Vilja færa krabba­meins­skimun

Fyrirkomulag skimunar fyrir krabbameini hefur verið til umræðu undanfarið, en þátttakan hefur minnkað undanfarinn aldarfjórðung og er komin undir lágmarksviðmið.

Krabbameinsfélagið hefur séð um leitina frá upphafi, en nú hafa yfirlæknir á krabbameinslækningadeild Landspítala, fyrrum yfirlæknir Krabbameinsfélagsins og fyrrum landlæknir allir sagt að tímabært sé að færa þessa þjónustu inn í heilbrigðiskerfið. Þannig megi vonandi ná til fleiri kvenna.

Valgerður Sigurðardóttir, læknir og formaður stjórnar KÍ, spyr hvort heilbrigðiskerfið sé besti aðilinn til þess að taka þetta að sér. „Ég veit ekki betur en heilbrigðiskerfið á Íslandi sé á heljarþröm. Á hátæknisjúkrahúsið að sinna forvörnum? Ég er ekki alveg viss um að það sé rétti aðilinn.“

En, er ekki fyrst og fremst verið að tala um að færa það til heilsugæslunnar? „Er heilsugæslan tilbúin að taka við því?“ spyr hún á móti.

Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að í grunninn telji hann að heilsugæslan eigi að sinna heilsuvernd. „Sérstaklega þegar við tökum tillit til þess að það hefur verið góður árangur af þessu á landsbyggðinni, eins og hefur verið í Skandinavíu þar sem þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði í einhvern tíma,“ segir hann.

Krabbameinsfélag Íslands fær um 600 milljónir króna á ári í fjárframlög frá ríkinu og með komugjöldum kvenna, til að sinna leitinni.

„Undanfarin ár hefur verið halli, sem Krabbameinsfélagið hefur staðið undir,“ segir Valgerður. Hún segir að komugjöldin og framlag ríkisins standi ekki undir leitinni. „Nei, ekki núna síðustu árin.“

Kristján Oddsson var forstjóri félagsins um hríð og fékk þá innsýn í reksturinn. Hann hefur allt aðra mynd af honum en stjórnarformaðurinn. „Leitin er að fullu fjármögnuð á fjárlögum frá Alþingi ásamt komugjöldum kvenna og stendur vel undir sér. Þannig að það hefur aldrei þurft að veita fé, söfnunarfé eða öðru fé til leitarinnar,“ segir hann.

Umfjöllunina má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.