Reyndi að fá samdómara til að sýkna Baldur

Fyrrverandi hæstaréttardómarinn Jón Steinar Gunnlaugsson viðurkennir í viðtali við Kveik að hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar í máli náins vinar síns. Máli sem hann hafði sjálfur sagt sig frá vegna vanhæfis.

Benedikt Bogason hæstaréttardómari. (Mynd RÚV)

Fordæmalaus málaferli

Greint var frá því í síðustu viku að Benedikt Bogason hæstaréttardómara hefði stefnt Jóni Steinari vegna nokkurra ummæla Jóns Steinars Gunnlaugssonar um dóm Hæstaréttar í máli Baldurs Guðlaugssonar, sem Jón Steinar kallar ýmist dómsmorð eða líkir við dómsmorð í nýrri bók sinni.

Baldur og Jón Steinar hafa verið vinir og samstarfsmenn um áratugaskeið og því var Jón ekki hluti af fimm manna fjölskipuðum dómi Hæstaréttar sem dæmdi Baldur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik 2012 og staðfesti þannig dóm héraðsdóms sama efnis.

Hálfu ári síðar lét Jón Steinar af embætti Hæstaréttardómara og fór þá ekki dult með skoðun sína á niðurstöðu Hæstaréttar í máli Baldurs:

„Meira að segja var opinberlega settur persónulegur þrýstingur á dómarana í málinu meðan málið var til meðferðar og jafnvel eftir að það var tekið til dóms. (.,.) Þrýstingur af því tagi sem hér var á ferðinni er líklegri til að hafa þau áhrif að dómgreind bregðist. Ég fæ ekki betur séð en svo hafi farið hér,“ sagði meðal annars í grein sem Jón birti haustið 2012 þar sem hann færði fram rök fyrir sýknu Baldurs, og tiltók sérstaklega ástæður fyrir birtingu greinarinnar, hátt í ári eftir að dómur féll.

„Það er almennt ekki talið við hæfi að starfandi hæstaréttardómari gagnrýni opinberlega dómaraverk starfsbræðra sinna. Ég kynnti mér dóminn strax eftir að hann gekk. Ég taldi þá þegar að dómstólnum hefði orðið alvarlega á við úrlausn málsins. Þessa grein samdi ég þá að mestu leyti strax og hugðist birta hana þá þegar. Að athuguðu máli taldi ég þó rétt að fresta birtingu hennar þar til ég hefði látið af störfum sem dómari við réttinn.“

Baldur Guðlaugsson var dæmdur í fangelsi fyrir innherjasvik í kjölfar hrunsins. (Mynd RÚV)

Mögulega ólögleg afskipti Jóns

Þessi ummæli eru nokkuð í mótsögn við upplýsingar sem fram koma í stefnu Benedikts Bogasonar gegn Jóni Steinari þar sem lýst er óeðlilegum og mögulega ólöglegum afskiptum Jóns af störfum dómara í máli Baldurs.

Í stefnu Benedikts segir að á meðan mál Baldurs var til meðferðar í Hæstarétti; einkum frá því að málflutningi lauk og þar til dómur féll, hafi Jón Steinar ítrekað gert sér ferð inn á skrifstofur dómaranna í málinu þar sem hann:

„leitaðist við að hafa áhrif á hvernig þeir myndu dæma málið efnislega […] Þetta gerði stefndi þvert gegn venju og óskráðum siðareglum sem fylgt er í Hæstarétti enda á dómari sem ekki situr í máli og hefur ekki hlýtt á málflutning í málinu ekkert með að blanda sér með þessum hætti í meðferð þess. Þetta á enn frekar við þegar viðkomandi dómari er vanhæfur til þess að fara með viðkomandi mál sökum vinatengsla við aðila máls.“

Gaf dómurum uppskrift að sýknu

Jón viðurkennir að hafa ekki látið þar við sitja heldur hafi hann einnig afhent þremur dómaranna í málinu, skjal með rökstuðningi fyrir sýknu Baldurs vinar síns; sem dómararnir voru þá undirbúa dóm í. Auk Benedikts dæmdu þau Gréta Baldursdóttir, Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson, í máli Baldurs.

Skjalið, sem Jón Steinar afhenti þremur þeirra, hefur Kveikur undir höndum.

Í skjalinu eru lagðar fram fjórar spurningar um möguleg lögbrot Baldurs - og svör við þeim, sem öll hníga í sömu átt, að sýkna ætti Baldur. Viðar Már Matthíasson varaforseti Hæstaréttar mun hafa gert athugasemdir við þessi afskipti Jóns Steinars, en lengra náði það ekki.

Í stefnunni gegn Jóni Steinari er vísað í ákvæði laga sem banna opinberum starfsmanni að halla rétti einstakra manna eða misnota aðstöðu sína, án þess að kveðið sé upp úr um hvort Jón Steinar hafi brotið þau lög, þó fullyrt sé að hann hafi brotið dómstólalög sem verji sjálfstæði dómara í störfum sínum.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður Benedikts. (Mynd Kveikur/RÚV)

Segir Jón draga málið fram nú

En hvers vegna er þessi frásöfgn af þessum afskiptum Jóns af þessu dómsmáli að koma fyrst fram núna, öllum þessum árum seinna? Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Benedikts, segir það ljóst að Jón Steinar sé sjálfur að gera málið að umtalsefni núna með útgáfu bókar sinnar.

„Þennan dóm hæstaréttar í máli vinar hans Baldurs Guðlaugssonar og er að saka meirihluta Hæstaréttar um óeðlileg vinnubrögð. Og ég held að það liggi einfaldlega þannig að þá þyki umbjóðanda mínum sjálfsagt og eðlilegt að upplýsa um það hvernig Jón hagaði sér í Hæstarétti í tengslum við þetta mál,“ segir hann.

Í stefnunni er ekki kveðið alveg endanlega upp úr um hvort þetta hefði verið hegningarlagabrot. Vilhjálmur segir að það hefði mátt hugsa sér það, eftir atvikum, að kæra afskiptin á sínum tíma.

„Umbjóðandi minn lét dómsformanninn vita og hann gerði athugasemdir við Jón Steinar. Mér skilst að Jón Steinar hafi falið honum að koma á framfæri afsökunarbeiðni vegna þessa til viðkomandi dómara. Ég held einfaldlega að málið hafi stoppað þar,“ segir Vilhjálmur.

Tilgangurinn skýr

Vilhjálmur segir málið fordæmalaust. „Að mínu viti er þetta algjörlega fordæmalaust að Hæstaréttardómari sem hefur ekki tekið sæti í máli eða vikið sæti í máli í því vegna vinfengis við málsaðila beiti sér með þessum hætti. Það má lesa það útúr meginreglum laga að maður sem er vanhæfur til meðferðar máls að hann hefur engin afskipti af því,“ segir hann.

„Og það að Hæstaréttardómari skuli ítrekað gera sér ferð inn á skrifstofu annarra hæstaréttardómara til þess að lobbíera fyrir sýknu vinar síns og leggja síðan inn á borð til þeirra blað með rökstuðningi fyrir sýknudómi er held ég einsdæmi í réttarsögunni.“

Benedikt, hann hefur aldrei efast um það í þessum samskiptum að þau hafi snúist um það að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu dómsins? „Nei, ég held að þeir sem urðu fyrir þessu efist ekkert um það. Ég held að það þurfi ekki að horfa til annars en þessa skjals til að átta sig á því að það var tilgangurinn.“

Benedikt og Jón Steinar voru á sama tíma dómarar við Hæstarétt. (Mynd RÚV)

„Ég man þetta ekki alveg“

„Ég verð að segja það alveg eins og er að ég man þetta ekki alveg,“ segir Jón Steinar þegar Kveikur bar ásakanirnar undir hann. „Það er alveg hugsanlegt að ég hafi meðan á þessu stóð einhver orð á einhverju þarna innanhúss við dómara sem sátu í þessu mái. Það er reyndar daglegur viðburður í Hæstarétti að dómarar séu að tala sín á milli um sakarefni málanna jafnvel þó þeir sitji ekki í þeim. Og, og held nú að hafi ég gert þetta þá hafi það verið svona vægt, ef svo má að orði kveða.“

En var það ekki svona á mörkum hins, að minnsta kosti þess siðlega ef ekki þess löglega að þú gerðir það, ef þú varst að því? „Ja, það er nú ekkert ólöglegt við það, því að ég hef auðvitað ekkert um dóminn að segja en hins vegar.“

En eiga ekki dómstólarnir að vera sjálfstæðir, svona svolítið eins og þú hefur verið að gagnrýna þá fyrir? „Jú, jú, það er kannski fyrst og fremst athugavert vegna þess að ég þekkti manninn og þetta var kunningi minn og allt það. Kannski hefði ég ekki átt að gera það. Hafi ég gert þetta, ef að menn eru að segja að ég hafi gert þetta þá hlýtur nú eitthvað að vera til í því þó ég muni það ekki.“

Jón Steinar segir í fyrstu ekki muna eftir því að hafa lagt fyrir dómarana einhverskonar skjal. „Nei, ég kannast ekki við það. Ég sé það í stefnunni að það á að leggja fram eitthvað minnisblað sem sagt er stafa frá mér, ég man ekkert eftir því. En ég geti ekki neitt... Sko þegar við erum að tala um þetta, þá er verið að segja að það sé óeðlilegt að...“ segir hann.

Kannaðist svo við skjalið

Jón Steinar kannast þó við skjalið þegar honum er sýnt það. „Já. Já, það er alveg hugsanlegt að ég hafi samið þetta,“ viðurkennir hann.

„Ég ætla ekkert að efast um að ég kunni að hafa gert það, því það var vondur hugur í mér þegar ég fylgdist með þessu. En hafi ég gert þetta og lagt þetta fyrir þá, það er þá ekki hægt að segja að ég hafi ekki lagt til þeirra upplýsingar sem ég taldi að skiptu máli um þetta. Ég get svo sem alveg fallist á það að hafi ég lagt þetta blað til þeirra sem ég ætla ekkert að neita og man ekki um, að þá var það kannski dálítið langt gengið ég skal viðurkenna það. En allt sem stendur á þessu blaði er alveg efnislega sólíd og allt útskýrt og man gátu bara tekið afstöðu til þess.“

Manstu eftir því að það hafi verið gerðar einhverjar athugasemdir við þetta þá?

„Nei. Mig minnir jú að sá sem sat í forsæti í dóminum að hann hafi komið að máli við mig og fundið að því að ég væri að ræða við aðra dómara um sakarefni þessa máls og um leið og hann sagði það - það kom mér reyndar á óvart að verið væri að finna eitthvað að því eins og málum var háttað þarna við réttinn, þá hætti ég því alveg. En ég segi bara að hafi ég lagt þetta til þeirra þá hefðu þeir betur tekið tillit til þess sem ég sagði við þá. Þá hefðu þeir forðað sér frá því að kveða upp þennan ömurlega dóm, sem stenst engar lagareglur sko.“

En stenst það allar lagareglur af þér að gera það af því að það er líka spurning?

„Það er ekkert sem bannar það. Ég er að reyna að segja þér það Helgi. Að það er ekkert sem bannar þetta engin bein lagaákvæði eða þess háttar. Það er algengt, þó það eigi kannski ekkert að vera það, að dómarar fara á milli herbergja og ræða hver við annan um sakarefni málanna þó að það sé við dómara sem ekki eiga sæti í málinu. Þetta þekkist auðvitað víða.“

En ef að dómari er vanhæfur eins og þú hefur klárlega verið í þessu máli, af því að þið eruð vinir?

„Eins og ég nefndi áðan þá var það kannski ámælisverðara af minni hálfu að gera þetta af því að það var þarna vinur minn sem átti í hlut en ég auðvitað horfði fram á það að hér ætti að fara að drýgja dómaraverk sem ekki átti að drýgja. Og ég hef þá bara viljað koma í veg fyrir það, eða stuðla að því að það væri ekki. Og kannski hef ég bara haft öfug áhrif með það, það getur vel verið sko.“