„Hafið er náttúrulega stútfullt af drasli“

Mynd af litlum umkomulausum sæhesti sem hangir á eyrnapinna undan ströndum Indónesíu fór víða á samfélagsmiðlum nýverið. Hún minnir á það hversu gríðarlega mikil áhrif maðurinn hefur haft á umhverfi sitt – og víða valdið miklum skaða.

Myndin vekur upp spurningar; Af hverju er þetta svona? Væri ekki hægt að gera betur? Og – hvernig skyldi þetta vera við strendur Íslands?

Í september kom út skýrsla Umhverfisstofnunar um stöðu fráveitumála á Íslandi á árunum 2010-2014. Það er að segja, úttekt á því hvernig sveitarfélögin í landinu standa að skólpmálum. Í stuttu máli mætti segja að staðan sé ekkert sérstaklega góð.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þrátt fyrir að öll þéttbýlissvæði á landinu hafi lögum samkvæmt átt að vera búin að koma á fót fullnægjandi hreinsun á skólpi fyrir 12 árum – þá hafi lítið mjakast í þá átt og að minnsta kosti fjórðungur skólps í landinu fari ennþá óhreinsaður í sjóinn.

Stöndum okkur illa í samanburði við önnur lönd

Tryggvi Þórðarson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og einn skýrsluhöfunda, bendir á einn mælikvarða sem notaður er í skýrslunni sem hægt er að bera saman aftur í tímann. „Það er fjöldi íbúa landsins sem er tengdur einhvers konar hreinsun, skólphreinsun, hvort sem hún er í lagi eða ekki og þetta hefur aukist um 2%. Úr 72% í 74% á þessum fjórum árum,“ segir hann.

Þetta hlutfall, 74%, er meðal þess lægsta sem gerist í löndum innan OECD. Það þýðir að fáar þjóðir hreinsuðu skólpið sitt jafn lítið og Íslendingar.

Í skýrslunni segir einnig að losunarmælingar hafi almennt ekki verið gerðar í samræmi við kröfur reglugerðar. Minnihluti hreinsistöðva og þeirra sem flytja eða taka á móti seyru höfðu starfsleyfi, fáar minni fráveitur uppfylltu kröfur um hvernig og hvar skólp rann í sjóinn og í 13% tilfella var saurgerlamengun í viðtaka meiri en leyfilegt er. Víða skorti yfirhöfuð upplýsingar um hvernig málum var háttað.

„Síðan út um land er þetta upp og niður og það er áberandi að stærstu þéttbýlin eru án hreinsunar. Sérstaklega á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi eystra og vestra,“ segir Tryggvi. „Langmest af skólpinu kemur hérna af höfuðborgarsvæðinu. Það er 60% af öllu skólpi á landinu. Og ef að það er í lagi þá eru allavegana 60% í lagi.“

Öllu dælt í Faxaflóa

Á höfuðborgarsvæðinu eru tvær skólphreinistöðvar, sem taka á móti öllu því skólpi sem til fellur í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Seltjarnarnesi.

Íris Þórarinsdóttir, er tæknistjóri fráveitu hjá Veitum, sem er fyrirtækið sem heldur utan um rekstur fráveitu fyrir höfuðborgarsvæðið.

„Skólpið til dæmis sem er hreinsað niðri í Ánanaust, þarna niðri við Granda, það rennur alveg hérna úr Norðlingaholti og í gegnum Elliðaárdalinn og hérna, rennur í sjálfrennsli alveg að Skeljanesstöðinni, sem er við flugvallarsvæðið. Sem að lyftir því upp og þá er því aftur dælt hérna við Faxaskjól og inn í hreinsistöð.“

Þetta er leiðin sem skólp af höfuðborgarsvæðinu rennur út í Faxaflóa. (Mynd RÚV)

Á höfuðborgarsvæðinu á að vera svokölluð eins þreps hreinsun. Það nægir þegar viðtakinn er talinn síður viðkvæmur, eins og tilfellið er með Faxaflóann, þangað sem skólpi frá höfuðborgarsvæðinu er veitt í nokkurra kílómetra löngum útrásum.

Í þessu eina þrepi á að hreinsa burt föst efni, allt sem ekki er orðið að vökva. En á höfuðborgarsvæðinu er í raun lítið tekið úr skólpinu áður en því er veitt út í sjó – nema ruslið, sem er síað frá. Og það er reyndar nóg af því.

„Eins og blautþurrkur og allskonar hreinlætisvörur,“ segir Íris. „En svo erum við líka bara að sjá dömubindi og túrtappa og bómull og eyrnapinna og allt. Þetta virðist rata í klósettin en ætti í rauninni ekki að gera það því þetta fer mjög illa með kerfið okkar.“

„Svona er bara reglugerðin“

Í reglugerð um fráveitur og skólp kemur fram að til þess að hreinsistöð uppfylli skilyrði eins þreps hreinsunar þurfi hún að minnka lífrænt efni í skólpinu um 20% og svifagnir um helming.

„Og við erum ekki að ná því í þessari grófhreinsun hér en það er af því að í íslensku reglugerðinni er sérákvæði þar sem stendur að síun jafngildi 1. þreps hreinsun. Þannig að við erum í rauninni að uppfylla 1. þreps hreinsun samkvæmt íslenskri reglugerð, með þessari undanþágu frá Evrópureglugerð. Þannig að, svona er bara reglugerðin.“

En við sem rík þjóð sem gerum mikið út á það hvað landið okkar er hreint og eigum mikið undir auðæfunum í hafinu. Ættum við ekki að gera meira og betur heldur en bara það minnsta sem við getum gert?

„Jú sko, bæði og. Auðvitað verðum við að passa uppá viðtakann okkar og við megum ekki menga hann en á meðan við erum að gera þessar ítarlegu rannsóknir sem segja að við erum ekki að hafa neikvæð áhrif á hann þá er náttúrulega líka spurning hvort að við eigum endilega að gera meira. Ef að sjórinn getur tekið við en það kostar orku og það þarf jafnvel að nota efni og fleira í að auka hreinsunina og við sitjum þá uppi með meiri úrgang til að farga, sem þýðir akstur á förgunarstað og slíkt. Þannig að það er ekki endilega þannig að meiri hreinsun sé umhverfisvænni.“

Úr skólphreinsistöð í Reykjavík. (Mynd Kveikur/RÚV)

Margt gerst frá hruni

Bent hefur verið á að skýrsla Umhverfisstofnunar taki til tímabils sem hafi verið mörgum sveitarfélögum þungt í skauti. Á árunum 2010 til 2014 hafi verið skammt liðið frá efnahagshruninu og lítið svigrúm til framkvæmda.

Auk þess hafi margt gerst síðan þá. Hreinsistöðvar séu risnar á Akranesi, Borgarnesi og á Kjalarnesi – og fyrirhugaðar á Akureyri og Selfossi. Þá búi Íslendingar við sérstaklega góðar aðstæður, sjórinn umhverfis landið sé sterkur viðtaki í góðu ásigkomulagi – og ekki sé sanngjarnt að gera sömu kröfur um skólphreinsun hér og til að mynda í Mið-Evrópu, þar sem aðstæður séu allt aðrar.

Undanfarin ár hafa fjölmargar fréttir borist af fráveitumálum í ólestri, til að mynda við Þingvallavatn og svo við Mývatn – þar sem bágt ástand frárennslismála er talið eiga drjúgan þátt í því hvernig lífríki vatnsins hefur hrakað.

Gunnar Egilsson, formaður bæjarráðs Árborgar og formaður framkvæmda- og veitunefndar. (Mynd RÚV)

Nokkur ár í að hreinsun komist á

Árið 2013 komust fráveitumál á Selfossi líka í hámæli, þar sem skólp rann óhreinsað í Ölfusá. Staðreyndin er hins vegar sú, að nú, fjórum árum seinna er staðan óbreytt. Skammt neðan við bæinn má sjá hvernig fráveituvatn blandast ánni, hvítt að lit. Norðan megin árinnar er önnur minni útrás, þar sem frárennslisvatnið rennur í ána, blóðrautt að lit.

Gunnar Egilsson, formaður bæjarráðs Árborgar og formaður framkvæmda- og veitunefndar, segir margt hafa gerst frá því að uppi varð fótur og fit vegna þessara frétta. „Við erum bara að vinna þessa vinnu, hún er mjög tímafrek. Og við erum að vinna núna umhverfismat á þessari fráveituframkvæmd,“ segir hann.

Það er að segja skólphreinsistöð sem sveitarfélagið vill byggja og á meira að segja eitthvað af tækjunum í nú þegar. Auk þess hefur sveitarfélagið þegar lagt hátt í tvo milljarða króna í endurbætur á fráveitukerfinu.

„En þá komu athugasemdir út af deiliskipulaginu sem við vorum með. Og við vorum settir svona aðeins til baka með það og síðan var bara ákveðið hjá okkur að fara með þetta í umhverfismat til þess að vera með hlutina alla á yfirborðinu og hreint borð hjá okkur gagnvart því,“ segir Gunnar.

Enn eru nokkur ár í að hreinsunin verði komin í gagnið.

„Ja, það fer eftir því hvað umhverfismatið kemur út og hvað við erum að gera, hvaða kröfur koma úr umhverfismatinu. Við sjáum það svona tvöþúsund tuttugu og... svona, allavega 1. Stigs hreinsun gæti verið svona 2021.“

Fráveituvatn við Selfoss. (Mynd Benedikt Nikulás Anes Ketilsson/RÚV)

Þetta snýst allt um peninga

Þrátt fyrir að íbúar á Selfossi séu ekki nema rétt rúmlega 7000 þá renna um útrásirnar frá bænum um 46.000 persónueiningar á sólarhring. Ein persónueining er það magn lífrænna efna sem einn einstaklingur losar frá sér á sólarhring.

Það, hversu miklum mun fleiri persónueiningar fara um fráveituna en sem nemur íbúafjölda skýrist að miklu leyti af því að í bænum er bæði sláturhús SS, sem er í fullri starfsemi nú á haustmánuðum – og svo rekur Mjólkursamsalan sína stærstu afurðastöð á Selfossi.

Jafnvel þótt það sé stopp í umhverfismati núna þá eru samt í dag 12 ár síðan að öll sveitarfélög á landinu áttu að vera með viðunandi skólphreinsun. Af hverju er þetta búið að taka svona langan tíma?

„Peningar. Þetta snýst um það.“

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur. (Mynd 

Berum saman ábyrgð á lausninni

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir að ábyrgðin geti ekki bara legið hjá sveitarfélögunum. „Ábyrgðin liggur kannski formlega hjá sveitarfélögunum en svo þarf líka að horfa á það í öðru ljósi,“ segir hann.

„Við erum að tala kannski um fjárfestingu upp á nokkra milljarða á litlum stöðum. Og sem sagt, ríkið hlýtur eiginlega að þurfa að koma meira að þessu máli ef menn vilja koma þessu í lag. Vegna þess að það er svolítið tómt mál að tala um að eitthvert sveitarfélag með nokkur hundruð íbúa noti allt sitt framkvæmdafé í ég veit ekki hvað mörg ár 30 ár eða 50 ár í að koma fráveitumálum í lag.“

Stefán segir að við sem þjóð þurfum að axla ábyrgð. „Það þarf eitthvað stærra átak þannig að í raun og veru berum við náttúrulega bara ábyrgð á þessu sem þjóð. Ef við horfum ekki beinlínis út frá bókstaf laganna, heldur bara út frá heilbrigðri skynsemi, þá berum við ábyrgð á þessu sem þjóð.“

Gunnar tekur í sama streng og kallar eftir að ríkisvaldið komi að málum. „Ég held það, að það sem skiptir máli að ríkisvaldið komi að þessu máli með okkur. Að við fáum virðisaukann niðurfelldan á þessum málum. Það munar gríðarlega miklu. Að ef ríkið gerir þetta, að það hjálpi öllum sveitarfélögum í landinu.“

Ekki fylgst með öllu

Verkfræðistofan Mannvit hefur fylgst með áhrifum fráveituvatns á Ölfusá, að beiðni sveitarfélagsins Árborgar. Sýni hafa leitt í ljós að skólpið þynnist það fljótt út þegar í ána er komið – að nær engar líkur eru taldar á því að næringarefnaauðgun verði í Ölfusá, líkt og gerst hefur til að mynda í Mývatni.

Hins vegar er nokkur sjón- og lyktarmengun þar sem skólpið rennur í ána og gerlamengun nokkur þar í kring. Þó ekki yfir mörkum nema í undantekningartilfellum – til að mynda þegar haustslátrun hefur staðið yfir.

Hafa ber þó í huga að það leynist ýmislegt í skólpinu sem ekki er fylgst sérstaklega með; til að mynda lyfjaleifar, eiturefni og ýmiskonar rusl.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands tekur ekki sýni úr ánni heldur fær upplýsingar frá Mannviti. Það hefur ekki kosið að beita sveitarfélagið þvingunarúrræðum, þrátt fyrir töf á úrbótum, ekki talið að það myndi flýta fyrir.

Gunnar segir stöðuna, eins og hún sé í dag, ekki góða. „Mér líður auðvitað ekkert vel með þetta í dag að vita til þess að þetta sé svona. En við erum að vinna vinnuna. Og auðvitað viljum við gera meira,“ segir hann.

Sum sveitarfélög hafa þegar tekið skrefið, og það jafnvel fyrir löngu. Í Hveragerði var byggð hreinsistöð árið 2002.

Farin á næsta þrep í Hveragerði

Höskuldur Þorbjarnarson, umhverfisfulltrúi Hveragerðisbæjar, segir nauðsyn hafi rekið sveitarfélagð af stað í að gera eitthvað í fráveitumálum sínum. „Því að áin var bara mjög menguð og skítug af völdum skólps,“ segir hann.

„Þannig að það var bara ekki annað hægt en að fara út í þessar aðgerðir. Það var bara ekki hægt að bjóða upp á þetta. Það var bara lyktarmengun, sjónmengun og náttúrulega saurgerlamengun og allur pakkinn í ánni.“

Hveragerði er með svokallaða tveggja þrepa hreinsun á sínu skólpi. Enda bær, inn til landsins, sem á þess ekki kost að losa skólp út í sterka hafstrauma.

Fyrst er skólpið grófhreinsað, það er að segja, allt rusl tekið úr því, líkt og gert er á höfuðborgarsvæðinu. „Síðan er sem sagt fitan, henni er fleytt ofan af og seyrunni, henni er safnað saman í sérstaka tanka og sandurinn og önnur þyngri efni þau eru felld niður á botn,“ útskýrir Höskuldur.

En svo er gengið skrefinu lengra. Og í því felst seinna þrep hreinsuninnar, þar sem uppleyst efni eru látin síga til botns með hjálp örvera og aukins súrefnis. Og svo er haldið áfram.

„Síðan fer vatnið sem að eftir stendur, það fer síðan hérna út í sérstök malarbeð sem það rennur í gegnum, sígur hægt í gegnum, áður en það fer í gegnum, fer út í ána.“

Er þetta þungur rekstur fyrir bæjarfélagið?

„Auðvitað kostar þetta sitt. En það er ekkert. Ekkert sem að við getum ekki axlað. Það bara verður að vera þannig og þetta verður að vera svona. Verður að vera í lagi og það bara kostar það sem það kostar.“

Ekki teljandi mengun í Faxaflóa

Rannsóknir á ástandi sjávar í Faxaflóa sýna að þrátt fyrir að meirihluta skólps í landinu sé veitt þangað sé þar ekki teljandi mengun. Til þess er blöndunin of mikil og hröð. En aftur skal það nefnt, að það er heldur ekki fylgst með öllu sem leynist í frárennslinu. Til að mynda hafa sáralitlar rannsóknir verið gerðar á örplasti, sem þó er vitað að leynist í fráveituvatninu í talsverðum mæli.

Fyrir tveimur árum var þó gerð rannsókn á skólphreinsistöðvum í Finnlandi, Svíþjóð og á Íslandi og kannað að hversu miklu marki þær næðu að hefta för örplasts út í sjó. Stefán segir að rannsóknir benda reyndar til að mest af örplastinu komi frá samgöngumannvirkjum. „Úr hjólbörðum og malbiki og þess háttar.“

Örplastið berst síðan með ofanvatni í fráveituna en að auki á það líka uppruna sinn í snyrtivörum og þvottavatni. Rannsóknin leiddi í ljós að finnsku og sænsku hreinsistöðvarnar síuðu örplast að mestu leyti úr skólpinu – en þær íslensku alls ekki. Þær eru enda ekki hannaðar til þess – og ekki gerð krafa um það í reglugerðum að þær geri það.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, sérfræðingur hjá Matís. (Mynd Kveikur/RÚV)

Hafið stútfullt af drasli

„Þetta er bara sorglegt. Þetta er raunveruleikinn í dag að hafið er náttúrlega stútfullt af drasli,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, sérfræðingur hjá Matís, um ástanda hafsins í kringum okkur. „Gallinn er að skólp hefur hingað til bara verið skilgreint sem einhverskonar lífrænt efni, þannig að það hefur ekki verið talin nein þörf á því að hreinsa það neitt frekar.“

Hrönn segir að þegar skólpið sé skoðað nánar komi í ljós að það er mun meira í því en bara mannlegur úrgangur.

„Þá er í raun og veru bara spurning hvort það þurfi bara að endurskilgreina skólp aftur og þá aðlaga reglugerðir að því og þar af leiðandi að breyta hreinsistöðvunum okkar. Og miðað við það hversu mikið við treystum á hafið í kringum landið sem uppistöðu undir, sem fæðu og við höfum alltaf stólað á að þetta sé hreint og ómengað haf að þá eru við náttúrulega ekkert að koma fram við þetta svæði af neinni virðingu með því að í raun og veru vera alltaf að sleppa út í það plasti,“ segir hún.

Gallinn er bara sá að örplast er tiltölulega nýkomið upp á sjónarsvið vísindanna og er enn sem komið er ekki mikið vitað um skaðsemi þess og umfang.

„Þannig að það er kannski ósköp skiljanlegt að það sé ekki tekið tillit til þessara þátta og þá í rauninni myndi ég segja að það væri bara tími til kominn að taka þessa umræðu meira og bæta örplasti inn sem einum af þáttunum sem þarf að skoða þegar er verið að hreinsa skólp,“ segir Hrönn.

Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum. (Mynd Kveikur/RÚV)

Þurfum frekari þekkingu

Íris segir að auka þurfi þekkingu til að vita hvað muni skila bestum árangri. „Er það meiri hreinsun í hreinsistöðvunum eða er það einhvern veginn úti í vegakerfinu með einhverjum forvörnum. Þannig að við erum núna að skoða það og erum í rauninni á sama stað og allir í heiminum eða allir í Evrópu,“ segir hún.

„Þetta er rosalega heitt mál þetta örplast. En þó að kannski hreinsistöðvarnar úti séu að hreinsa þetta þá eru þeir samt að sitja uppi með örplastið í seyrunni og seyran er svo dreifð á landbúnaðarjarðir. Þannig að það hverfur ekki alveg vandamálið þótt þú hreinsir það úr í hreinsistöðvunum og þess vegna hérna, í rauninni, öll svona umhverfisstjórnun og úrgangsstjórnun gengur í rauninni út á að reyna að ná að minnka vandamálið þar sem það verður til. En ef að það er ekki hægt þá náttúrulega verður kannski krafan um hreinsun hérna í hreinsistöðinni.“

Reglugerð um fráveitur og skólp hefur verið í endurskoðun undanfarin fjögur ár, sem hefur valdið nokkurri óvissu meðal sveitarfélaga. Þau hafa þannig ekki endilega viljað ráðast í framkvæmdir, þegar ekki var ljóst hvaða kröfur myndi þurfa að uppfylla.

Í byrjun sumars bárust Umhverfisráðuneytinu tillögur nefndar um breytingar á reglugerðinni. Þar er nú unnið úr tillögunum og umsögnum sem um þær bárust. Í drögum að nýrri reglugerð er ekkert minnst á örplast.

Berum sömu ábyrgð og aðrir

Stefán segir að það þurfi að fara á upphafsreit til að finna lausnir á vandanum. „Þegar við erum að tala um úrbætur í fráveitumálum þá verðum við að byrja á því að horfa á upprunann,“ útskýrir hann.

„Hvað getum við gert til þess að minnka álagið, minnka það sem fer þarna niður í fráveituna. Ég held að það sé miklu brýnna heldur en að rökræða um það sem fer út í sjó síðan. Þannig að ég held að sko, gramm af forvörnum er betra en kíló af lækningu.“

Það skipti auðvitað líka máli að við erum fámenn þjóð í stóru landi. „En á móti kemur að við höfum eftir sem áður sömu skyldur gagnvart náttúrunni eins og allir aðrir,“ segir Stefán.