Milljarðaumsvif á skrifstofu 102

Segja má að hjarta erlendrar starfsemi Samherja sé í borginni Limassol á miðjarðarhafseynni Kýpur. Eyríkið má líka heita miðpunktur rannsóknar íslenskra yfirvalda á Samherja, ef marka má gögn úr nýlegum dómsmálum á Íslandi.

Samherji hefur haldið til á Kýpur í rúman áratug, en skattrannsóknarstjóra virðist gruna að starfsemi útgerðarsamsteypunnar þar sé til málamynda. Raunveruleg framkvæmdastjórn, eins og það kallast í lögum, sé á Íslandi, og því eigi að gefa félögin upp til skatts hér.

Héraðssaksóknari rannsakar Kýpur út frá vísbendingum um að öll lúti starfsemin stjórn forstjórans, Þorsteins Más Baldvinssonar. Það hefði þýðingu vegna meintra mútugreiðslna Samherjafélaga á Kýpur og dótturfélaga þeirra til áhrifamanna í Namibíu.

Frá Kýpur hefur aldrei verið gert út af hálfu Samherja, þar er engin vinnsla, og langt er í helstu markaði og fiskimið.

Sjá einnig: Samstarfsmenn Samherja telja útgerðina hafa rænt sig

Ástæðan er líklegast önnur. Skattar á hagnað fyrirtækja voru lengst af 10% á Kýpur en hækkuðu nýlega í 12,5% og því enn með því lægsta sem þekkist. Sami skattur er 20% á Íslandi, 21% í Bandaríkjunum og 23% að meðaltali innan ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

Árið 2007 þegar Samherji nam fyrst land á Kýpur var eyríkið enn skilgreint sem skaðlegt skattaskjól, með tilheyrandi leynd og ógagnsæi. Og þótt Kýpur hafi komist af svörtum lista OECD árið 2015, með auknu upplýsingaaðgengi og loforði um alþjóðasamstarf í skattamálum, telur Evrópuþingið Kýpur starfandi skattaskjól. Útlendingar njóta enn sérkjara: skattfrelsis á arðgreiðslur og rýmis til að beita aðferðum til að lækka skattgreiðslur.

Það er með öðrum orðum enn ágætis skjól á Kýpur.

Tölvuskeyti sem Baldvin Þorsteinsson, þáverandi framkvæmdastjóri Afríkuútgerðar Samherja, sendi samstarfsfólki sínu árið 2009 og Stundin birti síðar, segir sitt um hvað menn töldu sig sækja til Kýpur:

„Tilgangurinn er eftirfarandi: Að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins þar sem enginn skattur er á hagnað fyrirtækisins. Við teljum Kýpur vera rétta landið. Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við myndum gera upp. […] Með því að draga úr hagnaði þar og láta hagnaðinn myndast hjá sölufyrirtækinu þá tækist okkur að auka hagnað heildarinnar. Þetta teljum við nokkuð snyrtilega leið til að draga úr skattgreiðslum.“

Ári síðar var Samherji búinn að færa félag undir nafninu Katla frá Belís til Kýpur, þar sem það hóf strax umfangsmikla fisksölu. Á árunum 2010 og 2011 seldi þetta kýpverska félag fisk fyrir samtals 150 milljónir bandaríkjadollara, eða jafnvirði 20 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2011, sem er sá eini sem er aðgengilegur í fyrirtækjaskrá á Kýpur.

Engin sjáanleg starfsemi var þó í félaginu á Kýpur sem sést eflaust best á því að það greiddi Samherja á Íslandi rúmlega eina milljón dollara í sölu- og rekstrarkostnað árið 2010, og sjö milljónir dollara fóru til Kötlu á Kanaríeyjum 2010-2011, þaðan sem Samherji gerði út á Afríkuveiðar sínar.

Katla Seafood heitir nú Esja Seafood og er ásamt systurfélagi sínu á Kýpur, Esju Shipping, með umsvif og tuga milljarða króna eignir um allan heim, meðal annars skúffufélag á eynni Máritíus — í gegnum það hefur útgerðin í Namibíu verið rekin í átta félögum — og helmingshlut í namibísku útgerðinni Mermaria Seafood, sem ákærð var í mútumálinu í Namibíu.

Megintilgangur Esju Seafood er enn í dag kaup og sala á vöru og þjónustu af öðrum félögum Samherja. Á árunum 2012-2015 námu þau rúmlega 22 milljörðum króna.

Rúmlega 40% af því voru fiskkaup. Mest frá þremur félögum, Samherja Íslandi ehf. og Útgerðarfélagi Akureyringa, fyrir jafnvirði 5,4 milljarða króna, og Mermaria í Namibíu fyrir jafnvirði tæplega 4 milljarða króna.

Á sex ára tímabili seldi þetta Kýpurfélag fisk fyrir 45 milljarða króna, en ekkert af honum kom nokkru sinni á land eða átti viðkomu á Kýpur. Hrossamakríllinn sem veiddur var við strendur Afríku var til dæmis allur seldur innan álfunnar.

Sjá einnig: Þriðji stjórnmálamaðurinn grunaður um mútuþægni

Fiskviðskiptin eru enda „bókhaldslegs eðlis,“ eins og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja orðaði það við Stundina. Og bókhaldið sýnir ekki að mikill hagnaður hafi orðið eftir inni í þessum félögum, þrátt fyrir miklar tekjur. Mikill kostnaður kom á móti, sem oft var til kominn vegna viðskipta við önnur félög Samherja.

Lánastarfsemi Esju Seafood til Samherjafélaga víðs vegar um heim var líka umfangsmikil.

Til dæmis lán að jafnvirði 6 milljarða króna til Útgerðarfélags Akureyringa 2016 og að jafnvirði 2,4 milljarða króna lán til félagsins Kaldbaks árið 2012, sem tryggði kýpverska félaginu jafnvirði hundraða milljóna króna í vaxtatekjur. Lánsféð til Kaldbaks var greitt í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans.

Einn einstaklingur er líka á meðal lántaka; Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og lengst af einn aðaleigandi Samherja, er í ársreikningi 2016 sagður skulda Esju Seafood 210 þúsund dollara, sem hvorki beri vexti né sé fyrirsjáanlegt hvenær greiðist til baka.

Hálfrar milljónar dollara greiðslur til Esju Seafood frá skúffufélagi Samherja á Máritíus árið 2015 vekja einnig athygli. Skýringin er sögð „royalty income“ eða rétthafatekjur, en fyrir liggur að félagið á Máritíus var stofnað sérstaklega með það fyrir augum að færa tekjur af útgerðum Samherja í Namibíu til Kýpur. Það sparaði skattgreiðslur.

Skilmerkilega er greint frá þessum viðskiptum við fjölmörg félög Samherja í ársreikningum Kýpurfélaganna. Öðrum viðskiptum Esju Seafood eru þó ekki gerð sérstök skil, eins og ríflega 400 milljóna króna greiðslum til skúffufélagsins Tundavala Invest í Dúbaí: meintum mútugreiðslum til namibískra áhrifamanna.

Systurfélagið Esja Shipping er umsvifaminna í þjónustukaupum. Á árunum 2012-2016  seldi það hins vegar fyrirtækjum í eigu Samherja vöru og þjónustu fyrir jafnvirði 14,4 milljarða króna. Miðlun skipa og áhafna virðist þar þungamiðjan.

Systurfélögin tvö, Esja Seafood og Esja Shipping, eiga líka í viðskiptum sín á milli. Esja Seafood var að jafnaði með há lán útistandandi við Esju Shipping, mest að jafnvirði 9,7 milljarða króna árið 2016. Engar upplýsingar liggja fyrir um hvernig þessu innanhússláni reiðir af þar sem ársreikningum Kýpurfélaganna fyrir árin 2017-2020 hefur enn ekki verið skilað.

En hvar eru öll þessi umsvif og hver sinnir þeim?

Höfuðstöðvar fjölmargra félaga Samherja. 

Í húsi númer 15 við götuna sem heitir í höfuðið á grísku borginni Nafpliou er ýmiss konar starfsemi. Þar er taugaskurðlæknir og endurhæfing fyrir þá sem eru að jafna sig eftir sjúkrahúslegu — en líka það sem kalla mætti höfuðstöðvar Samherja í útlöndum.

Það er ekki hlaupið að því að ná sambandi við fyrirtækin sem þar eru, jafnvel ekki fisksölufyrirtækið sem þar er skráð til heimilis.

Eina símanúmerið sem finnst tengt þeim er númer á lögmannsstofu með allt annað heimilisfang.

Kveikur ákvað því að prófa að banka upp á.

Nágranninn á næstu skrifstofu, sem deilir að því er virðist kaffistofu og snyrtingu með skrifstofu 102, sagðist hvorki vita hvaða starfsemi færi þar fram né hverjir hefðu þar aðstöðu, en annars verða lítið var við þessa nágranna sína.

Skrifstofan er höfuðstöðvar Samherja á Kýpur. Þar er skráð til húsa starfsemi með eignarhald í fyrirtækjum í að minnsta kosti þremur heimsálfum, starfsemi sem er gríðarlega umsvifamikil. En þar er enginn. Og eins og Kveik er sagt af nágrönnunum er mjög algengt að á skrifstofunni séu fáir.

Samherjafélögin sem eru skráð á skrifstofu 102 eru sex talsins, en voru tólf þegar mest var. Tuttugu og fimm önnur félög, alls ótengd Samherja, eru líka skráð á skrifstofunni.

Þarna hafa Samherjafélögin verið skráð síðan í janúar 2014. Það ár voru alls 140 félög skráð með aðsetur í skrifstofu númer 102.

Á Kýpur er umfangsmikill iðnaður sem hverfist um að hjálpa útlendingum sem eiga þar félög við að láta líta út fyrir að þar sé einhver starfsemi; eins og skrifstofur eða starfsmenn, allt til að villa um fyrir skattayfirvöldum í heimalöndum viðkomandi.

Hægt er að fá svokallaða sýndarskrifstofuþjónustu fyrir svo lítið sem 12 þúsund krónur á mánuði; heimilisfang, símsvara og kýpverskt netfang. Fyrir litlu meira býðst símsvörun starfsmanns og skrifborðsaðstaða — þegar og ef einhver þarf að fara til Kýpur.

Félögin 25 sem deila skrifstofu 102 með Samherja eru flest tengd þjónustufélaginu Palema, sem er með aðstöðu í sama húsi. Palema auglýsir hvernig megi með aðeins einu símtali fá mannaða starfsstöð og skapa fyrirtæki þannig sýnileika á Kýpur.

Samherjafélögin á Kýpur eru þó ekki kúnnar hjá Palema, heldur lögmannsstofu og dótturfélags þess, Cyproservus, sem stofnar og þjónustar mikinn fjölda félaga eins og þessara og hýsti félög Samherja til ársins 2014.

Lögmannsstofan sem um ræðir og starfar fyrir Samherja, Crysses Demitriades,  er ein sú stærsta á Kýpur og hefur síðan um miðja síðustu öld kynnt Kýpur sem miðstöð skipa- og alþjóðlegra viðskipta.

Hversu mikil svo sem starfsemin er á þessari skrifstofu Samherjafélaganna á Kýpur, og hvort sem framkvæmdastjórn félaganna er þar eða á Íslandi, er ljóst að mikil þjónusta er sótt til höfuðstöðvanna á Íslandi.

Höfuðstöðvar Samherjafélaga, sem skráð eru á Íslandi, eru á Akureyri.

Í ársreikningum sést að félögin greiddu Samherja á Íslandi fyrir þjónustu sem ýmist var nefnd þjónusta höfuðstöðva, bókhaldsþjónusta eða þjónusta aðalskrifstofu, jafnvirði 130 milljóna króna frá 2014-2016. Jafnvirði 155 milljóna króna var greitt í markaðskostnað og jafnvirði 20 milljóna króna fyrir upplýsingatækniþjónustu.

Ingvar Júlíusson var lengst af eini starfsmaður Samherja sem skráður var stjórnarmaður í félögunum á Kýpur. Í innsendum gögnum til fyrirtækjaskrár var hann skráður til heimilis í Limassol í fjóra mánuði á árinu 2016, en annars á Kanaríeyjum.

Meirihluti stjórnarmanna þarf að vera heimamenn, og að minnsta kosti einn stjórnarfundur á ári haldinn þar, svo félagið falli undir kýpversk skattalög.

Lengst hefur lögmaðurinn Demosthenes Mavrellis setið í stjórnum félaganna með Ingvari. Hann er í hópi eigenda Crysses Demitriades og stjórnarmaður í Cyproservus.

Cristakis Kleridis hefur verið þriðji maður í stjórn frá 2014. Takis, eins og hann er kallaður, er fyrrum meðeigandi KPMG á Kýpur — endurskoðanda Samherjafélaganna.

Hann er þó þekktastur fyrir að hafa gegnt embætti fjármálaráðherra Kýpur á árunum 1999-2003.

Takis er stjórnarmaður í tugum annarra kýpverskra fyrirtækja, auk þess að veita forstöðu ráðgjafarnefnd stjórnvalda í efnahagsmálum.

Samkvæmt kýpverskum lögum bera stjórnarmenn hlutafélaga ábyrgð á starfsemi þeirra. Bæði Kleridis og Mavrellis sátu í stjórnum Esju Seafood og annars Samherjafélags, Noa Pelagic, á árunum 2015-2019 þegar Ingvar greiddi meintar mútur út úr félögunum til félagsins Tundavala í Dúbaí.

Mavrellis neitaði viðtali um aðkomu sína að félögum Samherja þar sem málið væri í rannsókn og vildi ekki svara því hvort yfirvöld hefðu rætt við hann.

„Ég hef ekkert við þig að segja,“ sagði hann í samtali við Kveik.

Mavrellis sagði sig úr öllum stjórnum Samherjafélaganna í september síðastliðnum, en í febrúar í fyrra, stuttu eftir uppljóstrun Samherjaskjalanna, vék Ingvar Júlíusson skyndilega úr stjórnum allra Kýpurfélaganna fyrir Baldvini Þorsteinssyni, sem tók nýlega við stöðu forstjóra Samherja í Evrópu.

Stjórnarmenn Kýpurfélaganna eru því einungis tveir í dag, Baldvin og ráðherrann fyrrverandi, Takis Kleridis.

Eitt þeirra félaga sem heyrði undir Kýpurfélögin var namibíska útgerðin Arcticnam, sem Samherji rak ásamt hópi namibískra kvótahafa. Það hefur ekki verið mikið í umræðunni í tengslum við starfsemi Samherja í Namibíu. En rannsóknarendurskoðendur sem namibísku kvótahafarnir réðu, telja Samherja hafa haft rangt við og svikið fé af Namibíumönnunum, eins og lesa má um hér.

Samherja var kynnt efni umfjöllunarinnar 15. febrúar, þar með talið ásakanir sem fram koma í Arcticnam-skýrslunni og ásakanir í rannsóknarskýrslu um starfsemi Fiskneyslusjóðs Namibíu. Um þær ásakanir má lesa hér.

Í svari Samherja segir að forstjóri fyrirtækisins og aðrir starfsmenn telji útilokað að veita viðtal vegna fyrri umfjöllunar um Samherja. Þeir telji engu að síður ljóst að Kveikur sé „á alvarlegum villigötum“ í efnistökum sínum, án þess að það hafi verið útskýrt nánar.

Svarið í heild sinni:

Í ljósi þess hvernig þið hafið fjallað um málefni tengd Samherja í gegnum tíðina, þar sem farið hefur verið afar frjálslega með staðreyndir, upplýsingar slitnar úr samhengi eða beinlínis verið farið með rangt mál gegn betri vitund, er útilokað fyrir Samherja, eða starfsmenn og verktaka fyrirtækisins, að verða við ósk ykkar um viðtal. Starfsmenn Samherja geta ekki með nokkru móti treyst því að í slíku viðtali verði ekki upplýsingar slitnar úr samhengi eða aðeins það efni birt sem þjónar þeim málstað sem þið reynið að tefla fram.
Í fyrirspurn ykkar er engum spurningum beint að Samherja en af efni hennar má ráða að Kveikur sé á alvarlegum villigötum í þeim efnistökum sem þið lýsið og því hvetjum við ykkur eindregið til að fara aftur yfir heimildir og frásögn heimildarmanna til að ganga úr skugga um að þar sé rétt farið með staðreyndir.

Haltu áfram að lesa:

Samstarfsmenn Samherja telja útgerðina hafa rænt sig
Rannsóknarendurskoðendur sem ráðnir voru af samstarfsfólki Samherja í Namibíu telja útgerðina hafa haft rangt við og svikið fé af þeim. Lagt er til að málið verið kært til lögreglunnar og Samherji krafið um milljarða króna.
Þriðji stjórnmálamaðurinn grunaður um mútuþægni
Ríkisfyrirtækið Fishcor er ekki eina stofnun namibíska ríkisins sem grunur leikur á að hafi verið misnotuð í því skyni að afla Samherja kvóta, með ólögmætum hætti.

Horfðu á þennan þátt í heild:

Um­svif Sam­herja, á­sakanir með­eig­enda og einn stjórn­mála­maður enn
Kveikur skoðar hvernig Samherji teygir anga sína víða, þó hjarta alþjóðlegrarstarfsemi fyrirtækisins skuli vera á Kýpur. Þá er gerð grein fyrir ásökunum meðeigenda Samherja að útgerðinni Arcticnam, semtelja sig hafa verið rænda, og rannsókn á vegum stjórnar fiskneyslusjóðs Namibíuþar sem dregna…