Fólkið sem vildi ekki COVID-bóluefnin

Lítill hópur landsmanna afþakkaði bóluefni gegn COVID-19. Innan hópsins er fólk sem er fullt vantrausts gagnvart stjórnvöldum og trúir því að bóluefnin séu hættuleg tilraunaefni.

Fólkið sem vildi ekki COVID-bóluefnin

Ingvar Örn Bergsson, sjómaður frá Vestmannaeyjum, segist hafa verið alinn upp eins og aðrir við að bólusetning væri af hinu góða. En fyrir nokkrum árum breyttist viðhorf hans.

Ingvar fór í flensusprautu og segist hafa verið veikur í marga mánuði á eftir. „Alltaf hnerrandi og hóstandi og líkaminn að reyna að losa sig við einhverja aðskotahluti,“ segir hann.

Hann ákvað að rannsaka málið sjálfur á netinu, skoðaði gögn úr ýmsum áttum og er eftir það nokkuð viss um að bóluefni séu ekki af hinu góða.

Þegar Ingvar Örn Bergsson var yngri hafði hann fulla trú á bólusetningum, en nú hefur sýn hans breyst. 

„Læknar fá tveggja daga til tveggja vikna menntun um bóluefni, þeir vita ekki neitt, ekki neitt miðað við hvað ég er búinn að rannsaka og skoða allar hliðar,“ fullyrðir Ingvar.

Ingvar er í hópi efasemdafólks sem spannar breitt róf. Sumir telja að bóluefnin hafi verið þróuð of hratt eða efast um virkni þeirra. Einhverjir voru tvístígandi þegar bólusetning bauðst, höfðu áhyggjur af aukaverkunum eða vildu bíða og sjá.

Hjá öðrum kom ekki til greina að þiggja sprautuna. Meðal þeirra er fólk sem heldur hreinlega að COVID og bóluefnin séu hluti af stóru alheimssamsæri — trúir jafnvel ekki á tilvist veirunnar.

Sjálfur telur Ingvar að veirusýkingar orsakist að miklu leyti af rafsegulgeislun. Hann segir að ný afbrigði veirunnar séu einfaldlega „ný einkenni af sömu eitrun, geislunareitrun.“ Ef horft sé á veirur almennt, „þá sérðu að ef við tökum bara út rafmagn í umhverfinu þá þarf engin bóluefni og eitthvað eitur,“ segir hann.

Ein þekkt samsæriskenning er að í sprautunum séu örflögur eða að með bólusetningu standi til að tengja líkama fólks við nýja 5G-farsímakerfið. Íslenskt efasemdafólk virðist þó almennt frekar hafa áhyggjur af öryggi efnanna, innihaldi þeirra og því að aukaverkanir séu mun alvarlegri en yfirvöld vilji viðurkenna.

Um 36.000 manns sem eru komnir af grunnskólaaldri hafa ekki mætt í bólusetningu, en ekki er vitað hve stór hluti hefur sleppt því beinlínis vegna efasemda um bóluefnin.

Mikill munur er á mætingu eftir aldri. Nær enginn yfir sjötugu telst óbólusettur en tæpur fimmtungur fólks á aldrinum 18-49 ára.

Mestu munar þó um ríkisfangið. Meðal fólks með lögheimili á Íslandi eru innan við 6% íslenskra ríkisborgara 16 ára og eldri óbólusett, en um helmingur fólks með erlent ríkisfang hefur ekki fengið sprautu, eða 21.000 manns.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnasviði landlæknisembættisins, segir ljóst að skilaboð sóttvarnayfirvalda hafi ekki náð nógu vel til fólks af erlendum uppruna.

„Við erum að vinna í því að efla okkar skilaboð til ýmissa málhópa og finna nýjar leiðir til að koma upplýsingum á framfæri,“ segir Kamilla Sigríður.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir. 

„Mögulega verður líka skoðað að gera bólusetningar aðgengilegar á öðrum tímum eða öðrum stöðum þannig að þeir sem eiga erfitt með að fara frá vinnu á miðjum degi geti fengið bólusetningu.“

Upplýsingum embættisins þarf reyndar að taka með fyrirvara. Ekki liggur fyrir hvers vegna fólk hefur ekki mætt í bólusetninguna, og þó að fólk eigi lögheimili einhvers staðar þýðir það ekki endilega að það búi þar.

Hluti hópsins gæti einfaldlega hafa verið í öðru landi þegar kallið kom og kannski fengið bólusetningu þar. Aðrir hafa mögulega ekki verið með skráð símanúmer í heilbrigðiskerfinu. Einnig er lítill hópur fólks sem getur ekki látið sprauta sig af læknisfræðilegum ástæðum, til dæmis vegna bráðaofnæmis.

Vantraust og ótti við stimplun

Kveikur hefur rætt við fjölda fólks sem valdi að láta ekki bólusetja sig gegn COVID-19. Ekki vildu allir koma fram undir nafni.

Þótt sumir hafi viðrað skoðanir sínar á sprautunum opinberlega á Facebook hafa aðrir haldið sig til hlés. Það fólk var sumt til í að ræða skoðanir sínar nafnlaust, jafnvel hitta fréttamenn Kveiks og senda ýmis gögn, en það vildi sjaldnast koma í viðtal, ekki einu sinni í skuggamynd þannig að það þekktist ekki.

Sumir sögðust óttast að verða stimplaðir samsæriskenningasmiðir, að börnunum þeirra yrði ekki boðið í afmæli eða þeir kæmu óorði á stétt sína.

Margt fólk í þessum hópi vantreystir fjölmiðlum, segir þá hafa brugðist hlutverki sínu með því að spyrja ekki nógu gagnrýnna spurninga um bóluefnin. Á meðan sumir segja upplýsingamiðlun aldrei hafa verið meiri eða gagnsærri, tala þessi hópur um þöggun, múgsefjun og rétttrúnað.

Skjáskot úr Facebook-hópi þar sem fólk ræðir meðal annars afstöðu sína til bólusetninga og sóttvarnaaðgerða. 

Í samfélaginu sé engin þolinmæði fyrir því að fólk hafi nokkrar efasemdir um bóluefnin eða skoðanir aðrar en þær viðteknu. „Fjölmiðlar mála svo einsleita mynd af þessu að það þorir enginn að vera utan við kassann sem fjölmiðlar eru búnir að mála,“ segir sjómaðurinn Ingvar Örn. „Þá eru þeir bara  samsæriskenningarugludallar, og ég veit ekki hvað og hvað.“

Upplifun fólks af þöggun er sterk. 

Samfélagsmiðlar hafa verið mikilvægur vettvangur fyrir fólk sem er gagnrýnið á bóluefni eða sóttvarnaaðgerðir. Allur gangur virðist vera á því hvað efasemdafólki sem leggur orð í belg í Facebook-hópum finnst um bóluefni almennt, en það sameinast gegn COVID-bóluefnunum. Sumum finnst reyndar að þessi nýju bóluefni verðskuldi ekki að vera kölluð bóluefni.

Helga Birgisdóttir, ljósmóðir, hélt ræðu um bólusetningar barna á Austurvelli í lok ágúst, hún sagðist hafa ákveðið að klæða sig í ósamstæða skó þann daginn því fólk virtist ekki vita í hvorn fótinn það ætti að stíga. „Á ég að fá mér bóluefni? Á ég að gefa barninu mínu bóluefni? Ég hef ekki rassgat hugmynd um það,“ sagði hún og uppskar lófatak. 

Síðustu misseri hefur orðið til ákveðið samfélag efasemdafólks um bólusetningar og aðrar sóttvarnaaðgerðir. Félagar í hópi Coviðspyrnunnar hittast til að mynda á Austurvelli á hverjum laugardegi. Fólk ræðir málin, hlustar á ræður, tekur hópmynd og fer svo saman út að borða.

„Mér finnst bara gaman að koma hérna félagslega, hitta fólkið og spjalla saman. Fólk kemur ólíkt að þessu,“ sagði Inga G. Halldórsdóttir félagsliði þegar Kveikur hitti hana á Austurvelli í ágústlok.

Inga G. Halldórsdóttir félagsliði er ein þeirra sem mæta reglulega á Austurvöll til að mótmæla.

Upp úr þessum jarðvegi hefur ýmislegt sprottið, til dæmis félagið Mín leið - Mitt val sem berst gegn því að einræði verði komið á á Íslandi undir því yfirskini að verið sé að vernda heilsu fólks.

Félagið telur bólusetningarherferð stjórnvalda brjóta í bága við Nürnberg-siðareglur, þar sem er fjallað um rannsóknir sem krefjast tilrauna á mönnum og mikilvægi upplýsts samþykkis. Félagar í Minni leið - Mínu vali hyggjast standa fyrir málsóknum telji þeir þörf á, og því er haldið fram á vef félagsins að íslenskir ráðamenn verði dregnir fyrir dómstóla og þeir sakaðir um að hafa tekið þátt í þjóðarmorði.

Stjórnmálaflokkurinn Ábyrg framtíð, sem bauð fram í einu kjördæmi í Alþingiskosningunum í haust og fékk 0,4% atkvæða í kjördæminu, tengist líka hreyfingu efasemdafólks um sóttvarnaaðgerðir. Formaður flokksins, Jóhannes Loftsson, berst fyrir því að áhrif sóttvarnaaðgerða verði rannsökuð og krefst aukins gagnsæis í kringum ráðgjöf sóttvarnaryfirvalda til stjórnvalda.

Jóhannes Loftsson, formaður stjórnmálaframboðsins Ábyrgrar framtíðar.

„Það er engin vísindaleg umræða um þá ráðgjöf sem við erum að fá frá þessum sérfræðingum,“ segir Jóhannes. „Þessi umræða þarf að eiga sér stað og við viljum að þeir sem eru ábyrgir fyrir þessu verði dregnir til ábyrgðar, það verði rannsakað hvað fór fram.“

Vantraustið á margar rætur. Ýmsum finnst skjóta skökku við að leynd hvíli yfir samningum ríkisins við bóluefnaframleiðendur og að lyfjafyrirtækin hafi afsalað sér skaðabótaábyrgð. Í staðinn er það ríkið sem greiðir þeim sem hljóta líkamstjón vegna bóluefnanna bætur.

Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala, segist talsmaður þess að hafa hlutina uppi á borðunum. „Það kann að vera að í þessum samningum séu ákveðnir þættir sem er eðlilegt að halda til hliðar, en kjarninn ætti að vera aðgengilegur,“ segir Björn Rúnar. Hann kveðst þó treysta þeim sem falið var að annast samningana. Það fólk beri hagsmuni þjóðarinnar fyrir brjósti.

Slíku trausti er þó ekki fyrir að fara hjá þeim sem vantreysta bóluefnunum, eins og félagsliðanum Ingu. „Það eru ofboðslegir peningar í húfi, þessir sem eiga þessi fyrirtæki eru að fjármagna fréttastöðvar og ríkisstjórnir eru í tengslum við þær,“ segir hún.

Inn í umræðuna um bóluefnin blandast efasemdir eða andstaða við sóttvarnaaðgerðir almennt. Sumt efasemdafólk um bóluefni telur aðgerðir óþarfar og hluti hópsins óttast aukna alræðistilburði og að stjórnvöld gangi, ómeðvitað eða vitandi vits, erinda spilltra lyfjafyrirtækja.

Inga óttast að með bóluefnasamningunum hafi stjórn heilbrigðismála á Íslandi hreinlega verið sett í hendur lyfjarisa. „Það er bara aðgerð í gangi sem gengur út á að koma þessu efni í fólk og selja þetta,“ staðhæfir hún.

Inga fullyrðir að óttaáróður sé notaður til að stjórna fólki, telja því trú um að eitthvað banvænt sé á ferð og fólk beri einhverja ábyrgð á því hvort aðrir látist eða ekki.

Þann 17. september efndu Coviðspyrnan og fleiri hópar til spurningagöngu. 

Í huga margra í þessum hópi flýtur fólk, sem treystir þríeykinu og birtir sprautusjálfur á Facebook, sofandi að feigðarósi. Efasemdafólk óttast sumt hvert að froskarnir séu komnir í ylvolgan pottinn og svo eigi að hækka hitastigið, löturhægt, þar til allt í einu bullsýður. Þá verði allt orðið um seinan og heimurinn eins og við þekkjum hann jafnvel glataður.

Eru þetta tilraunaefni?

Martha Ernstsdóttir, fyrrverandi afrekskona í frjálsum íþróttum, og nú hlaupaþjálfari og jógakennari, segir að í eitt og hálft ár hafi stjórnvöld haldið stöðugum hræðsluáróðri að almenningi: „Þegar við verðum hrædd missum við stundum rökhugsunina.“

Fyrst hélt Martha efasemdum sínum um bóluefnin fyrir sig, en í sumar, þegar ákveðið var að byrja að bólusetja unglinga og ófrískar konur, var henni nóg boðið. Hún var ekki á Facebook en stofnaði reikning til að geta tekið þátt í umræðunni.

„Þegar verið er að þróa bóluefni tekur það mörg, mörg ár, bara öryggisins vegna. Það er verið að gera tilraun á börnum, það er ekki markaðsleyfi, þetta er ekki læknisfræðilegt, ekki vísindalegt og algjörlega siðlaust,“ segir hún.

Martha Ernstsdóttir, jógakennari, hlaupaþjálfari og fyrrverandi afrekskona í frjálsum íþróttum, hefur efasemdir um bólusetningu við COVID.

Martha dregur þarna saman áhyggjur margra í þessum hópi af öryggi bóluefnanna. Oft er fullyrt að efnin séu á tilraunastigi, að prófanir hafi verið hroðvirknislega unnar og öryggi fólks stefnt í hættu, allt í þeim tilgangi að fóðra vasa spilltra lyfjafyrirtækja.

Bóluefnin gegn COVID-19 voru þróuð ótrúlega hratt í sögulegu samhengi. Þau fengu síðan skilyrt markaðsleyfi í Evrópu. Því fylgir aukið eftirlit með öryggi og virkni. Lyf geta fengið slíkt leyfi þó minni gögn liggi fyrir en gerð er krafa um þegar venjulegt markaðsleyfi er veitt. Viðbótargögn berast þá seinna. Þetta á við um lyf sem uppfylla einhverja þörf sem önnur lyf uppfylla ekki og ávinningur af því að gera lyfið strax aðgengilegt almenningi þarf að vera talinn meiri en áhættan við að hefja notkun þess.

Bendir það þá ekki einmitt til þess að þetta séu tilraunaefni? Svar vísindamanna er afdráttarlaust nei. „Þetta eru ekki tilraunaefni, það er ekki rétta orðið,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala.

Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands.

Hann viðurkennir að ferlinu hafi verið hraðað gríðarlega. „Það var af augljósri ástæðu, fólk var að deyja þúsundum saman, gjörgæslur voru yfirfullar,“ segir hann.

„Það sem menn gleyma og almenningur áttar sig ekki á er að þessi gerð bóluefna hefur verið í þróun í nokkra áratugi, að minnta kosti 20 ár, allt frá því MERS- og SARS-faraldurinn hófst.“ Hundruð milljóna manna hafi verið sprautuð, „og það er allt sem sýnir og sannar að þau eru gríðarlega virk og örugg.“

Fleira hefur verið nefnt til að skýra þessa hröðu þróun. Lyfjafyrirtæki hafa fengið mikið af opinberu fé til að þróa bóluefnin og fyrirtækin deildu gögnum um framgang rannsókna jafnóðum með eftirlitsaðilum sem gátu þá metið þau í svokölluðu áfangamati og beðið um viðbótarupplýsingar ef þurfti.

Alla jafna þurfa lyfjafyrirtæki að senda inn öll gögn um virkni, öryggi og gæði lyfja áður en mat á þeim hefst. Áfangamatið, sem leyfilegt er að grípa til þegar heilsufarsógn vofir yfir, stytti því til muna ferli sem annars hefði tekið nokkur ár.

Jón Magnús Jóhannesson læknir, sem svarar spurningum á Vísindavefnum, segir jafnframt að hrakspár um að bólusett fólk eigi eftir að deyja í hrönnum mörgum mánuðum eða árum eftir bólusetningu eigi ekki við rök að styðjast, því mögulegir fylgikvillar bólusetningar komi fram fljótlega eftir bólusetninguna.

„Ég held að það hafi sjaldan eða aldrei verið jafn náið eftirlit með hugsanlegum sjaldgæfum aukaverkunum,“ Björn Rúnar. „Oft er ekki hægt að fá slíkar upplýsingar fyrr en mörgum árum eftir að lyf fara á markað, ef nokkurn tímann.“

Ekki öll mótmæla á Austurvelli

Elsa Rós Smáradóttir, verkefnastjóri og andlegur markþjálfi, er ein af þeim sem hafa kosið að láta ekki bólusetja sig.

Hún hefur mikla trú á líkamanum, að næri maður hann rétt, líkamlega og andlega, vinni hann með manni.

„Það er bara innsæið mitt að mér finnst ég ekki vilja fá þetta inn í líkama minn,“ segir hún. „Ég hef lesið mér til um upplifun fólks af því að fá COVID og ég er þá bara tilbúin.“

Elsa Rós Smáradóttir, verkefnastjóri og andlegur markþjálfi.

Hún virðir þó ákvörðun þeirra sem fara í bólusetningu og telur að hver og einn eigi að fylgja sínu innsæi: „Fyrir fólk sem velur að fara í bólusetningu, þá held ég að líkaminn muni líka hjálpa því að vinna úr bólusetningunni.“

Hún segist hafa varið undanförnu einu og hálfu ári í að hreinsa út skjaldkirtilssjúkdóm, meðal annars með heilbrigðu mataræði og tilfinningavinnu. Hún er hætt á lyfjum og líður almennt vel. „Svo er ég líka búin að vera að vinna heima allan tímann og ekki í mikilli hættu.“

Hún segir að sumum finnist skrítið, jafnvel óþægilegt, að hún vilji ekki þiggja bóluefnið. Afstaða hennar hafi komið einni konu sem hún hitti úr jafnvægi. „Hún á langveikt barn og varð mjög hrædd, fannst þetta vera ógn við öryggi hennar barns.“

Margir af þeim sem hafna bóluefnunum hallast að náttúrulegum lausnum frekar en læknisfræðilegum inngripum. Að baki liggur þá oft vantraust á hefðbundnum vestrænum læknavísindum.

Hjarðónæmið brást

Um mitt sumar var þjóðin svo gott sem fullbólusett og um miðjan júní lýsti Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, því yfir að þjóðin væri komin með gott hjarðónæmi. Seinna um sumarið var komið annað hljóð í strokkinn. Frelsið var ekki alveg í höfn. Það var nefnilega komið nýtt afbrigði sem bóluefnin unnu ekki jafnvel á og því upphaflega.

Sumum finnst þjóðin hafa verið svikin vegna þess að bóluefnið kom ekki nógu vel í veg fyrir að fólk smitaðist af Delta-afbrigðinu „Þeir settu á okkur þvinganir, lofuðu því að ef fólk tæki sprauturnar þá fengi það frelsið sitt aftur og fólk fór í þetta á þeim forsendum,“ segir Inga.

Þórólfur Guðnason segir það vonbrigði að hjarðónæmi hafi ekki náðst, bóluefnin verndi þó vel gegn alvarlegum veikindum.

Þórólfur viðurkenndi að það væru vonbrigði að bólusetningin væri ekki áhrifaríkari í að koma í veg fyrir smit. „Hún verndar 60% fyrir smiti en þegar við lögðum af stað með bólusetningarnar voru upplýsingar um að það væri 80-90%,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi í sumar.

Börn og ófrískar konur

Ákvarðanir um að bólusetja barnshafandi konur og unglinga vöktu líka umtal og heitar tilfinningar. Sérfræðinga greinir á um hvort ávinningur af fjöldabólusetningum unglinga sé nægilegur. Í Noregi og Bretlandi hefur verið farin varfærin leið, að gefa unglingum bara fyrri skammtinn, og bíða með þann seinni þar til frekari gögn liggja fyrir.

Í sumar var tekin ákvörðun um að bólusetja 12-15 ára unglinga.

Vonir standa til þess að með þessu megi bæði vernda börnin og takmarka raskanir á skólastarfi.

Í Danmörku og Finnlandi eru unglingum gefnir tveir skammtar, það veitir meiri vernd, en hættan á aukaverkunum er jafnframt meiri.

„Það eru aukaverkanir, varðandi hjartavöðvabólgu og sérstaklega gollurhússbólgu, sem geta verið mjög ógnvekjandi, en ganga sem betur fer yfirleitt yfir af sjálfu sér, jafnvel án meðhöndlunar,“ sagði Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnasviði Landlæknisembættisins á upplýsingafundi í sumar.

Mörthu Ernstsdóttur fannst tilhugsunin um fjöldabólusetningu unglinga skelfileg.

„Ég er ekki vísindamaður, ég er bara móðir, amma, manneskja sem horfir á að það er verið að gera eitthvað undarlegt við börn sem þarf ekki að gera og ég vil að læknar stígi fram, að fleiri stígi fram. Ég vil að foreldrar krefjist útskýringar, ég vil að þeir hafi tækifæri til að kynna sér þetta, fái ekki bara nei, þetta er allt í lagi, þetta eru bara vægar aukaverkanir, það er ekki rétt.“
Martha Ernstsdóttir, hlaupaþjálfari og jógakennari. 

Rannsókn Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna bendir til þess að ávinningur sé umfram áhættu.

Með því að bólusetja milljón unga karla á aldrinum 12-29 ára sé komið í veg fyrir sex dauðsföll af völdum COVID. Á móti kæmu fram á fimmta tug tilfella af hjartavöðvabólgu, oftast væg, þó áhrif geti í einstaka tilvikum orðið varanleg.

„Þetta eru allt mjög fátíðar aukaverkanir og það má ekki gleyma því að allir þessir hlutir gerast hjá þeim í miklu meira magni sem fá COVID-19 sjúkdóminn,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala.

En hvers vegna hafa engin slík tilfelli þá komið upp hér svo vitað sé? Jú, aðeins lítill hluti þjóðarinnar hefur smitast af COVID-19, um 3%, en meginþorri hennar hefur verið bólusettur.

Oft koma sjaldgæfar aukaverkanir af lyfjum ekki fram fyrr en prófunum er lokið og farið að bólusetja stóra hópa.

Traustið tengist reynslu fólks af bóluefnum og kerfinu

Traust snýst að stórum hluta um að fólk upplifi að á það sé hlustað og dæmi eru um að fólki, sem telur sig hafa fengið aukaverkanir, finnist það vera afskipt. Rebekka Ósk Sváfnisdóttir var á blæðingum í 53 daga eftir bólusetninguna og þeim fylgdu sárir verkir, depurð og þreyta.

Henni fannst hún ekki lengur vera hún sjálf. „Ég er hlynnt bóluefnum, algjörlega, og ég mun alltaf láta bólusetja mig, en traust mitt gagnvart þessu bóluefni hefur dvínað, já.“

Rebekka Ósk Sváfnisdóttir stýrir Facebook-hópi kvenna sem hafa fengið blæðingaóreglu eftir bólusetningu.

Rebekka er langt frá því að vera sú eina. Sama mynstur hefur komið fram víða um heim. Ef þetta er aukaverkun af bólusetningunni er hún ekki sérstaklega sjaldgæf en þátttakendur í rannsóknum á bóluefnunum voru heldur ekki spurðir út í hugsanlegar breytingar á tíðahringnum.

Lyfjastofnun rannsakaði hugsanleg orsakatengsl, skoðaði sjúkraskrár nokkurra kvenna og tók viðtöl við þær. Niðurstaða rannsóknarinnar hefur ekki verið birt.

Stórar hreyfingar bornar upp af fólki með erfiða reynslu

Í Bandaríkjunum og víðar erlendis eru stórar hreyfingar fólks sem er andsnúið bólusetningum. Algengasta ástæða þess að fólk gengur til liðs við slíkar hreyfingar tengist einmitt reynslu fólksins sjálfs. Oft eru þetta mæður barna sem fengu einhver einkenni skömmu eftir bólusetningu, þeim fannst þær ekki fá svör frá læknum sem þær leituðu til, fannst ekki á þær hlustað og fóru því að kanna málið upp á eigin spýtur.

Efasemdir gagnvart bóluefnum hafa verið til staðar frá því það fyrsta var þróað undir lok 18. aldar. Þær endurspegla samfélagshreyfingar hvers tíma. Umhverfissinnar veltu fyrir sér hvers vegna í bóluefnum væri að finna álsambönd og kvikasilfur. Fólk fór í auknum mæli að spyrja sig hvort lyf væru örugg.

Andstaðan náði glænýjum hæðum eftir að breskur læknir, Andrew Wakefield, brást við ákalli áhyggjufullra foreldra og vann rannsókn sem benti til tengsla á milli bólusetningar við mislingum, hettusótt og rauðum hundum og einhverfu. Rannsóknin reyndist stórlega gölluð og síðan hafa stærri og vandaðri rannsóknir ekki sýnt fram á nokkur tengsl en efasemdarfræjunum hefur verið sáð og þau blómstra enn víða.

Vantraustið ekki alltaf beintengt bóluefnunum sjálfum

Heidi Larson er prófessor í mannfræði, áhættu- og ákvarðanafræðum við heilsufræðiháskóla í London. Hún fer fyrir stofnun sem rannsakar traust á bóluefnum víða um heim í þeim tilgangi að geta brugðist við ef það minnkar það mikið að það grafi undan árangri bólusetninga.

„Oft tengist vantraustið ekki bóluefninu sjálfu, heldur geta verið fyrir því sögulegar ástæður,“ segir Larson og bendir á að bóluefnum fylgi alltaf einhver áhætta, þó alvarlegar aukaverkanir séu fátíðar og mun sjaldgæfari en sjúkdómarnir sem bóluefnin eiga að koma í veg fyrir.

Larson segir að það skipti máli hversu mikið traust fólk ber til heilbrigðiskerfisins almennt, hvernig viðmót því finnst það fá þegar það fer til læknis, hvort það treysti stjórnvöldum og alþjóðastofnunum. Hún nefnir líka að sögulega hafi ekki alltaf verið farið að siðareglum við prófanir á nýjum lyfjum. Fólk eða afkomendur fólks sem hafi orðið fyrir barðinu á slíku sé eðlilega tortryggið.

Tuskegee-tilraunin í Bandaríkjunum er þekkt dæmi um rannsókn sem ekki stóðst siðferðiskröfur. Rannsakendur héldu árangursríkri meðferð frá þátttakendum árum saman. 

Larson segir að oft hafi fólk efasemdir um hvað yfirvöldum gangi til. Spyrji sig hvers vegna þeim sé svona í mun að bólusetja alla. „Þau spyrja sig hvað búi að baki, hvort þau séu að reyna að græða fúlgur fjár, eða hvort þetta snúist um að ná stjórn á almenningi. Þetta er sérstaklega áberandi hjá hópum sem finnst þeir ekki hafa nógu sterka rödd í umræðunni.“

Hún segir heimsfaraldurinn hafa sameinað hópa með ólíkar áherslur, fólk sem berst gegn frelsissviptingum hvers konar, andstæðinga bólusetninga, þá sem eru á móti grímuskyldu eða útgöngubönnum. „Stjórnvöld eru að reyna að ná tökum á faraldrinum en upplifun fólks er sú að þau séu að reyna að stjórna almenningi,“ segir Larson.

Eru óbólusettir ógn við samfélagið?

Í Frakklandi, Rússlandi Bandaríkjunum og víðar hafa verið settar reglur sem kveða á um að þeir sem gegna ákveðnum störfum séu bólusettir og í sumum löndum er svo allsherjarbólusetningaskylda. Sumst staðar hafa líka verið teknir upp bólusetningarpassar.

Elsu Rós hugnast alls ekki hugmyndin um bólusetningarpassa. „Ef ég þarf að fara að sýna passa til að kaupa vörur út í búð þá finnst mér ég ekki örugg eða velkomin, eins og ég hafi ekki lengur val um hvað ég geri við líkama minn. Mér finnst bara mikilvægt að við getum búið saman í þessu samfélagi, bólusettir og óbólusettir.“

Reykjavíkurborg hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé hægt að færa fólk til í starfi sé það óbólusett og jafnvel segja því upp á þeim grundvelli að það uppfylli ekki lengur hæfniviðmið, sé starfið þess eðlis. Það þurfi þó að gæta meðalhófs.

Könnun borgarinnar leiddi í ljós að 5% starfsmanna sem sinna öldruðum, börnum og öðrum viðkvæmum hópum eru óbólusett. Enn sem komið er hefur borgin ekki séð ástæðu til þess að segja fólki upp vegna bólusetningarstöðu eða gera kröfu um bólusetningu í ráðningarsamningi.

Birkir Kristján Guðmundsson fékk ekki áframhaldandi ráðningu hjá Seltjarnarnesbæ því hann ákvað að láta ekki bólusetja sig við COVID.

Birkir Kristján Guðmundsson vann við að þjónusta eldra fólk á Seltjarnarnesi í sumar og vildi halda því áfram í haust. Sú ákvörðun hans að hafna bólusetningu kom í veg fyrir áframhaldandi ráðningu.

„Það er verið að mismuna mér, koma fram við mig sem annars flokks ríkisborgara og reyna að krefja mig um að gangast undir einhverja líftæknilyfsmeðferð sem hagnast mér sáralítið ef eitthvað og gæti valdið mér gríðarlegum skaða,“ segir Birkir.

Hjá Birki Kristjáni leiddu einkenni sem hann fann fyrir eftir svínaflensubólusetningu árið 2009 til þess að hann varð tortrygginn gagnvart bóluefnum almennt.

„Ég sem hafði alltaf verið hraustur og ekki með ofnæmi fyrir neinu, eftir bólusetninguna fékk ég ofnæmi fyrir köttum og frjókornum.“

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnasviði Landlæknisembættisins, segir að fólk sem hefur ekki þegið COVID-bólusetningu sé í sjálfu sér ekki ógn við samfélagið í heild sinni á Íslandi því hér sé mjög góð bólusetningaþátttaka.

Starfsmenn og íbúar hjúkrunarheimilis. Myndin tengist fréttinni ekki beint. 

Hún bendir þó á að í samfélaginu séu viðkvæmir hópar sem þurfi að treysta á að aðrir séu varðir. Hjá fólki sem komið er yfir 65 ára aldur sé getan til að svara bólusetningu skert, bóluefni veiti eldra fólki því minni vörn en öðrum og því sé útbreidd bólusetning, til dæmis meðal starfsfólks á hjúkrunarheimilum, mikilvæg til þess að verja það betur.

Einnig sé óbólusett fólk líklegra til að smitast af veirunni en bólusett. „Það getur verið vandamál fyrir ákveðnar stofnanir eins og spítala eða hjúkrunarheimili þar sem er mikið um aldraða ef það er stór hópur fólks sem starfar þar óbólusettur og ekki gerðar sérstakar ráðstafanir til að draga úr smithættu frá þeim,“ segir Kamilla Sigríður.

Til dæmis gætu stofnanir krafist þess að fólk sem ekki er bólusett gegn COVID-19 noti grímu í samskiptum við viðkvæma einstaklinga eða haldi meiri fjarlægð en aðrir. „Það getur samt verið erfitt í framkvæmd því það er ekkert sem segir að starfsmaður þurfi að gefa upp bólusetningarstöðu sína við vinnuveitendur eins og lagaumhverfið er núna.“

Birkir Kristján segist hafa verið spurður að því á vinnustaðnum hvort hann væri bólusettur. „Þau hafa engan rétt á að vita þetta,“ segir hann. „Þetta eru bara persónulegar upplýsingar mínar.“

Hann segist ekki bera kala til fyrrum yfirmanna sinna. „Þau eru bara eins og margir Íslendingar í dag, það er búið að hræða úr þeim líftóruna og þau geta ekki hugsað skýrt.“

Staðreyndatékkaðir sérfræðingar sem hafa engu að tapa

Andstaðan á Íslandi hefur ekki sprottið upp í neinu tómarúmi. Hér heyrast sams konar stef og erlendis. Fólk vísar í sérfræðinga sem hafa farið á móti straumnum og í kjölfarið verið staðreyndatékkaðir hálfa leið út af Facebook og Google.

Einn þeirra sem oft er nefndur er Michael Yeadon, sem áður var yfirmaður rannsóknadeildar hjá Pfizer. Hann segir enga þörf á grímum og fullyrðir að útgöngubann hafi aldrei hægt á útbreiðslu faraldurs. Hann fullyrðir líka að bóluefnin séu vanprófuð og að einhverju leyti hættuleg.

Michael Yeadon. Skjáskot úr myndinni Planet Lockdown.

Yeadon segist ekki hafa neinu að tapa, hann sé kominn á eftirlaun og hagsmunaöfl hafi ekkert tangarhald á honum. Hann kveðst hafa þungar áhyggjur af bólusetningarpössum og örvunarskömmtum og telur að að baki þeim séu skelfilegar fyrirætlanir.

„Ég er dauðhræddur um að með bólusetningavegabréfum og örvunarskömmtum sé vísvitandi stefnt að því að taka fólk af lífi, hugsanlega í milljarðavís.“

Sérfræðingarnir umdeildu, sem margir hafa misst áheyrn heimsins, halda ýmsu fram, til dæmis að aukaverkanir af bóluefnunum hafi verið þaggaðar niður og lyfinu Ivermectin ýtt út af borðinu sem mögulegri meðferð við sjúkdómum, því góð meðferð hefði komið í veg fyrir að bóluefnin fengju neyðarleyfi og þar með eyðilagt gróðatækifæri lyfjarisanna. Einnig hefur verið staðhæft að PCR-prófin, sem að sögn Björns Rúnars eru talin yfir 90% næm, séu óhæf greiningartæki og ekki sé hægt að nota niðurstöður þeirra sem grundvöll til að loka fólk inni.

Kveikur óskaði eftir viðtali við þrjá úr þessum hópi; Michael Yeadon, Robert Malone og Peter McCullough, en viðtalsbeiðnunum var ekki svarað.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist hafa kynnt sér málflutning þessa hóps að einhverju leyti. „Ég tel ekki ástæðu til að gefa þeim vægi,“ segir hann.

Instagram hagnast á samsæriskenningum

Samtökin Center for Countering Digital Hate, sem berjast gegn hatursorðræðu á netinu, sýndu nýverið fram á að 65% misvísandi upplýsinga sem dreift er um bóluefni megi rekja til 12 einstaklinga. Þá hafa rannsóknir samtakanna varpað ljósi á hvernig algóritmi Instagram dregur fólk ofan í kanínuholuna.

„Ekkert efni er meira ávanabindandi en samsæriskenningar og algóritmarnir eru búnir að átta sig á því,“ segir Imran Ahmed, forstjóri samtakanna. Þannig mati Instagram fólk sem fylgir ýmsum áhrifavöldum á sviði heilsu og lífstíls á efni sem grefur undan trausti til bóluefna og þeim sem þegar hafa kynnt sér samsæriskenningar um bóluefnin er att í að kynna sér fleiri slíkar kenningar, svo QAnon-kenningarinnar.

Fyrirtækin láti þessa hegðun algóritmans óáreitta því það sé þeirra hagur. „Þetta heldur fólki við efnið og hjálpar fyrirtækjunum að hala inn auglýsingatekjum,“ segir Ahmed. Í hans huga hafa samfélagsmiðlarnir brugðist. Það sé kominn tími til að stjórnvöld setji miðlunum skorður enda snúist þetta ekki bara um tjáningarfrelsi, áróður hópa sem berjast gegn bólusetningum kosti hreinlega mannslíf.

Miðlarnir hafa lofað úrbótum, efndirnar hafa verið misjafnar en breytingar kunna að vera í vændum. YouTube hét því í haust að fjarlægja öll myndbönd þar sem misvísandi upplýsingum um bóluefni er haldið á lofti.

Umræða og upplýsingagjöf ekki hafin yfir gagnrýni

Ýmsar ákvarðanir og upplýsingagjöf heilbrigðisyfirvalda hafa vakið umtal og jafnvel óánægju, til að mynda þegar ákveðið var að halda áfram að nota bóluefni AstraZeneca þvert á ákvarðanir Norðmanna og Dana.

Í vor var ungum konum sem fengið höfðu fyrri skammt af bóluefni AstraZeneca boðinn seinni skammtur af Pfizer. „Það hafa borist margar spurningar um þessa breytingu, hvort það sé jafngott að fá blandaða bólusetningu og sama bóluefnið tvisvar, svarið við því er að við vitum það ekki ennþá,“ sagði Kamilla Sigríður á upplýsingafundi.

„Ég held að það sé sennilega sjaldan hægt að veita nægilega góðar upplýsingar,“ segir Þórólfur Guðnason. „En við höfum svo sannarlega reynt okkar besta til að koma með allar þær gagnreyndu upplýsingar sem við höfum og höfum ekki, verið með spurt og svarað, verið í samstarfi við umboðsmann barna til dæmis og tekið ábendingum þar um að bæta upplýsingaflæðið.“

Þá segist hann hafa talað opinskátt um að bólusetningar geti haft aukaverkanir. „Við höfum ekki verið að fela eitt eða neitt,“ segir Þórólfur.

Alþjóðlega hafa heyrst ýmsar gagnrýnisraddir. Tilteknir hópar lækna hafa viðrað áhyggjur af því að bóluefnin séu hættuleg. Eftirlitsstofnanir segja engan afslátt hafa verið gefinn við prófun bóluefnanna og ávinning af þeim mun meiri en áhættuna.

Harvard-prófessorinn Jón Ívar Einarsson hefur tekið virkan þátt í COVID-umræðunni og tjáð sig um bólusetningar barna og unglinga. „Ég held að áhættan sé mjög lítil á báða bóga, ég á tvo stráka, sem eru 13 og 15 ára og þeir eru báðir bólusettir.“ Hann segir mikilvægt að fólk sé upplýst um bæði ávinning og áhættu.

Jón Ívar hefur verið gagnrýninn á yfirvöld, segir þau meðal annars hafa haldið því ranglega fram að breska afbrigðið legðist verr á börn. Honum finnst umræðan hafa verið of einhliða. „Fókusinn hefur verið mikið á þessa veiru, á fjölda smita, það er fyrsta frétt nánast á hverjum degi en það hefur lítið eða minna verið fjallað um afleiðingar af aðgerðum við faraldrinum,“ segir hann.

Honum finnst sérfræðingar líka ekki bera nægilegt traust til almennings. Hann segir að höfða eigi til skynsemi fólks í stað þess að hræða það til hlýðni.

Jón Ívar Einarsson læknir.

Jón Ívar er einn stjórnenda í Facebook-hópnum Heildarmyndinni þar sem COVID-málin eru rædd. Í hópnum eru um þúsund manns og þar af þó nokkrir sem telja bóluefnin stórhættulegt tilraunaeitur.

„Ég hef margoft í þessum hópi talað fyrir bólusetningum og ekki tekið þátt í því að ýta undir svona kannski samsæriskenningar,“ segir hann.

Jón Ívar lækaði líka ummæli manns sem vændi íslensk stjórnvöld um lygaáróður. „Stjórnvöld hafa misst trúverðugleika finnst mér,“ segir hann. „Þegar einhver segir þér ósatt einu sinni þá tapar viðkomandi trausti.“ Hann segist þó ekki vilja ganga svo langt að saka stjórnvöld um lygaáróður.

Segja lækna hrædda við að tjá sig um bóluefni

Jón Ívar segir það að starfa erlendis gera honum kleift að tjá sig óhindrað. „Læknastéttin hérna er mjög lítið samfélag, ættbálkur má segja, og margir af mínum kollegum sem hafa verið gagnrýnir myndu aldrei taka þá áhættu að segja neitt til að rugga bátnum.“

Sigfús Örvar Gizurason hjartalæknir, sem hefur goldið varhug við örvunarskömmtum og því að fara of geyst í að bólusetja börn við COVID, segist almennt hafa fengið jákvæð viðbrögð við grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið, en að nokkrir samstarfsmenn hans hafi sýnt eins konar þöggunartilburði. Læknar veigri sér við að tjá sig af ótta við að lenda á milli tannanna á kollegum eða vera stimplaðir andstæðingar bóluefna.

„Að læknar séu að tala um bólusetningar, hvort það sé þörf á því í þessum aldurshópi og öll þessi blæbrigði á bólusetningum minnir að einhverju leyti á umræðuna sem var fyrir hrun,“ segir Sigfús Örvar.

„Íslenska bankakerfið var þannig að það mátti helst ekki tala um það. Það má ekki tala um þetta því þá fer fólk að efast um það.“

Sigfús Örvar Gizurarson hjartalæknir.

Hann segir þessi viðhorf endurspegla ákveðna forræðishyggju læknastéttarinnar gagnvart almenningi, að fólk geti ekki sjálft tekið ákvörðun um hvort það láti bólusetja sig, á grundvelli góðra gagna. „Ég held það muni ef eitthvað er auka traust almennings á bóluefnum og sóttvarnaaðgerðum almennt ef það er mikil opin umræða um þetta.“

Björn Rúnar, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítalans, segir ákvarðanir heilbrigðisyfirvalda í faraldrinum hafa verið farsælar í langflestum tilfellum. „Ég held nú að þríeykið svokallaða hafi gert allt í sínu valdi til að halda uppi upplýstri umræðu, það sem væri kannski hægt að gera og er gott fyrir okkur að læra í baksýnisspeglinum er að það hefði kannski mátt vera með meira samtal og samráð við fleiri sérgreinar og skoða hlutina kannski í víðtækara ljósi,“ segir hann.

„En slíkt samráð og annað tekur oft ótrúlegan tíma og tíminn er stundum lúxus sem menn hafa ekki þegar þarf að taka skjótar ákvarðanir,“ segir Björn Rúnar.

Hann segir þó að nokkuð hafi verið um samráð á bak við tjöldin, sérfræðingar hafi fengið fyrirspurnir og verið beðnir um ráðleggingar. „Menn voru að skiptast á upplýsingum og oft skiptar skoðanir á hlutunum, en á endanum þarf að taka einhverja ákvörðun.“

Nú hafa um 3% landsmanna fengið COVID-19. Getur fólk ef til vill sleppt því að láta bólusetja sig og beðið faraldurinn af sér? Sloppið þannig við hvoru tveggja? Smit og bólusetningu?

„Nei,“ segir Þórólfur. Ekki sé hægt að losna við faraldurinn nema á tvo vegu. „Annars vegar þannig að hann fái að ganga yfir og smita stærstan hluta þjóðarinnar og hins vegar með því að bólusetja,“ segir hann. „Við höfum enga góða kosti. Auðvitað væri besta staðan sú að við þyrftum ekki að bólusetja og fengjum ekki smitið en það er bara óraunhæft að halda að það geti orðið svo.“

Hvaðan kemur vantraustið og hvað er til ráða?

Þótt íslensk heilbrigðisyfirvöld hafi enn sem komið er ekki miklar áhyggjur af óbólusettum hefur vaxandi andstaða við bólusetningar víða erlendis grafið undan árangri af þeim, ekki síst núna í COVID-faraldrinum.

Imran Ahmed, forstjóri samtakanna Center for Countering Digital Hate, segir liggja beinast við að taka fastar á þeim sem dreifa falsvísindum á netinu. Heilbrigðisyfirvöld þurfi að átta sig á því að þau keppi nú um athygli almennings við fólk sem sé sérhæft í upplýsingamiðlun og hafi mikið fjármagn á bak við sig.

Úr spurningagöngu Coviðspyrnunnar og fleiri hópa. 

„Almennt er fólk ekkert búið að skipa sér í raðir andstæðinga bólusetninga, það er bara tvístígandi. Heilbrigðisyfirvöld þurfa í fyrsta lagi að verða betri í að koma skilaboðum sínum á framfæri á áhrifaríkari hátt og í öðru lagi þurfa þau að grípa til aðgerða gegn áhrifamestu andstæðingum bólusetninga á heimsvísu, því á meðan vísindamenn reyna að miðla góðum upplýsingum stendur það fólk með gjallarhorn við hliðina á þeim, öskrandi einhverja vitleysu.“

Mannfræðiprófessorinn Heidi Larson segir mikilvægt að taka á rótum vandans. Faraldurinn hafi dregið ýmsar óánægjuraddir fram í dagsljósið og þá hafi fjöldi leiðtoga, á borð við Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta, og Jair Bolsanaro, forseta Brasilíu, sáð efasemdafræjum og gert illt verra. Svara þurfi fyrir ýmislegt.

„Ég held það hafi nánast verið of mikil áhersla á villandi upplýsingar,“ segir hún. „Á þá hugmynd að það þurfi einungis að leiðrétta þær og þá sé vandinn úr sögunni.“

Taka þurfi á ástæðum þess að fólk trúir rangfærslunum. „Ástæðum þess að fólk efast og spyr ýmissa spurninga. Ég held að áherslan núna eigi ekki að vera öll á að telja bólusetta. Við þurfum frekar að einbeita okkur að því að ná okkur eftir þetta allt saman, að því að byggja upp traust.“