06:50
Morgunútvarpið
12. okt - ASÍ, Grímsvötn og Danmörk undir sjó
Morgunútvarpið

Við ræddum við Magnús Tuma Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, um stöðuna í Grímsvötnum í upphafi þáttar. Íshellan hafði sigið um rúma fjóra metra í gær síðan í lok síðustu viku og búist við hlaupi.

Um fimm prósent af framlagi ríkisins til heilbrigðisþjónustu rennur til geðheilbrigðismála en áætluð þörf er um 25%. Samkvæmt tölum frá Geðhjálp hefur öryrkjum vegna geðrænna vandamála fjölgað um 250% á undanförnum þremur áratugum og 70% þeirra sem létust árið 2021 og voru á aldrinum 18 til 29 ára tóku eigið líf eða tóku of stóran skammt. Þetta eru sláandi tölur sem við rýndum betur í með Sigmari Þór Ármannssyni stjórnarmanni í Geðhjálp.

Í dag átti að fara fram þingfesting fyrir Landsrétti á máli Elínborgar Hörpu Önundardóttur sem var sakfellt í héraði á síðasta ári fyrir brot gegn valdstjórninni og fyrir að neita að hlíða fyrirmælum lögreglunnar þegar hán mótmælti brottvísun hælisleitenda í dómsmálaráðuneytinu, Alþingi og víðar. Elínborg hefur látið hafa eftir sér að sér þyki erfitt að treysta réttarkerfinu og að það komi illa fram við aktivista eins og hán. Þingfestingunni hefur verið frestað um eina viku en Elínborg var gestur okkar.

Við ræddum um vendingar í ASÍ með Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur stjórnmálafræðingi og krísuráðgjafa, og Sigurði Péturssyni sagnfræðingi sem hefur skrifað um verkalýðshreyfinguna.

Danska rannsóknarstofnunin Nationale Geologiske Und­er­søgelser for Dan­mark og Grøn­land birti í síðustu viku skýrslu þar sem fram kemur að sjávarborð við strendur Danmerkur muni á næstu áratugum hækka mun hraðar og meira en áður hefur verið talið. Ef svo fer fram sem horfir verði margar eyjur óbyggilegar og bæir og strendur fara undir vatn. Við ræddum við Halldór Björnsson, hópstjóra veðurs og loftslags hjá Veðurstofunni, um niðurstöður skýrslunnar.

Alþingi hefur samþykkt að gera skýrslu um samfélagslegan kostnað fátæktar hér á landi - en slíkur kostnaður hefur ekki áður verið rannsakaður hér á landi. Halldóra Mogensen, þingkona Pírata sem lagði fram skýrslubeiðnina, var gestur okkar í lok þáttar.

Var aðgengilegt til 12. október 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,