16:05
Síðdegisútvarpið
13. júlí
Síðdegisútvarpið

Þau Valur Grettisson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Nýverið var eitt af meistaraverkum Halldórs Laxness, Salka Valka gefin út í Bandaríkjunum í nýrri þýðingu. Það þýðir að í fyrsta skiptið eru öll stóru skáldverk nóbelskáldsins fáanleg vestan hafs. Af því tilefni er stór grein um Laxness í nýjasta tímariti New Yorker þar sem meðal annars er farið yfir það hvers vegna Bandaríkjamenn hættu að gefa út Laxness á sínum tíma. Halldór Guðmundsson þekkir þá sögu og segir hann okkur hana á eftir.

Þar sem er vatn og fiskur, þar er Gunnar Bender. Hann hefur verið duglegur við að upplýsa hlustendur um hvar laxinn sé að fá og hvar ekki í litla veiðihorninu í Síðdegisútvarpinu. Gunnar Bender mun á eftir ræða við okkur frá Fljótunum og segja okkur stöðuna á laxveiðinni þar.

Flest okkar hafa heyrt popplög sem gerð hafa verið til stuðning karlalandsliðinu í knattspyrnu. Færri okkar hafa heyrt lög til stuðning kvennalandsliðinu. Tónlistarmaðurinn Jón Þór Helgason sem öllu jafna kallar sig Weekendson var að klára lagið Stelpurnar og þar með hafa stelpurnar eignast sitt eigið lag. Hann kemur til okkar á eftir og leyfir okkur að frumflytja lagið sitt.

Líkamsrækt þarf ekki að kynna fyrir hlustendum, en hugarrækt, eða heilaleikfimi er minna í umræðunni en samt er vitað að við getum gert ýmislegt til að halda heilanum í formi og hugsanlega sporna gegn hrörnun og bilun heilans. Steinunn Þórðardóttir læknir kemur til okkar og gefur okkur góð ráð.

Listamaðurinn Tolli hefur ekki hækkað verð á listaverkunum sínum árum saman og er alltaf jafn vinsæll - hann lítur við hjá okkur og talar um lífið og listina.

En við byrjum á kvótanum. Kaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík hefur vakið upp hörð viðbrögð, forsætisráðherra hefur sagst hafa áhyggjur af þessu og að kaupin kalli á viðbrögð og Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir að verið sé að færa stórútgerðinni kvótann á silfurfati. Oddný er komin hingað til okkar.

Var aðgengilegt til 13. júlí 2023.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,