Rússneski herinn færist nær

Vaxandi ógn frá Rússlandi hefur leitt til stóraukinna útgjalda til varnarmála í Noregi og Svíþjóð. Rússnesk herskip héldu sig innan 200 mílna marka íslensku efnahagslögsögunnar um níu daga skeið í sumar. Engar skýringar fengust frá Rússum.

Rússneski herinn færist nær

Á tímum kalda stríðsins hefði verið með öllu óhugsandi að varnarmál væru rædd á þingi Norðurlandaráðs. Þetta segir Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, á vef ráðsins. En nú eru varnarmál ofarlega á blaði hjá ráðinu og á þingi þess í nóvember verður Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, framsögumaður.

Samstarf á sviði varnarmála og öryggismála verður sífellt mikilvægara málefni á vettvangi Norðurlandaráðs, segir á vef ráðsins. Ástæðan er ein: meint aukin ógn frá Rússlandi. Þar hefur herinn vaxið mjög að umfangi, heræfingar nærri Eystrasaltsríkjunum og Skandinavíu verða sífellt algengari og áhugi Rússa á að ná ítökum á norðurheimskautssvæðinu — nú þegar ísinn þar bráðnar hratt — verður sífellt ákafari.

Katarzyna Zysk er sérfræðingur í alþjóðamálum hjá háskóla norska hersins. Hún segir valdabaráttu stórveldanna færast í aukana. Fyrir vikið skipti trúverðugar varnir og fælingarmáttur miklu máli. Fælingarmátturinn sýni sig öðruvísi en á tímum kalda stríðsins þegar kjarnorkuvopn voru áberandi. Í dag séu vopnin fjölbreyttari — frá upplýsingaóreiðu og tölvuhakki til hefðbundnari vopna. Með umfangsmiklum heræfingum á Norður-Atlantshafi, eins og Trident Juncture, sem fór fram bæði í Noregi og á Íslandi 2018, berji menn sér á brjóst.

Það markaði líka tímamót fyrir réttu ári þegar Finnland, Svíþjóð og Noregur undirrituðu sáttmála um sameiginlega varnarstefnu og varnarsamstarf, sem beinist einkum að norðurslóðum og heimskautasvæðinu. Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, sagði við norska ríkisútvarpið að samkomulagið undirstrikaði að hugsanlegar krísur yrðu tæpast vandi eins þjóðríkis heldur allra norrænu landanna. Samkomulagið fæli í sér skilaboð til Rússa.

Þetta samstarf er til viðbótar við norræna varnarbandalagið NORDEFCO, sem Ísland tilheyrir líka.

Samstarfið endurspeglar líka breytta heimsmynd og athygli vekur að Finnland og Svíþjóð, sem bæði hafa staðið utan Atlantshafsbandalagsins, taki þátt. Raunar var til umræðu á þessu ári að Svíþjóð breytti áratuga hlutleysisstefnu og gengi í Atlantshafsbandalagið. Svíum stendur í vaxandi mæli stuggur af herbrölti Rússa.

Í Svíþjóð hefur herskylda verið tekin upp á ný og framlög til varnarmála hafa verið stóraukin — árið 2025 eiga þau að vera tvöföld sú upphæð sem varið var áratug fyrr. Allt er þetta vegna ógnar í Eystrasaltinu.

Svíar hafa stóraukið útgjöld til hermála á undanförnum árum og tekið upp herskyldu á ný.

Svipaða sögu er að segja í Noregi. Útgjöld til varnarmála sem hlutfall af þjóðarframleiðslu minnkuðu árum saman, frá 1990 til 2010, en þá snerist þróunin við. Síðan hefur hlutfallið í Noregi aukist úr 1,5% vergrar þjóðarframleiðslu í 2%, eða úr 39 milljörðum norskra króna í 67 milljarða í fyrra.

Norskur hermaður tekur þátt í heræfingunni Vargflokk í Varanger í Finnmörk í Norður-Noregi.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir þetta skiljanlegt í ljósi aðstæðna.

„Kannski við höfum minnst talað um það hér á Íslandi, en þó held ég að það hafi ekki farið fram hjá okkur að hernaðaruppbygging Rússa hefur verið til staðar og verið að aukast mjög mikið,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann segir að þetta sjáist kannski best í því til að mynda að Norðurlöndin, og í rauninni öll þau lönd sem Ísland ber sig saman við, hafi aukið framlög sín til öryggis- og varnarmála. Hann nefnir Svíþjóð sem dæmi. „Þar tóku menn fyrir nokkrum árum herskylduna aftur upp og bæta í það,“ segir Guðlaugur Þór. Þar sé í raun mesta aukning á útgjöldum til varnarmála frá fyrri heimsstyrjöldinni. „Þetta kemur allt út af aukinni hernaðaruppbyggingu Rússa.“

Óumdeilt er að uppbygging rússnesks herafla er meiri en Vesturlanda á undanförnum árum, þótt styrkurinn sé töluvert meiri hjá ríkjum Atlantshafsbandalagsins.

En Rússar vilja meina að ógn steðji að þeim úr vestri og þeir bregðast við því sem þeir telja ógnandi tilburði vesturveldanna. Dæmi um það sást við Íslandsstrendur síðsumars á þessu ári, þegar þrjú rússnesk herskip birtust skyndilega innan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Rússar gáfu íslenskum stjórnvöldum engar skýringar á ferðum sínum en grannt var fylgst með þeim.

Nánar verður fjallað Rússaógnina og uppbyggingu í Keflavík í Kveik í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.

Leiðrétt: Í fyrri útgáfu fréttarinnar misritaðist nafn Bertels Haarders, forseta Norðurlandaráðs, auk þess sem hann var titlaður forseti þings Norðurlandaráðs.