Stunda skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi

Innbrot, reiðhjólaþjófnaður og hnupl úr verslunum voru álitnir staðbundnir glæpir og á þá litið sem smáglæpi. Nú koma hins vegar hópar til Íslands gagngert til að rupla og ræna.

Gengi fara til dæmis inn í verslanir eins og þessa og stela skipulega einhverju ákveðnu, eins og USB-snúrum.

„Aðilar koma bara inn til landsins, láta til skarar skríða, og eru svo bara farnir, og við erum að tala um bara í nokkra daga, eru í burtu í hálfan mánuð og koma aftur,“ segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn. (Mynd: Kveikur/RÚV)

Ekki lengur einangruð

Breytingin á eðli þessara smáglæpa hefur orðið á tiltölulega skömmum tíma og lögregluyfirvöld eiga fullt í fangi með að bregðast við. Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hefur nýlokið störfum sem tengslafulltrúi Íslands hjá Europol. Hann segir þetta vandamál um alla álfuna.

„Það er ekki bara stigsbreyting, það er eðlisbreyting á afbrotaþætti í Evrópu og ekki síst sem tengist Íslandi. Við vorum frekar einangruð en við erum það langt í frá í dag. Sem gerir það að verkum að Ísland er með tengingar inn í brotastarfsemi af margvíslegum toga,“ segir hann.

Karl nefnir eiturlyfjasmygl sem dæmi. Áður fyrr fóru íslenskir glæpamenn til útlanda, keyptu þar efni og reyndu að smygla til landsins. Í dag er erfitt að sjá skilin milli innlendra og erlendra hópa, því þeir blandast saman og smygla stórum skömmtum.

Vændisstarfsemi tegir sig til Íslands

Til þess að grípa þessi gengi þarf ekki bara góðan rannsóknarlögreglumann heldur alþjóðlegt net sérfræðinga. Aðferðir glæpamannanna verða sífellt þróaðri og glæpir, sem þekktust tæpast á Íslandi, verða æ algengari.

Það sem við erum hins vegar að sjá líka er auðvitað tenging varðandi mansalsvinkla, það er vændisstarfsemi sem teygir anga sína til Íslands með margvíslegum hætti.

Skemmst er að minnast þess þegar lögregla lokaði vændisstarfsemi í haust þar sem grunur lék á að Íslendingur hefði flutt inn konur í vændi, hugsanlega í samstarfi við útlendinga. Það mál er enn til rannsóknar. Svo má nefna mansalsmál sem kom upp í Vík í Mýrdal og vakti mikla athygli en þar lék grunur á að erlendur karlmaður hefði haldið tveimur konum í vinnuþrælkun.

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur. (Mynd Kveikur/RÚV)

Nýjar tegundir glæpa

Og fleira má telja til, segir Karl Steinar. „Það eru netbrot, margs konar netbrot, það er verið að brjótast inn í fyrirtæki, stela þar gögnum og krefjast lausnargjalds,“ segir hann.

„Þess vegna segi ég að það sé eðlismunur, að brotahóparnir hérna áður fyrr voru eingöngu að marka sín spor og starfsemi á einhverju ákveðnu, fyrir fram tilgreindu sviði; það er algjörlega búið. Nú fara þeir bara á það svið þar sem þeir sjá mestan peninginn á þeim tiltekna tíma.“

Þessir hópar koma líka hingað til Íslands. Nýlega fréttist af þjófnaði úr gagnaverum, þar sem sex hundruð sérútbúnum tölvum var stolið og er talið að innbrotin hafi verið skipulögð utan landsteinanna eða framin í samvinnu við erlenda glæpamenn.

Kortleggja glæpagengi í Evrópu

Jafnvel minnstu glæpir eru orðnir fjölþjóðlegir og tengjast rannsóknum lögreglu víða um heim. Þegar svo ber undir skiptir miklu fyrir íslensku lögregluna að hafa greiðan aðgang að lögregluembættum í öðrum löndum og komast í gagnagrunna sem geta hjálpað til við rannsókn mála.

Á skrifstofu Europol í Haag í Hollandi starfa um 1200 manns en stofnunin tengir saman lögregluembætti í Evrópu og víðar um heim. Aðaláherslan er lögð á að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi.

Árið 2013 var Europol með um 3500 glæpagengi á skrá. Nú, fimm árum síðar, eru þau um 5000. Sumir þessara hópa eru fámennir, telja færri en fimm. Meirihluti gengjanna, eða 76 prósent, er þó með fleiri en sex meðlimi og svo eru glæpahópar, eins og ítalska mafían, sem telja hundruð manns.

Gerald Hesztera, upplýsingafulltrúi hjá Europol. (Mynd Kveikur/RÚV)

Allt inni í myndinni

„Alþjóðlegir glæpamenn búa yfir mikilli aðlögunarhæfni. Þeir versla með fólk eitt árið og telja svo kannski ábatasamara að stunda fíkniefnasölu og skipta þá yfir í fíkniefni. Þeir selja heróín og sjá að það er ekki vinsælt lengur og skipta þá yfir í kókaín og hönnuð efni,“ segir Gerald Hesztera, upplýsingafulltrúi hjá Europol.

Svo að þeir eru mjög sveigjanlegir.

„Já, algerlega. Það má kannski bera skipulagða glæpahópa nú í dag saman við mjög nútímaleg fyrirtæki. Þeir eru jafnvel með markaðsmenn á sínum snærum og sendimenn sína einhversstaðar við kaup á ólöglegum varningi. Allt er inni í myndinni. Og þeir vinna saman.“

Þarf meiri þunga í peningarannsóknir

Glæpamennirnir sem tengjast þessum hópum eru af margvíslegu þjóðerni, en í gagnagrunni Europol er fólk frá 180 ríkjum. Þá telur Europol að sjö af hverjum tíu glæpahópum starfi í fleiri en þremur löndum. Internetið er í miðju þessarar starfsemi.

„Það má verða sér nánast út um allt á huldunetinu, hvort sem það eru fíkniefni, barnaklám, vopn og byssur. Svo það reynir á okkur,“ segir Hesztera.

Og allir þessir glæpamenn þurfa að koma peningunum sem þeir afla í almenna umferð. Eitt slíkt mál vakti mikla athygli á Íslandi í haust, svokallað Euromarket-mál. Í því er maður, sem er frá Póllandi en er með íslenska kennitölu, grunaður um að þvætta peninga fyrir glæpastarfsemi sem tengist bæði Hollandi og Póllandi.

„Það er hins vegar mjög flókið mál, og mjög sérstakt, en það er kannski ein skýra birtingarmyndin á þessum breytingum að við erum þar að skoða peningaþáttinn sem er auðvitað það sem að til dæmis Europol hefur verið að segja við löndin, þið verðið að setja meiri þunga í peningarannsóknir. Það á við okkur; við erum ekki að ná nema kannski einu prósenti af þeim fjármunum sem eru í gangi í skipulagðri brotastarfsemi,“ segir Karl Steinar.

Glæpamenn birtast stundum með nokkur mismunandi skilríki. (Mynd Kveikur/RÚV)

Margvísleg fölsuð skilríki

Þar þarf að gera betur, segir hann. Lögregla þurfi að leggja meiri áherslu á rannsóknir á peningaþvætti. Og ekki bara það, hún þarf að efla tæknirannsóknir til að ná til glæpamanna á netinu og átta sig á að ekki er lengur nóg að skoða skilríki fólks eins og vegabréf, til að bera kennsl á það.

Karl Steinar nefnir brotahópa frá Georgíu sem handteknir voru á Íslandi, fyrir ýmis þjófnaðarbrot, sem dæmi. „Þá voru þeir að fá fölsuð margvísleg skilríki frá Írlandi sem voru send frá Írlandi til Frakklands og svo til Belgíu og til Íslands líka, þannig að sami maðurinn gat heitið þremur, fjórum mismunandi nöfnum, eins og þeir gerðu, og frá nokkrum mismunandi löndum,“ segir hann.

Fingraför og ljósmyndir eru því forsenda þess að hægt sé að bera kennsl á fólk sem á sér kannski glæpaferil víða, en alltaf undir nýju nafni. Þá hafa tilkynningar íslensku lögreglunnar til Europol leitt til þyngri dóma í útlöndum.

„Síðan bara í fyrra eða hitteðfyrra sem við fáum tilkynningu frá Europol um að byggt á okkar upplýsingum, hafi verið handteknir í Frakklandi fyrir það að hafa verið að stela sérhæfðum tækjum til vínræktar í einhverju ákveðnu vínræktarhéraði.

Tvö glæpagengi eru talin ábyrg fyrir öllum þessum innbrotum. (Mynd Kveikur/RÚV)

Skipulagðir innbrotahópar

Lögreglan er nú á lokametrum rannsóknar á innbrotahrinu sem leitt hefur í ljós að tveir mismunanid hópar hafi staðið á bak við nokkurn fjölda innbrota á höfuðborgarsvæðinu. „Það var bara verið að stela ákveðnum hlutum, skartgripum og svona minni hlutum, peningum og minni raftækjum sem menn gátu borið svona auðveldlega með sér í burtu,“ segir Skúli aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Fljótlega grunaði lögreglu að innbrotin væru skipulögð því enginn þekkti þjófinn á mynd sem birt var á Facebook og þýfið var hvergi til sölu á svarta markaðnum hér á landi. Þá var einn hinna grunuðu eftirlýstur í heimalandi sínu. „Þannig að það var það sem við vorum að sjá að þetta væru nú erlendir aðilar,“ segir hann.

Innbrotsþjófarnir herjuðu sérstaklega á sérbýli í ákveðnum hverfum, eins og í Grafarvogi, Kópavogi og Garðabæ en hóparnir tveir eru grunaðir um yfir sjötíu innbrot í þessum hverfum. Annar hópurinn ók á milli staða á bíl. Hinn hópurinn nýtti sér almenningssamgöngur – strætó.

Rændu eftir strætóleið 24

Innbrotsþjófarnir tóku vagn númer 24, fóru úr honum á völdum stöðum, brutust inn og tóku svo vagninn aftur til baka á þann stað þar sem þeir dvöldu.

Það að glæpamennirnir komi jafnvel nokkrum sinnum til landsins tefur rannsókn lögreglu, því um leið og lögreglan var farin að fylgjast betur með hverfunum sem herjað var á hættu innbrotin jafnvel í tvær vikur og byrjuðu svo aftur.

„Sem dæmi í þessari rannsókn núna, bara munir úr einu innbroti voru að finnast á þremur stöðum. Og það að finna muni í húsleit hjá einhverjum sem þvertekur fyrir allt saman að hafa nokkuð komið að einu eða neinu en munirnir finnast samt hjá honum, þess vegna er svo mikilvægt að bera kennsl á munina, þeir eru þá úr þessu innbroti, fundust þarna, hjá þessum,“ segir Skúli.

Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. (Mynd Kveikur/RÚV)

Lögreglan verður að vera á tánum

En hvernig getum við brugðist við þessum breytingum á glæpastarfsemi? Eru íslensk lögregluyfirvöld í stakk búin til að takast á við þessar breytingar? „Við náttúrlega erum í þessu alþjóðlega samstarfi öllu og það er að skila okkur miklu þegar við höfum handtekið menn, upp á hverja þeir hafa að geyma, hafa þeir brotaferil heima,“ segir Skúli.

Hann segir einnig skipta máli að hingað komi ríflega tvær milljónir ferðamanna á ári og þá hvernig við séum í stakk búin að greina á milli þeirra sem koma hingað sem ferðamenn og þeirra sem koma til að fremja glæpi. „Það mætti örugglega velta fyrir sér hvort að við gætum verið að leggja meiri áherslu á það,“ segir hann.

En hvað sem líður samvinnu og góðum vilja, þá má alveg spyrja hvort það sé í reynd ómögulegt að uppræta glæpi af þessum toga? Hesztera segir að Evrópa sé nokkuð örugg en að þetta sé stöðug barátta. „Vissulega er þetta barátta og lögreglan þarf að vera við öllu búin. Við verðum að sjá fyrir hvað brotamennirnir ætla sér og við reynum það og höfum á því tökin en við verðum að leggja hart að okkur,“ segir hann.