„Ég var kölluð hóra satans“

Erna Magnúsdóttir, dósent í lífeinda- og líffærafræði við læknadeild Háskóla Íslands, reyndi um skeið að leiðrétta rangfærslur í Facebook-hópi sem er kenndur við opna umræðu um COVID-19. Hún segist hafa lært sína lexíu.

„Ég var kölluð hóra satans“

Samfélagsmiðlar hafa verið mikilvægur vettvangur fyrir fólk sem er gagnrýnið á bóluefni eða sóttvarnaaðgerðir. Í hinum ýmsu Facebook-hópum má finna skoðanaskipti um hvaða hagsmunir skuli vega þyngst og hverju sé ásættanlegt að fórna en í bland eru oft staðhæfingar um bóluefni sem hin viðteknu vísindi gefa lítið fyrir.

Sneri sennilega engum hörðum bóluefnaandstæðingi

Erna hafði áður blandað sér í umræður um erfðabreytt matvæli. Þá fannst henni hún hafa ákveðnum skyldum að gegna sem vísindamaður við að upplýsa umræðuna.

Tilviljun réð því að hún fór að taka þátt í umræðum um COVID-bóluefnin. Félagi hennar bætti henni í Facebook-hópinn COVID19 - Opin umræða. Í hópnum eru rúmlega þúsund manns og það tók Ernu svolitla stund að átta sig á því að meirihlutinn hafði allt aðra sýn á COVID-19 og bóluefnin en hún sjálf.

Erna vonar að svör hennar hafi skipt sköpum fyrir fólk sem var hikandi og að leita að upplýsingum.

„Ég held ég hafi ekki snúið neinum hörðum andstæðingi bólusetninga,“ segir Erna og kveðst aldrei hafa haldið að hún myndi gera það.

„En svo fer maður í þessar samræður líka bara þannig að þeir sem eru að lesa, það eru þúsund í hópnum og kannski einhverjir tugir af þeim að lesa, þá sjá þeir mótrökin.“

Í huga Ernu er hópurinn ekki einsleitur. „Mér fannst þetta ekki vera einhver ein radíkalíseruð grúppa. Fólk samt kemur inn í svona hópa og fer að miðla upplýsingum til hvers annars sem veldur því að fólk verður harðara í afstöðu sinni,“ segir hún.

Hörð viðbrögð komu á óvart

Það kom Ernu á óvart hversu hörð viðbrögð hún fékk. Fólk í hópnum reyndi að gera rannsóknir hennar á sviði lífefna- og erfðafræði tortryggilegar og tengja hana lyfjafyrirtækjum.

Manneskja í hópnum reyndi að tengja Ernu við lyfjafyrirtæki.

„Fólk verður mjög reitt þegar það sér að maður ætlar bara að halda áfram á rökunum. Mér hefur verið líkt við Mengele,“ segir hún og vísar til nasistalæknisins Josefs Mengeles sem starfaði í útrýmingarbúðunum í Auschwitz í seinni heimsstyrjöld.

„Ég hef verið kölluð hóra satans þarna einhvern tímann.“

Skjáskot úr Facebook-hópnum.

Erna segist hafa lært sína lexíu. „Þú slekkur ekkert á hræðslu og vantrausti með rökum. Það þarf eitthvað annað að koma í staðinn og ég veit ekki alveg hvað.“

Horfðu á þáttinn í heild
Við fjöllum um offitu barna og fólkið sem vildi ekki COVID-bólusetningu í fyrsta þætti fimmtu þáttaraðar Kveiks.

Búið að snúa upp á raunveruleikann

Erma segir að stundum sé eitthvert sannleikskorn í þeim kenningum sem haldið er fram í hópunum. „Margt af þessu er svona hálfsannleikur, bara eins og falsfréttir,“ segir hún. „Oft er stór hluti sannur en það er einhvern veginn snúið upp á raunveruleikann.“

Erna fékk á endanum nóg af því að reyna að leiðrétta rangfærslur og hætti að fylgjast náið með umræðunni í Facebook-hópnum.

Hún nefnir sem dæmi að stundum er því haldið fram að bóluefnin geri illt verra með því að framleiða ný afbrigði af veirunni. „Ef við erum að bólusetja mjög hægt og veiran að dreifa sér um allan heim þá verður til miklu meiri fjölbreytileiki í veirunni. Grunnurinn fyrir þróun er fjölbreytileiki og náttúruval,“ segir hún.

Með bólusetningu séu veirunni settar ákveðnar skorður. „Alltaf þegar þú setur lífverum skorður og það verður stökkbreyting sem kemst fram hjá skorðunum þá verður val fyrir henni, hún kemst þá í gegnum bóluefnið,“ útskýrir Erna.

Þetta séu þó ekki rök gegn því að bólusetja, heldur frekar rök fyrir því að bólusetja hraðar, áður en ný bóluefnaþolin afbrigði koma fram.

Sjálf vonar hún að góður árangur af COVID-bólusetningum verði til þess að skapa aukið traust til bóluefna.

Erna veit ekki hvernig best er að skapa traust milli efasemdafólks og vísindamanna.