist til. Tilefni skattrannsóknar sé jafnan að grunur sé um að skattskil hafi verið rangfærð með saknæmum hætti þannig að það geti varðað refsingu. Sektir sem eru ákveðnar eftir skattrannsókn séu fésektir og hafi verið taldar til refsinga í skilningi refsiréttar.

Í svarinu segir að ljóst sé að skattrannsókn feli í sér rannsókn máls sem sakamáls.

„Þau gögn sem beiðni yðar lýtur að eru hluti af rannsókn sakamáls og þeirra var aflað í þágu rannsóknarinnar. Fellur beiðni þín því utan gildissviðs upplýsingalaga,“ segir í svari skattrannsóknarstjóra.

Niðurstaða skattrannsóknarstjóra hefur verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Kveikur hefur jafnframt óskað eftir því við Samherja að fá afrit af ársreikningum erlendu dótturfélaganna.