*

Þriðji stjórnmálamaðurinn grunaður um mútuþægni

Ríkisfyrirtækið Fishcor er ekki eina stofnun namibíska ríkisins sem grunur leikur á að hafi verið misnotuð í því skyni að afla Samherja kvóta, með ólögmætum hætti.

Frá árinu 2001 hefur namibíska ríkið starfrækt opinberan Fiskneyslusjóð með það að markmiði að gera namibískan fisk aðgengilegri og ódýrari fyrir landsmenn. Með rekstri hátt í 20 fiskbúða og reglulegra viðburða víða um landið hefur að sögn náðst að margfalda fiskneyslu.

Fiskinn sem Sjóðurinn selur á lágu verði fær hann með kvótaviðskiptum. Allt að 17.000 tonna hrossamakrílskvóta er úthlutað til sjóðsins ár hvert. Þar er hann boðinn út og útgerðir greiða fyrir með því að skila til sjóðsins allt að 40 prósentum þess afla kvótinn heimilar að sé veiddur.

Í gegnum þetta ferli Fiskneyslusjóðsins fór Samherji - bæði bakdyramegin og fram fyrir röð - árið 2012 að mati fyrirtækisins ISG Namibia, sem núverandi stjórn fékk til að kanna hvort Sjóðurinn tengdist Samherjamálinu. Í skýrslu fyrirtækisins er þeirri spurningu svarað játandi.

Núverandi stjórn sjóðsins fékk ISG Namibia til að kanna hvort sjóðurinn tengdist Samherjamálinu.

Ástæða þess að núverandi stjórn sjóðsins óskaði eftir skýrslunni voru ummæli Jóhannesar Stefánssonar í viðtali við Kveik í nóvember árið 2019.

Facilitation fee er ólöglegt. Í einu tilfelli þá borguðum við facilitation fee fyrir að fá kvóta frá fish consumption promotional trust sem er ríkisbatterí til að prómóta fiskneyslu í landinu og þeir aðilar sem voru í kringum það báðu um facilitation fee til að sjá til þess að kvótinn kæmi til okkar, og það var borgað.

Samherji komst yfir 75% af kvóta sjóðsins í tvennu lagi árið 2012. Fyrst í febrúar 2012 þegar Namibísk útgerð sótti um og fékk 8000 tonna kvóta, sem hún framseldi umsvifalaust til Samherja.

Fyrir fékk eigandi namibísku útgerðarinnar 800 þúsund Namibíudollara í svokallað facilitation fee, eins og samningurinn hér að neðan sýnir.

Greiðsla sem skýrsluhöfundar telja ólöglega.

Skýrsluhöfundarnir benda á að Stjórn Sjóðsins hefði aldrei átt eða mátt úthluta milliliðnum kvóta. Enda hafi fyrirtækið hvorki haft veiðileyfi né skip til hrossamakrílsveiða.

En hvers vegna var þá gert?

Jóhannes Stefánsson lýsir því í skýrslunni hvernig hann greiddi mútur til stjórnarformanns Fiskneyslusjóðsins á Hilton hótelinu í Windhoek 22. febrúar 2012. Eina milljón Namibíudollara í reiðufé, að skipan yfirmanns síns, Aðalsteins Helgasonar.

Þann sama dag var sama upphæð tekin út í bankaútibúi í nágrenni hótelsins samkvæmt yfirliti af bankareikningi Samherjafélagsins Kötlu sýnir. Sama félags og komst yfir kvótann sem úthlutað var fáeinum dögum síðar, af stjórn Sjóðsins.

Í skýrslu Jóhannesar til yfirboðara sinna frá því síðar sama ár athyglisverð lýsing á stjórnarformanninum. Hann sagður þátttakandi í baksamningum milliliðarins við Samherja og ,,eingöngu á eftir peningum.”

Jóhannes Stefánsson er uppljóstrarinn í Samherjamálinu.

Núverandi stjórnendur Sjóðsins voru hvattir til að tilkynna rökstuddan grun um mútugreiðslur Samherja til stjórnarformannsins og milliliðarins til Spillingarlögreglunnar ACC, í skýrslunni sem skilað var í lok síðasta árs.

Enn einn namibíski áhrifamaðurinn liggur því undir grun um að hafa misnotað aðstöðu sína í þágu Samherja.

Doktor Aupindi var lengi vel vonarstjarna og háttsettur innan SWAPO flokksins, sem farið hefur með öll völd í Namibíu, og gegnt ýmsum opinberum embættum, verið ráðgjafi og aðstoðarmaður ráðherra, og forstjóri stórs, opinbers fyrirtækis sem fór með rekstur þjóðgarða landsins og hótela innan þeirra, við góðan orðstír.

Nokkrum árum síðar var Tobie aftur í sviðsljósinu.

Þá tilkynntu yfirvöld að rannsókn væri hafin á störfum hans vegna gruns um spillingu. Verktaki sem fengið hafði verðmæt verkefni hjá ríkisfyrirtækinu sem Aupindi stýrði, var sagður hafa greitt fyrir og komið upp sundlaug við heimili Aupindis.

Árið 2018 voru Aupindi og verktakinn svo sakfelldir fyrir að ljúga að rannsakendum málsins, þegar þeir fullyrtu að Aupindi hefði sjálfur greitt fyrir sundlaugina.

Aupindi var einungis gert að greiða sekt og gat því boðið sig fram í öruggt þingsæti í kosningunum í nóvember 2019, sem fóru fram í skugga mótmæla og reiðiöldu almennings vegna nýframkominna spillingarásakana í Samherjamálinu.

Nafn Aupindi var þó aldrei nefnt í tengslum við það mál en svaraði spurningum um hæfi sitt til setu á þingi svona, daginn sem hann tók þar sæti: „Ég er ekki spilltur og í öðru lagi þá var sakfellingin fyrir að hindra framgang réttvísinnar.“

Aupindi, neitaði  því staðfastlega að hafa þegið nokkrar mútur í störfum sínum. Sagðist aldrei hafa hitt neinn frá Samherja, eða vitað af baksamningi Samherja og þess sem fékk kvótanum úthlutað.

Hann sagðist heldur ekki kannast við að Sjóðurinn hafi fengið skipanir ráðherra eða annarra um að úthluta Samherja kvóta.

Í minnisblöðum Jóhannesar Stefánssonar til yfirmanna sinna á árinu 2012 er frjálslega talað um  hvernig nálgast megi ódýran kvóta úr Fiskneyslusjóðnum í gegnum sambönd við áhrifafólk. Ráðherrann sem nú situr í varðhaldi í Namibíu, gengdi þar lykilhlutverki.

Sérstaklega eftir alræmdan leynifund á einkabúgarði ráðherrans í maí þetta ár. Þar sem þeir hittust fyrst Þorsteinn Már Baldvinsson og ráðherrann.

Sjávarútvegsráðherrann Esau og útgerðarmaðurinn Þorsteinn Már á fundi í Namibíu.

Stuttu síðar færir Jóhannes yfirmönnum sínum fréttir af því að von sé á viðbótarkvótaúthlutun frá ráðherranum og fullyrt að Samherji fái hluta hans í gegnum Fiskneyslusjóðinn. Ráðherrann muni fyrirskipa Sjóðnum að „framkvæma þetta á næstu dögum“.

Í skýrslu af fundi á heimili ráðherrans ögn síðar segir svo um kvóta sem Sjóðurinn eigi von á og ráðherrann hafi  „gefið skipun um að ætti að fara til“ Samherja.

Sem og ráðherrann gerði eins og harðlega er gagnrýnt í skýrslu ISG. Í bréfi ráðuneytisins þar sem tilkynnt var um úthlutun 2000 tonna hrossamakrílskvóta til sjóðsins fylgdi bein skipun ráðherrans til stjórnar. Að úthluta honum eingöngu til Samherja.

Verðið sem Sjóðurinn fékk fyrir þennan kvóta frá Samherja sætir furðu. Það var nálægt helmingi þess sem fékkst nokkrum mánuðum síðar. Innri endurskoðandi Sjóðsins taldi Sjóðinn hafa haft að lágmarki 100 tonnum minna af fiski til ráðstöfunar vegna þessa.

Í minnisblaði Jóhannesar til yfirmanna sinna, degi eftir úthlutunina, sagði enda:

„Það gekk furðuvel að fá þessi 2000 tonn í gegn og að þau hafi samþykkt 20% fljótlega hafi verið vel sloppið. Veit að ráðherrann beitti sér í þessu.“

Úr minnisblaði Jóhannesar til yfirmanna sinna hjá Samherja.

Samherja var kynnt efni umfjöllunarinnar 15. febrúar síðastliðinn. Þar með talið þær ásakanir sem fram koma í rannsóknarskýrslu um starfsemi Fiskneyslusjóðs Namibíu. Í svari fyrirtækisins segir að forstjóri þess og aðrir starfsmenn telji útilokað að veita viðtal vegna fyrri umfjöllunar um Samherja.

Þeir telji engu að síður ljóst að Kveikur sé „á alvarlegum villigötum“ í efnistökum sínum, án þess að það hafi verið útskýrt nánar.

Svar Samherja í heild:

„Í ljósi þess hvernig þið hafið fjallað um málefni tengd Samherja í gegnum tíðina, þar sem farið hefur verið afar frjálslega með staðreyndir, upplýsingar slitnar úr samhengi eða beinlínis verið farið með rangt mál gegn betri vitund, er útilokað fyrir Samherja, eða starfsmenn og verktaka fyrirtækisins, að verða við ósk ykkar um viðtal. Starfsmenn Samherja geta ekki með nokkru móti treyst því að í slíku viðtali verði ekki upplýsingar slitnar úr samhengi eða aðeins það efni birt sem þjónar þeim málstað sem þið reynið að tefla fram.
Í fyrirspurn ykkar er engum spurningum beint að Samherja en af efni hennar má ráða að Kveikur sé á alvarlegum villigötum í þeim efnistökum sem þið lýsið og því hvetjum við ykkur eindregið til að fara aftur yfir heimildir og frásögn heimildarmanna til að ganga úr skugga um að þar sé rétt farið með staðreyndir.“

Meira tengt þessu máli:

Samherjaskjölin: Milljarða umsvif á skrifstofu 102
Segja má að hjarta erlendrar starfsemi Samherja sé í borginni Limassol á miðjarðarhafseynni Kýpur. Eyríkið má líka heita miðpunktur rannsóknar íslenskra yfirvalda á Samherja, ef marka má gögn úr nýlegum dómsmálum á Íslandi.
Samstarfsmenn Samherja telja útgerðina hafa rænt sig
Rannsóknarendurskoðendur sem ráðnir voru af samstarfsfólki Samherja í Namibíu telja útgerðina hafa haft rangt við og svikið fé af þeim. Lagt er til að málið verið kært til lögreglunnar og Samherji krafið um milljarða króna.

Horfðu á þennan þátt í heild:

Um­svif Sam­herja, á­sakanir með­eig­enda og einn stjórn­mála­maður enn
Kveikur skoðar hvernig Samherji teygir anga sína víða, þó hjarta alþjóðlegrarstarfsemi fyrirtækisins skuli vera á Kýpur. Þá er gerð grein fyrir ásökunum meðeigenda Samherja að útgerðinni Arcticnam, semtelja sig hafa verið rænda, og rannsókn á vegum stjórnar fiskneyslusjóðs Namibíuþar sem dregna…