18:00
Spegillinn
Átakasaga ASÍ og aldrei fleiri í gæsluvarðhaldi
Spegillinn

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Spegillinn 12. október 2022.

Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon.

Ólöf Helga Adolfsdóttir, frambjóðandi til forseta Alþýðusambandsins vonar að formenn VR, Eflingar og Starfsgreinasambandsins, sem gengu af þingi ASÍ í gær, snúi aftur. Tillaga hennar um að hafna kjörbréfum Eflingarfélaga hafi verið mistök. Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, segir miður að þinginu hafi verið frestað en er efins um að friður verði kominn á í sambandinu fyrir vorið. Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir tók saman.

Aldrei hafa fleiri sætt gæsluvarðhaldi og nú - og konur í haldi aldrei verið fleiri. Páll Winkel, fangelsismálastjóri segir að álagið sé orðið það mikið að erfitt sé að tryggja öryggi starfsfólks. Dæmi séu um að fangaverðir hafi orðið óvinnufærir eftir líkamsárás í starfi. Sunna Karen Sigurþórsdóttir talaði við hann.

Dælubílar voru kallaðir út að Elliðaám í Reykjavík síðdegis í dag vegna sápu sem freyddi í ánum. Helgi Guðjónsson heilbrigðisfulltrúi segir líklegast að sápan hafi borist gegnum göturæsi úr Breiðholti en vatn úr ræsinu rennur óhindrað í árnar. Alexander Kristjánsson tók saman.

----------

Ef svo fer að stærstu félögin í Alþýðusambandinu segja sig úr því veikir það sambandið augljóslega segir Sumarliði Ísleifsson dósent í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands sem skrifað hefur sögu ASÍ. Staðan sé óljós og verði það næstu mánuði. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við hann.

Núll komma þriggja prósenta efnahagssamdráttur var í Bretlandi í ágúst, að því er hagstofa landsins greindi frá í dag. Hún birti einnig leiðrétta niðurstöðu um hagvöxtinn í júlí. Ásgeir Tómasson segir frá.

Yfirvofandi efnahagssamdráttur; versnandi hagur heimila; raforkuskortur; tíðar skotárásir glæpagengja; og ótrygg staða í utanríkismálum. Ný ríkisstjórn í Svíþjóð stendur frammi fyrir mörgum áríðandi verkefnum. En það er eitt sem tefur - mánuði eftir þingkosningarnar hafa flokkarnir sem fengu meirihluta enn ekki komið sér saman um stjórnarsáttmálann. Kári Gylfason sagði frá stjórnarmyndun í Svíþjóð.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 30 mín.
,