14:03
Sankti María, sestu á stein
Sjötti þáttur
Sankti María, sestu á stein

Um hlutverk dýrlinga í íslensku mannlífi fyrr á öldum.

Átta þátta röð um dýrlingatrú á Íslandi á fyrri öldum. Enda þótt reynt væri að uppræta tignun dýrlinga hér á landi eftir að mótmælendatrú tók við af hinni kaþólsku á 16. öld reyndist dýrlingatrúin furðu lífseig. Jafnvel eftir siðaskipti voru ort og sungin kvæði um dýrlinga, og þeir rötuðu inn í þjóðtrú og þjóðsögur. Í þáttunum verður fjallað um íslenska menningu tengda dýrlingum: tónlist, ljóð, sögur og þjóðtrú. Nokkrar tónsmíðar úr íslenskum fornhandritum voru hljóðritaðar sérstaklega fyrir þættina í flutningi Benedikts Kristjánssonar söngvara. Í fyrsta þætti verður sjónum beint að fjórum dýrlingum: Antoníusi, Agnesi, Páli og Brígið, og reynt verður að svara ýmsum spurningum, svo sem þessum: Hvaða kraftaverk gerði heilagur Antoníus á Íslandi árið 1417? Af hverju á að gefa hröfnum á Pálsmessu? Hver var Flauta-Bríet? Umsjón með þáttunum hefur Una Margrét Jónsdóttir.

Í þessum þætti er fjallað um heilagan Mikjál og flutt ný hljóðritun af söngnum „Á Mikaels messu" sem varðveist hefur í íslensku handriti frá 17. öld. Benedikt Kristjánsson syngur. Einnig verður fjallað um heilagan Martein, Andrés postula og þrjár helgar meyjar: Úrsúlu, Cecilíu og Katrínu. Venja var að drekka minni sankti Marteins í íslenskum brúðkaupsveislum alveg fram á 17. öld, enda hafði dýrlingurinn sjálfur óskað eftir því samkvæmt Ólafs sögu Tryggvasonar. Söngur um heilaga Úrsúlu hefur varðveist í íslenskum handritum frá 18. öld og einnig í munnlegri geymd. Saga Cecilíu er til í íslenskum handritum frá 14. öld og samkvæmt henni á Cecilía að hafa gert kraftaverk á Íslandi. Katrín var einn mikilvægasti dýrlingur kaþólsku kirkjunnar og til er íslenskt miðaldakvæði um hana: Katrínardrápa eftir Kálf Hallsson. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesarar eru Kristján Franklín Magnús og Jórunn Sigurðardóttir.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,