Svona geturðu stuðlað að auknu öryggi á netinu

Svona geturðu stuðlað að auknu öryggi á netinu

„Já, það er hægt að hakka allt. Það er hægt að hakka flugvélar, það er hægt að hakka bíla, það er allt hægt. En það er ekki auðvelt,“ sagði Theodór Gíslason, tæknistjóri Syndis, í Kveik í kvöld.

Theodór Gíslason, tæknistjóri Syndis. (Mynd Kveikur/RÚV)

Theodór segir að í grunninn eru flestar tölvuárásir byggðar á tveimur meginforsendum: „Það er annars vegar þú, sem manneskja. Þú getur gert mistök eins og við öll og þú getur látið plata þig. En svo er annar vinkill á þessu og það er kóðinn eins og þú segir, handritið að tölvukerfum að öllum þessum hlutum. Meðal annars að iðntölvustýringu. Þessi handrit er hægt að misnota. Og sá sem er hakkari, hann kann að misnota svona hluti, hann kann nýjar leiðir og vinkla til að misnota svona kóða því við gerum öll mistök.“

Þrátt fyrir að hægt sé að hakka allt eru nokkur ráð sem fólk getur haft í huga til að auka öryggi sitt.

  • Alltaf að nota tvöfalda auðkenningu
  • Ekki nota sama lykilorð á fleiri en einum stað
  • Uppfæra vírusvörn og stýrikerfi, á tölvu og síma
  • Aldrei smella á neina hlekki sem þú veist ekki hvaðan koma eða hvert þeir eiga að leiða, hvort sem þeir koma í pósti, á samfélagsmiðlum eða annars staðar