Skelfingin í Skrímslinu

Ungur drengur sem upplifði hoppukastalaslysið á Akureyri líkir því við martröð. Dómkvaddir matsmenn telja að alltof fáar festingar hafi orðið til þess að kastalinn tókst á loft, en eigendur hans segja að allt hafi verið gert samkvæmt bókinni.

Það er fallegt sumarsíðdegi á Akureyri. Klukkan er að verða tvö, fimmtudaginn 1. júlí 2021. Það er gott veður, hægur andvari og um það bil 20 stiga hiti.

Það er fjölmennt í bænum, enda stendur N1-mótið yfir, eitthvert fjölmennasta fótboltamót sem haldið er hér á landi, fyrir drengi á aldrinum 10-11 ára. Yfir 2000 kraftmiklir drengir sóttu mótið og því líf og fjör í bænum.

En allt í einu gerist eitthvað. Gríðarlegt sírenuvæl ómar um allan bæinn. Fljótlega spyrst út að það hafi orðið hræðilegt slys í stórum hoppukastala sem var við hliðina á Skautahöllinni í bænum.

„Útkallið barst okkur rétt rúmlega tvö, nánar tiltekið sjö mínútur yfir tvö, þá kom útkallið til okkar,“ segir Gunnar Rúnar Ólafsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, sem var á meðal þeirra fyrstu á vettvang. „Í útkallinu kom fram að þetta væri alvarlegt og að það væru margir slasaðir. Og við kölluðum út allt okkar lið mjög fljótt.“

„Í útkallinu kom fram að þetta væri alvarlegt og að það væru margir slasaðir,“ segir Gunnar Rúnar Ólafsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri.

Slysið varð í hoppukastala sem kallaður var Skrímslið. Kannski er hoppukastali ekki rétta orðið því þetta sextán hundruð fermetra skrímsli var ekki líkt því sem flestir tengja við hoppukastala. Þessi risakastali tókst samt á loft að hluta, í vindhviðu, með þeim afleiðingum að eitt horn hans slengdist marga metra upp í loftið. Börn sem voru í kastalanum köstuðust langar vegalengdir áður en hann féll saman að hluta.

Hér má sjá tölvugert myndskeið af því hvernig kastalinn lyftist upp og féll saman.

Kastalinn stóð áður við Perluna í Reykjavík, og var í eigu fyrirtækisins Ævintýraland Perlunnar ehf. Hann var fyrst settur upp við Perluna í Reykjavík. Um miðjan júní sumarið 2021, um það bil tveimur vikum fyrir slysið, var hann hins vegar fluttur norður og settur upp á Akureyri í samstarfi við KA, sem stendur fyrir N1-mótinu. Aðgangur að kastalanum kostaði 1.890 krónur á mann.

Þetta er mynd af Skrímslinu þegar kastalinn var við Perluna sumarið 2020. Hann var fluttur til Akureyrar sumarið 2021.

Mikill fjöldi barna var í kastalanum þegar slysið varð, þar á meðal KR-ingurinn Aðalsteinn Ingi Guðmundsson, sem fór til Akureyrar ásamt foreldrum sínum og litla bróður. Á milli leikja á N1-mótinu þennan dag fór lið Aðalsteins í hoppukastalann.

Hann lýsir því hvernig vindhviða feykti sandi og trjágreinum í augun á honum, en að hann hafi ekkert kippt sér upp við það. „Svo leið mér bara eins og allt væri í „slow-mo“, eitt hornið fauk bara upp. Svo sá ég bara fullt af krökkum vera að fljúga og ég hugsaði bara: ókei, þetta hlýtur að vera martröð,“ rifjar Aðalsteinn upp.

„Svo sá ég bara fullt af krökkum vera að fljúga og ég hugsaði bara: ókei, þetta hlýtur að vera martröð,“ segir Aðalsteinn.

„En svo lenti ein stelpan fyrir framan mig og hún var bara augljóslega með brotna hendi, það var bara mjög augljóst, hún var bara úr lið eða með brotið herðablað eða eitthvað. Og ég spurði bara hvort það væri allt í lagi og svo hljóp ég bara út, því ég var skíthræddur um að þetta myndi bara lokast á mig. Þá lenti önnur stelpa fyrir framan mig, nema bara núna á malbikinu. Og það kemur einhver kona, tekur hana upp og öskrar: hvar er sjúkrabíll, hvar er sjúkrabíll? Og ég var bara ógeðslega hræddur. Og svo er önnur kona að öskra: hvar er barnið mitt? Og það líður yfir hana á endanum.“

„Hvar er barnið mitt?“

Aðalsteinn rifjar upp að einn vinur hans hafi verið nálægt því að verða undir kastalanum. Honum hafi hins vegar tekist að hlaupa út, þar sem hann féll svo í yfirlið.

„Allir foreldrarnir voru bara að öskra: hvar er barnið mitt? Og börnin voru bara að öskra: mamma, pabbi?“ segir Aðalsteinn.

Foreldrar Aðalsteins höfðu farið í göngutúr með litla bróður hans, á meðan Aðalsteinn var í kastalann. Þau voru í rólegheitum með barnavagninn þegar símtalið barst.

„Og það var hlaupið. Það var hlaupið helvíti hratt með barnavagninn,“ segir Guðmundur Ingi Þorvaldsson, faðir Aðalsteins.

Feðgarnir Guðmundur Ingi Þorvalsson og Aðalsteinn Ingi Guðmundsson.

Valsarinn Bjartur Þór Jóhannsson var á N1-mótinu ásamt foreldrum sínum og litla bróður. Þeir bræður voru báðir í kastalanum þegar slysið varð. Bjartur sá nokkra krakka kastast til.

„Alla vega þrjá. Einn flaug á mig, þegar ég var að reyna að hlaupa út,“ segir Bjartur sem var nálægt því horni kastalans sem lyftist upp. „Þar sem hann lyftist upp og svo þar sem hann klemmdist saman, ég var eiginlega þar að hlaupa út.“

Bjartur komst út úr kastalanum rétt áður en hann lagðist saman.

Litli bróðir Bjarts var með honum í kastalanum, og Bjartur segir að hann hafi haft töluverðar áhyggjur af honum, sem og liðsfélögum sínum. Allir sluppu þeir þó ómeiddir.

„Einn flaug á mig, þegar ég var að reyna að hlaupa út,“ segir Bjartur Þór Jóhannsson sem var í kastalanum þegar slysið varð.

Sonja Þórey Þórsdóttir, móðir Bjarts, stóð fyrir utan kastalann og sá mjög vel það sem gerðist. Hún segir að hún og þeir sem voru með henni hafi séð vindhviðu koma í átt að kastalanum, rétt fyrir slysið. Vindurinn hafi verið vel sýnilegur.

„Hann þeytir upp voða mikið af moldinni sem var þarna aðeins til hliðar. Þess vegna sáum við hann, af því að hann þeytir upp moldinni,“ segir Sonja. Hún og þeir sem voru með henni furðuðu sig á þessum vindi, enda segir Sonja að logn hafi verið við kastalann. Vindhviðan hafi líkst hvirfilvindi.

Sonja og Bjartur. 

„Og hann kemur og lendir þarna akkúrat á horninu á kastalanum, örugglega á versta stað, eina staðnum sem var viðkvæmur. Ég er viss um að ef hann hefði lent á miðjunni hefði ekkert gerst.“

Kastalinn var að hluta bundinn niður með því að festa hann við steypuhnullunga, segir Sonja. Hún telur að hver þeirra hafi vegið á milli 30 og 40 kíló.

„En svo fer hann að fara hærra og hærra, hornið sko, og strekkjast meira og meira á. En svo allt í einu slitnar spottinn við steininn og hann verður eftir, og þá er komin rosa spenna á hornið, þannig að það bara púff, eins og teygjubyssa. Og svo fer hornið af stað, og skýtur þeim sem eru efst í horninu á hoppukastalanum. Og svo byrjar þetta bara svona að rekja sig upp. Stundum slitnar frá grjótunum en stundum fer það með. Þannig að kastalinn fer hærra og hærra og hærra og svo fer hann bara að fara yfir.“  

„Þetta var hræðilegt“

Sjö voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri eftir slysið. Í ákæru sem síðar var gefin út vegna málsins kemur fram að fjögur börn slösuðust alvarlega. Tvö þeirra handleggsbrotnuðu og eitt hlaut brot á herðablaði.

Eitt barn slasaðist hins vegar langmest; Klara Lyngdal Kjartansdóttir, sem var sex ára þegar slysið varð.

„Ég sá  hana bara skjótast út fyrir, þessa löngu leið, greyið. Þetta var hræðilegt,“ segir Sonja. „Hún var örugglega bara í horninu, sem byrjar að losna. Og hún fer bara yfir kastalann og í áttina að Skautahöllinni. Yfir kastalann, svo er eitthvert bil, svo er girðing, og hún endar þarna fyrir utan girðingu, einhverja metra fyrir utan girðingu.“

Klara kastaðist út fyrir grindverkið sem sést á myndinni. 

„Ég bara hljóp út úr honum [kastalanum] og sá svo stelpu lenda fyrir framan mig,“ segir Aðalsteinn. „Og svo kemur kona og lyftir barninu upp, tekur það bara upp, það er bara blóð út um allt, og hún segir bara; hvar er sjúkrabíll? Hringið á sjúkrabíl! Hringið á sjúkrabíl! Aftur og aftur. Og svo voru mjög mikil öskur og ég fór eiginlega bara að gráta.“

Í ákærunni segir að Klara hafi meðal annars hlotið mjög alvarlega höfuðáverka, dreifðar blæðingar í heilahólfum, blæðingu í djúpu kjarna heilans og margvísleg beinbrot.

Úr ákærunni sem gefin var út vegna málsins.

Á áheita- og styrktarsíðu fyrir Klöru á Facebook kom fram síðasta sumar að hún stæði sig eins og hetja. Þó væri orðið ljóst að hún myndi berjast út ævina við einhverja hreyfihömlun og málerfiðleika.

Í gögnum sem Kveikur hefur undir höndum kemur fram að tryggingafélag Ævintýralandsins hafi viðurkennt bótaskyldu í máli Klöru.

Fjölskylda Klöru baðst undan viðtali þegar Kveikur óskaði eftir því, en gerði ekki athugasemdir við að Klöru yrði getið í þættinum.

Klara Lyngdal Kjartansdóttir.

Sonja segir að það hafi hrikalegt að verða vitni að því sem gerðist.

„Mér náttúrulega brá mjög mikið og ég hélt bara að hún væri ekkert í lagi sko. Þannig að ég var í einhverri svona peysu, og ég bara hljóp að henni, og hugsaði bara að ef hún væri mjög illa farin, þá vildi ég ekki að hin börnin sæju hana. Þannig að ég ætlaði bara að hlaupa og henda yfir hana. Og ég lít upp og sé strákinn minn, yngri. Og þá hringi ég bara beint í Neyðarlínuna.“

Kveikur hefur afrit af símtali Sonju í Neyðarlínuna undir höndum og birtir hér brot úr því.

Gunnar slökkviliðsstjóri segir að ekki sé vitað nákvæmlega hversu mörg börn voru í kastalanum þegar slysið varð.

„Eins og ég segi, þá hljóðaði útkallið upp á mjög marga slasaða, mjög margir í kastalanum fastir. Og það var engin tala. Þegar maður kom á vettvang var maður að meta þetta kannski 100 plús.“

Áttaði sig strax

Ólafur Þór Karlsson stóð við kastalann þegar slysið varð. Hann segir að hornið hafi farið upp í 10-15 metra hæð á aðeins örfáum sekúndum.

„Ég býst í rauninni við því að ég sé að fara að sjá... ég veit ekki hversu mörg börn deyja fyrir framan mig,“ segir Ólafur.

Árni, sonur Ólafs, spilar með Val og fór í kastalann á milli leikja eins og svo margir aðrir keppendur á N1-mótinu. Ólafur áttaði sig samstundis á því hversu alvarlegt slysið var, og hljóp strax inn í kastalann til þess að reyna að finna Árna.

Feðgarnir Árni og Ólafur Þór Karlsson.

„Ég hleyp inn og stekk þarna hægra megin við hann, kastalann, og þá er það fyrsta sem maður tekur eftir að það eru börn sem öskra á hjálp, þau eru í einhverri svona skál sem er ekki hægt að labba út úr, þú þarft að hoppa eða klifra yfir. Og þar eru börn sem hafa væntanlega flogið og lent í kastalanum.“

Ólafur reyndi að hjálpa börnunum að komast úr skálinni. Þau hafi verið þjáð eftir áfallið og ekki haft kraft til að h0ppa yfir. Börnin, sem mættu honum, hafi verið stjörf af hræðslu.

Þegar fleiri foreldrar voru komnir inn í kastalann til aðstoðar hélt Ólafur áfram að leita að Árna. Hann hljóp um allan kastalann en Árni var hvergi sjáanlegur.

„Þegar maður hleypur inn sér maður alla þessa blásara, stóra 20 kílóa blásara liggjandi þarna út um allt, sem maður hugsar með sér að... það fer í gegnum hausinn á manni: hvað ef strákurinn minn er undir einum svona?

„Ég býst í rauninni við því að ég sé að fara að sjá... ég veit ekki hversu mörg börn deyja fyrir framan mig,“ segir Ólafur Þór Karlsson, sem áttaði sig strax á því hversu alvarlegt slysið var.

Gunnar slökkviliðsstjóri segir að viðbragðsaðilar hafi verið mjög hræddir um að börn hefðu lent undir kastalanum þegar hann féll saman.

„Það var grunur um það. Þetta er náttúrulega gríðarlega mikið flæmi, þessi kastali, 1.600 fermetrar og mjög þungur. Þannig að við vorum hræddir um að það væru börn þarna undir.“

„Þá óttastu allt“

Ólafur óttaðist það sama á meðan hann leitaði að Árna og lýsir því hvernig hann stakk sér bókstalega inn í kastalann, á milli þungra plastdúka sem lagst höfðu saman. Hann hafi verið harðákveðinn í að finna Árna, eða önnur börn sem gætu hafa lent á milli.

„Þar undir er nokkuð stór loftbóla sem er haldið saman af einhverjum af þessum rennibrautum. Það er ekkert barn inni í því þannig að ég fer lengra inn. En það er enginn sem tekur á móti mér þar. Og þá fer ég inn í þriðju loftbóluna. Þá svara strákarnir mér. Sem sagt Árni og vinur hans. Þá eru þeir undir dúknum, uppi á keilunni sem var alveg í miðjunni. Á þeirri keilu var eitthvert þak sem hélt dúknum yfir þeim.“

Árni og félagar hans voru heilir á húfi, sem Ólafur segir að hafi verið mikill léttir.

„Adrenalínið dettur alveg niður. Og um leið og ég næ að kalla á móður hans, og heyri að systir hans er í lagi líka, þá fell ég eiginlega bara saman. Ég örmagnast um leið og ég næ að kalla á hóp til þess að ná strákunum niður.“

Aðspurður segist hann ekki hafa hugmynd um hversu langan tíma leitin tók. Við svona aðstæður, þegar foreldri veit ekki hvort barn er lífs eða liðið, líði tíminn hægt. Hann geri sér enga grein fyrir því hvort þrjár mínútur hafi liðið eða fimmtán. Hann hafi óttast það versta.

„Ég var mjög hræddur um það. Á meðan þú veist ekki hvar barnið þitt er og ert með 15 metra hátt fjall fyrir framan þig, þá óttastu allt.“

„Á meðan þú veist ekki hvar barnið þitt er og ert með 15 metra hátt fjall fyrir framan þig, þá óttastu allt,“ segir Ólafur.

Gunnar slökkviliðsstjóri segir að það hafi verið mikil ringulgreið á slysstaðnum þegar hann kom þangað.

„Og fólk var farið inn í kastalann að leita að börnum og slasaðir einstaklingar hérna í kring. Þannig að það var talsvert mikil ringulreið hérna á staðnum.“

Grétu óstjórnlega

Unglingar sem voru að vinna við kastalann urðu mjög hræddir.

„Maður sá þarna krakka og börn sem voru bara hysterísk. Ég held að börnin sem voru að vinna þarna, þau voru mjög hrædd. Þau grétu alveg óstjórnlega,“ segir Ólafur.

„Bara tveir guttar, 13 ára eða 14 ára eða eitthvað, voru ekki í neinu sambandi. „Ég veit ekki neitt, ég veit ekki neitt.“ Ég var eitthvað að reyna að fá út úr þeim hvort þeir vissu hvað það væru mörg börn í kastalanum,“ lýsir Sonja.

Gunnar segir að þegar hann hafi komið á vettvang hafi fullt af fólki tekið sig saman og reynt að fletta kastalanum í sundur, því það hafi óttast að börn væru föst undir honum.

„Þegar ég er búinn að ná strákunum og taka aðeins utan um þá, þá tek ég eftir því að það eru allir byrjaðir að reyna að vinda ofan af dúknum og rúlla honum til baka,“ segir Ólafur. Það reyndist hins vegar þrautin þyngri. Þyngslin voru slík að hópur fólks fékk dúknum ekki bifað. Að lokum var grafa fengin til verksins.

Hvernig gat þetta gerst?

Lögreglan á Norðurlandi eystra stóð frammi fyrir þeirri spurningu og hóf strax rannsókn. Hald var lagt á hoppukastalann og hann stendur enn við lögreglustöðina, upprúllaður.

Kastalinn er enn í porti lögreglunnar á Akureyri.

Rannsóknin stóð í nærri eitt og hálft ár og á milli jóla og nýárs voru svo fimm menn ákærðir vegna málsins.

Á meðal hinna ákærðu eru Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ævintýralands Perlunnar, og Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, sem er ákærður fyrir þátt sinn sem forsvarsmaður handknattleiksdeildar KA.

Í ákærunni kemur fram að fimmmenningarnir séu ákærðir fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi með því að hafa sýnt af sér stórfellt aðgæsluleysi og vanrækslu þegar þeir settu niður og hófu starfsemi á kastalanum, án þess að festa hann nægilega við jörð og fylgjast ekki nægilega með þeim festingum sem þó voru fyrir hendi.

Kastalinn hafi verið festur niður með stálhælum sem í flestum tilvikum var stungið í festingar sem voru þétt upp við belg kastalans. Við það horn hans sem fauk upp hafi hann hins vegar legið yfir malbikaðan göngustíg og þar hafi festingarnar verið lengra frá belgnum, og að hluta festar við tré eða runna. Þá hafi jarðfestingarnar verið alltof fáar til að halda svo stórum kastala, og hann hafi aðeins verið festur niður á útjöðrunum.

Loks segir að engar festingar hafi verið inni í kastalanum á milli eininga, en kastalinn var settur saman úr níu einingum. Þær hafi verið bundnar saman með böndum og frönskum rennilás.

Brot fimmmenninganna eru talin varða við 219. grein almennra hegningarlaga þar sem segir að ef tjón á líkama eða heilbrigði hlýst af gáleysi annars manns, þá varði það sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.

Veita ekki viðtal

Við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Norðurlands eystra í febrúar lýstu fimmmenningarnir allir yfir sakleysi sínu, og fóru þeir allir fram á að málinu yrði vísað frá. Þeirri kröfu var hafnað í öllum tilfellum og málið verður því tekið til efnislegrar meðferðar. Ekki liggur fyrir hvenær aðalmeðferðin fer fram.

Hvorki Heimir Örn né Gunnar hafa tjáð sig um málið eftir að ákæran var gefin út. Það vildu þeir ekki heldur gera þegar Kveikur leitaði eftir því.

Í yfirlýsingu sem KA sendi frá sér eftir að ákæran var gefin út segir meðal annars:

„Nú hefur komið fram að tveimur sjálfboðaliðum á vegum handknattleiksdeildar KA og KA/Þór hafa verið birtar ákærur vegna þessa máls. Frjáls félagasamtök líkt og KA vissulega er, byggja tilvist sína á miklu og fórnfúsu starfi sjálfboðaliða. Okkur þykir miður að ákæruvaldið hafi ákveðið að fara þessa leið í ljósi þess að eigandi og ábyrgðaraðili hoppukastalans hefur ítrekað lýst ábyrgð sinni á slysinu í fjölmiðlum.“

Þar vísar KA meðal annars í viðtal sem Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ævintýralandsins, sagði í viðtali við Stöð 2 daginn sem slysið varð.

„Ég ber ábyrgð á þessu verkefni fyrir norðan. Og þarna fylgdum við öllum þeim reglum, öllum þeim leikreglum sem eru varðandi svona búnað,” sagði Gunnar í viðtalinu.

Skiptu tekjum jafnt

Í samstarfssamningi Ævintýralands Perlunnar og KA kemur margt athyglisvert í ljós. Þar segir meðal annars að Ævintrýaland Perlunnar skuldbindi sig til þess að flytja og setja kastalann upp fyrir norðan. Þá segir að fyrirtækið skuldbindi sig einnig til þess að tryggja að hoppukastalinn virki sem skyldi. Loks muni fyrirtækið sjá um þjálfun starfsmanna.

KA skuldbatt sig hins vegar til þess að sjá um rekstur kastalans. Í því fólst að útvega starfsfólk sem átti meðal annars að sjá um miðasölu og eftirlit. Hugtakið eftirlit er þó ekki útskýrt frekar í samningnum, eða hvað í því felst.

Loks segir að skipta skuli tekjum jafnt á milli KA og Ævintýralandsins.

Undir samninginn skrifa þeir Heimir Örn og Gunnar.

Úr samstarfssamningi Ævintýralands Perlunnar og KA.

Í grunninn virðist þetta mál hins vegar snúast um það hvernig kastalinn var festur niður, og hvort það hafi verið gert nógu vel eða ekki. Kastalinn var festur niður með hælum sem áttu að vera þétt upp við belg hans og tengjast við stállykkjur í kastalanum.

Við rannsókn málsins fékk lögreglan dómkvadda matsmenn til þess að leggja mat á hvað hafi orðið til þess að kastalinn losnaði. Til verksins voru fengnir annars vegar veðurfræðingur og hins vegar jarðverkfræðingur, sem skiluðu matsgerð í október í fyrra.

Alltof fáar festingar

Niðurstaða matsgerðarinnar er á þá leið að ekki verði annað séð en að alltof fáar jarðfestingar hafi valdið því að kastalinn losnaði. Ekki sé vitað með vissu hversu margar festingarnar voru, en þær hafi verið í mesta lagi 70. Matsmennirnir komast hins vegar að þeirri niðurstöðu að 172 festingar hefði þurft til þess að halda kastalanum í skefjum.

Ekki sé hægt að sýna fram á að veðurfar hafi verið með þeim hætti að umrædd vindhviða hafi farið yfir þau mörk sem kastalinn átti að þola miðað við rétta uppsetningu.

Þá hafi kastalinn aðeins verið festur á útjaðrinum, en hvergi í miðjunni eða á milli eininga, þrátt fyrir fjölda festinga sem framleiðandi geri ráð fyrir að séu notaðar.

Að auki verði ekki annað séð en að frágangur festinga við suðausturhorn kastalans hafi verið lakari en annars staðar á kastalanum.

Það er einmitt hornið sem fauk upp. Í matsgerðinni kemur fram að það horn virðist hafa legið út á malbikaðan göngustíg eða þannig upp við hann að hælum hafi ekki verið komið vel við. Nokkrum dögum fyrir slysið hafi vindhviða lyft horninu lítillega og þá hafi verið farið betur yfir festingar og bætt við þær á þessu horni.

Þessi mynd er tekin úr skýrslu dómkvaddra matsmanna í málinu. Þar má sjá hvernig suðausturhorn kastalans lá út á malbikaðan göngustíg. Í skýrslynni kemur fram að ekki hafi verið hægt að koma hælum vel við á þeim stað. Það var þetta horn sem fauk upp í slysinu.

Samkvæmt heimildum Kveiks höfðu KA-menn áhyggjur af horninu og reyndu því að festa það betur, með því að binda hornið við tré sem stóðu hinu megin við göngustíginn.

Í matsgerðinni segir að slíkur frágangur hafi mjög takmarkað þol gagnvart upplyfti. Festingar kastalans séu hannaðar til tengingar beint við jarðfestingu, en alls ekki sem tenging við langa framlengingu.

Þar sem leiðbeiningar hafi ekki verið til staðar virðist starfsmenn ekki hafa skilið þá krafta sem við var að eiga og því varla haft kunnáttu til að bregðast við með réttum úrbótum.

Hér má sjá vettvang slyssins, og göngustíginn sem mögulega átti sinn þátt í því hvernig fór.

Lykilatriði í þessu öllu saman hlýtur hins vegar að vera hvernig vindar blésu þennan örlagaríka dag. Miðað var við að loka kastalanum ef vindur færi yfir 10 metra á sekúndu, sem er í samræmi við alþjóðlega staðla.

„Það var ofboðslega fallegt sumarveður á Akureyri þennan dag,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur. „Það var allt að því logn, það mældust tveir metrar á sekúndu á veðurathugunarstöðinni á Krossnesbrautinni. Hitinn var 20 gráður, rétt rúmar, og glampandi sól. Svo var aðeins meiri vindur inni á flugvelli, í athugun klukkan tvö, hann var átta metrar á sekúndu þar.“

Óútreiknanlegt veður

Þrátt fyrir að veðrið hafi verið nokkuð gott þennan dag segir Elín Björk að sérstakar veðuraðstæður geti myndast á Akureyri.

„Í þessu tilfelli var suðvestanátt í lofti. Við sjáum á Vaðlaheiðarveðurstöðinni að þar var suðvestanátt og aðeins meiri vindur, svona sjö metrar á sekúndu. Og Eyjafjörður er afskaplega þröngur, og oftast í suðvestanátt fer vindurinn yfir fjörðinn en hann getur alltaf lætt sér niður, svona ein og ein hviða sérstaklega. Og það er nú alveg óútreiknanlegt, en það er ekki ólíklegt að það hafi gerst og við sjáum það á Vaðlaheiði að það kom þarna hviða upp á tíu metra á sekúndu, og aðrar veðurstöðvar mældu einhverjar hviður þarna á svæðinu.“

Ein þessara hviða hefur því lætt sér undir suðausturhorn kastalans, með þeim afleiðingum að það fauk upp.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur, segir að sérstakar veðuraðstæður geti myndast á Akureyri.

Þótt Gunnar Gunnarsson hafi ekki viljað veita Kveik viðtal um málið sendi lögmaður hans þættinum skriflegt svar. Þar segir meðal annars að þegar fulltrúar Ævintýralands Perlunnar fóru frá kastalanum um tveimur vikum fyrir slysið, hafi verið búið að festa hann niður í samræmi við leiðbeiningar frá framleiðanda. Kastalinn hafi þá ekki verið festur með neinum böndum og ekki yfir „einhvern“ göngustíg, líkt og tilgreint sé í ákæru.

Af heimasíðu fyrirtækisins Big Event Safety. Þar vinnur Graeme Gentles, sem forsvarsmenn Ævintýralandsins fengu til þess að leggja mat á slysið.

Gunnar fékk breskan matsmann, Graeme Gentles, til landsins síðasta sumar til þess að leggja mat á það sem gerðist. Gentles, sem fór alla leið á slysstað, er vottaður úttektaraðili sem sérhæfir sig í viðgerðum og úttektum á hoppukastölum. Í skýrslu hans kemur fram að útreikningar dómkvaddra matsmanna í málinu séu ekki réttir. Það hafi ekki þurft 172 hæla eins og matsmennirnir komust að, heldur aðeins 72 til þess að halda kastalanum í skefjum.  

Þá segir Gentles það ekki rétt að festa hefði átt kastalann að innanverðu, svona kastalar séu aðeins festir að utanverðu.

Í niðurlagi skýrslu sinnar segir Gentles að aðeins öfgakennt veður, eða það sem hann kýs að kalla „verk Guðs“ (e. Act of God), hafi getað fært kastalann úr stað.

Úr skýrslu breska matsmannsins Graeme Gentles.

Á grundvelli skýrslu Gentles fór lögmaður Gunnars fram á það við lögregluna að hún afturkallaði ákæruna. Í svari lögreglunnar segir að gögnin séu ekki þess eðlis að þau breyti niðurstöðu matsgerðar dómkvöddu matsmannanna að neinu marki. Lögreglan bendir á að sakborningar hafi sjálfir aflað gagnanna, sem hafi ekki sömu þýðingu og matsgerð dómkvaddra matsmanna. Ef véfengja eigi matsgerðina sé hægt að fara fram á yfirmat.

Í svari lögmanns Gunnars segir að Gunnar telji að veðurfyrirbrigði hafi orsakað slysið, skellur sem enginn hafi getað séð fyrir. Enginn beri saknæma ábyrgð á því sem þarna gerðist.  

Festingar hoppukastalans.

Sérfræðingur ekki notaður

Í ákæru lögreglu er hvergi komið inn á að ekki hafi verið til staðar starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti. Það kann að hljóma eins og formsatriði, en gæti hafa skipt sköpum.  

„Þegar slysið gerist vissi Heilbrigðiseftirlitið ekkert af þessari starfsemi, því miður. Og þannig komumst við ekki að með okkar forvarnir og leiðbeiningu,“ segir Alfreð Schiöth, sem var framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra þegar slysið varð. Hann segir að forsenda starfsleyfis sé öryggisúttekt og fyrir norðan starfi sérfræðingur á þessu sviði sem skoði til dæmis leikvallasvæði og skemmtigarða. Ömurlegt sé til þess að hugsa að þessi sérfræðingur hafi ekki verið notaður.

Við öryggisúttekt hefði meðal annars verið horft til festinganna og þeirra öryggisstaðla sem um þær gilda. „Þannig að ég tel næsta víst að ef þessi úttekt hefði farið fram, þá hefði mátt fyrirbyggja þetta slys“, segir Alfreð.  

Alfreð segir að þetta sé sérstaklega bagalegt í ljósi þess að sumarið 2015 hafi orðið alvarleg óhöpp í leiktæki í bænum. Þá slösuðust átta manns við að stökkva úr allt að 12 metra hæð á stóra hoppudýnu sem hafði verið sett upp í bænum. Þá hafi heldur ekki verið gefið út starfsleyfi. Í kjölfarið hafi embættismenn Akureyjarbæjar, Heilbrigðiseftirlitsins, lögreglu og sjúkrahússins rætt mikið saman.

„Og satt best að segja var mín fyrsta hugsun þegar þetta hoppukastalaslys varð hérna: eru menn búnir að gleyma reynslunni af fyrra slysinu?“ segir Alfreð.

En svo var ekki alveg á hreinu hvort starfsleyfi þyrfti yfirleitt fyrir svona hoppukastala. Þegar kastalinn var settur upp við Perluna í Reykjavík óskuðu forsvarsmenn Ævintýralands sannarlega eftir starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Eftirlitið staðfesti hins vegar við Kveik að niðurstaða þess á sínum tíma hefði verið að rekstur kastalans félli ekki undir starfsleyfisskylda starfsemi.

Alfreð Schiöth segir það hugsanlega hafa villt umræðuna, að stakur hoppukastali sé ekki starfsleyfisskyldur sem slíkur. Öðru gildi þegar notuð séu orð eins og skemmtigarður, tívolí eða þemagarður. Þá leiki enginn vafi á að starfsleyfi þurfi til.

Í gögnum sem Kveikur hefur undir höndum kemur fram að lögreglan á Norðurlandi eystra telur að starfsleyfi hafi þurft fyrir kastalanum. Lögreglan leitaði álits Umhverfisstofnunar á málinu og í svari stofnunarinnar er tekið undir þetta mat lögreglunnar.

Alfreð segir það geta verið lagatæknilega erfitt að segja til um hver hefði átt að sækja um starfsleyfið, en meginreglan sé þó sú að rekstraraðili geri það. KA sá um daglegan rekstur Skrímslisins fyrir norðan.

Þá bendir Alfreð á, að þótt veðrið hafi verið gott hafi varhugaverðar hviður getað lætt sér niður í fjörðinn. Ekki þurfi snarpar hviður á stóran flöt til að ógnarkraftur myndist. Þá dugi ekkert annað en alvöru festingar.

Alvarleg slys erlendis

Einhver kann að spyrja sig hvort svona slys séu algeng, eða kannski óþekkt annars staðar. Um það bil hálfu ári eftir slysið á Akureyri létust sex börn þegar vindhviða þeytti hoppukastala um það bil 10 metra upp í loft í Ástralíu. Stuttu síðar lést stúlka þegar hoppukastali tókst á loft á Spáni. Átta börn til viðbótar slösuðust, þar af eitt alvarlega.

Þeir Aðalsteinn og Bjartur, sem báðir voru í hoppukastalanum þegar slysið varð, segjast ekki hafa áhuga á hoppukastölum. Þeir óttist að slys geti aftur orðið.

Ólafur, sem skreið inn í samfallinn kastala í leit að syni sínum, segir alla upplifunina óraunverulega.

„Þetta er svo óraunverulegt, upplifunin meira að segja eftir á, þegar maður sér þetta allt fyrir sér, þetta spilast aftur og aftur í hausnum á manni, það er svolítið eins og maður sé bara inni í bíósal að horfa á stórslysamynd,“ segir Ólafur.

„Ég held að það átti sig enginn sérstaklega vel á því, hversu alvarlegt þetta var. Það að það hafi ekkert barn dáið þarna er í rauninni bara... kraftaverk.“