16:05
Síðdegisútvarpið
12.október
Síðdegisútvarpið

Heimilislausir karlmenn eru eins og stendur í setuverkfalli í neyðarskýlinu á Grandagarði 1a sem er úrræði fyrir heimilislausa karlmenn og er rekið af velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Mótmælin eru skipulögð af samtökunum Viðmót sem eru ný hagsmunasamtök um réttindi vímuefnanotenda á Íslandi og í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að meðlimir hafi ákveðið í mótmælaskyni að yfirgefa ekki neyðarskýlið á Granda klukkan tíu í morgun þegar úrræðið átti að loka yfir daginn. Ingi Þór Eyjólsson forstöðumaður gistiskýlisins að Lindagötu 48 kemur í þáttinn á eftir til að ræða málefni heimilislausra ásamt Guðmundi Inga Þóroddssyni formanni Afstöðu en hann sendi í gær út neyðarkall á Facebook þar sem hann óskar eftir hlýjum fatnaði, svefnpokum og tjöldum fyrir heimilislaust fólk á Íslandi.

Nú er hafinn nýr hluti rannsókna hjá Svefnbyltingu. Um er að ræða lífstílsrannsókn sem stór hópur nemenda, kennara, rannsakenda og starfsfólks Háskólans í Reykjavík kemur að og vinnur innan hins stóra svefnrannsóknarverkefnis sem Svefnbyltingin er. Anna Sigríður Islind dósent í tölvunarfræði og leiðtogi stafræna hluta Svefnbyltingarinnar kemur til okkar og segir okkur frá Svefnbyltingunni og þessum nýja hluta rannsóknarinnar sem snýr að hrotum, kæfisvefni og lífsstíl.

Heilsutækniklasinn er vettvangur til að auka nýsköpun og almennt samstarf í íslenskum heilbrigðismálum, þar sem ólíkir aðilar vinna saman að framgangi nýrrar tækni og lausna fyrir heilbrigðiskerfið. Freyr Hólm Ketilsson stofnandi heilsuklasans kemur til okkar á eftir og segir okkur betur frá þessu.

Út er komin bókin 365 Pabbabrandarar eftir Þorkel Guðmundsson. Þorkell mætir til okkar í Síðdegisútvarpið á eftir og segir okkur frá tilurð bókarinnar og slær á létta strengi.

Og eins og alltaf á miðvikudögum þá rýnum við í kvikmyndir og sjónvarpsþætti með Ragnar Eyþórssyni.

Stafræn ráðstefna Jafnvægisvogar FKA, Jafnrétti er ákvörðun, fór fram fyrr í dag. Verkefninu var komið á fót á árinu 2017 og hefur náð að festa sig í sessi sem mikilvægur þáttur í því að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum.

Ein þeirra sem þarna hélt erindi var Dr. Ásta Dís Óladóttir, dósent í stjórnun og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands Og erindi hennar bar yfirskriftina ?Erum við að beita úreltum aðferðum?? Við hittum Ástu Dís í Útvarpshúsinu og spurðum hana út í það hvort úreltum aðferðum væri beitt í ráðningum á stjórnendum fyrirtækja.

Var aðgengilegt til 12. október 2023.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,