Rússneskum tundurspilli siglt í kringum Ísland

Rússnesk herskip vörðu níu dögum í íslenskri efnahagslögsögu í ágúst. Rússar vildu ekki gera grein fyrir ferðum skipanna. Tugum milljarða króna hefur verið varið til uppbyggingar í Keflavík undanfarin ár vegna breyttrar stöðu á Norður-Atlantshafi.

Rússneskum tundurspilli siglt í kringum Ísland

Tvö hundruð þúsund hermenn eiga að hafa tekið þátt í ZAPAD-heræfingu Rússa í haust.

Þá voru æfð átök við nágranna til vesturs.

Æfingin fór að mestu fram í Hvíta-Rússlandi, við landamærin að Eystrasaltsríkjunum og Póllandi.

Það skiptir Rússa miklu að sýna hvers þeir eru megnugir...

...eða hvers þeir gætu verið megnugir.

Atlantshafsbandalagið fylgdist grannt með, en óljóst er hvort hermennirnir voru alls 200 þúsund, færri eða fleiri.

Norðurfloti rússneska hersins er gríðaröflugur og hefur vaxið mjög undanfarinn rúman áratug. Höfuðstöðvarnar eru í Severomorsk á Kólaskaga, borg sem lokuð er almenningi og fáar myndir eru til frá.

Síðsumars lagði skipalest af stað frá Kólaskaga. Þetta voru þrjú herskip úr Norðurflotanum. Leiðangurinn átti að verða hefðbundin og árviss norðurheimskautssigling. En ferðin breyttist og varð allt annað, því hún endaði við Íslandsstrendur.

Þetta er ein fárra mynda frá Severomorsk, tekin fyrir síðustu aldamót. 

Ellefta ágúst lagði tundurspillir sem heitir í höfuðið á Severomorsk, borginni lokuðu, af stað ásamt björgunardráttarbátnum Pamir og olíubirgðaskipinu Sergei Osipov. Leiðin átti að liggja á heimskautaslóðir eftir æfingar á Barentshafi, tveggja mánaða, árviss ferð.

Rússum er mikið í mun að fylgjast vel með norðursiglingaleiðinni sem liggur til austurs meðfram Rússlandi í átt að Síberíu.

Skipalestin æfði fyrst varnir gegn árásum með rússnesku landhelgisgæslunni við rússneska eyjaklasann Frans Jósefsland í Norður-Íshafi. En eftir æfingarnar tók skipalestin snögglega strikið til vesturs, en ekki austurs eins og til stóð.

Rússneska skipalestin breytti siglingaleið sinni snarlega um miðjan ágúst.

Átjánda ágúst urðu Norðmenn þess varir að skipin þrjú væru skammt suður af Svalbarða og að minnsta kosti eitt þeirra virtist fara hringinn um eyjaklasann.

Ferðalög af þessu tagi eru ekki óþekkt í Noregi, segir Katarzyna Zysk, prófessor í alþjóðasamskiptum hjá Alþjóðamálastofnun norska herháskólans og sérfræðingur í herbrölti Rússa. Hún segir að heræfingar, jafnvel æfingar þar sem flugskeytum er skotið, þokist sífellt nær landamærunum að Noregi.

Eftir að hafa látið fyrir sér fara við Svalbarða lá leið skipalestarinnar til suðurs í átt að Grænlandshafi, á milli Íslands og Grænlands. Í sjálfu sér er þetta ekki óeðlilegt og ferðalagið var á alþjóðlegu hafsvæði.

En 20. ágúst komu tvö skipanna sér fyrir undan ströndum Íslands, norðaustur af Langanesi.

Rússneska skipalestin kom sér fyrir norðaustur af landinu þann 20. ágúst.

Þegar íslensk yfirvöld urðu ferðalagsins vör voru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar sendar til að bera kennsl á skipin. Varðskipið Þór var líka sent af stað og myndir bárust frá fiskiskipaflotanum, enda fóru skipin ekki fram hjá neinum. Þau kölluðu til dæmis ítrekað í íslensk skip í grennd. Rússar vildu greinilega að tekið yrði eftir þeim.

Björgunardráttarbáturinn Pamir var á ferð norðaustur af landinu. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar smellti þessari mynd þegar fylgst var með ferðum rússnesku skipalestarinnar.

Katarzyna Zysk segir þetta nokkuð óvenjulegt, einkum þar sem skipin voru um alllangt skeið á sama staðnum.

„Við höfum ekki orðið vör við þessa hegðun áður, að Rússar dvelji lengi á svona stöðum, en það er samt ekki eðlisólíkt því sem verið hefur,“ segir hún.

Tundurspillirinn Severomorsk var hins vegar hvergi sjáanlegur. Hann var heldur ekki á þessum slóðum, heldur var áhöfn hans lögð af stað í hringsiglingu um landið. Severomorsk er ríflega 150 metra langur, búinn bæði flugskeytum og tundurskeytum til að granda kafbátum. Líka tveimur þyrlum sem ætlaðar eru í kafbátahernað og svo búnaði til að trufla rafbúnað.

Íslensk yfirvöld báðu Rússa um skýringar á ferðalaginu en fengu engin svör. Kveikur leitaði einni skýringa rússneskra yfirvalda og óskaði álits hóps rússneskra sérfræðinga, en án árangurs.

Í fréttatilkynningu rússneska varnarmálaráðuneytisins frá í ágúst er hins vegar sagt að skipunum hafi verið beint að Íslandi til að bregðast við og fylgjast með NATO-herskipum og óvæntri flughersæfingu í norðausturhluta Noregshafs, austur af Íslandi. Í fréttum rússneskra miðla segir meira að segja að nærvera rússnesku skipanna hafi raskað æfingunni.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir mjög langsótt hjá Rússum að bera fyrir sig heræfingar við Ísland og að þeir þurfi að verjast.

„En þeir hafa náttúrlega sinn takt í alþjóðamálum sem við þekkjum,“ segir Guðlaugur Þór. Sá taktur sé „kannski aðeins öðruvísi“ en það sem Íslendingar séu vanir frá þeim löndum sem þeir bera sig saman við og starfi mest með.

„Yfirlýsingar sem þessar, þegar grannt er skoðað, þá standast þær enga skoðun. Þessar æfingar voru ekki að neinni þeirri stærðargráðu að það kallaði á einhver viðbrögð og lítil sanngirni í því. En það þarf ekkert endilega að koma á óvart, að það hafi verið notað sem ástæða,“ segir hann í viðtali við Kveik.

Guðlaugur Þór Þórðarson og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fréttamannafundi í Hörpu í maí 2021.

Rússum gremst reyndar það sem þeir telja vígvæðingu næstu nágranna að undirlagi Atlantshafsbandalagsins, eins og kom glögglega fram í orðum Sergeis Lavrovs, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi með Guðlaugi Þór í Hörpu í vor.

Þar lýsti Lavrov áhyggjum sínum af framferði nágrannaríkjanna, þótt samskipti við Noreg hefðu alltaf verið góð. „En óútkljáð eru mál sem snúa að hervæðingu og uppbyggingu í Noregi og Eystrasaltsríkjunum,“ sagði Lavrov í pontu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir slasaðan sjóliða um borð í kanadísku freigátuna HMCS Fredericton suður af Íslandi.

Kanadíska freigátan HMCS Fredericton leiðir sem stendur fastaviðbragðsflota Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafi. Þegar rússnesku herskipin voru undan Íslandsströndum var hún stödd suður af Færeyjum en tók stímið beint í norður, til Íslands. Landhelgisgæslan sótti raunar slasaðan sjóliða um borð í freigátuna en síðan fylgdist Fredericton með rússnesku skipalestinni.

Talsmaður Atlantshafsbandalagsins í Brussel staðfesti við Kveik að fylgst hefði verið með ferðum skipalestarinnar. Á undanförnum árum hefði skipaferðum Rússa á svæðinu fjölgað mjög. Einkum væri áberandi hversu oft rússneskir kafbátar héldu sig á svæðinu. Þeir væru auk þess mun lengur úti í einu en verið hefði.

„Þetta er bara ein birtingarmyndin af því sem við erum búnir að sjá vera í gangi í rauninni frá innlimun Krímskaga,“ segir Guðlaugur Þór. „Þá erum við búin að sjá breytta mynd í öryggisumhverfi í þessum heimshluta. Og það kemur fram með ýmsum hætti.“

Hann segir að þetta sjáist kannski best í því til að mynda að Norðurlöndin, og í rauninni öll þau lönd sem Ísland ber sig saman við, hafi aukið framlög sín til öryggis- og varnarmála. Hann nefnir Svíþjóð sem dæmi. „Þar tóku menn fyrir nokkrum árum herskylduna aftur upp og bæta í það,“ segir Guðlaugur Þór. Þar sé í raun mesta aukning á útgjöldum til varnarmála frá fyrri heimsstyrjöldinni. „Þetta kemur allt út af aukinni hernaðaruppbyggingu Rússa.“

En staðsetning rússnesku skipanna vekur líka athygli, því skammt frá kemur sæstrengurinn Farice að landi á Íslandi. Talsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa um nokkurra ára skeið lýst þungum áhyggjur af því að Rússar hafi bæði getu og vilja til að fikta í slíkum strengjum, þótt umdeilt sé hvers vegna þeir ættu að gera það og hvað þeir gætu gert við vel varða ljósleiðara á hafsbotni.

Sérfræðingar, sem Kveikur ræddi við, töldu Rússa fyrst og fremst vilja sýna fram á að þeir byggju yfir tækni til að fitla við sæstrengina, en ekki einu sinni háþróuðustu ríki hefðu getu til að vinna úr gagnastraumnum og auk þess væru alltaf til varaleiðir.

Fjöldi sæstrengja liggur að landinu og enn fleiri í kringum það. NATO óttast að Rússar noti þróaða kafbáta til að eiga við strengina.

Tuttugasta og þriðja ágúst, nokkrum dögum eftir að rússnesku herskipin komu sér fyrir norðaustur af landinu, komu svo þrjár B2-sprengjuvélar Bandaríkjahers til Keflavíkur til æfinga.

Vélarnar flugu æfingaferðir með vélum frá Bretlandseyjum og Noregi. Talsmenn Bandaríkjahers lýstu þessu sem sögulegum viðburði og mikilvægum fyrir valdajafnvægið á svæðinu. Keflavík væri ný framvarðarstöð fyrir sprengjuvélarnar. Dagblaðið Nezavisimaya Gazeta hafði hins vegar eftir rússneskum hershöfðingja á eftirlaunum að þetta neyddi Rússa til að efla hersveitir sínar og auka útgjöld til varnarmála til að verja norðursiglingaleiðina.

Michael Paul er sérfræðingur hjá þýsku rannsóknarstofnuninni Stiftung Wissenschaft und Politik í Berlín. Hann segir komu sprengjuvélanna vekja athygli Rússa og þeir hafi brugðist við þegar sömu vélar komu til Noregs. Hann telur skipaferðina vera skilaboð til Íslendinga og Vesturlanda: „Við sjáum hvað þið eruð að gera og við bregðumst við.“

Katarzyna Zysk tekur undir það og segir Rússa vita fullvel að svona æfingar ofan í landsteinum nágranna veki athygli og séu metnar með ákveðnum formerkjum. Þær séu í raun áhætta eða ógn, í það minnsta aukin óvissa um hvað Rússar hafi á prjónunum. Það sé engin tilviljun að þeir komi sér fyrir á þessum stað í lengri tíma.

Katarzyna Zysk er prófessor hjá háskóla norska hersins.

Frá því að vesturveldin vöknuðu til meðvitundar um þróunina á norðurheimskautssvæðinu, einkum áhuga bæði Rússa og Kínverja, hefur kappið um yfirráð þar magnast. Hluti af því kappi er aukið eftirlit hersveita Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafi — eftirlit sem er ekki síst sinnt frá Íslandi.

Frá því árið 2015 hefur viðvera P8-kafbátaleitarvéla Bandaríkjahers verið nánast samfelld. Tæknilega séð eru vélarnar ekki með fastan heimavöll í Keflavík. En í framkvæmd væri réttara að kalla Keflavíkurflugvöll heimavöllinn því þar eru sjaldan eða aldrei færri en þrjár vélar og upp í átta þegar mest hefur verið. Þegar ein vél fer kemur einfaldlega önnur. Þannig er hægt að segja að heimavöllurinn sé, formlega séð, annars staðar en í Keflavík.

P8-kafbátaleitarvélar í Keflavík.

Þeir sem muna þreytulega og yfirgefna herstöð eftir brotthvarf Bandaríkjahers 2006 yrðu líklega hissa að sjá hversu mikið hefur breyst á undanförnum misserum.

Gömul flugskýli hafa gengið í endurnýjun lífdaga. Tvö stór flughlöð flughers Bandaríkjanna eru tilbúin og skammt frá er sjóherinn að byggja upp. Íslensk yfirvöld eru að reisa gistiaðstöðu fyrir dáta sem koma að utan, enda er Ísland gistiríkið og ber ákveðnar skyldur.

Fjárfestingin á vellinum, í innviðum og búnaði, nemur um 20 milljörðum króna á undanförnum árum. Þorrinn kemur frá Bandaríkjunum, hluti frá Atlantshafsbandalaginu og eitthvað frá Íslandi, en Landhelgisgæslan er stofnunin sem sinnir þessum verkefnum.

Gistiaðstaða fyrir erlenda hermenn er meðal þess sem íslensk stjórnvöld fjármagna í uppbyggingu í Keflavík.

Undanfarið rúmlega hálft ár hafa svo fraktflutningar á vegum Atlantshafsbandalagsins aukist stórlega. Frá því um mitt sumar hafa verið nánast daglegar ferðir stórra véla, mest frá herstöðvum í Bretlandi, og stundum margar vélar á dag.

Guðlaugur Þór bendir á að lítið hafi verið gert um langt skeið. „En í minni tíð sem utanríkisráðherra hefur verið gert mjög mikið. Þetta eru yfir 20 milljarðar króna sem er búið að fjárfesta í,“ segir hann. Þetta séu ekki bara byggingar heldur líka hugbúnaður og annað slíkt sem sé miklu dýrari en ætla mætti. Mest af þessu hafi verið Keflavíkursvæðinu.

Það er verið að endurræsa Keflavíkurstöðina, segir Michael Paul, og telur víst að kafbátaleitarvélar af gerðinni P8 verði hér til langframa, því einkum séu það kafbátaferðir Rússa sem Atlantshafsbandalagið hafi áhyggjur af. Umferðin sé um GIUK-hliðið svokallaða, hafsvæðið milli Grænlands, Íslands og Bretlandseyja, því önnur leið sé Rússum ekki fær inn á Norður-Atlantshaf. En það sé bæði NATO-ríkjunum öllum, og Íslandi einu og sér, mikilvægt að viðhalda þar vörnum.

Að hans mati er lítið vit í að koma hér fyrir sprengjuvélum eins og B2, en hann bendir þó á að Norðmenn hafi heimilað komur eða veru slíkra véla þar í landi.

Michael Paul er sérfræðingur hjá Stiftung Wissenschaft und Politik í Berlín.

Fyrir nákvæmlega tveimur árum kom sjóher Bandaríkjanna upp tímabundinni framvarðarstjórnstöð í Keflavík. Stjórnstöðin var á vegum annars flota sjóhersins, sem hafði þá nýlega verið endurvakinn til að bregðast við breyttum aðstæðum á Norður-Atlantshafi. Þaðan var beitiskipi og þremur tundurspillum stýrt á ferðum um hafsvæðið umhverfis og norður af Íslandi.

Nú í september voru fjórir tundurspillar annars flotans festir sem hluti nýs sérverkefnahóps, sem kallast Greyhound, og verður framvegis með það meginverkefni að elta rússneska kafbáta á Norður-Atlantshafi og bregðast við óvæntri ógn.

Þegar Kveikur spurðist fyrir um þetta hjá íslenskum stjórnvöldum fengust þau svör að Greyhound hefði ekki verið kynnt fyrir Íslendingum, frekar en aðrar breytingar á starfsemi bandarísks herafla sem ekki vörðuðu aðgerðir á íslensku yfirráðasvæði. Bein áhrif þessa á Ísland væru því engin.

Viðmælendur Kveiks segja rétt að sjá veru rússnesku skipanna í samhengi við þetta, B2-vélarnar og aukna umferð um Keflavíkurstöðina. Vera þeirra hafi í raun verið pólitísk skilaboð til Íslendinga — og það mánuði fyrir kosningar — frekar en hernaðarleg aðgerð. Rússar viti vel að varnarmál geti verið flókin fyrir ríkisstjórn vinstri-græns forsætisráðherra og flokks sem enn hefur á stefnuskrá að heræfingar, sem og herskipa- og herflugvélakomur, eigi að vera óheimilar á Íslandi.

B2-sprengjuflugvélar Bandaríkjahers voru við æfingar á Íslandi í ágústlok. Talsmenn Bandaríkjahers sögðu þær æfingar marka tímamót.

Ferðir rússnesku skipanna hefðu getað beint kastljósinu að stöðunni og umsvifunum í Keflavík. Rússar líta á hafsvæðið umhverfis Ísland sem sitt umráðasvæði eða nærumhverfi rétt eins og NATO-ríkin. Skilaboðin eru því: Aukin uppbygging á Íslandi þýðir aukna athygli Rússa.

Katarzyna Zysk lýsir stöðunni í Noregi á svipaðan hátt, þótt Rússar séu reyndar mun oftar uppi í landsteinum þar, stundum með heræfingar. Hún segir stjórnvöld í Osló fylgjast grannt með, halda stillingu sinni en gæta þess að bandamenn séu vel upplýstir um stöðuna. En þar sé líka verið að byggja upp, auka herviðbúnað, bæði norskan og frá Bandaríkjaher. Fælingarmátturinn sé efldur sem hreint viðbragð við aukinni herumferð Rússa á svæðinu.

Zysk bendir líka á aukið umfang heræfinga Atlantshafsbandalagsins, eins og stóræfinguna Trident Juncture 2018. Sú æfing náði til Íslands, og þótt umræðan hérlendis sé lítil sem engin er þróunin hér í sömu átt og í Noregi: uppbygging.

Rússarnir héldu sig við landið í níu daga, til 29. ágúst. Þá héldu skipin þrjú, með kanadísku freigátuna Frederiction í kjölfarið, í átt að Barentshafi. Tveggja mánaða sigling um norðurheimskautið reyndist þriggja vikna ferð að Íslandsströndum.

Þetta er í fyrsta skipti sem rússnesk herskip halda sig innan íslensku efnahagslögsögunnar með þessum hætti. Rússneskar sprengjuflugvélar, svokallaðir Birnir eða Tupolev 95, hafa hins vegar ítrekað flogið inn á íslenska flugumsjónarsvæðið, jafnvel farið hringinn um Ísland.

Tupolev-95 sprengjuvélar eru gjarnan kallaðir Birnir.

Herþotur NATO taka jafnan á loft frá Íslandi þegar það er hægt, annars frá Noregi eða Bretlandseyjum. En vera vopnaðra herskipa undan ströndum landsins er nýtt skref, stigmögnun spennu sem byggst hefur upp á undanförnum árum.

Eftir því sem heimskautaísinn bráðnar er augljóst að hagsmunabaráttan verður harðari. En á sama tíma færist áhugi og athygli Bandaríkjanna í vaxandi mæli í átt að Kyrrahafinu og Asíu, eins og nýlegt samkomulag við Ástrala sýnir. Hver er staða Íslands, ef varnir á Norður-Atlantshafi lenda neðar í forgangsröðinni en það sem snýr að Kína?

Michael Paul telur að Norðurlöndin, Þýskaland, í raun öll Evrópa, þurfi að búa sig undir breytingar og að taka í auknum mæli við keflinu. Til þessa hafi varnarstefna Norðurlandanna byggst á því að bandarískar hersveitir birtust umsvifalaust ef efni og ástæða væri til. En það væri ekki lengur víst, þótt engar líkur væru á að Bandaríkjamenn hyrfu með öllu. Það væri einfaldlega þeim í hag að verja Norður-Atlantshafið, til að verja sjálfa sig.

Fyrir 2029 ætla Bandaríkin að koma sex ísbrjótum í umferð, þeim fyrstu í háa herrans tíð. Rússneska fréttastofan TASS hafði svo undir síðustu mánaðamót eftir heimildarmönnum sínum innan rússneska hersins, að til stæði að stofna nýjan Norðurheimskautsflota, sem yrði Norðurflotanum til viðbótar.

Ekkert bendir til þess að spennan minnki í kringum Ísland. Þvert á móti eru uppbygging og hvervæðing á dagskrá hvert sem litið er.