Grunnskólastelpur þrábeðnar um að senda nektarmyndir

Margar unglingsstúlkur eru endurtekið áreittar á netinu og beðnar um að senda eða selja af sér nektarmyndir. Þeir sem kaupa myndirnar og deila þeim jafnvel virðast oft ekki átta sig á að þeir hafi framið glæp.

Grunnskólastelpur þrábeðnar um að senda nektarmyndir

Í febrúar sögðust nærri 60% stelpna í 10. bekk hafa verið beðin um að senda af sér ögrandi mynd eða nektarmynd og þriðjungur hafði þegar gert það. Nærri fimmta hver stúlka á aldrinum 15-17 ára hefur lent í því að þannig mynd eða myndskeiði af henni er dreift, í hennar óþökk. En vandamálið er víðtækara og teygir sig enn neðar í aldri.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur, hefur einstaka innsýn í þetta. Hún hefur rætt þessi mál við þúsundir unglinga síðustu ár og fengið þau mörg inn á borð til sín. Hún bendir á að börn fái snjalltæki í hendurnar mjög ung.

„Um leið og þau hafa aðgengi að netinu, þá eru þau á ákveðinn hátt berskjölduð fyrir því að ókunnugir aðilar geta nálgast þau,“ segir Kolbrún. Hún kveðst hafa orðið vör við það alveg niður á miðstig, sem eru 11-13 ára börn, að verið sé að biðja þau um að senda kynferðislegar myndir af sér.

„Stundum er þetta kannski bara einhver sem er með þér í bekk, einhver sem er með þér í skóla, jafnvel er þetta einhver ókunnugur,“ segir Kolbrún. „En síðan eru þessar myndir að fara á flakk.“

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir.

Hún segir bæði þekkjast að börn brjóti hvert á öðru með því að dreifa þessum myndum áfram og að fullorðið fólk eltist við börn og greiði þeim jafnvel fyrir kynferðislegar myndir.

Bæði stúlkur og drengir lenda í þessu, þótt það sé töluvert algengara hjá stelpum. Kveikur hefur undanfarna mánuði rætt við bæði unglingsstelpur og foreldra og fengið að sjá ótrúlegustu dæmi um þetta.

Við ræddum meðal annars við móður 14 ára stúlku. Hún vill ekki koma fram undir nafni, enda málið viðkvæmt fyrir dóttur hennar. Við köllum því móðurina Fjólu og dótturina Rósu. Rósa gaf móður sinni leyfi til að segja þessa sögu, hún treysti sér ekki til að gera það sjálf.

Á miðnætti á 14 ára afmælisdag Rósu ákvað hún að senda út snapp á „story“ á samfélagsmiðlinum Snapchat, sem má líkja við að birta myndir á veggnum sínum á Facebook, nema hvað myndirnar hverfa eftir sólarhring. Á Snapchat gera unglingar þetta sjaldnast núorðið — nær öll samskipti fara í gegnum hópa. En Rósa átti afmæli og var í einhverju stuði og sendi út þessi skilaboð:

„Klukkan er tólf og ég á afmæli, vinir mínir endilega sem vilja gefa mér gjöf megið Aur-a á mig, svæpið upp fyrir númer.“

Rósa fékk viðbrögð um hæl frá náunga sem hún hafði samþykkt fyrir löngu síðan. Þá sagðist hann vera í skóla í nágrenninu og vera ári eldri en hún. Nú sendi hann henni skilaboð og spurði hvort hún „flexaði.“ Móðirin Fjóla komst síðan að það því að þá er átt við rassamyndir eða myndir sem sýna ekki fulla nekt.

Rósa neitaði því að hún „flexaði“ en þá spurði hann hvort hún væri til í að gera það gegn greiðslu. Svo greiddi hann, í gegnum greiðsluappið Aur, 3.000 krónur inn á reikninginn hennar.

„Þá er hún svolítið komin í erfiða stöðu,“ segir Fjóla. „Það er alltaf verið að biðja um meira og senda aftur. Og mér skilst að það sé alltaf send upphæð áður en myndin er send, þannig að þú ert svolítið búinn að skuldbinda stúlkuna í að senda þér.“

Maðurinn millifærði nokkrum sinnum 3.000 krónur. Svo fór fjárhæðin í 5.000 krónur og síðustu tvær færslurnar í 16.000 krónur.

„Og mér skilst að þá hafi hún bara blokkerað viðkomandi og bara reynt að hrista þetta af sér,“ segir Fjóla.

Hún hafði ítrekað rætt þessi mál við Rósu dóttur sína — og einmitt það að senda aldrei myndir.

Eina ástæða þess að Fjóla komst að því sem gerðist er að hún fær tilkynningar í símann þegar millifærslur berast inn á reikning dótturinnar.

Börn sem eru með bankareikning geta sótt millifærsluapp eins og Aur án þess að forráðamenn þurfi að samþykkja það. Fyrst þegar Fjóla fór að spyrja Rósu út í hvað gefði gengið þarna á voru svörin óljós. Fyrst sagðist hún hafa fengið einhverjar færslur og sent þær til baka, að þetta hefði bara verið eitthvert grín. Þegar yfirlitið frá Aur barst loksins kom í ljós að það var ekki rétt.

„Það tók svolítinn tíma í rauninni að komast að því hvað hafði í raun og veru gerst,“ segir Fjóla. „Það þurfti svolítið að draga það upp úr henni.“

„Þá komumst við að því að það hefðu farið þarna myndir á milli. Án þess að hún hafi áttað sig á því að þarna hafi einhver mikill glæpur átt sér stað,“ segir Fjóla.

Lögreglan þekkir vel til þessara svokölluðu Aur-mála. Bylgja Baldursdóttir hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar hefur rætt við fjölda bæði gerenda og þolenda í slíkum málum.

„Svo hafa krakkarnir verið að gera þetta á annan hátt, þau hafa verið að fá greiðsluna í 2-3 pörtum og látið þá Aura inn á vini sína sem aura svo inn á þau,“ segir Bylgja. „Svo foreldrarnir verða síður varir við það.“

Bylgja Baldursdóttir.

Bylgja segir að börnunum finnist þetta kannski ekki endilega vera tiltökumál fyrr en myndirnar fara í dreifingu. Og af langri reynslu segist Bylgja nánast geta fullyrt að svona myndir endi einhvern tímann einhvers staðar annars staðar en sendandinn ætlaði.

Í tilfelli Fjólu kom strax í ljós að sá sem hafði borgað dóttur hennar fyrir myndir sigldi undir fölsku flaggi. Þetta var ekki strákur úr skóla í nágrenninu, ári eldri, heldur 18 ára piltur búsettur úti á landi sem hún vissi engin deili á.

Þetta gerðist á föstudagskvöldi, svo fjölskyldan fór í gegnum helgina með magaverk af kvíða.

Fyrsta verk eftir helgina var að kæra málið til lögreglu. Þá kom í ljós að Rósa var ekki sú eina sem þessi piltur hafði keypt myndir af um þessa helgi, heldur hlupu málin á tugum. Rannsóknin er umfangsmikil og eftir því sem Fjóla veit best er ákæra enn ekki komin fram.

Kolbrún Hrund hjá Jafnréttisskólanum hefur fengið mörg mál til sín þar sem svona nektarmyndasala hefur leitt til hótana. „Það er verið að selja og kaupa nektarmyndir og þá oft gerist líka eitthvað meira,“ segir hún.

„Það er verið að hóta börnunum um að senda grófara efni. Ef þau geri það ekki, þá fá þau hótanir um að myndir sem þau eru búin að selja fari í dreifingu, fari jafnvel á foreldra og ættingja og vini,“ segir Kolbrún.

Í febrúar var hegningarlögum breytt. Þar segir nú í 199. grein a.:

Hver sem útbýr, aflar sér eða öðrum, dreifir eða birtir myndefni, texta eða sambærilegt efni, þ.m.t. falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.
Sömu refsingu skal sá sæta sem hótar því sem greinir í 1. mgr., enda sé hótunin til þess fallin að vekja hræðslu eða kvíða hjá þeim sem hún beinist að.

Þegar við bætist að viðfangið er barn fjölgar þeim lagagreinum sem eru brotnar með svona háttsemi.

Málum af þessu tagi hefur líka fjölgað mikið á þessu ári hjá lögreglunni. Bylgja er ekki viss um hvort það tengist lagabreytingunni eða ástandinu í samfélaginu undanfarið eitt og hálft ár. Foreldrar séu líka orðnir aðeins meðvitaðri um hvað er í gangi.

„Ég held kannski að brotunum sem slíkum hafi ekki fjölgað, við bara vissum ekki af þeim fyrr en núna,“ segir Bylgja.

Grunnskólastelpur fá greitt fyrir kynferðislegar myndir af sér í gegnum Aur-appið.

Tvær vinkonur sem ganga í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu samþykktu að tala nafnlaust við Kveik um sína reynslu. Þær völdu sér dulnefnin Ásdís og Alexandra. Þetta byrjaði hjá þeim í fyrrasumar, en þá höfðu þær veður af því að einhverjar vinkonur þeirra voru búnar að tala við einhvern náunga sem vildi kaupa af þeim notuð nærföt. Ásdís ákvað að taka þátt í þessu og svo leiddi eitt af öðru — menn fóru að elta þær vinkonurnar á samfélagsmiðlum og biðja um kynferðislegar myndir.

„Mér fannst þetta eitthvað góð hugmynd þá og gerði þetta stundum, sendi myndir,“ segir Ásdís.

Til að byrja með sendi hún ekki myndir af sjálfri sér, heldur myndir af netinu. Þó kom fyrir að hún sendi myndir af sér. „En ég sendi aldrei svona grófar. Bara svona flex, eins og það er kallað.“

Alexandra vinkona hennar hélt sig við að senda ekki myndir af sér, en segir að það hafi ekkert alltaf verið beðið um nektarmyndir eða ögrandi myndir.

„Svo er þetta ekki alltaf bara rassamyndir eða brjóstamyndir,“ segir Alexandra. „Stundum vilja þeir bara að maður troði fætinum sínum upp í sig. Þetta er svona weird fetish og eitthvað þannig.“

Móðir Ásdísar uppgötvaði að eitthvað óeðlilegt væri á seyði þegar hún kallaði eftir Aur-yfirliti. Henni fannst undarlegt hvað dóttir hennar átti allt í einu mikinn pening.

Í ljós kom að alls konar eldri menn höfðu verið að leggja inn á reikninginn hennar í gegnum Aur. Fyrir myndirnar segja þær að hafi yfirleitt verið greiddar 3.000-5.000 krónur, en alveg upp í 13.000 krónur fyrir nærbuxurnar.

Myndir af unglingsstúlkum eru birtar á erlendri vefsíðu.

Tvær þeirra mynda sem Ásdís sendi af sér enduðu svo inni á viðbjóðslegri síðu þar sem er fullt af barnaníðsefni.

„Stór hluti af þessu efni er myndir sem börn hafa tekið sjálf. Sem hafa bara endað þarna,“ segir Kolbrún Hrund, sem þekkir þessa síðu vel.

„Hún er vistuð erlendis, en þar eru yfir þúsund myndir af íslenskum ungmennum þar sem er í rauninni ekkert hægt að gera,“ segir hún. „Myndirnar eru bara þarna og allir tjá sig um þær og það er alveg laust við virðingu.“

Af vefsíðu þar sem sumar nektarmyndir af stúlkum undir lögaldri enda.

Bylgja Hrönn hjá lögreglunni segir gerendur sjaldnast meðvitaða um hversu alvarlegt lögbrot þeir fremja með þessu — hvort sem þeir biðja barnungar stúlkur að senda af sér kynferðislegar myndir gegn greiðslu eða dreifa mynd sem þeir hafa fengið senda í trúnaði.

„Svo kemur raunveruleikinn og slær mann í andlitið. Það getur verið svolítið hátt fall,“ segir Bylgja. Viðbrögðin séu oft afneitun, jafnvel skömm. En skömmin sé ekkert endilega yfir því að hafa dreift mynd eða myndum í óþökk þess sem sendi hana, heldur yfir því að vera orðinn „glæpamaður“ í einhverjum skilningi.

Auðvitað getur í sumum tilfellum verið um að ræða kjánaskap og fáfræði. En í tilfelli Ásdísar og Alexöndru má segja að mennirnir hafi haft mjög einbeittan brotavilja. Þetta voru allt fullorðnir menn, frá tvítugu og upp úr. Mæðgurnar kærðu suma og eru þau mál enn hjá lögreglu. Þá dró úr áreitninni og vinkonurnar eru búnar að læra sína lexíu. Peningarnir freistuðu bara.

„Síðan fattaði ég eftir á að þetta er bara mjög ógeðslegt og heimskulegt og þetta bara endar aldrei eitthvað vel... þeir spyrja kannski hvar maður býr, þetta gæti alltaf... útaf þessir menn eru, það er eitthvað að þeim,“ segir Ásdís.

Ásdís og Alexandra segjast hvorug hafa tekið þetta mikið inn á sig. Það sé ekki hægt að breyta hlutunum eftir á og þótt þær vildu að þær hefðu ekki gert þetta líði þeim ekkert illa sem stendur.

Fjóla, móðir Rósu, segir mikilvægt að vera tilbúinn að grípa þær stelpur sem lenda í þessu: „Áfallið mun koma, það er bara spurning hvenær,“ segir hún.

„Þeim finnst þetta mögulega lítið mál... það er nekt þarna úti, fullt af konum á OnlyFans eða hvað þetta allt heitir, að gera svona. En þær hafa ekki þroskann til að taka svona ákvarðanir á þessum aldri.“

En þetta gerist ekki í tómarúmi. Hvernig breytum við viðhorfinu sem skapar hegðunina? Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir hjá Jafnréttisskólanum hefur miklar skoðanir á því: 

„Börn eru auðvitað að spegla samfélagið sitt. Og unglingarnir eru bara að gera það sem þau sjá í kringum sig,“ segir hún. „Ef áhrifavaldur birtist fullklæddur og svo birtist hann fáklæddur, þá fær hann allt í einu margfalt fleiri læk.“

„Það eru ákveðin norm í samfélaginu okkar,“ segir Kolbrún. „Það er ákveðin viðurkenning á því að við dýrkum kvenlíkama. Við dýrkum helst nakinn eða fáklæddan kvenlíkama. Við dýrkum ungar, stinnar, grannar, sís konur.“

„Við sem samfélag erum að ala þær upp í þessu frá fyrstu stundu,“ segir hún. „Frá því að þær eru nýfæddar, þá setjum við þær í föt og við hrósum þeim: Prinsessa! Sjáðu hvað hún er sæt! og Ji, hver var að gera svona fínt í hárið á þér?! Þú ert svo sæt – Sæta sæta -  Flotta!

„Ef barn sem er að þroskast er alltaf að fá þau skilaboð að gildi þess sé fyrst og fremst falið í útlitinu — Þú getur orðið allt sem þú vilt, en vertu samt alltaf sæt — þá er til dæmis rosalega auðvelt, þegar þú ert komin með snjalltæki í hendurnar og þú póstar einhverri mynd og færð fullt af viðbrögðum, svo prófarðu að pósta mynd sem er aðeins meira ögrandi og þú færð brjáluð viðbrögð, það er ótrúlega gott fyrir egóið,“ segir Kolbrún.

Hún segist hafa fengið til sín börn sem hafi selt slíkar myndir og það hafi komist upp, og börnin hafi velt því upp hvers vegna þau megi ekki græða nokkur þúsund krónur þegar fullorðnar konur græði milljónir á að selja af sér nektarmyndir.

Spurð hvernig hún svari því bendir Kolbrún á hætturnar. „Af hverju viltu kaupa nektarmynd af einhverri manneskju? Það getur ekki snúist um nektina, því þú getur fengið allt á netinu frítt. Þetta hlýtur að snúast um eitthvað vald,“ segir hún.

„Þarna eru fullorðnir aðilar að kaupa lítil börn. Þeir eru að kaupa vald yfir barninu.“

Hvað eiga foreldrar þá að gera? Kolbrún bendir á að þeir verði að tala bæði opinskátt og einlægt við börnin sín og reyna að fræða þau eins mikið og þeir geta.

Það sé samt mikilvægt að halda dyrunum opnum svo börnin þori að koma og segja frá ef eitthvað gerist. Unglingar eigi erfitt með að horfa langt fram í tímann og láti oft stjórnast af hvatvísi. Heilinn sé enda ekki fullþroskaður. Þetta gildi að sjálfsögðu bæði um stelpur og stráka.

„Þetta er mjög þungur baggi að bera fyrir krakka, sem lenda í því til dæmis að myndum af þeim er dreift eða einhver fer að hóta þeim,“ segir Kolbrún.

Halldóra Lillý Jóhannsdóttir lögfræðingur hefur rannsakað börn og stafræna tækni og kallar beinlínis eftir stafrænni barnavernd. Foreldrar séu einfaldlega ekki alltaf færir um að sinna verndarskyldunni.

„Aðgangurinn sem fólk getur haft að börnunum okkar er ógnvekjandi,“ segir Halldóra. Foreldrar geti ekki leiðbeint eða frætt börnin sín um eitthvað sem þeir viti ekki. „Það er ekki hægt að haga eftirliti eða framkvæma áhættumat á einhverju sem þú veist ekkert um. Það er það sem við þurfum að gera, að efla stafrænt hæfi.“