Skipulagðir hópar stela fyrir milljarða

Rakvélablöð, íþróttavörur og verkfæri eru meðal þess sem hnuplað er úr verslunum hérlendis árlega. Tjónið er talið nema sex milljörðum króna. Margt er flutt úr landi en jafnmikið talið selt aftur hérlendis. Skipulagðir glæpahópar eru ábyrgir fyrir mesta tjóninu.

Karl nær sér í verkfæri

Karlmaður í svartri úlpu og svörtum vinnubuxum kemur inn í verslun í Reykjavík. Það fer ekki mikið fyrir honum. Í fyrstu er allt eðlilegt, hann kíkir á varning í hillunum og skoðar svo gemsann, tekur nokkrar myndir af því sem í boði er. Les skilaboð, eða kannski innkaupalista?

Því lengra sem á þessa verslunarferð líður því skrítnari verður hún. Þessi viðskiptavinur fer um alla búð og virðist ekki síst vera að koma sér undan öðrum viðskiptavinum og starfsmönnum.

Eftir nokkrar mínútur grípur hann verkfæratösku en hikar þegar hann sér starfsmann verslunarinnar og viðskiptavin á leiðinni út um dyrnar. Hann leggur verkfæratöskuna frá sér aftur, skimar í kringum sig og fylgist grannt með því þegar starfsmaðurinn og viðskiptavinurinn koma aftur inn.

Þarna er tækifærið!

Maður á miðjum aldri rýkur skyndilega út með verkfæratösku upp á nokkra tugi þúsunda. Og ef einhver heldur að hann hafi kannski bara aðeins ruglast sést greinilega á upptökum úr öryggismyndavélum hvernig hann tekur á sprett um leið og komið er út.

Starfsmaður fylgir á hæla honum, líka á spretti, en forskotið er of mikið. Þjófurinn stekkur upp í sendibíl sem bíður hans á næsta bílaplani og brunar í burtu.

Á lagamáli heitir svona hnupl, þegar stolið er úr verslun. Það gerist á hverjum degi, í miklum mæli og tryggingar bæta þennan skaða ekki. Honum er auðvitað bara velt út í verðlagið. Viðskiptavinurinn borgar. Og reikningurinn er ekkert smáræði.

Hnuplað fyrir sex milljarða

Á skrifstofu sinni í Borgartúninu situr Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, og segir það sem hann hefur sagt ótal sinnum í viðtölum: Að reikna megi með því að hnupl úr búðum jafngildi einu prósenti af veltu í smásölu. Heildarveltan þar er sex hundruð milljarðar króna. „Þannig að við getum reiknað með að þetta séu svona sex milljarðar sem fara í súginn með þessum hætti,“ segir Andrés þungur á brún.

Andrés Magnússon er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu

Þessum sex milljörðum til viðbótar kemur kostnaður við öryggisgæslu, þjófavarnarkerfi og fleira sem beitt er til að draga úr þjófnaði.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 218 þúsund kjarnafjölskyldur á Íslandi, sem þýðir að hver þeirra greiðir að meðaltali ríflega 27 þúsund krónum meira fyrir innkaupin sín árlega af þessum sökum.

Tölurnar sem Andrés vitnar til eru hins vegar bara ágiskun, byggðar á því sem þekkist erlendis og mati verslana, því á Íslandi eru í besta falli til grófar tölur hjá lögreglu um mál sem þangað rata, sem er ekki nema hluti, og nákvæm gögn er hvergi að finna. En Andrés segist hafa meiri áhyggjur af eðli starfseminnar, því  hún beri þess öll merki að vera skipulögð brotastarfsemi.

„Eins og þetta horfir við okkur þá eru send hérna gengi af glæpahópum erlendis til að stunda svona starfsemi. Og eftir að það er kannski búið að taka handtaka þau tvisvar eða þrisvar fyrir brot af þessu tagi eru þau horfin á braut, koma aldrei til Íslands aftur, vonlaust að ná í þau og aðrir komnir á vaktina.“

Skipulögðu glæpahóparnir

Þetta þekkja menn eins og Helgi Gunnarsson, rannsóknarlögreglumaður í Hafnarfirði, sem vinnur alla daga við að rannsaka þjófnað af ýmsu tagi.

Helgi Gunnarsson, rannsakari hjá lögreglunni í Hafnarfirði

Hann tekur á móti Kveiksliðum á lögreglustöðinni í Hafnarfirði og segir algengara að skipulögð gengi, sem komi annað hvort erlendis frá eða séu skipulögð þaðan, stundi þjófnað. „Áður var þetta handahófskenndara, farið inn í heimahús og á vinnustaði. En nú er þetta orðið þróaðra.“

Hjá Samtökum verslunar og þjónustu er áætlað að 80% tjónsins verði í 20% tilvikanna. Svo virðist sem þessi gengi komi og séu hreinlega að afgreiða upp í pantanir.

Álhattar þjófaheimsins

Þetta er ekki óþekkt erlendis og stundum er talað um farandglæpahópa. Hópa sem koma í stuttan tíma til landsins, fara jafnvel í hringferð, stela ógrynni, senda heim í póstsendingum sem eru of smáar til að sæta leit hjá pósti og tolli. Og fara svo aftur, áður en lögregla eða aðrir hafa náð yfirsýn eða áttað sig á hvað er um að vera.

Erlendar rannsóknir benda þó til þess að þetta gerist ekki án aðstoðar hérlendis, því einhver þarf að kortleggja verslanirnar, reka flutningsnet þýfisins og fleira. Dæmi eru um að þjófar hafi verið gripnir með kort, þar sem búið var að vista GPS-hnit verslana víða um land.

Aðrir hafa verið gripnir með poka, töskur, bakpoka og jafnvel úlpur með aukavösum sem klædd hafa verið með álpappír, því þannig er stundum hægt að koma í veg fyrir að þjófavörn í verslun virki.

Helgi Gunnarsson, lögreglumaður, sýnir tösku sem klædd hefur verið með álpappír að innan og utan í von um að komast í veg fyrir að þjófavörn í verslun virki.

Fullar ferðatöskur af rakvélablöðum á leið úr landi

Þjófagengin sækjast ekki eftir hverju sem er. Þvert á móti er ákveðinn varningur augljóslega vinsælli en annar. Í stórverslunum er sótt í snyrtivörudeildirnar, í rakspíra og rakvélablöð. Dýr tískufatnaður og dýr íþróttavara er líka vinsæl.

Kveikur heimsótti Tollinn og ræddi við Pál Svansson, aðstoðaryfirtollstjóra, sem sýndi það sem fannst í lúnum sendiferðabíl sem stöðvaður hafði verið á leið úr landi. Innan um búslóð fólks, sem verið var að flytja úr landi, fannst alls konar varningur, að mestu falinn í ferðatöskum.

Nokkrar töskurnar voru að mestu fullar af rakvélablöðum. Páll sagði þeirra útreikninga benda til að smásöluverð þeirra væri rétt tæpar fimm milljónir króna. Innan um rakvélablöðin mátti finna annað smálegt, frá dýru konfekti til kaffipoka, en líka fæðubótarefni, sem eru vinsæl meðal þjófa.

Páll sagði Tollinn í átaki við að leita í sendingum á leið úr landi og það fór ekki á milli mála, því hálfum mánuði síðar var Kveiksteymið mætt aftur, að skoða farm úr öðrum bíl á leið úr landi. Enn fleiri rakvélablöð, meira vítamín og tvö rándýr rafhjól voru meðal þess sem fannst í bílnum.

Hjólin var hægt að rekja til innbrots nokkrum vikum áður en smáhlutirnir eru annað mál. Það er næsta vonlaust að rekja rakspíraflösku, skópar eða rakvélablöð til ákveðinnar verslunar.

„Yfirleitt er þetta varningur sem er búið að opna, búið að skemma og þar af leiðandi er þetta ekki söluvara lengur. Þegar búið er að rífa upp Gillette-pakkann, þegar búið er að eiga við dýrar úlpur eða dýran fatnað, með einhverjum hætti, þá er þetta ekki söluvara lengur. Þannig að yfirleitt er þetta altjón,“ segir Andrés Magnússon.

Bílar af þessu tagi fara fram og aftur í hverri viku, margir með Norrænu, og flytja til dæmis búslóðir eins og þessi, sem er góð leið til að fela þýfið inni á milli. Þorrinn er á leið til Austur-Evrópu. En flytjandinn þarf að sýna fram á pappíra, til dæmis kvittanir fyrir varningi, til að sanna að full taska af rakvélablöðum, til dæmis, sé löglegur varningur. En það gerist sjaldan.

Verkfærin

Verkfæri eru efst á lista lögreglu yfir varning sem hnuplað er úr verslunum og stolið í innbrotum. Verkfæri voru líka meðal varnings í bílunum sem Kveikur skoðaði hjá Tollinum.

Eigandi stórs verktakafyrirtækis sagði Kveik sögu af innbroti á verkstað nýlega. Verknaðurinn náðist á mynd þar sem öryggismyndavélum hafði verið komið fyrir. Þar sést stór jeppi koma akandi upp að nýbyggingu og hópur manna stíga út. Þeir eru fljótir að brjótast inn í bygginguna og jeppinn ekur á brott.

Klukkustund síðar birtist jeppinn aftur og þá er hópurinn tilbúinn. Mennirnir bera verktæki en líka hluta innréttinga, salernisskálar og vaska, út úr byggingunni. Á örskömmum tíma hurfu verðmæti fyrir milljónir og þótt bílnúmer jeppans sé vel greinanlegt á upptökunni úr öryggismyndavélinni hafa engar fregnir borist af viðbrögðum lögreglu.

Sumarið 2019 var brotist inn í vinnuvélar á vinnusvæði hjá Ístaki og vélstýringum, GPS-búnaði, stolið. Áætlað heildartjón þar var metð 16 milljónir króna. Og það gekk ekki lítið á þegar þessum tækjum var rænt. Skemmdir voru unnar á tækjum, rúður brotnar, hurðalæsingar sprengdar upp og fleira. Þýfið nýtist þó þjófunum ekki, heldur er einungis tjón fyrir þá sem stolið var frá.

Samkvæmt upplýsingum frá Ístaki var tjón vegna innbrota í gáma á sjö vinnusvæðum fyrirtækisins á nokkurra ára bili á milli átta og tíu milljónir króna. Handverkfærum, tölvum og vinnufötum var stolið.

Viðmælendur Kveiks segja fæst þessara innbrota handahófskennd. Þvert á móti bendi flest til að þjófarnir eigi sér að minnsta kosti vitorðsmenn meðal starfsmanna, því greinilegt sé að í svona tilfellum viti innbrotsþjófar bæði hvar verðmætin er að finna og hvar myndavélum hafi verið komið fyrir, svo þeir geti reynt að forðast þær.

Skipulagðir hópar – en ekki í forgangi

Forsvarsmenn SVÞ gagnrýna lögreglu, segja viðbragð hennar við þjófnaði og búðahnupli lítið. Og þess utan rati of stór hluti þeirra mála sem þó eru rannsökuð aldrei til dómstóla, heldur séu þau felld niður.

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og yfirmaður greiningardeildarinnar þar, segir lögregluna verða að forgangsraða. „Meðal annars höfum við fengið fyrirmæli frá ríkissaksóknara þar sem við eigum að forgangsraða út frá skaðsemismati. Og höfum þá verið að beina sjónum okkar að kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi, ofbeldismálum almennt,“ segir hann í viðtali við Kveik.

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og yfirmaður greiningardeildar.

Tölur lögreglunnar sýna að ákærur í hnuplmálum séu síst færri en í öðrum brotaflokkum. Í ríflega helmingi hnuplmála var hinn grunaði með íslenskt ríkisfang en það endurspeglar ekki endilega umfang tjónsins, því ekki eru allir jafn stórtækir og skaðlegir, né gefur það mynd af heildarfjölda tilvika, því einungis lítill hluti er kærður til lögreglu.

Helst er kært ef þjófurinn er staðinn að verki. Og samkvæmt tölunum sem lögreglan tók saman var grunaði þekktur í 86 prósentum hnuplmála sem komu á borð lögreglu. Í tveimur þriðju tilvika eru karlar að verki, oftast á milli þrítugs og fertugs. Þegar konur voru gripnar við hnupl var algengast að þær væru á unglingsaldri en eftir það fór tíðnin lækkandi.

Andrés og kollegar hans hjá SVÞ tala um erlend gengi en Runólfur dregur upp aðra mynd. „Við sjáum að þjóðerni virðist skipta jafnvel enn minna máli hér á litlu landi sem er mjög vel tengt við umheiminn. Þá skiptir þjóðerni orðið minna máli og blandaðir hópar og Íslendingar og útlendingar vinna saman að verkefnum, sem er breyting frá því sem við þekktum hér á árum áður.“

Í smíðum er leið til að senda myndir úr öryggismyndavélum verslana hratt og beint til lögreglu, svo að þær berist lögreglumönnum í bílum hér og hvar og þeir geti litast um. Vonir standa til að þessi leið auki líurnar á að þjófar séu gómaðir.

Þjófagengin sjálf fórnarlömb?

Ef mesti skaðinn er vegna skipulagðrar glæpastarfsemi þarf kannski að byrja framar í þeirri keðju en eftir þjófnað. Í skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra í fyrra eru þessi þjófagengi tengd mansali. Þjófarnir, sem hnupla í búðum, brjótast inn í verkfæraskúra, hreinsa rafhjól af götum borga og bæja, séu í raun fórnarlömb.

Runólfur segir dæmi um slíkt. „Við höfum hér upplýsingar um það líka, að það sé verið að nota fólk til að meðal annars stela úr búðum. En fólk er misnotað á ýmsan hátt.“

Í skýrslu greiningardeildarinnar er sérstaklega vikið að aðstoðarmönnum, sem eru þá þeir sem búa á Íslandi og þekkja aðstæður. „Aðstoðarmenn skipulagðrar brotastarfsemi varðandi smygl á fólki og mansal eru þeir sem með markvissum hætti veita aðstoð vegna komu, dvalar eða starfsemi fórnarlamba mansals á Íslandi. Slík aðstoð getur m.a. verið fólgin í að útvega dvalarstað fyrir fórnarlömb mansals, velja staði þar sem misneyting fer fram, vera tengiliður við innlenda glæpamenn/hópa og aðstoða við peningaþvætti eða við flutning á þýfi úr landi eða koma því í verð á annan veg. Þetta á m.a. við um þá sem tilheyra þjóðarbrotum frá löndum með mörgum virkum glæpamönnum á Íslandi og þá einstaklinga innan þess hóps sem hafa aðgang að eða tengjast fyrirtækjum í lögmætum rekstri.“

Nokkrir verslunarmenn, sem Kveikur hefur rætt við, nefna dæmi um þetta. Þeir hafa ítrekað orðið fyrir því að brotist er inn í verslanir þeirra og vöruhús. Öryggimyndavélar ná öllu á mynd og stundum þekkist fólkið. Oftar en ekki er þarna ógæfufólk á ferð, fíklar sem sagðir eru mæta með innkaupalista frá skipulögðu gengjunum og fyrirmæli um hvar eigi að brjótast inn með öllum tiltækum ráðum. Takist að stela einhverju séu launin næsti eiturlyfjaskammtur. Skipulögðu hóparnir notfæra sér neyðina.

Tölur lögreglunnar

Ríkislögreglustjóri og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tóku að beiðni Kveiks saman tölur um hnupl, þjófnað og innbrot. Að jafnaði eru tilkynnt til lögreglu þrjú innbrot og tvö hnuplmál á dag og hefur það haldist nokkurn veginn óbreytt síðastliðin ár.

Skrifstofur Ríkislögreglustjóra við Skúlagötu.

Árlega gerir lögreglan svokallaða þolendakönnum, þar sem 4000 Íslendingar eru spurðir um afbrot af ýmsu tagi. Í könnun sem lögð var fyrir landsmenn árið 2022 sögðust 6% íbúa hafa orðið fyrir þjófnaði árið 2021 og 7% sögðust hafa orðið fyrir innbroti. Um 46% þeirra sem höfðu orðið fyrir innbroti tilkynntu það til lögreglu og um 40% þeirra sem höfðu orðið fyrir þjófnaði tilkynntu það til lögreglu.

Á árabilinu 2018 til 2022 skiptist þýfi í þessa flokka, samkvæmt málaskrá lögreglunnar:

Samkvæmt tölum lögreglunnar eru karlkyns gerendur í hnuplmálum með íslenskt ríkisfang í 58% tilfella og í innbrotum 80%. Hlutfallið er hærra meðal kvenna. Þessar tölur ná þó skiljanlega aðeins yfir þá sem lögreglan handsamar en talið er víst að stór hluti skipulagðra þjófagengja komi hingað í stuttar ferðir, fari ránshendi um landið og yfirgefi það áður en lögreglan hefur hendur í hári þeirra.

Þótt þarna séu skipulagðir hópar á ferð fellur nánast ekkert af þessum brotum undir skilgreiningu laga á skipulagðri brotastarfsemi. Í grein 175a í hegningarlögum segir:

Sá er sammælist við annan mann um að fremja verknað sem varðar að minnsta kosti 4 ára fangelsi og framkvæmd hans er liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum, nema brot hans varði þyngri refsingu samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara eða öðrum lögum.

Með skipulögðum brotasamtökum er átt við félagsskap þriggja eða fleiri manna sem hefur það að meginmarkmiði, beint eða óbeint í ávinningsskyni, að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varðar að minnsta kosti 4 ára fangelsi, eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felst í því að fremja slíkan verknað.

Í skráningakerfi lögreglu, Löke, er ekki að finna mörg þjófnaðarbrot, hnupl eða innbrot sem eru skráð með málsliðnum „Sammælst um að fremja refsiverðan verknað sem liður í skipulagðri brotastarfsemi“. Aðrar tegundir afbrota, eins og fíkniefnalagabrot, falla yfirleitt þarna undir. Það kann því að vera að þjófnaðarbrot sem liður í skipulagðri brotastarfsemi séu fleiri en skráningar gefa til kynna. Í öllu falli nær málaskrá lögreglu ekki utan um umfangið með fullnægjandi hætti, segir í svari lögreglunnar til Kveiks.

Af hverju er glæpamönnum ekki vísað úr landi?

Hell's Angels-félagar ganga í vestum og merktum búnaði svo ekki fari á milli mála hverjir eru þar á ferð.

Í nóvember var tuttugu og tveimur liðsmönnum Hell‘s Angels vísað úr landi, að ákvörðun Útlendingastofnunar. Þeir höfðu ekkert brotið af sér og voru sagðir á leið í einhvers konar gleðskap hérlendis. En lögreglan og sérsveitin tóku á móti þeim í Keflavík og sneru þeim við. Ástæðan var ætluð tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Mætti ekki segja sama um þjófagengi?

Runólfur segir ekki, þótt þessu úrræði hafi stundum verið beitt. En eitt af því sem horft sé til, sé hvort þeir sem brjóta ítrekað af sér eigi ólokin mál í refsikerfinu. Annað gildi um Hell‘s Angels  því dómar bæði Hæstaréttar og Evrópudómstólsins hafi ítrekað staðfest að ógnandi fas þeirra, vel merkt vesti og merkingar, séu til þess fallin að skapa ákveðna ógn. Á grundvelli þeirrar skilgreiningar hafi þeim verið vísað úr landi.

Viðmælendur Kveiks gagnrýna engu að síður að ferlið sé ekki nógu skilvirkt. Helgi Gunnarsson, rannsóknarlögreglumaður í Hafnarfirði, tekur undir það. „Kerfið er ekki nógu skilvirkt. Þetta þarf að vera mikið skilvirkara þannig að þetta líka skili árangri og sýni það erlendis að þú getur ekki endalaust verið að án þess að neitt sé gert. Við höfum stundum á tilfinningunni að það vanti einhvern til að klára verkið. Við erum kannski búin að vinna vinnuna okkar alveg á fullu. Eins vel og við getum. Þá vantar einhvern smá hlekk til að verkið verði fullkomnað.“ Erfitt er að skilja orð Helga öðru vísi en sem gagnrýni á saksóknara og niðurfellingu mála. Sömu gagnrýni og kom fram hjá Andrési hjá SVÞ.

Kaupir þú þýfi?

Þótt bílfarmar af verkfærum og rakvélablöðum fari reglulega úr landi segja lögreglumenn Kveik að því sé fjarri að allt þýfi fari úr landi. Runólfur, hjá Ríkislögreglustjóra, segir ljóst að hér á landi finnist kaupendur og því verði þýfið hér áfram.

Helgi tekur undir það. Þegar hann er spurður hvort Íslendingar séu þá sjálfir að kaupa þýfi er svarið stutt og skýrt: „Því miður, þá held ég að það sé bara allt of mikið um það.“

Rakvélablöð, rakspíri, og smávarningur eins og hér sést er líklega hnuplað til útflutnings. En margt annað fer ekki langt, heldur endar að öllum líkindum hjá einhverjum sem keypti þýfi. 

Hann nefnir þó dæmi um varning sem var vinsæll fyrir nokkrum misserum, GPS-mæla sem settir eru á vinnutæki og tennur snjóhefla. Fjölda þessara tækja var stolið en nokkru síðar hafði maður samband við Helga. Maðurinn reyndist búa í Hong Kong og hafði keypt töluvert af GPS-mælum í gegnum sölusíðuna eBay. Þegar hann fékk tækin í hendur sló hann framleiðslunúmer þeirra inn á vefsíðu framleiðanda og komst þá að því að hann væri með þýfi í höndunum.

Úr varð að hann sendi búnaðinn, sem hann keypti frá Austur-Evrópu, til Íslands. eBay varð að endurgreiða honum þar sem hann gat sýnt fram á varan væri þýfi. Helgi og félagar tóku fagnandi við sendingunni frá Hong Kong og gátu komið tækjunum til réttmætra eigenda. En málalok af þessu tagi eru afar sjaldgæf.

Hvernig er hægt að verja sig?

Á meðan skipulagðir glæpahópar starfa áfram og stela vandræðalítið varningi í verslunum, verkfæralagerum og á götum úti, verður þjófnaður vandamál. En það má í það minnsta reyna að gera þjófum lífið erfiðara og auka líkur á endurheimtum, sé einhverju stolið.

Verðmæti á glámbekk, svo sem bílsæti eða hjól sem er ólæst eða illa læst, öskra á þjófa. Með því að tryggja verðmæti, læsa hjólum vel eða setja inn, er hægt að flækja líf þjófanna.

Og með því að merkja verðmætin á afgerandi og greinilegan hátt er hægt að auka líkurnar á að stolinn varningur skili sér, finnist þýfið. Ekki er nóg að tússa merkingu eða smella límmiða á, heldur þarf bókstaflega að grafa símanúmer og jafnvel nafn eiganda í málm. Svo er skynsamlegt að smella mynd af serial-númeri eða framleiðslunúmeri dýrra tækja.