Úkraínumenn flýja út í óvissuna

Á augabragði snerist veröldin á hvolf. Að morgni fimmtudagsins 25. febrúar vöknuðu borgarbúar í Kænugarði við loftvarnaflautur. Síðan heyrðust sprengingar. Allsherjar innrás Rússa í Úkraínu var hafin.

Í fyrstu var borgin sem lömuð. Enginn vildi trúa því að Pútín ætlaði í fúlustu alvöru að senda herinn á höfuðborgina.

En þegar leið á morguninn fór fólk á stjá. Þetta hlyti að vera dramatísk hótun sem yrði ekki fylgt frekar eftir. Margir fóru þó í matarbúð, í það minnsta sem neyðaraðgerð. Á vegi fréttamanna varð ungur maður sem sagðist nú bara ætla að kaupa sér tvo dósabjóra í búðinni, svona úr því að það væri frí vegna árásarinnar.

Það er augljóst á máli heimamanna að þeir eiga erfitt með að trúa því að þetta sé að gerast. Maria segist þurfa að drífa sig í vinnunna, þar bíði verkefni sem hún verði að ljúka. Það er eins og hún grípi í þetta hálmstrá venjulegs lífs á meðan hún meðtekur það að líklega mæti hún ekki aftur í vinnuna. Það er hafið stríð.

Þegar á daginn leið varð nefnilega ljóst að þetta væri hvorki æfing né mistök. Forseti Rússlands ætlaði sér að skipta um stjórnvöld og ná völdum í Úkraínu, með góðu eða illu.

Margir ákváðu þegar í stað að flýja. Helstu umferðaræðar borgarinnar tepptust um leið.

Fréttamenn Kveiks voru í borginni til að gera umfjöllun um líkurnar á átökum og ástæður. Eftir að hafa átt samtöl við fjölda sérfræðinga víða um heim var niðurstaðan sú að það væri ekki mikil áhætta fólgin í slíku ferðalagi og það versta sem gæti gerst væri innrás Rússa í austurhéröðin. Þá lægi beint við að taka næstu flugferð úr landi. Þessi allsherjar innrás kom því öllum viðmælendum í opna skjöldu og góð ráð dýr.

Kosta, úkraínski aðstoðarmaðurinn okkar var nýkominn af austurvígstöðvunum þar sem ástandið hefur verið mjög ótryggt. Honum leist alls ekki á blikuna og taldi rétt að halda á brott. Um hádegisbil var hótelið okkar rýmt og leiðin lá á næstu jarðlestarstöð.

Jarðlestirnar í Kænugarði liggja að sögn heimamanna dýpra en sambærilegar lestir nokkurs staðar annars staðar. Þær eru því sprengjuskýli margra borgarbúa.

Þvælingur fimmtudagsins endaði í vesturhluta borgarinnar, í blokkaríbúð Kosta. Nú þurfti að taka ákvörðun um næstu skref.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins tengdi alla Íslendingana á svæðinu saman. Samskiptin leiddu strax í ljós að hluti þeirra var fastur í borginni, án tengsla eða farartækja. Kveiks-teymið var með bíl og aðstoðarmanninn Kosta, sem gat vísað leiðina, en bíllinn hans rúmaði því miður ekki fjóra í viðbót sem þurftu að komast burt: þriggja manna fjölskyldu og Svitlönu Fedorts sem hefur verið búsett lengi á Íslandi og var aðeins í stuttri heimsókn hjá ættingjum. Fjölskylda hennar beið óttaslegin heima á Íslandi.

Nóttin var óróleg. Loftvarnaflautur, drunur í sprengingum og loftvarnaflugskeytum til skiptis. Í birtingu var staðan tekin. Þegar rússneskar orrustuþotur flugu framhjá eldhúsglugganum var ekki eftir neinu að bíða. Soðnum eggjum troðið í vasana og haldið af stað.

Með góðra manna hjálp fannst ökutæki, BMW frá tíunda áratug síðustu aldar, sem eigandinn var fús að selja. Tvöþúsund evrum síðar var íslenski hópurinn samankominn í miðborginni. Allir voru sammála um að mun hættulegra væri að vera áfram í borginni, þar sem ástandið versnaði með hverri klukkustund, en að reyna að komast nærri 500 kílómetra leið til borgarinnar Lviv, skammt frá landamærunum að Póllandi.

En þúsundir, líklega tugþúsundir, voru á sömu leið. Umferðin á fjögurra akreina hraðbraut var löturhæg. Í kring voru ung hjón með börn, gömul hjón, fjölskylda með börn og gæludýr. Fólk sem allt í einu þurfti að pakka saman nauðsynjum og bruna í burtu. Burtu frá lífinu sem það þekkti, í skelfingu, og óvisst um hvenær hægt yrði að snúa aftur heim. Byrjaði daginn sem borgarar, orðið flóttamenn á hádegi.

En einmitt þetta er líf flóttamannsins. Á augabragði á klisjan um teppið sem kippt er undan fótunum á einhverjum við. Allt í einu ræður hann engu um neitt, heldur ert fastur í óvissri atburðarás sem aðrir stjórna að öllu leyti.

Í Íslendingahópnum var yngsti farþeginn ekki nema þriggja vikna. Staðgöngumóðir fæddi Eldeyju Dakota Sóleyjarson, dóttur Sigurðar Sóleyjarsonar og konu hans, Luciönu Sóleyjarson, í byrjun febrúar. Þau höfðu til allrar hamingju náð að ljúka skráningum og tilheyrandi pappírsvinnu kvöldið fyrir innrásina og höfðu því öll tilskilin skjöl til að ferðast með Eldeyju litlu úr landi.

Allt í kring heyrðust drunur og tilfinningin var sú að hver þeirra væri aðeins nær en sú á undan. Fregnir bárust af hörðum átökum við Rússa í útjaðri borgarinnar – þangað sem bílalestin stefndi. Úkraínskir hervagnar brunuðu hjá. Það virtist stefna í harða bardaga um miðborgina.

Og leiðin lá framhjá verslunarmiðstöð þar sem var tekið á móti nýliðum í herinn – þegar í stað var lögð herskylda á karla á aldrinum 18-60 ára. Hér voru þeir nýju mættir, í alltof stórum göllum, með byssur sem virtust þeim framandi.

Allt út fyrir borgarmörkin sóttist leiðin hægt og árásir héldu áfram, að því er virtist beggja megin vegar. Það var ekki fyrr en komið var fram á kvöld að ró virtist færast yfir – eða ef til vill bara meiri fjarlægð frá átökunum. Á tíu tímum komust tugþúsundir bíla með úkraínska flóttamenn ekki nema 120 kílómetra.

Kvöld varð nótt, áfram var ekið. Nærri sólarhring eftir að lagt var af stað mjakaðist bílalestin síðustu kílómetrana inn í Lviv. Bílaröðin náði þennan morgun nánast alla leiðina til Kænugarðs.

En hvað á að gera næst? Til Lviv koma þúsundir daglega. Stjórnsýslan var flutt þangað frá Kænugarði og á forgang að húsnæði og þjónustu. Loftvarnaflauturnar eru þeyttar reglulega þegar virðist sem Rússar séu skammt undan. Verslanir eru lokaðar, matsölustaðir líka.

Íslendingar í Lviv voru að undirbúa brottför og skutu skjólshúsi yfir Kænugarðs-Íslendingana. Þar er staðan metin á ný og úr verður að fjölskyldan og Svitlana slást í för með Íslendingunum frá Lviv með stefnuna á Ungverjaland.

Við eðlilegar aðstæður er það um fjögurra tíma ferðalag, en það líður nærri sólarhringur þar til þau komast yfir landamærin, himinlifandi yfir því að vera komin í öruggt skjól. Það eru ekki allir svona heppnir.

Úkraínski aðstoðarmaðurinn Kosta.

Fréttamenn Kveiks með Kosta stoppuðu aðeins lengur í Lviv til að meta stöðuna og senda myndefni heim. Síðan var haldið í áttina til Póllands. Við landamærastöðina Krakovets er bílaröðin alveg stopp. Þar tökum við Irenu tali, en hún hefur verið þar ásamt eiginmanni og börnum í nærri tvo sólarhringa, eftir langt ferðalag frá borginni Dnjépr, austan Kænugarðs.

„Foreldrar mínir horfa mikið á rússneskt sjónvarp og trúðu mér ekki þegar ég sagði þeim hvað væri að gerast,“ segir Irena. Eiginmaður hennar ætlar aðeins að fylgja þeim að landamærastöðinni, svo verður hann að snúa til baka og berjast, enda á herskyldualdri. Irena hefur þungar áhyggjur og tárast af tilhugsuninni: „Ég vona bara að við sjáumst einhvern tímann aftur.“

Irena, á flótta frá Úkraínu.

Og skömmu síðar kveðjum við Kosta, sem ætlaði upphaflega yfir landamærin, til Moldavíu, þar sem eiginkona hans og barn halda til. En það er ekki í boði fyrir hann frekar en eiginmann Irenu. Karlmenn á hans aldri mega ekki fara úr landi. Þeir eiga að vera eftir, tilbúnir að berjast.

Kosta snýr við á bílnum, en Kveiksmenn halda af stað gangandi — hlaða dótinu á sig og í barnakerru Eldeyjar Dakota, sem ekki var pláss fyrir hjá hópnum sem fór suður til Ungverjalands. Fréttamennirnir eru sæmilega hraustir og geta alveg gengið þessa 30 kílómetra sem eru að landamærastöðinni. En ástandið er alls ekki gott þar sem eldra fólk og ung börn eru í öðrum hverjum bíl og útilokað fyrir þau að komast þessa vegalengd. Bílaröðin hreyfist ekkert, fólk hefur verið kyrrt á sama stað í sólarhring.

Sem betur fer standa úkraínskir sjálfboðaliðar vaktina með reglulegu millibili og bjóða upp á kröftuga súpu og dísætt te fyrir þá sem þurfa. Í nístingskulda og slyddu veitir ekki af. Biðin verður löng fyrir alla í þessari röð.

Við landamæri Úkraínu og Póllands.

Það er komið myrkur þegar komið er að landamærunum. Þar er ringulreið. Engar upplýsingar að fá, fólki vísað í raðir sem hreyfast svo ekki. Þúsundir bíða í kuldanum. Alls ekki allir eru nógu vel búnir til að þola það. Kvöld verður að nóttu. Nokkrir kveikja í sprekum til að ylja sér.

Þennan daginn beið fólk utandyra í átta klukkustundir þar til eitthvað hreyfðist. Þá tók við skringileg skriffinnska og meiri bið á pólsku landamærunum. Þegar þessu var lokið var augljóst að tilfinningarnar voru blendnar hjá fólki. Flóttinn frá hættunni var vissulega afstaðinn. En allt þetta fólk var nú orðið að flóttamönnum. Lífið, eignir, vinir, ættingjar, störf, framtíðardraumar. Allt var þetta skilið eftir. En óvissan var betri en árásir Rússa.

Líklega verða þeir að teljast heppnir sem komust yfir landamærin þetta kvöld. Daginn eftir var röðin tíu kílómetrum lengri. Og hún lengist enn — við allar landamærastöðvar.

Í Kyiv versnar ástandið stöðugt. Fólk reynir enn að flýja, en leiðunum fækkar og hættan eykst. Og 65 kílómetra löng röð rússneskra hertóla er á leið til borgarinnar.