*

Misbrestur í rannsókn lögreglu á andláti 19 ára stúlku

Perla Dís Bachmann Guðmundsdóttir lést á heimili kærasta síns sunnudaginn 22. september 2019. Hún var nýorðin 19 ára.

Í fyrstu héldu aðstandendur Perlu að andlátið hefði verið slys.

En þegar niðurstöður krufningar sýndu tíu- til tuttugufaldan dauðaskammt af eiturlyfinu MDMA í blóði hennar vakti það upp spurningar um hvernig Perla gat hafa innbyrt svo stóran skammt af lyfinu fyrir slysni.

Móðir Perlu, Kristín Birta Bachmann, býr í Noregi. Í miðjum heimsfaraldri er hún komin heim til Íslands til að ganga í hjónaband. En á þessum hamingjudegi hvílir skuggi. Dóttirin, sem hefði orðið tvítug í haust, er ekki til staðar.

„Það er svo erfitt að hún sé ekki. Þú veist, þegar maður er svona, vei, en svo fer maður niður og aftur upp. Það vantar hana, það er bara þannig.“

Þótt rannsókn lögreglu sé lokið er móðir Perlu litlu nær um hvað gekk á á heimili kærastans hinn örlagaríka dag 2019.

Kristín Birta segir að Perla hafi verið mjög rólegt barn. Hún var á brjósti í tvö ár og því voru mjög sterk tengsl á milli þeirra. Perla byrjaði snemma í fimleikum og æfði samkvæmisdansa í mörg ár og varð Íslandsmeistari. Henni gekk vel í skóla og var vel liðin.

„Hún var bara virkilega listræn og það var aldrei neitt vesen,“ segir Kristín Birta. Dóttirin hafi týnst smá í skólakerfinu. „Ég myndi lýsa henni sem svona ljúfum nagla.“

Þegar Perla var unglingur lenti hún samt utangarðs í skólanum. Krakkarnir í skólanum fóru að leggja hana í einelti og skólinn kunni ekki alveg að taka á vandanum, segir Kristín Birta. Þá tók Perla að sækja í félagsskap utan skólans.

„Hún varð skotin í einhverjum strák sem bjó í Breiðholti, og hann var að reykja gras, og hún prufaði það, og það gerði eitthvað fyrir hana,“ segir Kristín Birta.

Þegar Perla var 14 ára varð hún fyrir áfalli: henni var nauðgað.

„Þá svona eins og botninn hafi farið úr þessu,“ segir Kristín Birta. Perla hafi farið að prófa önnur vímuefni, og því upphófst mikið stríð við að koma henni í skjól.

„Og hún fór sem sagt á Laugaland, þar var hún í skóla, var í ræktinni, fór að vinna í tískuvöruverslun, blómstraði og fékk að þroskast.“

Við tóku góð ár í lífi Perlu. Þó kom fyrir að hún dytti í það, en hún stóð alltaf upp aftur.

Síðasta árið sem Perla lifði virtist hún vera komin á beinu brautina. Hún kynntist manni sem var sjö árum eldri en hún. Hann var edrú, og þau felldu hugi saman.

„Hann var að læra einkaþjálfarann og hún sagði við mig að hann hefði verið að læra rosa mikið um lyfjafræði og ætti eiginlega bara að vera læknir af því að hann vissi svo rosa mikið um lyf,“ segir Kristín Birta. Kærastinn virtist rólegur og foreldrar Perlu Dísar voru ánægðir.

Kristín Birta flutti með manni sínum til Spánar sumarið 2019, og til stóð að Perla kæmi út til hennar í október. „Og ég var alveg að springa, ég hlakkaði svo til.“

Af því varð aldrei. Perla lést á sunnudagseftirmiðdegi þann 22. september. Kristín Birta heyrði þó ekki af andlátinu þá.

Kristín Birta fékk andlátsfregnina í gegnum síma.

Nóttina eftir andlátið hringdi síminn og það skelltist á. Hún sá að númerið sem hringt var úr var hjá lögreglunni á Íslandi. Hún reyndi því að hringja til baka en fékk samband við 112 sem gat ekki svarað því hver væri að reyna að ná í hana.

„Og maður náttúrulega sofnaði ekkert aftur,“ útskýrir Kristín Birta. Áhyggjurnar héldu fyrir henni vöku. Hún reyndi að hringja í Perlu, en slökkt var á símanum.

Daginn eftir, á mánudegi, var Kristín Birta stödd á fundi þegar síminn hringdi. „Þá hefur klukkan verið orðin svona eitt, tvö um daginn, og ég svara, bara:

Halló.

- Kristín Birta?

Já.

- Móðir Perlu Dísar?

Já.

- Hún er látin.

Kristín Birta segist hafa hváð, og þá hafi verið endurtekið að hún væri látin. „Ég bara, „Ha, er hún dáin?“ Og hann segir, „Já.“ Svo man ég ekkert rosa mikið eftir það. Og það meikaði engan sens, og ég var að hugsa, bara bíddu, hvað gerðist?“

Hún segir að sér hafi ekki verið greint frá dánarorsökinni í símann.

Maður Kristínar Birtu, Helgi Valur Einarsson, hringdi til baka í lögregluna til að fá einhver svör. Þá var þeim sagt að Perla hefði dáið úr of stórum skammti af eiturlyfjum heima hjá kærasta sínum.

„Og að hún hefði fundist sem sagt heima hjá kærastanum sínum, að þetta hefði gerst sem sagt deginum áður, þannig að þau hefðu getað verið löngu, löngu, löngu búin að hringja.“

Sagður hafa gaman af að byrla fólki og vera ofbeldisfullur

Til að reyna að átta sig betur á hvað hefði gerst talaði Kristín Birta við fólkið sem hafði verið með Perlu kvöldið áður en hún lést og safnaði saman ýmsum gögnum sem hún taldi að gætu gagnast rannsókn lögreglu.

„Síðan fæ ég bara Facebook-skilaboð frá móður, og henni hafði orðið svo mikið um vegna þess að hún hefði bjargað dóttur sinni frá þessum strák nokkrum árum fyrr,“ segir Kristín Birta.

Móðirin hafi sagt henni að dóttir hennar hafi verið í lyfjamóki og að kærastinn hefði verið búinn að halda henni hjá sér. Hann væri þekktur fyrir að blanda saman efnum og sjá hvernig það kæmi út á fólki.

Kristín Birta segir að Perla hafi sagt góðri vinkonu sinni frá því að kærastinn hefði beðið um að fá að setja kókaín upp í endaþarminn á henni. Önnur stúlka hafi líka sagt Kristínu Birtu að maðurinn hefði beðið hana um það sama.

„Við vorum ekki tilbúin til að kaupa allt sem við heyrðum og vorum í rauninni aldrei að leita að neinum sökudólg, vildum bara vita hvað gerðist.  En svo komu fleiri og fleiri og fleiri,“ segir Kristín Birta.

Óttast hann mjög mikið

Kveikur hafði samband við fimm konur sem kærastinn hefur á einhverjum tímapunkti verið í slagtogi með. Þær báru allar að hann hefði beitt þær ofbeldi, sumar mjög grófu. Ein þeirra kom í viðtal við Kveik.

„Honum finnst ótrúlega skemmtilegt að í rauninni byrla fólki,“ segir konan sem vill ekki koma fram undir nafni. Hún segir að kærastinn hafi hrært saman mismunandi tegundum af lyfjum og byrlað fólki. „Og svo sat hann bara í herberginu og fylgdist bara með, og hann fékk kikk út úr nákvæmlega því.“

Hún segir að eitt kvöldið hafi hún lent í því að hann hafi reynt að byrla henni svæfingarlyfið ketamín. Hann hafi verið með vini sínum inn í eldhúsi og hún hafi heyrt nudd í seðlum.

„Svo heyri ég ótrúlega skýrt hann segja við vin sinn: „Ekki hafa neinar áhyggjur, það er ketamín í þessu, þannig að hún mun ekki finna neitt fyrir þessu.““

Kærastinn og vinur hans hafi svo komið fram og vinurinn nálgast hana. Þá hafi kærastinn sett tvo smokka á eldhúsborðið: „Og segir bara, „Skemmtið ykkur,“ og fer síðan og skilur mig eftir með strák sem ég hafði aldrei séð áður, og svo misnotaði hann mig.“

Hún segist óttast kærastann. „Já, mjög mikið.“

Þegar konan heyrði af andláti Perlu ákvað hún að fara til lögreglunnar og segja frá sinni reynslu. Á móti henni tók lögreglumaður. Hann var með stílabók fyrir framan sig. „En hann skrifaði ekki niður eitt einasta orð, hann var ekkert að hlusta á mig,“ segir konan.

Hún segir að lögreglumaðurinn hafi ekki bent henni á hvar hún gæti lagt fram kæru né tekið af henni skýrslu. „Það var ótrúlega óþægilegt, ég var nýbúin að segja honum að mér hefði verið nauðgað.“

Konan var ekki sú eina sem sagði lögreglu sögu sína. Gögn, sem Kveikur hefur undir höndum, staðfesta að fólk leitaði til lögreglu eftir að Perla lést með sambærilegar sögur, því kærastinn var samkvæmt gögnunum spurður út í ásakanir um að hafa gefið fólki eitthvað annað en það hélt að það væri að taka inn. Hann þvertók fyrir það.

Lögreglan virðist hins vegar aldrei hafa rannsakað þessar ásakanir né tekið skýrslur af fólkinu sem bar þær fram.

Voru ekki aðilar máls

Perla var jarðsett 9. október 2019.  Tíminn leið, og alltaf stóð Kristín Birta í þeirri trú að lögreglan væri að rannsaka hvernig hún lést. Hún hafði margoft samband við lögreglu til að athuga hvernig gengi en fékk engin svör.

Ástæðan var sú að þar sem Perla var orðin 19 ára var Kristín Birta ekki aðili máls, eins og það var orðað við hana.

„Samkvæmt lögum hef ég bara ekki rétt á að skipta mér af,“ segir hún. Hún réð því lögfræðing til að aðstoða hana við að fá einhver svör, en ekkert gekk.

Hún og eiginmaður hennar fengu hins vegar fund með réttarlækninum sem krufði Perlu. Þá fengu þau að vita að í blóði hennar hefðu verið 10.000 nanógrömm á millilítra af eiturlyfinu MDMA.

Alla jafna er dauðaskammtur af MDMA 500 nanógrömm á millilítra, þótt vissulega geti sumir þolað miklu meira. Þá fundust í líkama Perlu róandi lyf.

Gögn sýna að krufningin svaraði því ekki hvernig efnið var innbyrt. Engar leyfar af efninu fundust í maga, nefi, koki eða endaþarmi.

Pétur Guðmann Guðmannsson réttarlæknir.

Pétur Guðmann Guðmannsson réttarlæknir sá um krufninguna. Hann vildi ekki svara spurningum um rannsóknina sjálfa en gat tjáð sig almennt um hvernig svona rannsókn fer fram.

„Rannsóknin er læknisfræðileg og er sjálfstæð, og þá er það út frá þeim upplýsingum gjarnan sem koma frá lögreglunni. Það fylgir þá gjarnan frásögn aðila af vettvangi og hvað hreinlega lögreglan heldur að sé um að vera,“ segir Pétur Guðmann.

Hann segir að þegar lögreglu gruni að andlát hafi borið að með saknæmum hætti sé gerð svokölluð útvíkkuð réttarkrufning.

„Sem felur í sér sem sagt myndgreiningu, og svo er fulltrúa frá tæknideild lögreglu líka boðið að vera með við krufninguna, því það eru kannski áhugaverðir hlutir undir nöglum, á fötum og eitthvað slíkt.“ Fleiri próf séu líka gerð en annars. Þetta séu því nokkuð umfangsmeiri rannsóknir.

Pétur Guðmann segir að það sé í raun á hendi lögreglu að ákveða hvaða gögn hann fái í hendurnar: „Já, já ég lít svo á.“

Kristín Birta segir að Pétur Guðmann hafi aldrei fengið þau gögn sem hún hafi verið búin að láta lögreglu fá. Hann hafi bara fengið upplýsingar frá lögreglu um að Perla hefði tekið of stóran skammt, og svo hafi hann bara gert venjulega skoðun.

Það er næsta ómögulegt að segja til um með vissu hve stór skammturinn af MDMA var sem fór inn í líkama Perlu  þennan dag. Magnið er eitt það mesta sem sést hefur á Íslandi. Það gæti jafngilt allt að 80 stykkjum af 100 milligramma töflum, eða fimm grömmum af hreinu MDMA. Þótt útreikningar á slíku séu ónákvæmir er öruggt að Perla tók inn mjög stóran skammt og líklegast allan í einu.

„Hún þoldi ekki þetta efni,“ segir Kristín Birta. Perla hafi prófað það einu sinni þegar hún var 14 ára og orðið mjög veik. „Hún sá ofsjónir úti um allt og sagði bara, þetta er ekki efni sem mig langar að prufa aftur.“

Vitni sögðu Kristínu Birtu að Perla og kærastinn hefðu fallið helgina sem Perla lést. Kvöldið fyrir andlátið hefðu þau farið á ball með vinafólki og þaðan í partí. Þar hafi þau keypt MDMA.

Að sögn vitna tóku einhverjir gestir inn MDMA í partíinu en Perla hafi ekki viljað taka það inn.

Þau fóru í annað partí undir morgun og tóku svo leigubíl heim um klukkan átta um morguninn.

Lögreglan ræddi aldrei við fólkið sem var með Perlu kvöldið fyrir andlát hennar.

„Stúlka sem talaði við þau bara rétt áður en þau fóru heim sagði okkur að þau hefðu verið að kýtast, rífast vegna þess að Perla var að reyna að fá hann heim,“ segir Kristín Birta.

Hún kveðst hafa spurt hvort Perla hefði verið ölvuð eða rugluð eða eitthvað svoleiðis, en hefði verið sagt að svo hefði alls ekki verið. Aftur á móti hafi kærastinn verið mjög skrýtinn.

Sendi inn kæru til nefndar um eftirlit með lögreglu

Í mars 2020 hafði Kristín Birta ekki enn fengið upplýsingar um gang lögreglurannsóknarinnar og ákvað því að senda inn kvörtun til nefndar um eftirlit með lögreglu.

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður Kristínar Birtu, segir að þá hafi Kristín Birta verið búin að safna saman miklu af gögnum og sinna gríðarlegri rannsóknarvinnu og látið lögreglu í té.

„Það er fátt sem bendir til þess að lögreglan hafi þá verið að rannsaka þessi atriði sem hún var að benda á sem gætu haft veigamikla þýðingu og alla vega kallað á að þau séu skoðuð,“ segir Sigrún Ingibjörg.

Þegar Kveikur hafði samband við lögreglu í byrjun september 2020 var rannsókn málsins sögð á lokametrunum. Skömmu síðar var rannsókn málsins hætt.

Niðurstaðan: „Ekkert sem bendir til þess að andlát Perlu Dísar hafi borið að með saknæmum hætti.“

Um svipað leyti svaraði lögregla erindi nefndar um eftirlit með lögreglu sem skilaði svo niðurstöðu sinni í október.

„Ákvörðunin er hreinlega þessi, að hún sé með svona spurningar eftir yfirferð á gögnum málsins, um það hvers vegna rannsóknin var með þessum hætti og nefnir þar nokkur atriði,“ segir Sigrún Ingibjörg.

Nefndin telur að „ákveðnar vísbendingar séu fyrir hendi um mögulega ámælisverða háttsemi starfsmanna lögreglu,“ við rannsókn andláts Perlu.

Í ákvörðun nefndarinnar eru meðal annars gerðar athugasemdir við framkvæmd skýrslutöku yfir kærasta Perlu. Hann hafi ekkert verið spurður út í sakarefnið í fyrstu skýrslutökunni, sem var sagt „að láta farast fyrir að koma manneskju í neyð til hjálpar,“ og að seinni skýrslan af honum hafi verið tekin of seint.

„Og ef þú tekur ekki skýrslu af sakborningi strax, heldur gefur honum tvo mánuði, þá er það atriði sem getur bara haft þýðingu um ókomna tíð,“ segir Sigrún Ingibjörg.

Þá segir nefndin að skráningu á munum sé ábótavant og að vistunarskýrsla yfir kærastanum hafi verið skrifuð sama dag og lögreglan svaraði erindi nefndarinnar eða ári of seint. Er þess farið á leit við lögreglu að hún veiti frekari skýringar á starfsháttum sínum. Það þykir Sigrúnu Ingibjörgu alvarlegt. „Þú getur ekkert endilega leiðrétt þessi mistök.“

Með ákvörðun nefndarinnar fylgdu öll gögn málsins, nema ljósmyndir af vettvangi og krufningarskýrslan. Sigrún Ingibjörg segir að þá standi enn eftir spurningar um hvernig það atvikaðist að Perla lést. „Og það er óásættanlegt.“

En hvað er það sem stendur í gögnum lögreglu? Hvað gerðist daginn sem Perla Dís lést?

Lögreglan var kölluð að heimili kærastans klukkan 19:58.

Í lögregluskýrslum stendur að íbúðin hafi verið óþrifaleg, sérstaklega herbergið þar sem Perla fannst, dýna á rúmi var í molum og mikil óreiða var þar inni. Þar fannst mikið MDMA, lítilræði af kannabis og staðdeyfilyfið lidocaine. Í eldhúsinu voru þónokkrar ónotaðar sprautur og ein notuð sprauta sem var ekki rannsökuð frekar.

Á eldhúsborði var talsvert af sprautum og ein þeirra notuð, þó ekki nýlega. Hún var ekki skoðuð sérstaklega.

Í lögregluskýrslum stendur að á heimilinu hafi, auk Perlu og kærastans, verið foreldrar hans.

Móðir hans segir við lögreglu að þau Perla hafi komið heim um klukkan hálf níu að morgni. Þá hafi þau verið í mjög annarlegu ástandi.

Það stangast reyndar á við framburð vitna sem segja að Perla hafi ekki verið í mikilli vímu þegar hún fór heim um morguninn.

Móðirin sagðist hafa séð Perlu síðast á lífi milli klukkan fjögur og fimm síðdegis, hún hafi aldrei séð Perlu í eins annarlegu ástandi og þá.

Faðirinn segir við lögreglu að hann hafi komið heim um klukkan þrjú, og þá hafi Perla og sonur hans verið út úr dópuð.

Hann hafi farið aftur út en komið heim á milli fimm og sex, og þá hafi Perla og kærastinn verið inni í herbergi.

Hann hafi farið að elda kvöldmat, og þá hafi sonurinn komið fram. Um það leyti hafi hann heyrt dynk inni í herberginu sem gæti hafa verið „til dæmis hún að detta utan í vegg, eða bara hvað sem er“.

Fjörutíu til 50 mínútum síðar hafi hann ákveðið að athuga með Perlu. Hann hafi þá fundið hana á gólfinu upp við hurðina með höfuðið undir horninu á rúminu.

Hún hafi verið stíf og því líklega látin. Hann hafi því hringt á 112 og ætlað að hefja endurlífgun en þá hafi sonur hans, kærastinn, „misst sig,“ eins og faðirinn orðaði það.

Kærastinn ekki spurður að veigamiklum atriðum

Þegar lögreglan kom á staðinn var sjúkralið búið að færa Perlu inn í stofu og endurlífgunartilraun var hafin. Henni var hætt um 20 mínútum síðar.

Á meðan á þessu stóð lét kærasti Perlu ófriðlega. Hann vildi fá að fara inn í herbergið og sækja farsímann sinn. Lögreglumaðurinn segist strax hafa séð að hann væri mjög ógnandi: „Hann stóð með brjóstkassann út, spenntur og með kreppta hnefa,“ skrifar hann í skýrslu sína.

Eftir nokkurt þref hafi kærastinn verið orðinn mjög æstur og sveittur og hótað lögreglu líkamsmeiðingum. Hann var því handtekinn og færður í járn og síminn hans tekinn af honum. Síminn var hins vegar aldrei rannsakaður.

Héraðslæknir úrskurðaði Perlu látna um klukkan 21. Taldi hann hana hafa látist einhvern tímann á milli þrjú og fimm síðdegis.

Samkvæmt lögregluskýrslum var því rökstuddur grunur um að kærastinn hefði verið inni í herberginu hjá henni þegar hún dó. Grunur lék á að hann hefði látið farast fyrir að koma manneskju í lífsháska til bjargar.

Rannsóknarlögreglumaður frá tæknideild lögreglu var kallaður á vettvang og skoðaði hann lík Perlu ásamt lækni.

Í skýrslu lögreglu stendur að í vinstri hendi hennar hafi verið talsvert af hárum, bæði ljósum hárum, sem líklega voru úr henni, og „dökkum eða svörtum hárum, en hugsanlega var um kattarhár að ræða.“ Hárin voru samkvæmt gögnum lögreglu ekki rannsökuð.

Tvö stunguför voru í hægri olnbogabót Perlu, og í skýrslu lögreglu segir að þau séu „að öllum líkindum eftir endurlífgunartilraunir sjúkraliðs.“ Ekki er þó að sjá í skýrslunum að það hafi fengist staðfest.

Engin merki voru um það á líki Perlu að hún sprautaði sig að staðaldri.

Í lögregluskýrslunum er líka að finna tvær skýrslur sem teknar voru af kærastanum. Í fyrri skýrslutökunni, sem stóð yfir í sex mínútur, segist hann hafa verið allsgáður þegar Perla lést og hafa séð hana liggjandi á gólfinu og reynt að vekja hana. Hann var á þeim tímapunkti ekkert spurður nánar út í það eða sakarefnið.

Í skýrslutökunni í nóvember segir kærastinn að þau hafi verið inni í herbergi um klukkan þrjú, fjögur um daginn og ætlað að stunda kynlíf. Perla hafi tekið 0,4 grömm af MDMA, en hann hafi tekið meira.

Þau hafi sett MDMA-duftið í hylki og gleypt. Hann var ekki spurður að því hvort þeirra hefði vigtað og sett efnið í hylkin, en segist aðspurður strax hafa fundið mikil áhrif.

Til samanburðar má geta þess að vanalegur skammtur af MDMA er 0,1-0,25 milligrömm.

Í skýrslutökunni segist hann lítið muna eftir því sem gerðist, en sagðist ekki hafa verið með henni þegar hún lést heldur farið fram að sækja vatn og ekki hafa áttað sig á að hún væri í lífshættu.

Viðurkennir að hafa selt eiturlyf

Kærastinn er svo spurður út í 88,46 grömm af MDMA og flösku af lyfinu lidocaine sem fannst í herberginu. Hann viðurkennir að hafa selt eiturlyf, en segist hættur því, og að efnið sem fannst hafi verið í hans eigu.

Samkvæmt verðskrá SÁÁ kostaði grammið af MDMA 13.200 krónur í september 2019. Andvirði efnisins var því um það bil 1,2 milljónir króna.

Kærastinn var líka spurður út í staðdeyfilyfið sem fannst heima hjá honum og sagðist hann ekkert vita til hvers það væri, vinur hans hefði gefið honum það.

Segir vinnubrögð lögreglu litast af fordómum

Í janúar 2020, eða fjórum mánuðum eftir andlát Perlu Dísar var haft samband við foreldra kærastans og þeir spurðir hvort þeir vildu gefa skýrslu. Foreldrarnir nýttu sér þann rétt sinn að skorast undan skýrslugjöf vegna tengsla við kærastann, og því voru engar skýrslur teknar af þeim.

Kristín Birta er afar ósátt með vinnubrögð lögreglu sem hún segir lituð af fordómum. „Eitthvað svona kaffihúsaspjall, jú, ég þekki hana, þetta er neyslustelpa og eitthvað svona og þeir hafi hugsað, já, já þetta hlýtur að vera overdose og við afgreiðum þetta þannig.“

„Hún og allir aðrir eiga að hafa sömu mannréttindi og allir aðrir og það á enginn að geta tekið líf frá öðrum og fengið hjálp frá lögreglunni með því að komast upp með það út af einhverjum fordómum og vanþekkingu,“ segir Kristín Birta.

Niðurfelling málsins var kærð til ríkissaksóknara sem skilaði afstöðu sinni í síðustu viku.

Þar gerir hann ýmsar athugasemdir við rannsókn lögreglu en telur að frekari rannsókn á málinu muni engu skila.

Ekki sé hægt að skoða vettvang til að afla sér frekari upplýsinga, ekki sé lengur hægt að varpa frekara ljósi á dánarstund Perlu, og ekki verði séð að hægt verði að leiða atvik betur í ljós með frekari réttarfræðilegri rannsókn. Til þess hefði réttarlæknir þurft að mæta á vettvang.

Pétur Guðmann réttarlæknir segir að kannski væri ákjósanlegast að réttarlæknir mætti alltaf á staðinn þegar andlát ber að með svipuðum hætti og þegar Perla Dís lést.

„En það er mjög óraunhæft, vegna þess að þau dauðsföll fara yfir 200 á ári, en það er ekki mannskapur til þess að vera á vakt fyrir það allan sólarhringinn.“

Ríkissaksóknari segir enn fremur að frásagnir af vettvangi hafi ekki verið hljóðritaðar, engir sjónarvottar hafi verið að atburðinum og kærastinn því einn til frásagnar. Ólíklegt megi telja að frekari skýrslutaka yfir honum muni einhverju skila.

Ríkissaksóknari lét rannsaka hárin sem fundust í lófa Perlu, sum voru af dýrum en önnur þóttu ekki tæk til DNA-greiningar. Þá var styrkleikinn á MDMA-efninu sem fannst ekki mældur, sem ríkissaksóknari telur að hefði verið upplýsandi. Það eitt og sér réttlæti þó ekki að halda rannsókninni áfram.

Því staðfesti ríkissaksóknari þá niðurstöðu lögreglu að loka málinu.

Hins vegar segir í niðurlagi ríkissaksóknara að „betur hefði mátt standa að ákveðnum þáttum rannsóknar málsins. - Verður athugasemdum vegna rannsóknar málsins og tillögum að úrbótum varðandi andlátsrannsóknir í málum sem þessum beint til lögreglustjóra.“

Fá líklega aldrei að vita hvernig Perla lést

Kveikur hafði samband við kærasta Perlu og kynnti honum efni umfjöllunarinnar. Hann vildi ekki koma í viðtal. Þá bauð Kveikur foreldrum hans að koma sínum sjónarmiðum að, en það vildu þau ekki.

Eftir stendur að foreldrar Perlu fá líklega aldrei að vita hvernig dauða dóttur þeirra bar að. „Og það er mjög vond staða sem umbjóðandi minn er í, að eftir rannsókn lögreglu þá er hún bara jafnvel með fleiri spurningar en hún hafði fyrir,“ segir Sigrún Ingibjörg, lögmaður.

Hún segir að í raun og veru sé eina krafa Kristínar Birtu að hún geti áttað sig á því hvernig það atvikaðist dóttir hennar lést. „Þegar þú átt barn sem deyr langt fyrir aldur fram, þá er það sem er skrýtið að það sé ekki hægt að svara því hvað gerðist.“

Aðspurð hvort hún teldi að lögreglan hefði rannsakað andlát Perlu Dísar með öðrum hætti ef hún hefði ekki átt sér sögu um neyslu segir Kristín Birta, móðir Perlu Dísar: „Ekki spurning. Ég held að það sé bara ekki spurning.“

Perla Dís, 9 ára.