Þúsundir tonna af dýrahræjum urðaðar ólöglega

Þúsundir tonna af dýrahræjum hafa verið urðaðar á Íslandi undanfarin ár, þótt það sé ólöglegt. Íslendingar henda 1,3 milljónum tonna af úrgangi á ári, og stór hluti fer í urðun. Til stendur að loka langstærsta urðunarstað á Íslandi fyrir lok þessa árs, en nýr staður hefur ekki fundist.

Í móttöku- og flokkunarstöð Sorpu í Gufunesi í Reykjavík bíða sorpbílstjórar í röðum eftir að losa almennan heimilisúrgang sem hefur verið safnað á höfuðborgarsvæðinu síðustu klukkutímana.

Þegar röðin er komin að þeim bakka þeir bílunum að risastóru sorpfjalli og þrýsta ruslinu að rótum þess, hátt í tíu tonnum í einu. Þannig gengur þetta, allan daginn, alla virka daga, allan ársins hring.

Þarna í Gufunesi sést með hvað skýrustum hætti gegndarlaus neysla nútímans.

Ingimundur Ellert Þorkelsson, flokksstjóri hjá Sorphirðu Reykjavíkur, hefur verið í ruslinu í 27 ár. Kveikur fylgdi honum og félögum hans hjá sorphirðunni eftir, þar sem þeir voru að safna heimilisúrgangi í Grafarvogi á venjulegum en fremur snjóþungum föstudegi í janúar.

„Við erum að fara hægar yfir út af færð. En það er ekkert óalgengt að maður taki 10-20 tonn af sorpi á dag.“

Og þetta er svona alla virka daga hjá ykkur?

„Já.“

Eitt til tvö bílhlöss af rusli?

„Já. Á hvern bíl,“ segir Ingimundur.

„Það náttúrlega kemur allt innpakkað sem þú kaupir. Þannig að við getum ekki annað en hent miklu. Þegar þú ert farinn að pakka inn eplum, þá segir það sig sjálft að það verður mikið sorp.“

Ingimundur Ellert Þorkelsson, flokksstjóri hjá Sorphirðu Reykjavíkur.

Og það er hverju orði sannara hjá Ingimundi: Það er mikið sorp. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun var heildarmagn úrgangs á Íslandi árið 2021 1,3 milljónir tonna. Aðeins einu sinni hefur það verið meira, árið 2017. Næstu þrjú ár á eftir minnkaði sorpið stöðugt á milli ára, en svo frá 2020-2021 jókst það um 23%. Tölur fyrir 2022 verða ekki tilbúnar fyrr en síðar á þessu ári.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun var heildarmagn úrgangs árið 2021 ein komma þrjár milljónir tonna. Það hefur aðeins einu sinni verið meira; árið 2017.

En hvar endar allur þessi úrgangur? Samkvæmt tölum frá Umhverfisstofnun eru 54% af öllum úrgangi notuð sem fyllingarefni innanlands. Það er þá ómengaður jarðvegur og jarðefni sem er til dæmis notað í vegagerð og til þess að fylla námur.

Næstmest, 20%, fer í endurvinnslu til útlanda, til dæmis plast og pappír. 13% eru urðuð hér á landi. 8% lenda í flokknum önnur endurnýting innanlands, en undir þann flokk fellur meðal annars endurnýting á timbri og malbiki. 2% fara í moltugerð hér innanlands, 1% er brennt með orkunýtingu erlendis og loks er 1% brennt án orkunýtingar hér á landi.

Hér sjáum við hvað varð um þær rúmlega 1,3 milljónir tonna af úrgangi sem Íslendingar losuðu sig við árið 2021.

Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir ljóst að Íslendingar hendi alltof miklu.

„Og ef við miðum okkur við Evrópulönd, þá er úrgangsmagnið frá hverjum Íslendingi töluvert hærra en ef við erum að miða okkur við Evrópusambandið. Og það eru náttúrulega alls konar vandamál sem liggja þar að baki. Eitt er að við erum rosalega neyslufrek þjóð, og það þarf að gera eitthvað í því.“

„Við erum rosalega neyslufrek þjóð, og það þarf að gera eitthvað í því,“ segir Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Ef við skoðum eingöngu heimilisúrganginn kemur í ljós að hver Íslendingur henti 666 kílóum af rusli að meðaltali árið 2021, sem er aukning frá árinu áður, en þó ekki met.

Heimilisúrgangur er allur úrgangur sem fellur til innan heimilisins og sams konar úrgangur frá fyrirtækjum, bæði flokkaður og óflokkaður.

Hver Íslendingur henti 666 kílóum af heimilisúrgangi að meðaltali árið 2021.

Þegar þessi tala er sett í alþjóðlegt samhengi komum við ekkert sérlega vel út. Við erum nefnilega í sjöunda sæti yfir þær þjóðir innan ESB sem henda mestu heimilissorpi. Og við erum töluvert langt yfir meðaltalinu, sem er 530 kíló á mann.

Birgitta segir að til þess að ná betri árangri verði Íslendingar að auka flokkun og endurvinnslu og koma úrgangi í raunverulega efnisendurvinnslu.

„Og við erum alltaf að miða okkur við Evrópusambandið, við erum að vinna samkvæmt ákveðnum tölulegum markmiðum, og þar erum við að ströggla við að ná þeim markmiðum, eins og til dæmis varðandi endurvinnslu heimilisúrgangs.“

Samkvæmt markmiði Evrópusambandsins átti að endurvinna helming alls heimilisúrgangs árið 2020. Á Íslandi var hlutfallið 26% það ár, og 27% árið 2021. Samkvæmt markmiðum ESB á hlutfallið að vera komið í 55% árið 2025, og halda svo áfram að aukast. Það er því ljóst að við eigum enn langt í land.

Einhverjir kunna þá að spyrja hvað verður um plastið, pappírinn og pappann sem við flokkum og hendum í bláu og grænu tunnuna?

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er plastið að mestu sent í stórar flokkunarstöðvar í Hollandi, Svíþjóð og Þýskalandi. Þar er það flokkað áfram og ýmist sent í endurvinnslu eða brennslu þar sem orkan sem fellur til er nýtt. Pappír og pappi fer að mestu til Hollands og Svíþjóðar þar sem efnið er endurunnið. Árið 2021 fóru 19.400 tonn af pappír og pappa til endurvinnslu erlendis.

En hvað verður þá um allan þann úrgang sem ekki er endurunninn eða endurnýttur? Jú, langstærstur hluti er hreinlega grafinn ofan í jörðina hér á landi, aðgerð sem í daglegu tali er kallað urðun.

Fréttamaður stendur við fjall af úrgangi á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi.

„Hérna undir okkur eru rúmlega 20 metrar af úrgangi, mörg hundruð þúsund tonn sem hafa verið urðuð síðan 1991. Úrgangur frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og viðskiptaþróunarstjóri Sorpu, þar sem hann gengur ásamt fréttamanni ofan á risastórum haug af sorpi á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi.

Samkvæmt starfsleyfi má urða þar allt að 120 þúsund tonn af úrgangi á ári. Árið 2021 urðaði Sorpa 43% af öllum úrgangi sem fyrirtækið fékk til meðhöndlunar og á landsvísu voru urðuð samtals 175.000 tonn.

Urðun er slæm af ýmsum ástæðum. Ein ástæðan er sú að urðunarstaðir losa mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Ef við skoðum starfsemi Sorpu árið 2021 með tilliti til losunar kemur í ljós að flugferðir á vegum fyrirtækisins losuðu ígildi 10 tonna af koltvísýringi, rafmagnsnotkun losaði 51 tonn, eldsneyti losaði 1.375 tonn en urðun á úrgangi losaði hvorki meira né minna en 78.601 tonn.

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir að alltof mikið af úrgangi sé urðað á Íslandi.

„En þetta endurspeglar í raun bara kerfi sem við búum við. Það er ekki nægjanlega góð flokkun heima við eða hjá fyrirtækjum,“ segir Jón Viggó. „Ég held að við þurfum að beina sjónum að almenningi og stjórnvöldum, hvað við gerum í upphafi virðiskeðjunnar.“

„Úrgangsmeðhöndlun á Íslandi hefur svolítið snúist um að taka við úrgangi og reyna að gera eitthvað við hann. Hann kemur til dæmis til okkar sem blandaður úrgangur og það eru náttúrulega takmörk fyrir því hvað tæknin getur gert. En nú er komið að því hvernig við bregðumst við og hvernig við hegðum okkur. Og þarna er ég að tala um úrgangs-forvarnir. Við þurfum að fara að neyta minna, bæði almenningur og fyrirtæki.“

„Það er ekki nægjanlega góð flokkun heima við eða hjá fyrirtækjum,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

Birgitta tekur í sama streng og segir að alltof mikill úrgangur sé urðaður hér.

„Og ef maður á að fara meira út í hugmyndafræðina, þá erum við bara búin að byggja upp hagkerfi þar sem línulega hagkerfið er langódýrast, og þá verður urðun alltaf ódýrust af því að þá þarftu ekki að gera neitt. Þú ferð bara og skilur eitthvað eftir. En það er náttúrulega ekki ódýrast fyrir umhverfið.“

Birgitta segir að Umhverfisstofnun hafi lagt það til við stjórnvöld, að hér verði lagður á sérstakur urðunarskattur. Þær hugmyndir hafi hins vegar aldrei náð fram að ganga.

Það er þó verið að taka ýmis skref í rétta átt. Urðun hefur minnkað smátt og smátt, þótt hún sé enn mikil. Um áramótin tóku svo gildi ný lög sem eiga að draga úr myndun úrgangs og ýta undir endurvinnslu.

Samkvæmt lögunum skal sama flokkunarkerfi gilda um allt land. Skylt verður að flokka úrgang í að minnsta kosti sjö flokka: pappír, plast, lífúrgang, textíl, málma, gler og spilliefni. Síðustu fjóra flokkana þarf fólk að fara með á viðeigandi staði, til dæmis í grenndargáma. Við öll heimili í þéttbýli verður safnað almennum úrgangi, pappír, plasti og lífrænum úrgangi. Nýjar tunnur verða settar við öll heimili. Á höfuðborgarsvæðinu á að hefja þessa innleiðingu í maí.

Þetta þýðir meðal annars að mun minna verður urðað af lífrænum úrgangi en hingað til. Honum verður safnað saman, og hann fluttur í gas- og jarðgerðarstöðina GAJU. Þar verður nánast öllu metangasi tappað af honum og það selt, en mikil eftirspurn er eftir metangasi hér á landi. Fasta efnið breytist svo í moltu sem notuð verður sem áburður.

GAJA er staðsett í Álfsnesi, við hliðina á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins. Mikil óvissa er uppi um framtíð þess staðar, því til stendur að loka urðunarstaðnum í lok þessa árs. Eigendur Sorpu, sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, samþykktu þetta árið 2020.

„Þetta er 30 ára gamall urðunarstaður. Hann er byggður upp í kringum gríðarlegt magn af blönduðum úrgangi sem þarf að losna við. Það er mikið af lífrænu efni urðað þarna, og við erum ekki góður nágranni við nærsamfélagið, sem er þá aðallega Mosfellsbær,“ segir Jón Viggó.

Þannig að Mosfellingar eru kannski síst hrifnir af þessum urðunarstað?

„Já og ég held að allir séu óánægðir með að vera með svona stóran urðunarstað nánast í bakgarðinum hjá sér.“

Leit að nýjum stað hefur ekki enn borið árangur, og það er ekki langur tími til stefnu.

„Samtalið hefur verið erfitt af því að við erum að urða svo mikið af blönduðum úrgangi,“ segir Jón Viggó. „Þá erum við að tala við aðila, nærsamfélagið hérna, eða sveitarfélögin í nágrenninu, um 60.000-100.000 tonna urðunarstað, sem er gríðarlegt magn. Þetta er gríðarlegt magn sem fellur til á höfuðborgarsvæðinu, sem gerir það að verkum að samtalið yfirleitt stoppar.“

Það vill enginn fá svona urðunarstað?

„Nei.“

Sorpa telur að nýja svæðið þyrfti að vera á bilinu 30-35 hektarar. Það samsvarar stærð 40-50 fótboltavalla. Til að setja þá stærð í eitthvert samhengi, þá myndi það ná yfir alla Reykjavíkurtjörn, Hljómskálagarðinn og hluta Vatnsmýrar. Samkvæmt þeim forsendum sem Sorpa gefur sér myndi nýr urðunarstaður endast í um 100 ár.

Nýr urðunarstaður þarf að vera á bilinu 30 til 35 hektarar.

En hvað gerist ef Álfsnesi verður lokað í lok þessa árs, og ekki er búið að finna nýjan stað?

„Þá erum við í vondum málum,“ svarar Jón Viggó, en bætir því við að til greina komi að semja við sveitarfélög fjarri höfuðborgarsvæðinu um urðun úrgangs, til dæmis í Fíflholtum í Borgarfirði. Því myndi hins vegar fylgja bæði aukinn kostnaður og aukið kolefnisspor, enda eru Fíflholt um 100 kílómetra frá Reykjavík.

En það er víðar en á höfuðborgarsvæðinu sem úrgangur er urðaður í stórum stíl. Á Sauðárkróki er starfrækt fyrirtækið Flokka, sem er eins konar Sorpa þeirra Skagfirðinga. Fyrirtækið tekur á móti úrgangi frá heimilum og fyrirtækjum, og flokkar og endurvinnur það sem hægt er. Ómar Kjartansson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segist hins vegar ekki ná að endurvinna nema minnihlutann af þeim úrgangi sem berst.

„Nei, því miður. Það fer dálítið stór hluti í urðun.“

Hefurðu einhverja hugmynd um hversu stór hluti það er?

„Það er meira en helmingur sko,“ segir Ómar.

Nánast allt sorp sem fellur til á Norðurlandi er urðað í Stekkjarvík, skammt frá Blönduósi. Sem dæmi má nefna að í fyrra féllu til rúmlega 1.700 tonn af heimilisúrgangi á Akureyri. Hann var allur keyrður í Stekkjarvík, tæplega 150 kílómetra langa leið, eða samtals tæpir 300 kílómetrar fram og til baka.

Við fylgdum eftir tveimur bílum frá Flokku, sem keyrðu með úrgang frá Sauðárkróki til Stekkjarvíkur. Í öðrum bílnum var almennur heimilisúrgangur úr Skagafirði, en í hinum bílnum voru 12 tonn af dýrahræjum, sem hafði verið safnað saman hjá bændum í Skagafirði daginn áður. Sum þeirra voru í pokum, en önnur laus á pallinum.

Dýrahræ eru urðuð um allt land. Árið 2021 voru samtals 1.557 tonn af hræjum urðuð á öllu landinu, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun. Árin þar áður voru á bilinu 1.300 til um 3.000 tonn urðuð árlega, og samtals rúmlega 10.000 tonn á árunum frá 2017 til 2021. Sem er merkilegt, í ljósi þess að það er ekki löglegt, samkvæmt reglugerð um aukaafurðir dýra og afurðir ekki ætlaðar til manneldis.

„Nei, það er ekki löglegt að urða dýrahræ, og við erum mjög meðvituð um að það er samt verið að gera það,“ segir Birgitta. „Umhverfisstofnun er með eftirlit með urðunarstöðum, en við höfum ekki verið að gera athugasemdir við þetta á meðan það eru ekki aðrir farvegir til staðar á landinu. Þannig að það er þessi innviðauppbygging sem þarf að eiga sér stað til þess að við getum í rauninni leyst þetta mál á löglegan hátt.“

Þar á Birgitta við hátæknibrennslu, en víða í nágrannalöndunum eru dýrahræ brennd í stað þess að vera urðuð.

„Það er mjög stórt loftslagsmál að urða lífrænan úrgang. Og dýrahræ eru lífrænn úrgangur. Þannig að það verður töluverð metan-losun út af þessari urðun. Og hún er ekki bundin við árið í ár, hún heldur áfram að losa, urðunarstaðurinn, löngu eftir að dýrahræin eru urðuð. En við erum ekki með getuna til þess að takast á við þetta magn af dýrahræjum sem falla til, á annan hátt en að urða.“

Jón Viggó er sammála Birgittu og segir að forsvarsmenn Sorpu séu þeirrar skoðunar að það þurfi að reisa stóra sorpbrennslu hér á landi.

„Við erum að flytja gríðarlegt magn af úrgangi út, við erum bara ekki í stöðu til þess að brenna það hér.“

Að vísu er sorpbrennslustöð á Íslandi, rekin af sorpeyðingarstöðinni Kölku í Helguvík. Þar er hægt að brenna allt að 12.500 tonn af úrgangi á ári. Í dag er stöðin fyrst og fremst notuð til að brenna úrgang frá heimilum og fyrirtækjum á Suðurnesjum. Þá eru spilliefni af öllu landinu brennd þar, sem og sóttmengaður úrgangur frá sjúkrastofnunum, lyfjaúrgangur og eitthvað af sláturúrgangi. Stöðin er í fullri nýtingu og brennir úrgang allan sólarhringinn. Einnig eru litlar brennslur í sláturhúsum víða um land, sem brenna áhættuvef úr sláturdýrum, svo sem heila og mænu. Þessar minni brennslustöðvar komast þó ekki nálægt því að anna eftirspurn.

Frá sorpeyðingarstöðinni Kölku í Helguvík. Þar er hægt að brenna 12.500 tonn af úrgangi á ári. Stöðin er keyrð á fullum afköstum allan sólarhringinn.

Margir Íslendingar kannast örugglega við Amager Bakke-sorpbrennsluna í Kaupmannahöfn, sem er hvað þekktust fyrir að á þaki hennar er skíðabrekka. Sú stöð afkastar 600.000 tonnum á ári.

Í skýrslu starfshóps um fýsileika sorpbrennslu á Íslandi, frá 2021, kemur fram að stöð sem afkastar 130.000 tonnum á ári myndi kosta á bilinu 20-35 milljarða króna. Slík stöð gæti haft 10 megavatta uppsett afl, og gæti framleitt raforku sem samsvarar notkun um 15 þúsund heimila, og 28 megavöttum af varmaafli, sem dygði til að sjá öllum Mosfellsbæ fyrir heitu vatni. Hagkvæmast væri að hafa hana í Álfsnesi, að því er fram kemur í skýrslunni.

Nútímasorpbrennslur eigi að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þeirra hvað umhverfismál varðar. Þannig hafi askan sem fellur til mikið notagildi. Hún er meðal annars notuð í steypu og við vegagerð. Þá hafi orðið mikil framför í búnaði til brennslu og hreinsunar á afgasi á undanförnum áratugum. Því ætti mengun frá slíkri stöð hvorki að hafa marktæk áhrif á heilsu íbúa í næsta nágrenni, né á umhverfið.

Amager Bakke sorpbrennslan í Kaupmannahöfn er hvað þekktust fyrir skíðabrekkuna á þaki hennar.

Birgitta segir að útflutningur á úrgangi til brennslu hafi ákveðna kosti, sérstaklega núna þegar mikil eftirspurn sé eftir orku víða í Evrópu.

„Og brennsla á úrgangi er ein leið til þess að draga úr þessari notkun á jarðefnaeldsneyti, að búa til orku úr öðrum efnum. Þannig að það er kannski hægt að leysa úr vissum hluta með útflutningi. En það eru vissir úrgangsflokkar sem þarf að brenna, og við erum  ekki að ná að sinna nógu vel í dag. Þannig að ég held að við komumst ekki hjá því að byggja upp einhvers konar brennslu.“

Hefur Umhverfisstofnun talað fyrir því að svona sorpbrennslustöð sé opnuð?

„Já. Við höfum talað fyrir því og í rauninni er það samtal sem er búið að vera lengi í gangi og er svolítið á borði ráðuneytisins.“

Jón Viggó segir að forsvarsmenn Sorpu hafi einnig talað fyrir stórri sorpbrennslu á Íslandi.

„Og við höfum tekið samtalið við ráðherra um það og hann er áhugasamur. En þetta stendur í mönnum af því að þetta er dýrt.“

Baggar með úrgangi urðaðir í Álfsnesi.

En hvað sem umræðu um sorpbrennslu og urðun líður er ljóst að forvarnir eru sterkasta vopnið gegn úrgangi, það er að segja að koma í veg fyrir að úrgangurinn myndist til að byrja með. Það er meðal annars gert með því að minnka neyslu, og með því að kaupa vandaða hluti.

„Við erum að kaupa mjög mikið af hlutum sem oft endast illa,“ segir Birgitta. „Mikið af raftækjum, við erum að kaupa mikið af textíl, við erum að kaupa mikið af innanstokksmunum og húsgögnum. Það er rosalega mikil neysla í þessum flokkum inni á heimilunum.“

Þá bendir Birgitta á mikilvægi þess að búa til hagræna hvata til þess að leigja hluti í stað þessa að kaupa þá, og kerfi þar sem það er hagkvæmara að láta gera við hluti, frekar en að henda þeim.

„En hitt er þessi staðreynd að við lifum í heimi þar sem menn eru með óendanlega miklar þarfir, en við erum með takmörkuð gæði. Þannig að við getum ekki haldið áfram að nota svona mikið af auðlindum. Það er kannski stóra vandamálið eins og ég sé það.“

Mávager á urðunarstaðnum í Álfsnesi

Úrgangsmál eru augljóslega mjög stórt umhverfismál og þau eru stórt neytendamál líka. En við skulum ekki gleyma því að þau eru líka efnahagsmál. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga kostuðu úrgangsmál sveitarfélögin um átta milljarða króna árið 2021. Sveitarfélögunum ber skylda til að innheimta þjónustugjöld sem nægja fyrir þessum kostnaði. Fyrirtækin eru ekki inni í þeirri tölu, og samkvæmt mati sambandsins mætti að minnsta kosti tvöfalda hana til þess að fá heildarkostnað vegna meðhöndlunar alls úrgangs á Íslandi. Það er því til mikils að vinna fyrir okkur, ekki bara heimilin í landinu, heldur fyrirtækin og atvinnulífið líka, og í raun samfélagið allt, að gera betur í úrgangsmálum.

En erum við á réttri leið eða vantar okkur mikið upp á?

„Bæði rétt. Ég held að við séum á réttri leið en það vantar líka mikið upp á,“ segir Birgitta.

„Við erum enn þá að urða mjög svipað magn og við vorum að gera fyrir fimm árum eða fyrir tíu árum. Og úrgangsmagnið er líka að aukast. Þannig að mælanlega hafa kannski ekki orðið neinar miklar, stórar breytingar sem eru að hafa áhrif á þetta. Og það er bara þetta; við þurfum bara að taka miklu stærri skref, sérstaklega til að draga úr urðun og til að auka endurvinnslu.“

Við þurfum að minnka neyslubrjálæðið?

„Og við þurfum mjög mikið að minnka neyslubrjálæðið, já.“