Svona er skólpið hreinsað í Hveragerði

Hveragerði er með svokallaða tveggja þrepa hreinsun á sínu skólpi. Enda bær, inn til landsins, sem á þess ekki kost að losa skólp út í sterka hafstrauma. Fjallað var um skólphreinsistöðina í umfjöllun Kveiks um skólpmál á þriðjudag.

Fyrst er skólpið grófhreinsað, það er að segja, allt rusl tekið úr því, líkt og gert er á höfuðborgarsvæðinu.

„Síðan er sem sagt fitan, henni er fleytt ofan af og seyrunni, henni er safnað saman í sérstaka tanka og sandurinn og önnur þyngri efni þau eru felld niður á botn,“ útskýrir Höskuldur Þorbjarnarson, umhverfisfulltrúi Hveragerðisbæjar.

En svo er gengið skrefinu lengra. Og í því felst seinna þrep hreinsuninnar. „Síðan fer vatnið sem að eftir stendur, það fer síðan hérna út í sérstök malarbeð sem það rennur í gegnum, sígur hægt í gegnum, áður en það fer í gegnum, fer út í ána.“