Efnasúpan í kringum okkur

Sumir telja hormónaraskandi efni í ýmsum varningi ógna framtíð mannkynsins. Mikil óvissa ríkir um áhrif þeirra og regluverkið á erfitt með að taka á þeim. Deilt er áratugum saman um hvort efni skuli leyfð eða bönnuð og á meðan þykknar efnasúpan í kringum okkur.

Efnasúpan í kringum okkur

Eftir seinni heimsstyrjöld skall flóðbylgja á almenningi á Vesturlöndum þegar á markað komu ýmis undraefni. Á innan við öld hefur efnaframleiðsla í heiminum nær þúsundfaldast og enn eykst magnið á hverju ári. Svokölluð hormónaraskandi efni valda sérstökum áhyggjum.

Rannsóknir benda til þess að sæðisgæðum hafi hnignað skarpt á Vesturlöndum síðustu áratugi og sá möguleiki hefur verið nefndur að ef ekkert lát verður á þróuninni verði næstu kynslóðir hugsanlega ófærar um að eignast eigin börn, nema með tæknilegri aðstoð.

Raunir nákuðungsins

Flest höfum við rekist á nákuðunginn í fjöruferðum, líklega alveg grunlaus um þær raunir sem hann hefur mátt þola síðustu áratugi. Kuðungurinn hefur orðið illa fyrir barðinu á efninu TBT sem var á árum áður notað í botnmálningu skipa.

Halldór Pálmar Halldórsson, eiturefnavistfræðingur og forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, segir bæði snigla og nákuðunga einstaklega viðkvæma fyrir þessu. Nákuðungur sé rándýr sem éti mikinn krækling og hrúðurkarla af skipsskrokkum, og fái efnið í sig þannig. Auk þess berist efnið í hann beint úr sjónum.

„Hormónatruflunin er þannig að það fer að aukast testósterónið í kvendýrunum, og það byrjar að myndast sáðrás. Svo þegar þetta gengur lengra, við mjög mikla mengun, þá er komið líka typpi, og sáðrásin vex fyrir kynopið hjá henni. Hún verður ófrjó og hún getur ekki losað sig við eggin. Þannig að þá náttúrulega hrynur stofninn,“ segir Halldór.

Halldór Pálmar Halldórsson kryfur nákuðunga með nemendum sínum.

Frá því að TBT var bannað í botnmálningu fyrir þrjátíu árum hefur kuðungurinn verið vaktaður. Þó að hormónaáhrifin hafi minnkað gætir þeirra enn. Efnið er enn að finna í botnseti hafsins.

Þegar nemendur Halldórs kryfja nákuðunga bregður þeim oft nokkuð við að sjá afleiðingar mengunarinnar.

„Þeim finnst þetta ansi stuðandi og þetta er það náttúrulega. Maður hugsar bara hvað erum við að gera við umhverfið okkar? Maður fer að hugsa með önnur efni líka ­– vandamálið er ekkert úr sögunni,“ segir Halldór.

„Hormónatruflunin er þannig að það fer að aukast testósterónið í kvendýrunum, og það byrjar að myndast sáðrás“ segir Halldór.

Færeyingar mældu lægri greindarvísitölu

Hormónaraskandi efni eru ekki bara allt í kringum okkur, þau eru líka í okkur, berast í okkur með mat og drykk, í gegnum húðina eða við innöndun. Sum eru eilífðarefni, sem setjast að í vefjum líkamans, önnur eiga að hverfa úr líkamanum á innan við sólarhring. Styrkur margra er talinn haldast nokkuð jafn í okkur því við erum stöðugt útsett fyrir þeim í svipuðum mæli.

Kristín Ólafsdóttir, lífefna- og eiturefnafræðingur.

„Þessi gömlu, klassísku, þrávirku, lífrænu efni hafa lækkað töluvert í fólki, minnkað, eftir að efnin voru bönnuð“ segir Kristín Ólafsdóttir, dósent við læknadeild Háskóla Íslands og doktor í lífefna- og eiturefnafræði.

Þrávirku efnin brotna hægt niður og safnast því upp í fólki og dýrum, einkum þeim sem tróna á toppi fæðukeðjunnar. Dæmi um slíkt efni er skordýraeitur sem gerði fólki kleift að auka matvælaframleiðslu og verjast malaríu.

Kristín hefur tekið þátt í að rannsaka styrk þrávirkra lífrænna efna í fólki á Norðurhveli jarðar. Fyrir þrjátíu árum var styrkur þeirra í Grænlendingum og Færeyingum býsna hár. Meðal fólks á Íslandi var hann lægri, en þó töluvert hærri en hann er í dag.

Færeyingar hafa rannsakað efnin í þaula og séð fylgni milli hás styrks þeirra í blóði og röskunar á taugaþroska barna.

„Þeir bæði hreinlega þóttust mæla lægri greindarvísitölu, sem náttúrlega er mjög alvarlegt. Og eftir það mæltu þeir nú með að barnshafandi konur hættu að borða grindhval,“ segir Kristín.

Það er búið að koma böndum á marga af þrávirkustu hormónaspillunum en vandinn er ekki úr sögunni, bendir Kristín á.

„Síðan auðvitað hafa verið að koma ný efni fram á sjónarsviðið, sem við erum að fylgjast með núna betur og þau svona hækka, standa í stað sums staðar og lækka annars staðar,“ segir hún.

Verið að drekkja heiminum í óprófuðum efnum

Nýlegar rannsóknir á styrk nokkurra hormónaraskandi efna í Íslendingum sýna að þeir eru álíka útsettir fyrir þeim og aðrir Vesturlandabúar – til dæmis svokölluðum PFAS-efnum. Það eru manngerð þrávirk efni sem hrinda frá sér vatni og fitu. Aðeins lítill hluti þeirra hefur verið bannaður.

Í óbirtri rannsókn Rannveigar Óskar Jónsdóttur fyrir ári var styrkur nokkurra PFAS-efna mældur í 140 Íslendingum. Í 7,5 prósentum kvenna á barneignaraldri var styrkurinn yfir hættumörkum fyrir fóstur.

Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Umhverfisstofnun Evrópu og Norræna ráðherraráðið eru meðal þeirra sem hafa reglulega sent frá sér skýrslur um hættuna af hormónaraskandi efnum.

Alþjóðasamtök fæðinga- og kvensjúkdómalækna segja þau eiga þátt í milljónum dauðsfalla á ári hverju og kosta samfélagið milljarða dollara. Verið sé að drekkja heiminum í óprófuðum efnum.

Una Emilsdóttir, sérnámslæknir í umhverfislæknisfræði, segir efnin líkjast hormónum og bindast sömu viðtökum.

„Þau annað hvort hvetja eða hindra starfsemi eðlilegra hormóna. Ef maður fær hugmynd um það hvað hormón gera í líkamanum og hversu mikilvægum hlutverkum þau gegna þá veit maður að maður ætti kannski að hafa ástæðu til að óttast hormónatruflandi áhrif,“ segir hún.

Una Emilsdóttir, sérnámslæknir í umhverfislæknisfræð.

„Þau stjórna efnaskiptum í líkamanum, hafa áhrif á beinvöxt og þroska, þau hafa áhrif aðgreiningu kynja í móðurkviði. Þau hafa áhrif á kyneinkenni, jafnvel kynvitund. Þau hafa áhrif á þroska heila í móðurkviði og svona mætti lengi telja“ segir Una.

Ýmsar rannsóknir síðustu áratugi hafa bent til þess að það sé fylgni á milli útsetningar fyrir hormónaspillandi efnum og ótal heilsufarsvandamála, svo sem krabbameins, sykursýki, skjaldkirtilsvandamála, offitu, ófrjósemi, ADHD, einhverfu, frávika á kynfærum drengja, fjölblöðrueggjastokkaheilkennis, endómetríósu, fósturmissis, skerts vitsmunaþroska og lágs testósteróns. Hins vegar er mun minna um að orskatengsl þarna á milli hafi verið staðfest. Rannsóknunum ber heldur ekki alltaf saman.

Það er staðreynd að vestrænir karlar í dag mælast að meðaltali með helmingi færri sprækar sáðfrumur en afar þeirra gerðu, en breyturnar að baki því geta verið fjölmargar.

Vestrænir karlmenn mælast í dag að meðaltali með helmingi færri sprækar sáðfrumur en afar þeirra.

Fræðimenn eru langt frá því að vera sammála. Sumir hafa með tímanum styrkst í trú sinni á að hormónaraskandi efni hafi mikil og alvarleg áhrif. Aðrir eru komnir á þá skoðun að of mikil áhersla hafi verið lögð á þátt hormónaspilla og of miklum fjármunum sé varið til rannsókna á þeim. Nærtækara væri að horfa til dæmis á þátt vestræns mataræðis og stóraukinnar lyfjanotkunar.

Hvað sem er mátti vera í leikföngum

Bergdís Björk Bæringsdóttir, sérfræðingur í efnateymi Umhverfisstofnunar, segir framboðið gífurlegt af ýmsum heimilisvörum sem innihalda hormónaraskandi efni.

Í gömlum leikföngum eru til dæmis mögulega plastmýkjandi þalöt, sett í þau til að gera þau eftirgefanleg.

Árið 2014 voru reglur um innihald leikfanga hertar í Evrópu. 

„Þetta var eins og villta vestrið. Hvað sem er mátti vera í þessum leikföngum. Það var ekki takmarkað fyrr en 1998, þá voru fyrstu þalötin takmörkuð“ segir Bergdís.

Frá 2014 hafa gilt strangari reglur um innihald leikfanga í Evrópu. En þalötin leynast víðar, svo sem í íþróttavörum.

„Það er búið að takmarka ansi mikið en það eru mörg enn leyfð því það á eftir að rannsaka þau. Líka af því að þalöt eru leyfð í ákveðnum styrk, þá er í lagi að hafa þau undir þeim styrk,“ segir Bergdís.

Bergdís Björk Bæringsdóttir, sérfræðingur í efnateymi Umhverfisstofnunar.

Þegar margir hlutir sem innihalda þalöt undir leyfilegum styrk eru komnir saman í daglegu lífi einnar manneskju, svo sem íþróttavörur, nestisbox, húsbúnaður og barnaleikföng, má velta fyrir sér hvort samanlagður styrkur sé orðinn of mikill.

Það eru fleiri hormónaraskandi efni sem þarf að gæta sín á; eldtefjandi efni í textíl og raftækjum, bisfenól-efni í kassakvittunum, niðursuðudósum og ýmsum barnavörum úr plasti, og PFAS-efnin sem eru vatns- og fitufráhrindandi, og finnast til dæmis í Goretexi og umbúðum utan af skyndibita.

„Síminn og snyrtivörur, potturinn þinn, hreinsiefnin þín, þetta er alls staðar,“ segir Bergdís.

„Það fróðlega líka við PFAS-efnin er að þau eru, eða hafa verið, alls staðar. Síminn og snyrtivörur, potturinn þinn, hreinsiefnin þín, þetta er alls staðar,“ segir Bergdís.

Efnin hafi verið álitin gagnleg við vöruhönnun. „Þau voru talin svo frábær. Engin óhreinindi, engin fita, allt er að fara frá þér, svona töfralausn,“ segir hún.

Staða neytenda

Við kaupum alls konar hluti án þess að vita nákvæmlega hvað er í þeim. Inniheldur nýi sófinn hormónaraskandi efni, eða gufustraujárnið? Ef það stendur ekki á umbúðunum er nánast ógjörningur að komast að því.

Evrópulöggjöfin tryggir neytendum einungis rétt til þess að spyrja birgja hvort eitthvað af þeim rúmlega 200 efnum sem eru á lista ESB yfir sérlega hættuleg efni séu í vörunni í meira magni en sem nemur 0,1% af þyngd hennar. Svar á þá að berast innan fjörtíu og fimm daga.

Ísak Sigurjón Bragason, teymisstjóri teymis efnamála hjá Umhverfisstofnun.

„Ég get alveg skrifað undir það að það að geta bara óskað eftir upplýsingum um efni í tilteknum styrk af tilteknum lista er tiltölulega veikur réttur og mikil vinna ef neytandi ætlar að senda skriflega beiðni um upplýsingar vegna hverrar einustu vöru,“ segir Ísak Sigurjón Bragason, teymisstjóri teymis efnamála hjá Umhverfisstofnun.

Einnig sér erfitt fyrir fólk að vakta hversu mikið þau séu útsett í heildina fyrir hormónaraskandi efnum.

Ísak mælir með því að fólk kaupi vottaðar vörur þegar hægt er, merktar Svaninum eða Evrópublóminu.

Hvað er þá til ráða? Fyrir utan að þrífa reglulega, lofta út og forðast of mikla umgengni við hluti sem líklega innihalda hormónaspilla mælir Ísak með því að kaupa vottaðar vörur þegar hægt er, merktar Svaninum eða Evrópublóminu.

„Þá er búið að vinna þessa vinnu fyrir þig. Stundum í kröfum umhverfismerkjanna er búið að taka inn lista yfir grunuð efni sem eru ekki komin á verri listana,“ segir Ísak.

Börn í móðurkviði viðkvæmust fyrir efnunum

Þau sem eru viðkvæmust fyrir þessum efnum eru þau sem eiga erfiðast með að forðast þau, en það eru börn í móðurkviði. Grunur leikur á um að efnin geti haft margvísleg skaðleg áhrif á fóstur.

Tíðni neðanrásar – þegar þvagrásaropið er á röngum stað hjá drengjum – hefur meira en tvöfaldast í Danmörku á síðustu áratugum.

Snemma á meðgöngu byrja kynfæri sveinbarna að myndast. Þetta er viðkvæmt ferli sem krefst mikils testósteróns og ef ekkert raskar því verður til typpi með lokaðri þvagrás.

„Ástæðan fyrir því að maður hefur mjög miklar áhyggjur af þessu er að það eru rannsóknir frá Danmörku sem sýna mikla aukningu á launeistum, þar sem eistun fara ekki alveg niður í pung. Jafnframt virðist vera aukning á því að þvagrásin sé ekki alveg rétt mynduð og aukning á eistnakrabbameini hjá ungum mönnum,“ segir Ragnar Grímur Bjarnason, sérfræðingur í innkirtlavandamálum barna og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

Ragnar Grímur Bjarnason, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, yfirlæknir á barnadeild Landspítala og sérfræðingur í innkirtlavandamálum barna.

Sem dæmi má nefna að tíðni neðanrásar – þegar þvagrásaropið er á röngum stað hjá strákum –  hefur meira en tvöfaldast í Danmörku á síðustu áratugum. Þá eru drengir sem fæðast með launeistu líklegri til að fá eistnakrabba síðar á lífsleiðinni.

Lítið rannsakað á Íslandi

Hér á landi hefur hugsanlegur þáttur hormónaraskandi efna í hinum ýmsu frávikum og sjúkdómum lítið sem ekkert verið rannsakaður og því erfitt að segja til um hvort áhrifin séu til staðar og þá hvort þau fari vaxandi eða minnkandi.

„Það er rosalega erfitt að fullyrða svona, sérstaklega á Íslandi þar sem við erum með lítið þýði og tíðnin kannski ekkert rosalega mikil,“ segir Ragnar.

Kveik sóttist illa að fá gögn yfir tíðni ýmissa kvilla frá Landspítala og Landlæknisembættinu. Sumt liggur þó fyrir. Tíðni eistnakrabbameins hefur aukist hér, líkt og annars staðar á Norðurlöndunum síðastliðna áratugi og aukningin er borin uppi af ungum karlmönnum.

Efnaskiptasjúkdómar eins og offita og sykursýki hafa líka aukist. Hvað varðar frjósemi og sæðisgæði er lítið vitað en fyrir nokkrum árum var kannað hvort fylgni væri milli styrks gömlu þrávirku efnanna í sæði íslenskra karlmanna og ófrjósemi. Engin tengsl fundust en aftur á móti fundust sterk tengsl milli offitu og verri sæðisgæða.

Það eru kannski ekki stórkostlegar blikur á lofti í dag, en við bregðumst auðvitað ekki við vanda sem við vitum ekki af. Þá er ekki víst að áhrif efnaútsetningar í dag komi fram fyrr en löngu síðar.

Óvissan um áhrif efnanna er mikil og hagsmunir vegast á. Ragnar bendir á að það geti verið mikill hagur af notkun hluta sem innihalda hugsanlega hormónaspilla:

„Hvað erum við að gera þegar við erum með veik börn, eins og veika nýbura? Við erum að nota plastvörur,“ segir hann.

Ragnar bendir á að það geti verið mikill hagur af notkun hluta sem innihalda hugsanlega hormónaspilla, svo sem lækningavörur fyrir nýbura.

„Öll lyf, allir vökvar, túbur sem við setum ofan í öndunarveginn, allt með mýktu plasti. Við vitum í raun og veru ekki hver áhrifin af þessu eru. Börnin eru mun yngri sem lifa af núna, við góða heilsu. Það er ekkert hægt að segja að við hættum þessu því það gæti skaðað eitthvað seinna“ segir Ragnar.

„Áhrifin geta orðið svo miklu verri fyrir fóstrið“

Una Emilsdóttir, sérnámslæknir, heillaðist af umhverfislæknisfræði í Danmörku, þar sem umræða um hormónaraskandi efni er mun háværari en hér. Dönsk stjórnvöld hafa gert áætlanir um þau frá árinu 1995, stutt við rannsóknir og gefið út fræðslubæklinga fyrir verðandi foreldra í áratug. Una segir of litla meðvitund meðal barnshafandi kvenna hér.

„Af því að þær eru líka staddar í þessu sama eiturefnahafi og eiturefnasúpu. En áhrifin geta orðið svo miklu verri fyrir fóstrið heldur en þær sjálfar. Sum efni fara yfir fylgjuna, og sum jafnvel yfir blóðheilaþröskuld barnsins og trufla myndun taugakerfis þess,“ segir Una.

„Áhrifin geta orðið svo miklu verri fyrir fóstrið heldur en þær sjálfar“ segir Una Emilsdóttir.

Una segir of litla meðvitund um áhrif þessara efna meðal verðandi foreldra hér á landi.

„Ef ég mætti ráða myndi ég ýta á eftir svoleiðis breytingum. Ég myndi vilja koma upplýsingum til skila í gegnum mæðravernd,“ segir hún.

Þunglamalegt regluverk

Flestir telja líklega borðleggjandi að banna efni sem reynast eitruð. Sú virðist hins vegar ekki raunin, þrátt fyrir að nýtt og strangara regluverk hafi tekið gildi í Evrópusambandinu fyrir fimmtán árum.

Nýja regluverkið, REACH, markaði tímamót. Ábyrgðin á því að rannsaka efnin og sigta þau hættulegu út hvílir ekki lengur alfarið á eftirlitsstofnunum heldur eru það framleiðendur og innflytjendur sem þurfa að sanna að efnin sem þeir setja á markað séu ekki hættuleg, skrá þau í gagnagrunn Efnastofnunar Evrópu og skila gögnum um öryggi þeirra.

Efnastofnunin hefur reyndar aðeins haft burði til að yfirfara um 10% þeirra 23 þúsund efna sem hafa verið skráð í gagnagrunninn. Þá er enn haugur af gömlum efnum í umferð sem ekki hafa verið rannsökuð.

Ísak Sigurjón Bragason leiðir teymi efnamála hjá Umhverfisstofnun. Hann trúir því að regluverkið sé á réttri leið.

„Auðvitað ekki allt og það eru ennþá göt. En, við skulum segja, líkurnar á því hafa klárlega minnkað, með núverandi regluverki, að þú komir með eitthvað nýtt inn á markaðinn og það verði þess enginn var að hér sé eitthvað sem þurfi að passa sig á,“ segir Ísak.

Allra skaðlegustu efnin, rúmlega 200 talsins, teljast bein ógn við menn og lífríki og rata á svokallaðan kandídatalista. Það kemur til greina að gera sum þeirra leyfisskyld eða takmarka notkun þeirra. Stundum er gerð krafa þess eðlis að ekki séu til heppilegri staðgenglar, eða að notkun efnanna sé nauðsynleg til að tryggja einhverja mikilvæga hagsmuni samfélagsins.

Allra skaðlegustu efnin, rúmlega 200 talsins, teljast bein ógn við menn og lífríki.

Vandinn er sá að hormónaraskandi efni rata ekki endilega á listann og eru munaðarlaus í þessu kerfi. Framleiðendur þurfa ekki að taka það fram við skráningu ef efnið hefur hormónatruflandi áhrif.

„Að hluta til er það líka út af því að það getur verið erfitt að meta þessi áhrif, það eru stór verkefni í gangi, bara hvernig förum við að því að komast að niðurstöðu um hvort eitthvert efni tilheyri þessum hópi eða ekki,“ segir Ísak.

Efnastofnun Evrópu getur óskað eftir því að skráð efni séu prófuð með tilliti til hormónaraskandi áhrifa og það er stefnt að því að breyta reglugerðinni þannig að framleiðendur þurfi að upplýsa um hormónaraskandi eiginleika. Allt þarf þetta að fara í formlegt ferli hjá Evrópusambandinu og Efnastofnunin spáir því að það taki nokkur ár.

Það er ekki í fyrsta sinn sem bíða þarf eftir úrbótum sem tengjast hormónaraskandi efnum. Framkvæmdastjórn ESB trassaði þannig skuldbindingar sínar um að skilgreina vísindaleg viðmið til að bera kennsl á hormónaraskandi efni í fimm ár. Viðmiðin komu loks fram árið 2018, eftir að sænska ríkið lagði framkvæmdastjórnina fyrir Evrópudómstólnum.

Kerfið hefur verið gagnrýnt fyrir seinagang við að takmarka eða banna hættuleg efni. Og enn er haugur af gömlum efnum í umferð sem ekki hafa verið rannsökuð.

Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Þórhallur Ingi Halldórsson hefur unnið rannsóknir á mengunarefnum í matvælum og vinnur auk þess við að gera áhættumat á efnum fyrir Matvælaöryggisstofnun Evrópu. Hann þekkir kerfið innan frá og honum finnst ferlið þungt í kringum það að sanna að efni séu skaðleg.

„Sönnunarbyrðin er þá sú að þú þarft að sýna fram á að efnið sé skaðlegt til að það sé tekið af markaði. Það er kannski ekki endilega svo óeðlilegt gagnvart framleiðendum að það sé þannig, það á ekki að vera nóg að einhver hrópi að þetta geti verið skaðlegt – en kerfið tekur gríðarlega langan tíma,“ segir Þórhallur.

Hann nefnir sérstaklega efnið Bisfenól-A, sem búið sé að rífast um í mörg ár og gera þúsundir rannsókna.

„Ég verð stundum þunglyndur yfir þessum tíma og deilum sem eiga sér stað því mér finnst þessi fókus á eitt, tvö efni og ofboðslegur tími sem fer í þau ekki endilega eiga rétt á sér,“ segir Þórhallur.

Ísak segir kerfið vera að þróast, þannig verði líklega horfið frá eins-efnis nálguninni. Í staðinn fyrir að einblína á stök efni verði þá teknir fyrir hópar efna. Þannig mætti banna fjölda skyldra efna á einu bretti í stað þess að eyða dýrmætum tíma í að rannsaka hvert og eitt.

Sorgleg útskipti

Ísak vonar líka að tekið verði á vandamáli sem kallað hefur verið sorgleg útskipti. Það er þegar hættulegt efni er takmarkað eða bannað og framleiðendur bregðast við með því að setja á markað nýtt efni, náskylt því gamla. Nýja efnið reynist oft álíka skaðlegt en fær að vera á markaði árum saman á meðan verið er að sýna fram á skaðsemi þess.

Gott dæmi um þetta er Bisfenól-A (BPA). Þegar það var takmarkað í barnapelum, skiptu framleiðendur yfir í Bisfenól S, M eða F, sem eru grunuð um sömu græsku. Vottanir um að barnavörur séu lausar við Bisfenól-A eru því engin trygging.

Umbúðir utan af barnapela sem merktur er laus við Bisfenól-A (BPA) og og Bisfenól-S (BPS).

Una mælir með notkun glerpela fyrir börn og segir auðveldara að nota þá en margir halda.

„Á meðan að sagan hefur sýnt okkur trekk í trekk að efnum er skipt út fyrir önnur jafn skaðleg efni bara af því að þau heita einhverju aðeins öðruvísi nafni, þá ert þú ekki að fara nota þennan plastpela,“ segir hún.

Enginn beri ábyrgð á samlegðaráhrifum efna

Regluverkið er enn úr takti við þá útsetningu sem við verðum fyrir alla daga. Hámarksstyrkur hvers efnis er skilgreindur en ekki gert ráð fyrir samlegðar- eða kokteiláhrifum, nú eða því að skaðsemi hormónaraskandi efna eykst ekki endilega í beinu samhengi við styrk þeirra. Dropi í sundlaug getur verið verri en lítri því að í litlum skömmtum líkja efnin stundum betur eftir okkar eigin hormónum.

„Vandinn er að það er enginn sem ber ábyrgð á þessum hundruð eða þúsundum efna sem eru öll að virka saman,“ segir Ragnar Grímur Bjarnason, sérfræðingur í innkirtlavandamálum barna.

„Það er afskaplega litlum peningum eytt í að kanna þetta, þetta er hrikalega dýrt og, í raun og veru, hvenær koma áhrifin fram eins og með krabbamein í eistum, það er kannski að koma fram eftir 25-30 ár.“

Það á að reyna að taka á kokteiláhrifunum innan Evrópuregluverksins. Unnið er að því að þróa betri aðferðir en nagdýrarannsóknir til að prófa efnin bæði með frumu- og tölvumódelum, en aftur kann það að taka tímann sinn.

Ísak segir óvissuna um efnin í kringum okkur og áhrif þeirra ekki ásættanlega.

„Nei, ég held að heiðarlega svarið sé að það er auðvitað ekki ásættanlegt. Hættuleg efni á ekki að nota nema þú þurfir þess til að tryggja öryggi á annan hátt,“ segir hann. Sú staða geti vel verið uppi í ákveðnum tilfellum en í öðrum ekki.

Óvissan er sérstaklega mikil í kringum PFAS-efni.

PFAS-efni eru manngerð þrávirk efni sem hrinda frá sér vatni og fitu. Aðeins lítill hluti þeirra hefur verið bannaður.

„Við vitum ekki nákvæmlega hversu eitruð eða hættuleg þau eru. Það sem við vitum mest um þau er að þau eru gríðarlega þrávirk. Og alltaf þegar við erum með þær upplýsingar, og ef við erum með eitthvað sem þú nærð ekki að brjóta niður í náttúrunni, þá náttúrulega er möguleiki á vandamáli, hversu lítið hættulegt sem það er, því það hleðst bara upp“, segir Ísak.

„Það er virkilega ógnvekjandi finnst mér. Að vita ekki, það er ekki til að róa taugarnar.“

Þarf almenningur að hafa áhyggjur?

Sumum finnst Evrópusambandið of meðvirkt með atvinnulífinu. Kannski eru framleiðendur markvisst að nýta sér einhverjar glufur. Á móti kemur að það er erfitt að ímynda sér erfiðara rannsóknarefni en hugsanleg hormónaáhrif og það er ekki alltaf hlaupið að því að finna staðgengla með sömu eiginleika og fyrri efni. Svo bera neytendur líka ábyrgð, sem sumir vilja einfaldlega að hlutirnir sem þeir kaupa séu úr efnum sem hafa vissa eiginleika, svo sem að regnföt haldi vatni.

Regluverkið hefur batnað en efnasúpan umhverfis okkur heldur áfram að sjóða og það er ekki hægt að segja með fullvissu hvort staðan fari batnandi eða versnandi. Sumir telja hormónaspillana skýra 2% þeirrar aukningar sem orðið hefur á ýmsum kvillum, aðrir skjóta á að hlutfallið sé nær 20% jafnvel 40%.

„Þetta er áhyggjuefni en það er ekki mikið að marka fyrirsagnir um að það verði ekkert sæði frá karlmönnum árið 2050,“ segir Ragnar Grímur Bjarnason, sérfræðingur í innkirtlavandamálum barna.

Una Emilsdóttir segir að hafa verði í huga að þetta vísindalega viðfangsefni sé ekki fullrannsakað. „Og við sem stólum á vísindi verðum að vera viðbúin því að kenningum og þekkingu okkar í dag verði kollvarpað síðar meir. Við höfum margoft brennt okkur á því að treysta of mikið á tæknina og vísindin og þessi nýju efni. Eitthvað sem er í rauninni sorglegt þegar við hugsum til þess að þarna séu einstaklingar sem þurfa að líða fyrir það, lítil börn,“ segir Una.

„Iðnaðurinn gengur oft hart fram við að kasta rýrð á vísindarannsóknir sem sýna fram á skaðsemi, og það er líka eitthvað sem við þurfum að vara okkur á,“ bætir hún við.

Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands segir að almennt þurfi fólk ekki að hafa áhyggjur. „Almenningur á ekki að hafa áhyggjur finnst mér. Hins vegar má almenningur hafa áhyggjur af því kerfi sem hefur verið komið upp og hvort sum efni gætu verið betur prófuð“ segir Þórhallur.

Kristín Ólafsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og doktor í lífefna- og eiturefnafræði, bendir á mikilvægi þess að hafa styrk efnanna í huga. „Þó við getum fundið efnin í einhverjum litlum styrk, þá er ekkert víst að þau séu að hafa nokkur áhrif í þeim styrk. En kannski fyrir tuttugu, þrjátíu, fjörtíu árum þá voru þau mjög líklega í þeim styrk að þau væru að hafa nokkuð mikil áhrif. En ég vona að fóstur í dag séu ekki mikið útsett,“ segir Kristín.

Ísak tekur dýpra í árinni. „Mér finnst þær blikur sem eru á lofti vera alveg nógu alvarlegar til þess að það sé ástæða til raunverulegra aðgerða til að sporna við þessu,“ segir hann.

Hann segir ekki breyta öllu hvað það varðar hversu mikil áhrif efnanna nákvæmlega eru. „Því spurningin er, ef við getum dregið úr áhættunni á einn hátt, viljum við þá ekki bara gera það? Ég held það sé réttasta nálgunin í þessu,“ segir Ísak.