Myndbönd sýna ítrekað og mikið brottkast

Myndbönd sýna ítrekað og mikið brottkast

Svona menn eiga ekki að hafa veiðileyfi, segir Fiskistofustjóri, um myndbönd sem sýna ítrekað og mikið brottkast um borð í íslenskum togara og sýnda verða í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld. Regluverk er þó þannig að auðvelt er að koma sér undan viðurlögum. Því er stofnunin ekki fær um að sinna hlutverki sínu að sögn Fiskistofustjóra.

Myndböndin sem um ræðir eru öll tekin um borð í sama togaranum á Íslandsmiðum á þriggja ára tímabili. Á þeim sést hvernig mörgum tonnum af afla er hent; makríl sem og bolfiski, sem ýmist er meðafli eða undir þeim stærðum sem æskilegar þóttu til vinnslu um borð í togaranum.

Hvernig finnst Fiskistofustjóra þetta líta út? „Þetta er bara subbuskapur af verstu gerð. Og auðvitað mjög alvarlegt. Það auðvitað kemur bara upp í hugann að svona skipstjórnarmenn eiga bara ekki að fá að stunda veiðar. Þetta er bara þannig umgengni um auðlindina,“ segir Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu.

Hann segir að viðurlög við brottkasti séu veiðileyfissvipting.

Eyþór Björnsson Fiskistofustjóri. (Mynd Kveikur/RÚV)

„Það er nú ekkert nýlegt mál sem ég man eftir sem við gætum flokkað eitthvað nálægt þessari stærð. Þetta er oftast vika eða eitthvað svoleiðis en við höfum alveg séð upp í þrjá mánuði en þá komum við að virkni regluverksins. Því í því tilviki þar sem við sviptum bát í þrjá mánuði þá leigði aðilinn bara annað skip og hætti aldrei veiðum í rauninni.

Og það er bara hægt að gera það enn þá? „Já, já,“ segir hann.

Fjallað verður nánar um málið í Kveik í kvöld og rætt við skipverja á togaranum. Í þættinum stíga einnig fram tveir fyrrum starfsmenn Fiskistofu sem lýsa vanmætti stofnunarinnar til að takast á við brottkast og umfangsmiklar framhjálandanir, vegna gallaðs regluverks, skorts á viðurlögum og niðurskurðar í eftirliti.

Þórhallur Ottesen, sem starfaði sem eftirlitsmaður og síðar deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu í ríflega 20 ár, segir það hafa verið margrætt á fundum með Hafrannsóknarstofnun hversu brenglaðar tölur um fiskveiðar væru.

„Hvernig þetta væri og það er verið að taka miklu, miklu meira úr auðlindinni heldur en sagt er. En meðan allt gengur vel og nægur fiskur er þá er þetta allt saman í fínasta lagi. En svo þegar fer að harðna á dalnum að þá fara menn að spyrja sig hvernig stendur á þessu en tölurnar eru bara svo brenglaðar að það veit raunverulega enginn hvað er verið að taka úr auðlindinni,“ segir hann.

Í þættinum er Eyþór einnig spurður hvort hann telji sjálfur að stofnunin geti sinnt þeim verkefnum sem eru nefnd í lögum um stofnunina; að hann sért að gera það sem hann á að gera?

„Nei,“ segir Fiskistofustjóri.