„Áhrifin geta orðið svo miklu verri fyrir fóstrið“

Hormónaraskandi efni, sem finnast víða í daglegu umhverfi fólks, geta ógnað heilsu barna í móðurkviði, segir sérnámslæknir í umhverfislæknisfræði. Hún telur verðandi foreldra ekki nógu vel upplýsta um efnin.

„Áhrifin geta orðið svo miklu verri fyrir fóstrið“

Hormónaraskandi efni eru notuð við framleiðslu á ýmsum plastvörum, raftækjum, textíl og snyrtivörum svo eitthvað sé nefnt, til þess að skapa ýmiskonar eftirsóknarverða eiginleika, til dæmis eldvörn í textíl og mýkt í plast. Efnin berast í líkamann með mat og drykk, í gegnum húðina eða við innöndun.

Ef magn efnanna er of mikið í umhverfi fólks getur það haft margvísleg skaðleg áhrif á heilsu. Umhverfisstofnun hefur bent á að rannsóknir á áhrifum nýrra efna taki mikinn tíma, sem leiði til þess að stjórnvöld nái oft ekki að setja reglur til að takmarka eða banna notkun þeirra í vörum nógu tímanlega.

Nýlegar rannsóknir á styrk hormónaraskandi efna í Íslendingum sýna að þeir eru álíka útsettir fyrir þeim og aðrir Vesturlandabúar – til dæmis svokölluðum PFAS-efnum sem eru manngerð þrávirk efni sem hrinda frá sér vatni og fitu. Aðeins lítill hluti þeirra hefur verið bannaður

Í rannsókn Rannveigar Óskar Jónsdóttur fyrir ári var styrkur nokkurra PFAS-efna mældur í 140 Íslendingum. Í 7,5 prósentum kvenna á barneignaraldri var styrkurinn yfir hættumörkum fyrir fóstur.

Una Emilsdóttir, sérnámslæknir í umhverfislæknisfræði, segir sum efni fara yfir fylgjuna og geti truflað myndun taugakerfis fóstursins.

Una Emilsdóttir, sérnámslæknir í umhverfislæknisfræði telur að barnshafandi konur séu ekki upplýstar nægjanlega um þessi efni.

„Af því að þær eru líka staddar í þessu sama eiturefnahafi og eiturefnasúpu. En áhrifin geta orðið svo miklu verri fyrir fóstrið heldur en þær sjálfar. Sum efni fara yfir fylgjuna, og sum jafnvel yfir blóðheilaþröskuld barnsins og trufla myndun taugakerfis þess,“ segir Una.

Hún nefnir að dönsk stjórnvöld hafi lengi stutt við rannsóknir á þessum efnum og gefið út fræðslubæklinga fyrir verðandi foreldra í áratug. Una segir of litla meðvitund um áhrif þessara efna meðal verðandi foreldra hér á landi.

„Ef ég mætti ráða myndi ég ýta á eftir svoleiðis breytingum. Ég myndi vilja koma upplýsingum til skila í gegnum mæðravernd.“

Neytendur eiga rétt á að spyrja birgja hvort eitthvað af þeim rúmlega 200 efnum á lista Evrópusambandsins yfir skaðleg efni séu í vörunni. Það er hinsvegar mikil vinna fyrir neytanda að senda skriflega beiðni um upplýsingar vegna hverrar einustu vöru.

Fyrir utan að þrífa reglulega, lofta út og forðast of mikla umgengni við hluti sem líklega innihalda hormónaspilla mælir Ísak Sigurjón Bragason, teymisstjóri efnamála hjá Umhverfisstofnun, með því að fólk kaupi vottaðar vörur þegar hægt er, merktar Svaninum eða Evrópublóminu.

„Þá er búið að vinna þessa vinnu fyrir þig. Stundum í kröfum umhverfismerkjanna er búið að taka inn lista yfir grunuð efni sem eru ekki komin á verri listana,“ segir Ísak.

Fjallað verður um áhrif hormónaraskandi efna í Kveik í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.